Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hnattvæðing, upplýsingatækni og menntun

Um daginn bloggaði ég um málþing sem ég sótti í KHÍ. Mig langar að taka aftur upp eitt mál sem ég nefndi þar, sem er um umræðu hér á landi um hnattvæðingu. Umfjöllun um þessi mál hafa verið mjög á reiki og ljóst að fólk er ekki alltaf að tala um sömu hlutina. Fyrst ætla ég að renna yfir almennar hugmyndir um hnattvæðingu og skyld hugtök sem fræðimenn hafa sett fram. Síðan ætla ég aðeins að nefna af hverju þessi umræða á heima á bloggi sem gefur sig út fyrir að vera að mestu um upplýsingatækni og menntamál.

Hvað er hnattvæðing
Á málþinginu nefndi Ólafur Páll Jónsson að hnattvæðing ætti að vera "mennsk". Fulltrúi utanríkisráðuneytisins spurði sérstaklega um þetta og bað hann að skýra mál sitt, sem hann gerði og gerði vel. Mig langaði samt að bæta við svar Ólafs Páls en gerði það ekki á málþinginu þar sem komið var yfir tíma og spurningunni var beint sérstaklega til hans þannig að ég ætla að leyfa mér að gera það hér.

Þó að Ólafur Páll hafi ekki vísað í Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu Þóðanna eru orð hanns um "mennska" hnattvæðingu í fullu samræmi við það sem þar er sagt. Í 5. grein segir að "megin viðfangsefni okkar í dag er að tryggja að hnattvæðing verði jákvætt afl fyrir alla íbúa jarðar." (lausleg þýðing mín). Það er tvennt sem mér finnst áhugavert við þessa kröfu. Annars vegar felst í henni viðurkenning á að hnattvæðingunni verður ekki snúið til baka - svona er heimurinn í dag og svona verður hann. Hins vegar felst líka í þessu að hnattvæðingin er ekki einhver óstjórnleg alda sem hellist yfir okkur hvort sem okkur líkar vel eða verr - við höfum vald, og jafnvel skyldu, til að móta hana. Þannig má segja að hnattvæðingin, eins og hún er sett fram hér, er orðræða sem á sér stað á heimsvísu og það er á ábyrgð okkar allra að tryggja að sem flestir fái að taka þátt í þessari orðræðu til að tryggja að hún endurspegli þarfir, þekkingu og gildismat allra sem hún snertir.

Þó að 5. grein Þúsaldaryfirlýsingarinnar segi okkur margt um hnattvæðinguna segir hún ekki hvernig þessi hnattvæðing birtist í okkar samfélögum og það er eiginlega það sem ég held að vefst fyrir fólki hér á landi (og víðar). Það hafa margir fræðimenn reynt að varpa ljósi á þetta efni. Meðal þeirra helstu í dag, sem ég ætla að fjalla um hér, eru Manuel Castells, Anthony Giddens, David Held og Jan Aart Scholte. Fljótt á litið eru helstu einkenni sýn þessara manna á hnattvæðingu þessi:

Castells: "Network society/Space of flows" - samfélög og félagsleg gildi í dag byggjast að miklu leyti á rafrænum tengingum sem taka á móti og vinna úr upplýsingum. Til verður miðlægt svæði þar sem upplýsingar streyma (Space of flows). Þeir sem skapa sér yfirráðandi stöðu í hnattvæddu samfélag leitast við að byggja upp tengsl við þetta miðlæga svæði frekar en þeirra staðbundna umhverfi.

Giddens: "... the intensification of worldwide social relations" - Giddens bætir við "World System Theory" Wallersteins. Kenning Wallersteins snýst fyrst og fremst um hnattrænar efnahagslegar tengingar sem hann rekur langt aftur í tímann. Giddens notar svipaða hugmyndafræði en bendir á að nú er ekki nóg að tala bara um efnahagslegar tengingar heldur félagslegar og menningarlegar tengingar af ýmsu tagi líka. Það sem stýrir þessari þróun er upplýsingatækni.

Held: Félagsleg samskipti eiga sér stað í nýju hnattrænu rými - Hugmyndir Held og Giddens eru nokkuð skyldar þó nálgunin sé ekki sú sama. Eins og Giddens vill Held undirstrika að hnattvæðing nær til mun fleiri félagslegra þátta en bara það efnahagslega. Held leggur hins vegar meiri áherslu á rýmisbreytingar, þ.e.a.s. hvernig hið hnattræna er að troða sér inn í okkar staðbundna rými - við getum í vissum skilningi verið "í" London þótt við sitjum heima í stofunni okkar í Reykjavík. Auðvitað - enn og aftur - er þetta að mestu nútíma upplýsingatækni að þakka.

Scholte: "Supraterritoriality" - Eins og Held beinir Scholte athyglinni að huglægu rýmisbreytingunum sem hnattvæðingin hefur í för með sér. Scholte skilgreinir hnattvæðinguna út frá hinu "yfir-staðbundna", þ.e.a.s. að við erum enn staðbundinn en að við getum yfirstigið það með því að fara inn á hnattræna rýmið sem upplýsingatæknin og skyldar þróanir hafa skapað. En eitt sem gerir Scholte sérstaklega áhugaverðan eru pragmatísku rökin hans. Hann bendir á tilhneiginguna til að samsama hnattvæðingu við ýmislegt annað, e.o. alþjóðavæðingu, "vesturvæðingu", nýfrjálshyggju o.s.frv., en segir að slíkar skilgreiningar eru einfaldlega ekki gagnlegar fyrir orðræðuna um hnattvæðingu. Orðræða um hnattvæðingu er þörf til þess að tryggja að hnattvæðingin verði jákvæð en samsemdarskilgreiningar loka á áframhaldandi orðræðu. Með þessu hefur Scholte sameinað helstu þætti hugmynda Giddens og Held um hnattvæðing við væntingar og markmið Þúsaldaryfirlýsingarinnar.

Það sem við fáum út úr þessu öllu er að þó að við getum rakið þróun hnattvæðingar langt aftur í tímann er eitthvað sérstakt að gerast núna og það er vegna upplýsingatækninnar. Það er að rúm og tími eru að þjappast þannig að við getum í vissum skilningi verið nánast hvar sem er í heiminum sama hvar við erum staðsett. Það er gífurlega ör þróun í þessu en við höfum enn yfirhöndina og getum, og eigum, að stýra þróuninni þannig að hún gagnast öllum í heiminum og stuðli að almennu jafnrétti og hagsæld.

Umræðan um hnattvæðingu á Íslandi
Hnattvæðingin hefur varla farið framhjá okkur hér á Íslandi. Við erum meðal þjóða sem geta státað sig af mestu tölvueign og bestu nettengingum, farsímanotkun er mikil og þjónustusvæði útbreidd, útrás íslenskra fyrirtækja er í fullum gangi, við erum á stöðugri ferð um heiminn, o.s.frv. Samt er í umræðunni hér hugtökum e.o. alþjóðavæðing og hnattvæðing hent saman eins og um sama fyrirbærið er að ræða og hnattvæðingu er enn gjarnan lýst sem efnahagslegri þróun. Dæmi um hvað þessi hugtök eru á reiki í íslenskri umræðu sjást víða:

  • Í skýrslu sem kom út á vegum utanríkisráðuneytisins undir yfirskriftinni Alþjóðavæðing segir "Alþjóðavæðing (e. globalisation)..." Röng þýðing. Ætti að vera "Alþjóðavæðing (e. internationalisation)" eða "Hnattvæðing (e. globalisation)".
  • Í ræðu menntamálaráðherra á málþinginu í KHÍ sagði hún það mat sumra að alþjóðavæðing væri að breytast í hnattvæðingu. Ha?!? Meira um þetta neðar.
Það er augljóst að þegar þessi hugtök eru notuð á þennan hátt er einfaldlega ekki verið að tala um sömu hluti og þeir fræðimenn sem ég fjallaði um hér að ofan. Algengast er að hugtökunum hnattvæðing og alþjóðavæðing er ruglað saman. En ef maður hugsar aðeins út í það meikar það einfaldlega ekki sens. Alþjóðavæðing snýst um þjóðir eins og hugtakið segir. Þjóðir eru fólk - án þeirra er engin þjóð. Ef alþjóðavæðing og hnattvæðing eru það sama vaknar spurningin - hvernig getur þjóð verið hnattræn? Væntanlega væri það þá að hún væri svo dreifð að aðila hennar væri að finna alls staðar á hnettinum. En þetta er ekki það sem fræðimennirnir sem ég nefndi eru að tala um. Dreifing þjóðar stuðlar ekki að þjöppun tíma og rúms nema að einstaklingar geti auðveldlega haldið sambandi sín á milli. Hvað er þá alþjóðavæðing? Hún er tvenns konar. Annarsvegar að samfélög eru að verða blandaðri vegna flutninga fólks og hins vegar að reynt er að stuðla að því að tiltekið umhverfi endurspegli sem flestar þjóðir heims. Það fyrra er afleiðing hnattvæðingar sem við sjáum t.d. í alþjóðavæðingu vinnuafls á Íslandi. Það síðara er viðbragð við hnattvæðingu sem við sjáum t.d. í háskóla- og vísindasamfélögum víða um heim.

Hnattvæðing og menntastofnanir
Menntastofnanir eru þær stofnanir sem hafa það hlutverk að standa vörð um og efla okkar þekkingu. Nútíma hnattvæðing, sem byggir á upplýsingatækni, hefur haft gífurleg áhrif á þessar stofnanir vegna aukins flæði upplýsingar og þekkingar. Eitt sem hnattvæðingin hefur undirstrikað er að þekking þarf á þessu flæði að halda til þess að eflast og þróast og því meira flæði, þ.e.a.s. skoðanaskipti o.þ.h., þeim mun örari verður sú þróun. Menntastofnanir (sérstaklega háskólar) hafa því verið fljótar að átta sig á að til þess að viðhalda sinni stöðu í hnattvæddu umhverfi þurfa þær að tryggja að flæði þessarar þekkingar finni sér öflugan farveg innan þeirra. Þess vegna leitast menntastofnanir við að alþjóðavæðast, þ.e.a.s. að stuðla að því að þeirra nemendur og starfsfólk finni að þau standi í miðju straumanna sem þekking heims flæðir um. Miðað við þetta og það sem ég hef áður sagt er ekki fráleitt að halda því fram að ummæli menntamálaráðherra á málþinginu í KHÍ sem ég hef vitnað í lýsa algjörum misskilningi á áhrifum hnattvæðingar á menntastofnanir og ástæður fyrir mikilvægi alþjóðavæðingar fyrir þessar stofnanir.

Hnattvæðing, upplýsingatækni og menntun
Á málþinginu í KHÍ sagði Ólafur Páll að það væri fráleitt í dag að gera greinarmun á hversdagslegu samfélagi og tæknivæddu samfélagi (man ekki alveg hvernig hann orðaði þetta en ég geri ráð fyrir að hann var að tala um samfélög í þróuðum ríkjum þar sem enn finnast samfélög annars staðar sem eru lítið tæknivædd). Það sama á við um hnattvæðinguna vegna þess að hún er fylgifiskur nútíma tæknivæðingar. Enn sést stundum að sagt er að hlutverk menntunar sé að búa fólk undir að vera virkir þátttakendur í hnattvæddu samfélagi. Hvernig undirbúum við fólk til að takast á við stöðu sem það er þegar í og á í raun stóran þátt í að móta? Ungu fólki í dag finnst sjálfsagt að nota netið, horfa á fjölmargar sjónvarpsrásir, tala í síma hvar sem er og hvenær sem er - þau hafa alist upp við, og finnst eðlilegt, að aðgengi að upplýsingum er ekkert tiltökumál. Það sem meira er að þau finna fyrir því að þau eru ekki aðeins móttakendur upplýsinga heldur geta líka haft áhrif á umhverfi sitt með því að gefa frá sér upplýsingar. Hvað finnst þeim þá þegar menntakerfið sem þeim er gert að stunda lítur svo á að þau séu ekki enn orðnir fullgildir þátttakendur í þessu samfélagi sem þau lifa og hrærast í? Menntayfirvöld þurfa að fara að einbeita sér betur að þessum málum og þess vegna er alvöru og hnitmiðuð umræða um hnattvæðingu (og skyld mál e.o. alþjóðavæðingu) orðin löngu tímabær í þessum geira. Ennfremur er orðræðan um hnattvæðingu ekki bara mikilvæg fyrir háskólastigið heldur öll menntastig.

Um málþing

Ég var að koma af áhugaverðu málþingi sem haldið var í Kennaraháskólanum í tengslum við Háskólafundaröð utanríkisráðuneytisins. Yfirskriftin var Menntun í samfélagi þjóða og fluttu erindi menntamálaráðherra, Ólafur Páll Jónsson lektor í KHÍ og Allyson Macdonald, prófessor í KHÍ. Tölur og umræður snerust að mestu um háskólamenntun í ljósi hnattvæðingar. Allt var þetta mjög áhugavert og umræður skemmtilegar sem fylgdu í kjölfarið. Ein athugasemd sem ég gerði í lokin var að ég hafði vonast til að farið yrði inn á áhrif hnattvæðingar og alþjóðavæðingar á kennaramenntun og menntun á framhalds-, grunnskóla- og leikskólastigum. Ólafur Páll kom að vísu inn á kennaramenntunina en um hin skólastigin var ekkert fjallað. Þessi umræða um alþjóðavæðingu háskólastigsins hefur verið í gangi nokkuð lengi og farið fram víða en fyrr eða síðar verðum við að átta okkur á því að hin skólastigin mótast af hnattvæðingunni líka og því er þörf á þeirri umræðu.

Eitt sem virðist ætla að loða við þessa umræðu er hvað lykilhugtök, sérstaklega alþjóðavæðing og hnattvæðing, eru mikið á reiki. T.d. sagði menntamálaráðherra að það væri mat sumra að alþjóðavæðing væri að víkja fyrir, eða breytast í, hnattvæðingu og átti þá við að alþjóðleg tengsl eru að breiðast út. Þetta hef ég ekki heyrt áður og þykist ég vera nokkuð víðlesin um þessi mál. Almennt eru alþjóðavæðing og hnattvæðing skilgreind sem sitthvort fyrirbærið þó vissulega séu þau skyld. Þá er yfirleitt talað um - alla vega í tengslum við menntun - að alþjóðavæðing sé viðbragð við hnattvæðingu. Það er nokkuð greinilegt að menntamálaráðherra og hennar ræðuhöfundar leggja allt annan skilning í þessi hugtök en ég og, að ég held, flestir þeir sem fást við fræði þessu tengt. (er búinn að skrifa meira um þetta hér)

Ólafur Páll hafði meira um hnattvæðingu að segja þótt hann hafi ekki beint reynt að leggja fram skýra skilgreiningu. En það var kannski óþarft þar sem hans erindi snerist meira um það að sýna með skemmtilegum dæmum hvaða áhrif hnattvæðing hefur haft á okkar samfélag. Mér finnst samt að það þurfi að taka sérstaklega á þessu innan menntageirans og koma þessari hugtakanotkun í ákveðinn farveg. Þetta er mjög brýnt vegna þess að við þurfum að horfast í augu við það að, í dag, um leið og við erum að reyna að búa nemendur undir að vera þátttakendur í hnattvæddu samfélagi erum við, og þeir, þegar í þessu samfélagi (ath. það að þeir sem eru að hefja háskólanám á næsta ári hafa flestir alist upp við það í a.m.k. 10 ár að tölvur, farsímar og net - helstu drifkraftar hnattvæðingarinnar - eru sjálfsagðir hlutir). Og það sem meira er að þetta er samfélag sem einkennist af örum og sífelldum breytingum. Við megum einfaldlega ekki við því að vera að þvæla þessu fram og til baka eins og við virðumst eiga til.

Allyson Macdonald sagði svo frá háskólakerfi Sameinuðu Þjóðanna (HSÞ) og þeim 3 stofnunum hans sem eru reknar hér á landi, þ.e. Jarðvarmaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn. Það er nokkuð merkilegt að af ca. 12 stofnunum HSÞ sem eru dreifðar um allan heim skulu 3 þeirra vera á Íslandi enda þykja smæð landsins og samsvarandi stuttar boðleiðir henta vel til slíks reksturs. Allyson gerði grein fyrir hugmyndafræðinni sem HSÞ byggir og vísaði m.a. mikið í merka ritið Learning: The treasure within (stundum líka kallað "The Delors Report" eftir formanni nefndarinnar sem stýrði útgáfunni) um tengsl menntunar og sjálfbærar þróunar. Aðrar skemmtilegar staðreyndir sem komu fram hjá Allyson voru að þeir nálgast bráðum 1.000 manns sem hafa lokið námi við stofnanir HSÞ hér á landi og dreifast um allan heim. Enn er mjög gott samstarf milli flestra þeirra og skólana hér á landi sem er eitt af helstu markmiðum námsins, þ.e.a.s. að byggja upp samstarfsnet sérfræðinga í þróunarlöndum.

Marvin Minsky skrifar um börn, upplýsingatækni og nám

Marvin Minsky, prófessor við MIT, er byrjaður á greinaröð sem hann ætlar að birta á Wiki-vef OLPC verkefnisins. Sú fyrsta var sett upp í síðasta mánuði og ber titilinn "What makes mathematics hard to learn?". Í fljótu bragði mætti draga þá ályktun að Minsky er fyrst og fremst að fjalla um stærðfræðikennslu, en svo er ekki. Greinin, og að ég held að verði þema allra greinanna, er að skýra þann kenningaleg grunn sem OLPC verkefnið byggir á. Fyrsta greinin er þó ekki íþyngjuð af fræðimennsku og ætti að vera aðgengileg, og jafnvel skemmtileg, lesning fyrir alla sem hafa áhuga á upplýsingatækni í menntun. Þar að auki, er þetta kærkomin innsýn í hugsun þeirra sem standa að baki og hafa komið að OLPC verkefninu sem hefur oft verið misskilið af hinum ýmsu aðilum. Samt sem áður, er enn skortur á haldbærum gögnum sem styðja nálgun OLPC manna (þ.e. að innleiða upplýsingatækni gegnum börnin frekar en kennarana). Kannski kemur Minsky inn á það í seinni greinum - kannski ekki...

Framtíð menntunar með aukinni tæknivæðingu

Bill Thompson skrifaði áhugaverða grein (eins og svo margar hans greinar eru) um tölvunotkun í skólastarfi í framtíðinni. Hann segir frá því að hann hafi verið í spekúlantahópi sem kom saman og reyndi að spá fyrir um stefnumótunarþarfir fyrir menntun árið 2020 út frá hugsanlegri þróun tölvutækninnar. Það kemur fram í greininni að það er margt sem þarf að huga að til að tryggja að menntun haldist í takti við samfélagslegar breytingar sem verða vegna tölvutækni.

Leiðbeinandi minn í Háskólanum í Minnesóta, Art Harkins, er svokallaður "futurologist". Hann gerir svona æfingar með nemendur og líka stjórnendur fyrirtækja. Þá hvetur hann fólk til að ímynda sér hvernig hlutir verða eftir nokkra áratugi og jafnvel nokkur hundruð ár og setja sér markmið í samræmi við það. Svo eiga allir að skrá hjá sér hvað þarf að huga að til að markmiðin nást. Að lokum kemur hópurinn sér saman og vinnur úr því sem hver og einn hefur gert. Mjög skemmtilegar og gagnlegar æfingar sérstaklega í fjölbreyttum hópum.

Thompson hefur greinilega lent í áhugaverðum hópi sem skoðaði málið frá ýmsum hliðum. Skemmtilegast og gagnlegast hefði samt verið að fá meiri gögn af fundinum en Thompson setur fram nokkrar áleitnar spurningar sem vert er að velta fyrir sér.

Harvard styður opið aðgengi að vísindalegri þekkingu

Það virðist vera eiga sér stað nokkuð áhugaverð þróun í vísindalegum útgáfumálum í þá átt að auðvelda aðgengi og dreifingu niðurstaðna vísinda. Útgáfa vísindalegra greina er mjög stór iðnaður og nokkuð arðbær fyrir útgefendur. Mörgum finnst svo komið að hátt verð og stífar reglur um höfundarétt hefti aðgengi að vísindalegum upplýsingum og útbreiðslu vísindalegrar þekkingar. Örfáir aðilar sem kosta vísindalegar rannsóknir hafa sett reglur um að niðurstöður styrktra verkefna skuli vera aðgengilegar öllum þeim að kostnaðarlausu. Má t.d. nefna PubMed gagnagrunn Heilbrigðisvísindastofnunnar Bandaríkjanna og aðgerðir Vísindanefndar Evrópu. Nú er Harvard háskólinn í Bandaríkjunum að bætast í þennan vaxandi hóp vísindastofnanna sem styðja opið aðgengi að vísindalegum upplýsingum.

Þetta er mjög áhugaverð þróun og sérstaklega áhugaverð umræða sem er að skapast í kringum hana. Þetta er nefnilega ekki eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn. Það sem skiptir mestu máli fyrir vísindaleg skrif, sem útgefendur tímarita hafa sinnt, er jafningjarýni þar sem jafningjar greinarhöfunda leggja mat á vísindalegt gildi og vægi greina. Sumir telja að hætt sé að útgefendur einfaldlega hafni greinum sem fylgja kvaðir um opið aðgengi og þar með missa höfundar af ritrýninni. Svo er líka deilt um það hvort veita eigi opið aðgengi að greinum sem hafa verið ritrýndar en ekki endanlega prófarkalesnar, s.k. pre-press greinar. En þá fylgja spurningar um hvernig eigi að vísa í slíkar greinar. En það er ljóst að margir vísindamenn og stofnanir hafa fengið nóg af útgefendunum og ætla sér að endurheimta eignarhald á sínum þekkingarafurðum. Það hlýtur að vera nokkuð veglegur liðsauki í því að fá jafn virtan og sterkan bakhjarl sem Harvard í þessa baráttu.

Finnska leiðin í menntamálum

Það var grein um skólakerfið í Finnlandi á vef Wall Street Journal um daginn. Greinarhöfundur leggur upp með mjög áhugaverðar spurningar um tilfærslumöguleika milli skólakerfa í Finnlandi og Bandaríkjunum. Ég held að þetta séu líka mjög viðeigandi spurningar fyrir okkur hér á Íslandi þegar verið er að boða mjög róttækar breytingar í skólamálum og menntun kennara. Ekki síst þar sem þegar er verið að líta til Finnlands í því sambandi.

Það sem heillar mig mest með skólakerfi Finna eins og því er lýst í þessari grein er hvað þeir leggja upp úr því að skilja þekkingarsamfélagið og þarfir þess og móta menntun í samræmi við það, t.d. með því að leggja áherslu á sveigjanleika bæði fyrir kennara og nemendur. Enda hefur farið mikið í það hjá Finnum að skilgreina þessar þarfir vel og móta skynsama stefnu. Við gætum lært margt af Finnum ef við gefum okkur góðan tíma til að skilja hvað það er sem þeir eru raunverulega að gera frekar en að arka af stað með illa mótaðar hugmyndir eins og við eigum til.


Áhugaverð grein um umræðu um tölvur í skólastarfi

Nýlega birtist mjög áhugaverð grein eftir Hrefnu Arnardóttur í (eða segir maður á) Netlu. Greinin er unnin upp úr meistarastykkinu hennar og ber heitið "Verkfæri, miðill, samskiptatól eða kennari: Hugmyndir um notkun tölvunnar í skólastarfi síðustu 30 ár". Hrefna greinir umræðu um hlutverk tölva í skólastarfi og kemst að þeirri niðurstöðu að dregið hafi verulega úr bjartsýni sem einkenndi umræðuna fyrir 30 árum og að spár um að tölvur myndu gjörbylta skólastarfi hafi ekki ræst.

Það er margt í umræðu undanfarinna 30 ára sem er sérstaklega athyglisvert. T.d. að frá upphafi umræðunnar og alveg fram undir lok 20 aldar lögðu margir áherslu á nauðsyn þess að nemendum væri kennt undirstöðuatriði forritunar og vitnar Hrefna í Aðalnámsskrá framhaldsskóla frá 1999 þar sem segir,
Kunnátta í forritun er þannig undirstaða þess að notendur geti nýtt sér almennan hugbúnað til hins ýtrasta.
Hrefna segir í tengslum við þetta að,
Þetta var líklega mun mikilvægara á upphafsárunum þar sem bæði var mögulegt og oft nauðsynlegt að breyta forritum og aðlaga þau aðstæðum hverju sinni.
Hún vitnar líka í Jón Torfa Jónasson, sem taldi mikilvægt að kennarar gætu breytt forritum sem þeir notuðu í sínu kennslustarfi. Hrefna segir slíkar pælingar skiljanlegar þegar tölvur voru enn nýjar en virðist halda að það tilheyri liðinni tíð. En með vaxandi útbreiðslu opins hugbúnaðar er spurning hvort þetta eigi ekki erindi í umræðuna aftur í dag?

Hrefna virðist hafa farið svolítið á mis við þátt hugsmíðahyggju (e. constructivism) í þróun hugmynda um notkun tölvu í skólastarfi. Hún fjallar um Logo forritunarmál Seymour Paperts sem ætlað var að kenna m.a. hugtök og reglur sem voru ekki endilega tengd tölvum og segir svo,
Þessar hugmyndir minna um margt á hugsmíðahyggju sem virðist eiga mikinn hljómgrunn um þessar mundir. Það er þó eftirtektarvert að hugmyndir um að nýta tölvur í anda hugsmíðahyggjunnar heyrast mjög lítið eða alls ekki í dag þrátt fyrir að ýmsir hafi séð slíka notkun fyrir sér á upphafsárunum.
Þetta er ekki alveg rétt hjá Hrefnu. Fyrir það fyrsta var hugmyndafræði Paperts, sem hann kallaði "constructionism", í raun hans útfærsla á hugsmíðahyggju og var hann mjög meðvitaður um tengslin þar á milli (það má nefna að Papert er helsti hugmyndafræðingurinn á bak við OLPC verkefnið). Svo má líka segja að hugsmíðahyggja hafi verið einn hornsteinn þróun hugmynda um notkun tölva í skólastarfi allar götur síðan (annar hornsteinn er auðvitað sá sem hafnar algjörlega hugsmíðahyggjunni þannig að það er allur gangur á þessu). Hrefna hefði kannski mátt kynna sér betur verk Paperts, Jonassen, Driscoll og Resnick - allt stór nöfn í "instructional design" og "learning technology" og allir nokkuð dedikeraðir hugsmíðahyggjusinnar.

Annað sem Hrefna hefði mátt koma inn á, en er kannski svolítið fyrir utan efnið, eru áhrif sem aukin upplýsingatækni hefur haft á skilningi á - og viðhorfi til þess - "að læra". Þótt tölvur hafi ekki haft þau áhrif á kennslu og skólastarf sem spáð hefur verið í gegnum tíðina er augljóst að skólar þurfa í vaxandi mæli að bregðast við nemendum sem hafa alist upp með öflugri upplýsingatækni en þekktist fyrir rétt rúmum áratug og stóraukið flæði upplýsinga. Þetta eru nemendur sem virðast hafa allt aðrar hugmyndir um hvað það er að læra og til hvers við lærum en nemendur höfðu áður fyrr. Ef þetta er ekki að hafa víðtæk áhrif á skólastarf þá þarf að fara að endurskoða skólastarfið.

Að lokum verð ég að minnast á myndræna framsetningu Hrefnu á gögnum hennar. Hún setur upp töflur þar sem umræðuefni er í röðum og ár í dálkum og notar síðan mislita og misstóra þríhyrninga til að sýna hversu mikið hvert umræðuefni er í umræðunni hverju sinni. Þetta er sérlega áhrifarík framsetning og gefur lesandanum góða yfirsýn yfir breytingar á umræðunni yfir tímabilið sem hún greinir. Ef fólk hefur ekki tíma til að lesa alla greinina fæst heilmikið úr því að skoða bara töflurnar.

Frekar að styrkja fólk til náms og rannsókna á Íslandi

Væri ekki sniðugra að setja á fót styrktarsjóð til að styrkja stúdenta frá Níkaragva í háskólanám í jarðvarmafræðum hér?

Stundum virðist ÞSSÍ vera einum of æst í að senda okkar fólk um allar trissur í upplýsingaöflun og miðlun. Mér finnst meiri líkur á að þekking komist betur til skila og lagi sig betur að aðstæðum í samstarfslöndum ef heimafólk fær tækifæri til að tileinka sér hana á eigin forsendum og miðla sjálft. Níkaragva er ekki eitt af vanþróuðustu löndum heims, með meðalþróun á mælikvarða SÞ og hefur nokkuð öflugt háskólakerfi. Það hlýtur að vera hægt að lokka eitthvað af þessu fólki hingað til lands í háskólanám með rausnarlegum styrkjum (hvað ætli kosti að senda okkar sérfræðinga þangað vs. að fá þeirra stúdenta hingað?).

Það eru alltaf að bætast við aðilar sem bjóða upp á nám í jarðvarmafræðum hér á landi og er flóran því orðin nokkuð fjölbreytt og mikið af þessu kennt á ensku. Fyrir utan Jarðvarmaskóla SÞ, sem er auðvitað sér dæmi, dettur manni helst í hug RES - School of Renewable Energy Science, sem er að bjóða upp á mastersnám í endurnýjanlegri orku, og eru jarðvarmafræði þ.á.m. auðvitað. Þeir eru að hefja kennslu um þessar mundir og hafa fengið til sín þvílíkt stórstjörnu kennaralið, bæði erlenda og íslenska. Allt er kennt á ensku og byggir að miklu leyti á sérreynslu og þekkingu íslendinga. Svo er líka HÍ með meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, HR er með sitt Orkurannsóknarsetur þar sem stúdentar gætu t.d. unnið að lokaverkefnum, og svo byrjar REYST væntanlega að bjóða upp á nám í nálægri framtíð.

Að styrkja námsfólk frá Níkaragva til að koma hingað í nám myndi ekki aðeins koma sérfræðiþekkingu betur til skila í heimalandinu heldur myndi það líka styrkja þetta nám sem er í boði hér á landi. Mér finnst það líka vera meira "samstarf" en þetta sem verið er að lýsa í fréttinni.


mbl.is Skrifað undir jarðvarmasamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð bók frá Stewart Mader um wiki og þekkingarþróun/menntun

Fyrir síðustu jól kom út áhugaverð bók um notkun Wiki-kerfa sem þekkingarþróunartæki á vinnustöðum sem ber titilinn Wikipatterns. Bókina skrifaði Stewart Mader, sem þykir mikið gúrú í wiki-málum. Hann hefur áður gefið út raf-bókina Using Wiki in Education, mjög áhugavert safn greina. Bókin er fáanleg á netinu á www.wikiineducation.com og eru nokkrir kaflar aðgengilegir ókeypis á vefnum.

Ég hef ekki lesið þessa nýja bók en miðað við fyrri skrif Maders er sennilega óhætt að mæla með henni bæði fyrir "bissness" fólk og fólk í hvers kyns menntastarfi. Hún hefur víða fengið mjög lofsamlega umfjöllun fyrir það hvað hún þykir praktísk en hér er ekki á ferðinni tæknileg umfjöllun um uppsetningu og rekstur wiki-kerfa, heldur er fjallað um leiðir til að innleiða slík kerfi þannig að þau nýtast sem best. Miðað við það sem ég hef lesið á þetta vel við skólasamhengi eins og vinnustaði. Þess má geta að enginn annar en Ward Cunningham, faðir wiki-kerfanna, ritar inngang.

Bókin er að miklu leyti unnin upp úr efni sem Mader hefur skráð á bloggið sitt undanfarin ár á www.ikiw.org. Vefsíða hans um bókina er svo á www.ikiw.org/wikipatterns og má lesa fyrsta kafla bókarinnar þar og sjá efnisyfirlit og atriðaskrá.

Þróun eða viðskipti?

Eflaust er "hugmyndafræðilegi ágreiningurinn" sem nú er verið að vísa í sá að það hefur skiljanlega farið í taugarnar á OLPC að Intel hefur haldið áfram að markaðsetja sínar Classmate tölvur í beinu samkeppni við OLPC þrátt fyrir "samstarfið". En það er margt annað sem greinir á milli nálgun þessara aðila í sínum afskiptum af tölvuvæðingu menntunar í þróunarlöndum. T.d. vill OLPC setja tölvur í hendurnar á krökkum og trúir því að með þessu fá þau tækifæri til að uppgötva tæknina, hafa áhrif á hana og smita foreldra, kennara og aðra fullorðna (gæti verið eitthvað til í þessu). Intel beinir hins vegar athyglinni að kennurum og hefur byggt upp kennaraþjálfunarprógramm í tengslum við markaðsetningu sína á Classmate tölvunni.

Svo er hitt að með Windows stýrðum Classmate vélum sínum virðist nálgun Intel byggjast á kennslu á ákveðinn hugbúnað sem er víða notaður í þróuðum löndum. OLPC vill hins vegar gefa krökkum tækifæri til að læra um tölvur, ekki bara að læra á MS Word t.d., og notar því opinn hugbúnað sem krakkarnir geta sjálfir breytt og lagað að sínum þörfum ef þeir vilja. Allur hugbúnaður sem fylgir OLPC XO vélinni miðar að því að hvetja börn til að kynna sér ekki bara notkun tölvunnar heldur líka forritun og gerð efnis til að dreifa á netinu o.þ.h. Mér líst betur á OLPC nálgunina enda er ekkert sem segir að sá hugbúnaður sem er útbreiddastur í þróuðum löndum í dag verði það í framtíðinni eða að það sé besti kosturinn fyrir þróunarlönd. Mér finnst það undarlegt að þegar verið er að reyna að ná til jafn fjölmenns hóps nýrra tölvunotenda eins og eru í þróunarlöndum, að gefa sér að þessir nýju notendur skulu ekki hafa neitt um málið að segja - bara að þegja og þiggja.

En, eins og ég segi, ég held að ágreiningurinn nú snúist ekki um þetta. Þessi vinaslit vekja enn einu sinni upp spurningar um áform fyrirtækja eins og Intel (þetta á við um töluvert fleiri, t.d. OR) í þróunarlöndum. Er markmiðið að bæta aðstöðu fólks í þróunarlöndum eða snýst þetta bara um að búa til nýjan kúnnahóp? Er rétt að segja að Intel hafi nokkurn tíma verið þátttakandi í "þróunarverkefni" (einn þeirra manna lét jú einu sinni hafa eftir sér að Classmates verkefnið væri "viðskipti en ekki þróunarverkefni" - sama orðalag og OR notaði)? Ég á enn erfitt með að skilja hvernig er hægt að halda því fram að verkefni þessara aðila, sem koma óhjákvæmilega til með að hafa gífurlegar breytingar í för með sér fyrir þróunarlönd, eru ekki þróunarverkefni.
mbl.is Intel hættir við þróunarverkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband