Skólar eru ekki fyrirtæki

Aðilar atvinnulífsins hafa verið duglegir að setja fram hugmyndir sínar um nýjar leiðir í menntamálum til að ná nauðsynlegum sparnaðaráformum á þessum erfiðu tímum. Viðskiptaráð birti sínar tillögur í janúar síðastliðnum og nú síðast hafa Samtök Atvinnulífsins (SA) birt sitt innlegg í umræðuna. Áhugi atvinnulífsins virðist sprottið af tvennu. Í fyrsta lagi er menntun undirbúningur fyrir þátttöku í atvinnulífinu og því áhugi atvinnulífsins mjög skiljanlegur og jafnvel æskilegur. Í öðru lagi, virðist atvinnulífið finna sig knúið til að miðla af sinni rekstrarreynslu. Þetta eru jú snillingarnir í hagræðingu - að kreista fram allt það besta úr takmörkuðum mannaflsauðlindum fyrir sem minnstan pening. Þannig virkar það í atvinnulífinu og þannig ætti það að virka í skólum því skólar og menntakerfið sem heild eru í raun bara rekstur rétt eins og hvers kyns fyrirtæki, ekki satt? Séð frá bæjardyrum atvinnufrömuða er þetta því einfalt mál, fækka kennslustundum, fækka kennurum, sameina stofnanir og auka eftirlit allt á þann hátt að gæði og útkomur skerðast ekki neitt - jafnvel aukast. Það eru ýmis galdratæki sem aðilar atvinnulífsins hafa í farteskinu, s.s. stjórnunaraðferðir, eftirlitskerfi og TÖLVUR - mesta galdratæki samtímans. Eins og tölvur hafa stuðlað að hagræðingu í atvinnulífinu geta þær gjörbreytt menntun. Með tölvum er hægt að láta alla nemendur nota eitt og sama eintakið af kennslubókinni. Með tölvum er hægt að láta einn kennara kenna fullt af nemendum. Það er hreint ótrúlegt hvað við getum gert með tölvum.

Ég er að einhverju leyti sammála fulltrúum atvinnulífsins um möguleika tölva í menntun. Það er hægt að gera ótrúlegustu hluti við þær. Hins vegar er spurning um hagræðinguna. Er virkilega hægt að ná fram sparnaði í menntamálum á skömmum tíma með því að nota tölvur eins og haldið er fram? Í skýrslu SA er lagt til að kennsla milli skóla verði sameinuð "með aðstoð fjarskiptatækni". Þetta væri liður í að auka "stærðarhagkvæmni" í skólum og ná þannig fram töluverðum sparnaði. Þetta segir sig nánast sjálft - með þessari notkun fjarskiptatækni ertu með einn kennara sem kennir hópum í 2-3 skólum eða jafnvel fleirum. Einn kennari í stað þriggja - reikningurinn gæti ekki verið einfaldari.

Reynsla og rannsóknir sýna hins vegar að málið er alls ekki svo einfalt. Menntun á lítið sameiginlegt með fyrirtækjarekstri og það er óraunhæft að ætla að ráðstafanir sem virka til hagræðingar í fyrirtækjarekstri virka á sama hátt í menntun. Jamie Robert Vollmer, sem var einu sinni verðlaunaður fyrir að framleiða besta ís í Bandaríkjunum, var einn þeirra sem hélt að skólar þyrftu bara að gera eins hann gerði í ísfyrirtækinu sínu til að umbylta menntun. Hann gjörbreytti afstöðu sinni þegar kennari einn útskýrði fyrir honum muninn á skólahaldi og fyrirtækjarekstri. Fyrirtæki eru tilbúin umhverfi þar sem stjórnendur geta ráðið hvaða hráefni þeir vinna með og hvernig og þ.a.l. stýrt útkomunni að verulega leyti. Skólar hafa ekki þetta val - þeir geta ekki vísað "gölluðu hráefni" frá. Þeirra hráefni er fólk og fólk er misjafnt, breytilegt og óútreiknanlegt. Hlutverk skóla er að tryggja að allt þetta fólk hafi tækifæri til að ná viðunandi námsárangri.

Hugmynd aðila atvinnulífsins um að auka "stærðarhagkvæmni" með notkun upplýsingatækni byggir á hugmyndum um staðlaða verkferla innan fyrirtækja. Staðlaðir verkferlar þjóna þrennum tilgangi. Fyrst er að hægt verði að skipta út starfsfólki án þess að það hafi áhrif á starfsemina, í öðru lagi að koma í veg fyrir tvíverknað innan fyrirtækisins og í þriðja lagi að hafa mælikvarða til að meta árangur. "Stærðarhagkvæmni" á fyrst og fremst við um tvíverknað - við viljum takmarka tvíverknað eins og hægt er og þannig náum við að hagræða. Ef tveir kennarar eru að kenna sama fag í tveimur eða fleiri skólum telst það vera tvíverknaður svo lengi sem við getum hugsanlega látið einn kennara sjá um allt saman. Rökin eru þá þessi: ef allir kennarar eru að nota sömu námsgögn og fara eftir sömu námskrá til að ná sömu markmiðum þá hljótum við að geta sameinað þetta með því að nota upplýsingatækni og náð fram hagræðingu. Það hefur margsinnis verið sýnt að notkun upplýsingatækni í námi krefst verulegs stofnkostnaðar (undirbúningur kennsluefnis, rafræns kennsluvettvangs, o.s.frv.) og viðhaldskostnaðar (símenntun kennara, viðhald búnaðar, tækni- og kennsluaðstoð). Hér er fróðlegur bókarkafli Jewetts þar sem hann sýnir með útpældum reiknikúnstum að til þess að ná fram sparnaði í skólahaldi með notkun fjartækni og tryggja viðunandi námsárangur þurfa skráðir nemendur í námskeiðum að vera um eða yfir 1.000.

Á Íslandi eru ca. 20.000 nemendur í almennu bóknámi eða almennu grunnnámi á framhaldsskólastigi í tæplega 30 skólum. Til að ná fram þeirri stærðarhagkvæmni sem SA leggur til og með hliðsjón af niðurstöðum Jewetts er ljóst að það þyrfti þá líklega að sameina kennslu í einstökum fögum yfir alla þessa skóla. Þar með eru séreinkenni þessara skóla orðin að engu. Skólar eins og Menntaskólinn Hraðbraut, MR, Versló, MA hefðu enga möguleika til að skera sig úr fjöldanum og val nemenda á bekkjarkerfi eða fjölbrautakerfi væri orðið að engu.

Tölvutækni er ekki sú galdralausn í skólahaldi sem hún hefur verið og getur orðið í atvinnulífinu. Skólahald snýst um mannleg samskipti og það er einfaldlega ekki hægt að ætla að tölvur geti komið í staðinn fyrir hæfa kennara og stoðfólk skólakerfisins án verulegrar röskunar. Atvinnulífið á alveg erindi í umræðu um skólamál en innlegg eins og þau sem hér er fjallað um, og verða sífellt algengari, byggjast á grundvallar misskilningi á hlutverki og starfsumhverfi skóla. Atvinnulífið gegnir mikilvægu hlutverki þegar það lætur vita hvaða hæfni og þekkingu nemendur þurfa til að vera gjaldgengir á atvinnumarkaði að loknu námi. Hins vegar, ef atvinnulífið vill koma með gagnlegt innlegg um rekstur skóla þarf það að gera sér grein fyrir sérstöðu skóla og hætta að líta á þá eins og tilbúnar og vélrænar rekstrareiningar atvinnulífsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband