Viðskiptaráð ætti að láta menntamálin eiga sig

Viðskiptaráð gaf nýlegu út sínar tillögur um frekari niðurskurð á opinberum útgjöldum sem á að koma í staðinn fyrir aukna gjaldtöku og skatta hins opinbera. Tillaga númer 8 snýr að menntamálum en þar telur Viðskiptaráð að hægt sé að spara 6 ma. kr. til viðbótar við það sem þegar hefur "sparast" með niðurskurði.

Í tillögum sínum um niðurskurð á grunnskólastigi vill Viðskiptaráð að við horfum til Finnlands til að sjá hvernig er hægt að spara. Það er m.a. stungið upp á að bæði verða "bekkir stækkaðir og fleiri nemendur verða um hvern kennara". Hvort ætli sparast meira af því að stækka bekki eða að fleiri nemendur verði um hvern kennara? Ég er ekki að sjá muninn á þessu tvennu. En ég ætla að leyfa mér að líta fram hjá svona smámunum og horfa betur til Finlands, e.o. Viðskiptaráð mælir með. Í raun er mjög lítill munur á bekkjarstærðum milli Finnlands og Íslands. Skv. Education at a Glance 2009 (OECD) munar aðeins um ca. 1 nemanda á hvern kennara milli Finnlands og Íslands. Hugsanlega væri hægt að jafna þetta og þá sparast einhverjir aurar. Mig grunar þó að þessi munur stafi frekar af strjábýli landsins okkar en viðleitni til að hafa litla bekki. Ef svo er þá er um tvennt að velja, að skerða aðgengi að skóla til muna á tilteknum svæðum á landsbyggðinni eða að þjappa meira á höfuðborgarsvæðinu. Hverju er Viðskiptaráð frekar tilbúið að fórna?

Viðskiptaráð stingur líka upp á að grunnskóli verði styttur um eitt ár, úr 10 í 9 (e.o. var í "gamla daga"). Því er haldið fram að þetta sé í samræmi við nágrannalöndin okkar. Ég er ekki alveg viss hvaða "nágrannalönd" er verið að tala um hér því þetta er einfaldlega ekki rétt. Í Noregi og Danmörku er skólaskylda 10 ár. Í Svíþjóð er skyldan 9 ár en yfirvöldum er skylt að bjóða upp á s.k. "forskóla" (sv. förskola) fyrir 6 ára börn. Skráning í forskóla er nánast sú sama og í grunnskóla sem sýnir að þótt skyldan sé 9 ár er raunin 10 ár. Finnland sker sig algjörlega úr. Þar er skólaskyldan 9 ár og skráning á forskólastigum töluvert minni en í grunnskóla (en er að aukast hratt). Yfirvöldum er þó skylt að bjóða upp á forskóla fyrir 6 ára e.o. í Svíþjóð.

Svo er spurning um hver skólaskyldan sé í raun og veru á Íslandi. Eins og ég hef bent á áður er nú þegar búið að stytta grunnskólann sem nemur rúmlega 1,5 ári. Ef við tökum svo eitt ár í viðbót þá er grunnskólinn kominn niður í 7,5 ár miðað við það sem var í upphafi skólaárs 2008.

Hvað er það svo við Finnland sem gerir það svo heillandi að Viðskiptaráð telur að við getum fylgt þeim í blindni? Þeir hafa jú náð mjög aðdáunarverðum árangri í sínum menntamálum e.o. útkomur úr PISA og TIMSS hafa sýnt. Það þarf þó að hafa í huga að þessi árangur Finna er afrakstur þróunnar sem hófst fyrir ca. 30 árum. Þá byrjuðu þeir að vinna markvisst að því að breyta almennu viðhorfi til menntunar og sérstaklega til kennarastéttarinnar. Í dag er kennarastarfið mjög mikils metið og kennarar mjög vel launaðir. Gífurleg samkeppni er um að komast í kennarastéttina og aðeins þeir hæfustu komast að. Menntakröfur til kennara voru auknar og þurfa kennarar núna að ljúka meistaranámi í háskóla (e.o. er nýbyrjað að gera á Íslandi). Líklegast er það út af þessu sem Finnar hafa getað komið sínum menntamálum í það horf sem þau eru nú. Að fylgja Finnum í blindni án þess að huga að þessum undirstöðum væri hreint glapræði.

Tillögur Viðskiptaráðs um niðurskurð í menntamálum eru byggðar á skammsýni, misvísandi upplýsingum, og hreinum misskilningi. Og athugið, ég fór bara í gegnum grunnskólapartinn! Viðskiptaráð hefði vel getað sleppt þessum æfingum við að koma saman svo ónýtu plaggi (þ.e. menntahlutinn) og frekar gefið peninginn sem fór í það til menntamála.
mbl.is Misráðin stefna í ríkisfjármálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Amen og sammála. Og miðað við ídeólógísku æluna sem lekið hefur út úr þessu batterí undanfarin tíu ár ættu þeir að hafa skömm til að bara zipit í nokkur ár.

ella lee (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband