Færsluflokkur: Menntun og skóli

PISA áfallið - er nokkuð mál að kippa þessu í lag?

Ég hef vísvitandi haldið aftur af mér með að kommentera um fréttir um nýju PISA niðurstöðurnar til þess að sjá hvernig aðrir bregðast við. Það var eins og mátti við búast, viðbrögð einkennast af skammsýni og skyndilausnahyggju okkar íslendinga. Margir hafa sagt hvað þeim finnst og flestir fljótir að benda á afmörkuð atriði sem þeir telja að megi kenna um.

Fyrir Sigmundi Erni, sem sagði frá í grein í Fréttablaðinu, er málið einfalt - allir eiga að upplifa skólann eins og hann gerði! Sigmundur Ernir segir frá þeim kennurum sem skiptu mestu máli í hans lífi og þakkar þeim velgengni síðar í lífinu. Eflaust hefur þetta verið hæfasta fólk sem kenndi Sigmundi Erni í æsku, en ég leyfi mér að efast um að allir hans samnemendur hafi upplifað sína skólagöngu á sama hátt og hann. Því miður Sigmundur Ernir, þá efast ég um að það sem virkaði á þig sé besta módelið fyrir allan þann fjölda sem stundar nám í skólum landsins.

Þorbjörg Helga, borgarfulltrúa, sér þetta öðruvísi í umfjöllun á blogginu sínu. Þetta er svolítið flóknara mál fyrir Þorbjörgu Helgu:

Þetta kallar á mikla endurskoðun á málinu og ég hugsa að ég ræði þetta á borgarstjórnarfundi á eftir.  Þetta kallar á meiri upplýsingar um árangur, akkúrat það sem við Sjálfstæðismenn vildu í síðasta meirihluta fara að gera meira af.   Einnig kemur inn í þessa umræðu agamál, skóli án aðgreiningar og opin kennslurými sem ég persónulega tel vera mikið álag fyrir kennara.

Ef einhver veit hvað hún er að reyna að segja með þessu látið mig endilega vita. En hvað sem vandamálið er er ljóst að Sjálfstæðismenn hefðu reddað því hefðu þeir fengið að vera áfram í borgarstjórn.

Það kemur ekki á óvart að Ólafur Proppé, rektor KHÍ, tekur á þessu af mun meiri skynsemi í viðtali í Fréttablaðinu. Ólafur varar einmitt við því að bregðast við á þann hátt sem Sigmundur Ernir og Þorbjörg Helga gera - að draga einfaldar ályktanir. Samt fellur hann svolítið í þessa gildru sjálfur og nefnir lengingu kennaranáms sem er framundan sem hugsanlega bót. Þetta fer auðvitað algjörlega eftir því hvernig námið verður uppbyggt og hvernig skólaumhverfi þessir kennarar fara í að námi loknu.

Auðvitað benda margir á það sem hefur verið gert í Finnlandi, enda þeir á toppi listans. En það þýðir ekki að telja upp fáein atriði sem við getum lært af Finnum heldur þarf að skoða þróun menntamála þar í heild ef við ætlum að reyna að draga gagnlegan lærdóm af. Og það er ákveðinn þráður sem gengur í gegnum Finnska menntakerfið sem er að þeir móta heildræna stefnu sem miðast við þarfir einstaklinga og þjóðfélagsins hverju sinni sem er svo samræmt yfir alla þætti menntakerfisins - allt frá náms- og hæfniskröfum (learning outcomes) til kennaramenntunar og símenntunar. Og þá meina ég "menntastefnu" og ekki bara þá "fræðslustefnu" sem við höfum núna (sjá nánar um innlegg Ólafs Páls á málþingi sem ég sagði frá hér).

Þannig að, svona rétt í lokin, hvað er það sem er að menntamálum á Íslandi? Ég er með mjög einfalt svar og ég held að rétta svarið geti ekki verið annað - þ.e. að skólar eru ekki að ná til nemenda. Það er eitthvað sambandsleysi milli þess sem nemendur vilja taka á sig og sem skólar eru að bjóða upp á. En því miður er lausnin ekki svona einföld.


Wikipedia: tækifæri í kennslustarfi

Ég hef bloggað áður um möguleika Wikipedia í skólastarfi (N.B. er ekki að tala um wiki kerfi almennt, sem Salvör hefur mikið agenterað fyrir, heldur Wikipedia sérstaklega). Nú hef ég rekist á aðra áhugaverða grein um þetta sama.

Ég trúi því innilega að Wikipedia geti verið mjög öflugt tæki í námi ef við tökum bara smá tíma til að læra á það í staðinn fyrir að banna það.

Google með keppni fyrir ungt fólk til að kynna opinn hugbúnað

Google tilkynnti nýlega um keppni sem þeir kalla "Google highly open participation contest". Markmiðið með keppninni er að kynna fyrir ungu fólki opinn hugbúnað ("open source"). Þátttaka er opinn öllu námsfólki sem er orðið 13 ára og eldri og ekki byrjað í háskóla. Keppninni lýkur 22. janúar 2008.

Google hefur gengið í samstarf við fjölmörg opin hugbúnaðarverkefni, t.d. Apache, Drupal, Gnome, Moodle o.fl., allt vel þekkt forrit. Keppendur geta valið um útistandandi verkefni eftir listum sem eru að finna á vefsíðu keppninnar. Verkefnin eru ekki öll forritunarverkefni og ætti því að vera hægt fyrir alla að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þetta er mjög áhugaverð leið til að kynna fyrir ungu fólki mikilvæga þætti í upplýsingavæðingu samfélagsins - hugbúnaðargerð, "open source", samstarf, allt sem tengist hugbúnaðargerð (það er ekki allt forritun!), o.s.frv.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband