Hvaða kosti hefur ESB aðild fyrir menntun?

Aðgangur að styrkjum og sjóðum

Með EES samningnum urðu Íslendingar fullgildir þátttakendur í mennta-, menningar-, og rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins. Þátttaka Íslendinga í menntaáætlunum ESB hefur haft gríðarleg áhrif á menntun á Íslandi. Eitt áberandi dæmi um ávinning okkar af þátttöku í menntaáætlunum ESB er stóraukið námsframboð á háskólastigi á Íslandi. Það er ólíklegt að okkar fámenna þjóð gæti borið það mikla framboð sem er á framhaldsnámi í íslenskum menntastofnunum í dag. Í gegnum menntaáætlanir ESB hafa íslenskir háskólar getað laðað til sín kennara og nemendur hvaðanæva að úr Evrópu. Þar að auki hafa íslenskar menntastofnanir á öllum skólastigum verið mjög virkar í ýmis konar þróunarsamstarfi í gegnum menntaáætlanir ESB.

 

Hvað varðar menntaáætlanir ESB hefði ESB aðild Íslands tiltölulega lítil áhrif þar sem Íslendingar eru þegar fullgildir þátttakendur í þessum áætlunum. Helsti munurinn væri þó að aðild myndi auka möguleg áhrif íslendinga á ákvörðunartöku um áætlanirnar. ESB aðild myndi einnig auka lítillega sveigjanleika fyrir íslenska þátttakendur. Verkefni sem eru styrkt af menntaáætlunum ESB eru alltaf samstarfsverkefni milli landa. Þess er krafist að minnst einn þátttakandi er í ESB landi. Þegar um er að ræða verkefni sem fela í sér stamstarf 3ja eða fleiri landa hefur þetta lítið að segja þar sem aðeins eitt þessara landa þarf að vera ESB land. Íslendingar hafa því getað sett saman samstarfshópa frá þátttökulöndum sem standa utan ESB (t.d. Noregur & Tyrkland) og ESB löndum. Hins vegar, þar sem þátttaka í áætlunum byggir á tvíhliðasamstarfi (t.d. háskólasamstarf í Erasmus áætluninni) hefur þessi regla takmarkað möguleika íslenskra stofnanna til samstarfs við ýmis lönd. T.d. geta íslenskir og norskir háskólar ekki nýtt sér Erasmus áætlunina til samstarfs sín á milli vegna þess að hvorugt landið er aðili að ESB.

 

Þær áætlanir ESB sem íslenskar menntastofnanir hafa aðgang að í gegnum EES samninginn styrkja samstarf milli ESB og EES landa en ekki lönd utan þeirra. ESB hefur hins vegar ýmsar áætlanir sem styrkja samstarf við lönd utan ESB sem EES lönd hafa ekki aðgang að. Nokkrar þeirra áætlana sem íslendingar fengju aðgang að með ESB aðild eru:

 

Tempus áætlunin:

- Áætlun ESB um samstarf til uppbyggingar og þróunar menntunar í löndum utan ESB.

- Íslendingar hafa getað tekið þátt í verkefnum en hafa þurft að kosta þátttöku sjálfir.

- Með ESB aðild munu Íslendingar geta fengið styrki í gegnum áætlunina.

 

"Bilateral cooperation":

- 3 áætlanir, EU-USA og EU-Kanada og EU-ICI ECP (Ástralía, Japan, Nýja Sjáland og N. Kórea), víðtækt samstarf í uppbyggingu og þróun háskólamenntunar.

- Þátttaka er bundin við aðildarlönd ESB.

 

EuropeAid:

- Styrkir ýmislegt samstarf til uppbyggingar og þróunar menntunar í þróunarlöndum um allan heim.

- Þátttaka er bundin við aðildarlönd ESB.

 

Með ESB aðild myndu Íslendingar líka fá aðgang að Byggðasjóðum (e. Structural Funds) ESB. Þessir sjóðir hafa styrkt ýmis konar þróunarverkefni sem tengjast menntun, nýsköpun og svæðisuppbyggingu og eru því mörg tækifæri fyrir menntastofnanir. Sem dæmi má nefna að Finnar nutu aðstoðar Byggðasjóða ESB við uppbyggingu á sínu dreifnámskerfi.

 

Það er því ljóst að ESB aðild myndi stórauka tækifæri Íslendinga til að taka þátt í margvíslegu uppbyggingar og þróunar samstarfi í menntun.

 

 

Annað

Aukin stöðugleiki í gjaldeyrismálum hefði líka töluverð áhrif á þátttöku íslendinga í öllum áætlunum ESB. Styrkir eru reiknaðir í evrum og hafa gjaldeyrissveiflur því haft töluverð áhrif á þátttöku bæði til hins betra og verra.

 

Flestar menntastofnanir í ESB löndum hafa metið EES aðild til jafns við ESB aðild þegar kemur að menntamálum. Í þeim löndum þar sem háskólar innheimta skólagjöld borga ríkisborgarar ESB landa sömu gjöld og ríkisborgarar viðkomandi lands. Í flestum tilfellum hefur þetta verið látið gilda einnig um ríkisborgara EEA landa. Hins vegar hafa Bretar neitað að samþykkja þetta og heimtað að ríkisborgarar EEA landa borgi skólagjöld til jafns við nemendur sem koma utan Evrópu sem er töluvert hærri en skólagjöld sem eru innheimt af breskum þegnum og ríkisborgurum ESB landa. Bretar hafa því fengið að skapa fordæmi fyrir þessu fyrirkomulagi og gætu því önnur ESB lönd fylgt því. ESB aðild Íslands myndi eyða allri slíkri óvissu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband