Frelsisflækja Hannesar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti nýlega grein á Pressublogginu sínu þar sem hann færir rök fyrir því að styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins séu einir "eðlilegir" þar sem hann er einn flokka sem styður frjálst atvinnulíf. Hann lýkur greininni svo á að óska eftir mótrökum frá þeim sem sjá eitthvað athugavert við þetta. Yfirleitt þegar rökfærslur eru notaðar til að réttlæta ójöfnuð er eitthvað að. Ég sé helst tvennt í rökum Hannesar sem er gagnrýnivert. Í fyrsta lagi misbeitir hann lykil hugtaki til að fá fram ákveðna niðurstöðu og í öðru lagi persónugerir hann dauðann hlut til að gera ábyrgð óljósa.

Hannes ýjar að því að "vinstri" flokkar (það má auðvitað deila um það hvað og hverjir eru vinstri sinnaðir eða ekki) séu "fjandsamlegir … hinu frjálsa atvinnulífi". Spurningin er, hvað meinum við með "frelsi" í þessu samhengi. Almennt er talað um tvær túlkanir á frelsi; neikvætt frelsi og jákvætt frelsi (I. Berlin) (sumir bæta við þriðju túlkun sem er nokkurs konar sambland af þessu tvennu - t.d. J. Christman). Neikvætt frelsi er frelsi gagnvart afskiptum annarra hvort sem er hið opinbera eða önnur samfélagsleg öfl. Jákvætt frelsi er frelsi í þeim skilningi að hver og einn hafi jafna möguleika að þróa sína hæfileika til fullnustu. Neikvætt frelsi er sú túlkun sem frjálshyggjufólk aðhyllist almennt - boð og bönn vinna gegn frelsi og skulu beitt í hófi. Jákvætt frelsi er oftast tengt við jafnaðarstefnu - hið opinbera notar vald sitt til að tryggja að allir hafa jafnt tækifæri til að ná frama í lífinu þó svo að það takmarki að einhverju leyti frelsi sumra.

Hannes gerir greinilega ráð fyrir að neikvætt frelsi sé hið eina frelsi. Ef við samþykkjum aðra túlkun á frelsi getum við þá spurt hvort jákvætt frelsi sé andstætt frjálsu atvinnulífi? Fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnu er svarið einfaldlega nei. Jafnaðarfólk leitast við að tryggja jákvætt frelsi til þess að atvinnulífið hafi örugglega aðgang að hæfasta fólki hverju sinni án tillits til félagslegra aðstæðna og til að tryggja að allir aðilar atvinnulífsins hafi jafna möguleika. Þetta er líka frjálst atvinnulíf þó það sé nokkuð frábrugðið neikvæða frelsinu sem Hannes gerir ráð fyrir.

Samkvæmt rökfærslu Hannesar er þá ekkert "óeðlilegt" við það að atvinnulífið styrki aðra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokkinn eftir því hvernig þeir kjósa að skilgreina "frelsi". Þetta er í raun bara spurning um gildismat styrkveitanda, þ.e. að það hlýtur að teljast eðlilegt að styrkveitandi styrkir þann stjórnmálamann/flokk sem starfar í samræmi við skoðanir hans og gildi.

Það er þó enn eitthvað bogið við þá hugmynd að fyrirtæki geti haft þau áhrif á stjórnmál í lýðræðisríki sem ætlað er að setja valdið í hendur fólksins. Hannes segir "að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið." Hér held ég að "fyrirtæki" sé að fá of mikla yfirnáttúrulega hæfileika í meðferð Hannesar. Félög (e. organisation, þ.e.a.s. fyrirtæki, verkalýðsfélög, stjórnmálaflokka, o.s.frv.) eru yfirleitt skilgreind þannig að tilvist þeirra sé óháð þeim einstaklingum sem starfa innan þess. Með þessu er verið að vísa til þess að innan félags má skipta út einstaklingum eða færa til í starfi án þess að það komi niður á starfsemi félagsins. Það er þó tilhneiging að mistúlka þetta þannig að félagið, sem slíkt, sé framkvæmdaraðili, en ekki einstaklingarnir innan þess. Þ.e.a.s. að félagið er persónugert, að það fær eiginleika einstaklings - félagið getur "gert" hluti. En það er ekki félagið sem "gerir" hlutina. Það eru stjórnendur og aðrir einstaklingar sem taka ákvarðanir um það sem er gert í nafni fyrirtækisins. Fyrirtækið sem slíkt hefur engan vilja heldur lýtur að vilja stjórnenda þess.

Hannes flækir svolítið mál sitt með því að persónugera fyrirtæki (fyrirtækið "vinnur" að einhverju) og í næstu orðum að gera stjórnendur ábyrga fyrir ákvörðunum ("Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila…"). Það er mikilvægt að það sé skýrt hver nákvæmlega það er sem er að styrkja stjórnmálaflokka og í þágu hvers. Ef fyrirtækið, sem slíkt, er að veita styrki og vinna þannig að eigin hagsmunum (þ.e.a.s. ef slíkt væri yfir höfuð hægt) hlýtur fyrirtækið að vera einhvers konar virkur "aðili" í samfélagi sem hefði þá jafnvel réttindi í líkingu við einstakling. Þá er fullkomlega eðlilegt að fyrirtækið fái að vinna í eigin þágu á sama hátt og einstaklingur, t.d. með því að styrkja stjórmálamenn og flokka. Hins vegar, ef fyrirtækið er aðeins samnefnari fyrir stjórnendur þess og hluthafa, þá horfir öðruvísi á málið. Þá eru styrkveitingar fyrirtækja í raun bara hagsmunagæsla ákveðinna einstaklinga. Slík hagsmunagæsla er óeðlileg því hún notfærir fjárhagslegan og félagslegan styrk fyrirtækja sem fáir, ef þá nokkrir, einstaklingar hafa yfir að ráða. Ef ákveðnir einstaklingar geta nýtt sér á þennan hátt styrk fyrirtækja til að hafa áhrif á stjórnmál takmarkar slíkt frelsi óbreyttra einstaklinga til að hafa áhrif á stjórnmál sem hafa ekki yfir slíkum styrk að ráða.

Niðurstaðan er þá þessi: Ef styrkir fyrirtækja til stjórnmálamanna/flokka eru yfir höfuð réttlætanlegir þá hlýtur það að ákvarðast af gildismati og skoðunum styrkveitanda og stjórnmálamanns/flokks hvort styrkveiting þykir eðlileg. Það eru engin ákveðin gildi sem ganga yfir alla og ekkert óeðlilegt að sum fyrirtæki styrki "vinstri" flokka. Hins vegar, er spurning hvort það sé yfirleitt eðlilegt að fyrirtæki styrki stjórnmálamenn/flokka þar sem slíkt getur takmarkað frelsi einstaklinga til að hafa áhrif á stjórnmál í sínu samfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband