"Finnska leiðin"

Ég var að lesa frétt á vísi.is um hugmyndir menntamálaráðherra um að efla menntakerfið til að takast á við öll vandamálin sem eru að koma upp, ekki síst atvinnuleysið. Í fréttinni eru taldar upp ýmsar aðgerðir sem koma til greina, s.s. að styðja við menntastofnanir o.s.frv. Þetta eru skynsamlegar aðgerðir og nokkuð eðlileg viðbrögð myndi ég halda en mér finnst samt að það þurfi að hugsa þetta meira heildrænt. "Finnska leiðin" hefur vakið mikla athygli og ef við skoðum hana nánar kemur ýmislegt í ljós sem við getum lært af (ég er búinn að sjá það undanfarið að það hafa mjög margir komið inn á bloggið mitt í leit að upplýsingum um þessa finnsku leið þannig að forvitni landsmanna leynir sér ekki). Það sem við getum helst lært af Finnunum er að einstakar aðgerðir skila mestum árangri þegar þær eru partur af víðtækari samræmdum aðgerðum og heildrænni stefnu. Þannig að þessar aðgerðir sem menntamálaráðherra mælir með vekja ýmsar spurningar um t.d. í hvaða samhengi þær eru settar fram (þá er ég að tala um vítt samhengi - sjá neðar), um hverja er hún að tala (t.d. hverjir eru það sem eru atvinnulausir?), og hvert er markmiðið með þessu (bara að fólk hafi eitthvað að gera í atvinnuleysinu?)?

Áður en við getum gagnast af fordæmi Finna þurfum við að átta okkur á því að það er sérstaklega tvennt sem einkennir finnsku leiðina:
1. kerfisbundin heildræn hugsun - vandamálin ná til allra þátta samfélagsins og til að takast á við þau þarf að huga að öllum þessum þáttum og hvernig þeir geta stutt hvern við annan.
2. langtímaáætlanir sem miða að því að breyta allri samfélagsgerðinni í samræmi við vel mótaða framtíðarsýn.

Eins og allir vita brugðust Finnar við ástandinu sem hafði skapast með því taka ákvörðun um að ganga í ESB og Evrópumyntbandalagið, en þetta var bara byrjunin. Það sem kom á eftir (eða samtímis) var mun róttækara. Finnar ákváðu markvisst að endurskilgreina sína samfélagsgerð í samræmi við þarfir þekkingarhagkerfisins. Í framhaldi af því mótuðu þeir stefnu sem miðaði að því að nýta þá þekkingu sem þegar var til og tengja saman ýmsa þætti atvinnulífs og menntakerfis til að stuðla að nýsköpun. Þeir vissu að þekking sem þegar hafði skapast í upplýsingatæknigeiranum var mikilvæg til að ná settum markmiðum og byggðu því að miklu leyti á henni. Það er ekki að segja að meginmarkmiðið varð að þróa upplýsingatækni og selja, þó vissulega gerðu þeir það, en hvernig mætti nýta upplýsingatæknina til að stuðla að breyttri samfélagsgerð. Niðurstaðan varð sú að samskipti og opið upplýsingaflæði væri kjarninn í því að efla þekkingarsamfélag.

Útkomurnar úr þessu sjáum við víða í finnsku samfélagi í dag og hefur verið bent á margt af þessu í umræðum á Íslandi síðustu daga. T.d. efling tengsla milli háskóla og atvinnulífs og samfélags með stofnun þekkingarsetra og nýsköpunarmiðstöðva. Ég held þó að ef við viljum draga einhvern gagnlegan lærdóm af þessum aðgerðum Finna verðum við að skoða þær í ljósi heildarstefnu Finna en ekki sem einstakar aðgerðir. Annars missum við af öðrum mikilvægum þáttum í þessum aðgerðum Finna sem gætu orðið okkur að gagni. T.d. eitt sem ég hef ekki séð nefnt í allri umræðunni, að með þessum aðgerðum hafa Finnar stuðlað að víðtæku þverfaglegu samstarfi milli þekkingargreina með því að skapa umhverfi sem hvetur til þverfaglegs samstarfs til að ýta undir nýsköpun. Það eru mörg dæmi um mjög áhrifaríkan árangur af þessu, t.d. að upplýsingatækni iðnaður hefur unnið mjög náið með heilbrigðisgeiranum í þróun s.k. "m-health", sem Finnar eru nú leiðandi í. Núna nýlega hafa Finnar svo stofnað nýjan háskóla, Alvar Aalto háskólinn, sem byggir alfarið á þeirri hugmynd að samskipti milli ólíkra greina stuðlar að nýsköpun og verður hann því vettvangur til að leiða saman verkfræðinga, viðskiptafræðinga og listafólk í nýstárlegu námsumhverfi.

Menntun hefur auðvitað verið mikilvægur þáttur í endurskilgreiningu finnsks samfélags. Finnar dældu miklum peningum í menntun og það hefur augljóslega skilað sér miðað við útkomur úr PISA og TIMSS. Það er eins með menntunina og annað í finnsku umbreytingunni, að þetta þarf að skoða í víðara samhengi til að átta sig almennilega á hvað er þarna að gerast. Auðvitað hefur eitt markmiðið verið að hækka menntunarstig almennings og hafa t.d. tækniháskólarnir (e. polytechnics, f. ammattikorkeakoulu) og endurmenntunarhlutverk þeirra skipt miklu þar. Skólar hafa líka fengið það hlutverk að búa ungt fólk undir það að verða virkir þátttakendur í nýja þekkingarsamfélaginu og það hefur ýmislegt í för með sér. Við sjáum þetta t.d. í hlutverki sem upplýsingatækni gegnir í finnsku menntastarfi. Þar er hlutverk upplýsingatækni að stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun milli einstaklinga. Þetta er allt annað en hefur verið gert á Íslandi (og víðar) þar sem mesta áherslan hefur verið á upplýsingatækni sem tæki til að afla upplýsinga. Þetta er munurinn á að vera þiggjandi á hliðarlínu eða virkur þátttakandi í netsamfélagi og ég held að það hljóti að vera augljóst að síðari kosturinn skilar meiri árangri.

Á Íslandi höfum við allt sem til þarf til að móta stefnu í samræmi við "finnsku leiðina". Upplýsingatæknin er frábær, við höfum öflugt háskólaumhverfi (þó er ýmislegt sem mætti bæta, sérstaklega á verkmenntasviðinu - spyrjið ef þið viljið meira um þetta - og í alþjóðavæðingu), við höfum sérþekkingu á ýmsum sviðum. Við þurfum hins vegar að setjast niður og fara gaumgæfilega yfir málin og ekki að koma með einstakar aðgerðir sem hugsanlega fylla í einhverjar eyður sem við teljum okkur nú skynja, heldur að ákveða hvers konar samfélag við viljum hafa á Íslandi, á hverju ætlum við að byggja það og móta svo stefnu sem miðar að því að ná því markmiði. Upplýsingatæknin og menntastofnanir eiga stórt hlutverk í þessu starfi en þá þurfum við að tryggja að einstaklingar á Íslandi hafi þá færni sem þarf til að vera fullgildir þátttakendur í alþjóðlegu nettengdu samfélagi. Þetta er "finnska leiðin".

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband