Hverjum er að kenna þegar námsfólk lærir ekki?

Það fer ekki fram hjá neinum að Illugi Gunnarsson ætlar í menntamálin á sínum pólitíska ferli sem hann er að steypa sér út í af miklum krafti. Það er varla að maðurinn láti frá sér orð án þess að minnast á menntamál. Nýlega skrifaði hann pistil í Fréttablaðið þar sem hann fjallar um menntaþarfir nú þegar íslensk fyrirtæki eru sífellt að láta meira til sín taka í samkeppnishörðum alþjóðlegum heimi viðskipta og nýsköpunnar. Hann bendir sérstaklega á áhugaleysi ungs námsfólks, sem Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, kom að í nýlegri ræðu. Illugi telur að þetta áhugaleysi megi rekja til óraunhæfra væntinga ungs fólks til samfélagsins nú til dags:

"Ætli nemendurnir misskilji fréttirnar um gróða fyrirtækjanna og sigra þeirra á erlendri grund og haldi að slíkt komi af sjálfu sér? Og getur það verið að þeir haldi að mikil og næg atvinna sé náttúrulögmál, að það séu til störf sem þeir geti gengið að sem vísum?"

Hann bendir réttilega á að það er eitthvað vandamál sem þarf að leysa en segir lítið um hvers kyns vandamálið er en lýsir því þó þannig að:

"það er lítið gagn í rúmgóðum skólastofum, nýtísku tækjakosti og samviskusömum kennurum ef nemendurnir eru annars hugar."

Mér finnst ótrúlega þröngsýnt af Illuga að gefa í skyn að þessi vandi sé að öllu leyti námsfólkinu að kenna. Námsfólkinu finnst örugglega líka lítið gagn í skólum þar sem kennsla og kennsluefni er óáhugavert og ekki í takt við þann veruleika sem þeir hrærast í. Vandamálið er ekki að þetta unga fólk nennir ekki að læra. Það er alltaf að læra, eins og við öll. Enda held ég að það sé eðli mannsins að læra. Spurningin er hvað er það að læra og hvernig? Hjá ungu fólki gerist þetta líklega að miklu leyti með samskiptum í gegnum síma og netið. En fram hafa komið vísbendingar um að notkun upplýsingatækni í íslenskum skólum er ábótavant. M.a. hlýtur að vera eitthvað athugavert þegar stór meirihluti íslenskra kennara telja sig hafa næga þekkingu til að nota upplýsingatækni í kennslu en gera það ekki.

Það er samt rétt hjá Illuga, það er eitthvað að. En ég held að það sé meira en bara að ungt fólk sé frekt, firrt og nennir ekki að læra. Ég ætla að enda með því að lista nokkur atriði sem vert væri að skoða:

- Breyttar áherslur í samfélaginu: Ef ungu fólki finnst það eiga skilið að fá góða vinnu er ólíklegt að þær væntingar séu sjálfsprottnar.

- Fleira námsfólk: Í dag eru mun fleiri sem fara í nám en áður. Það er þá ekki ólíklegt að það séu fleiri manngerðir í skólum en áður. Kannski voru það helst þeir sem féllu í það mynstur sem skólinn gerði ráð fyrir áður fyrr, sem entust í námi. Krafa nútímans um meiri menntun þýðir að skólar verða að ná til fjölbreyttari hópa.

- Aukið upplýsingaflæði: Fólk hefur greiðan aðgang að upplýsingum í dag. Það er auðvelt að ímynda sér að þetta nægi til að uppfylla þarfir um aukna þekkingu. Að einhverju leyti er þetta rétt. Hæfni til að vinna úr upplýsingum er ekki sjálfgefin en ungt fólk þarf líka svigrúm til að prófa sig áfram.

- Ungt fólk er ekki vitlaust. Það þarf að sýna því virðingu.

Segjum þetta gott í bili.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband