Hannes Hólmsteinn og Laffer kúrvan

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur hamrað á því í mörg ár núna að tekjur ríkissjóðs hækka þegar skattar eru lækkaðir. Þetta byggist á hugmyndum hagfræðingsins Arthur Laffer sem er sagður hafa rissað upp hugmyndina á servíettu fyrir Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjana. Laffer teiknaði þetta upp sem kúrvu sem átti að sýna að þegar skattar eru 0% eru tekjur ríkissjóðs $0 og þegar skattar eru 100% eru tekjur ríkissjóðs líka $0 því fólk finnur sér leið til að forðast að borga skatta þegar þeir eru svo háir. Svo átti kúrvan á milli þessara púnkta að lýsa því að á ákveðnu sviði er hægt að hámarka tekjur ríkissjóðs með því að lækka skatta - síðan kallað "Laffer áhrif". Ástæðan í einfaldasta máli er að þegar skattar eru lægri er fólk líklegra til að borga sína skatta og að tekjuaukning launafólks skilar sér einnig til ríkissjóðs með ýmsu móti. Það hefur verið sýnt að hugmynd Laffers gengur upp í ýktum dæmum þegar skattar eru mjög háir til að byrja með (fyrir ofan jafnvægispunktinn - sem ég útskýri á eftir) og lækkunin mjög mikil - t.d. ef skattar eru 90% og svo lækkaðir niður í 50%. Hins vegar virðist það ekki ganga upp ef skattar eru hóflegir til að byrja með og lækkunin ekki mikil. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu og ég nefni helstu hér á eftir.

 

Hannes hefur oft notað tvö íslensk dæmi til að sýna fram á "Laffer áhrif". Fyrst er skattlausa árið 1987 áður en skipt var yfir í staðgreiðslukerfið og hitt eru skattar af leigutekjum sem voru lækkaðir úr 40-50% í 10%. Bæði eru dæmin um frekar ýktar lækkanir, en einnig var ýmislegt sem fylgdu skattalækkununum sem hefur vafalaust haft áhrif á greiðslu skatta. Varðandi skattlausaárið, í kjölfarið var tekið upp staðgreiðslukerfi á sköttum, sem var ætlað að auka skil á tekjusköttum. Það þyrfti því að taka tillit til þess ef meta á áhrif skattalækkunarinnar einnar. Varðandi leigutekjuskatta, þá fylgdi því leigubótakerfið sem hvatti leigjendur til að sjá til þess að leigutekjur væru uppgefnar, sem var líka sérstaklega ætlað að auka skil á leigutekjusköttum. Það þyrfti þá líka að taka tillit til þess þegar metin eru áhrif skattalækkunarinnar.

 

Hér er einfalt reikningsdæmi sem sýnir hvað verður um skattatekjur ríkisins þegar skattar eru lækkaðir. Ath. þetta er "raunhæf" lækkun en ekki ýkt lækkun:

 

Ég gef mér að fyrir skattalækkun eru meðal tekjur Íslendinga kr. 4,2 miljónir á ári. Ég gef mér líka að vinnandi einstaklingar á Íslandi eru 20.000

 

Ef tekjuskattur í upphafi er 30% þá skilar það kr. 25,2 miljörðum í ríkiskassan á ári ef allir borga það sem þeir eiga. En Laffer gengur auðvitað út frá því að það eru ekki allir að borga. Segjum þá að aðeins um 75% af skattinum náist. Þá er innheimta ríkissjóðs 17,6 miljarðar á ári.

 

Ef við lækkum skatta í 20% verða ríkistekjur af tekjusköttum kr. 16,8 miljarðar á ári ef allir borga. En segjum að fólk sé enn að svindla þó dregið hafi verulega úr því. Ef við segjum að það náist að innheimta 85% af sköttum þá eru ríkistekjur 14,3 miljarðar á ári.

 

Það vantar því ennþá 3,3 miljarða í að ríkistekjur verði sömu og fyrir skattalækkun.

 

Segjum þá svo að allir launþegar landsins eyða allri tekjuaukningunni sem hlaust af skattalækkuninni og að ríkið innheimti vask af því. Tekjuaukningin var kr. 35.000 á mann. Segjum að allir eyða þessu í lúxusvörur og við reiknum hámarks vask (sem myndi þó aldrei vera í raun) þá fást 171,5 miljónir. Þá vantar ennþá 3,13 miljarða í ríkiskassann til að ná því sem áður var!

 

Ég hef vísvitandi sett dæmið upp á einfaldan hátt miðað við kjöraðstæður fyrir ríkissjóðin. Hagfræðingar myndu reikna þetta allt öðruvísi með breytu sem tekur tillit til teygni (e. elasticity), sem tekur tillit til áhrifa skattalækkana á ýmsar breytur. Í þessu einfalda dæmi gengur hugmyndin greinilega ekki upp. Eflaust hefði skattalækkunin frekari áhrif sem skila einhverjum peningum í ríkiskassan en það er nokkuð greinilegt að það þarf eitthvað mikið að gerast ef skattalækkun sem þessi, ein og sér, á að gefa af sér verulega tekjuaukningu fyrir ríkið.

 

Laffer kúrvan er þó ekki gagnslaus með öllu. Það sem hún sýnir er að það er einhver jafnvægispunktur (skattaprósenta) þar sem hægt er að hámarka skattatekjur ríkissjóðs. Ef skattaprósentan er til hægri við þennan jafnvægispunkt (þ.e.a.s. hærri prósenta) hefur það neikvæð áhrif á innheimtu skatta. Þá er hægt að hakka skattatekjur með því að lækka skatta. Lækkun skatta hefur hins vegar lítið að segja ef skattaprósentan er til vinstri við jafnvægispunktinn. Innheimta skatta eykst ekki frekar en hún verður ef skattaprósentan er við jafnvægispunktinn og tekjur ríkisins lækka í samræmi við skattalækkunina. Hannes hlýtur því að gera ráð fyrir ákveðnum jafnvægispunkt og að hann sé einhversstaðar í nánd við núverandi skattaprósentu ef hann heldur að skattalækkun nú upp á t.d. 5-10% hafi einhver áhrif á skattainnheimtu. Flestir hagfræðingar í Bandaríkjunum telja að jafnvægispunkturinn þar sé nú um eða yfir 60%, jafnvel alveg upp í 70% (frjálslyndir stjórnmálamenn halda því gjarnan fram að jafnvægispunkturinn sé mun lægri, jafnvel niður í 20%, en forðast að sýna hvers vegna hann ætti að vera svo lágur). Jafnvægispunkturinn er breytilegur eftir aðstæðum því það er ekki aðeins skattaprósentan sem hefur áhrif á ákvörðun hans, heldur fer þetta eftir teygni uppgefinna tekna, sem tekur tillit til margra þátta, þ.e.a.s. að hlutir e.o. möguleikar yfirvalda til að tryggja innheimtu skatta hafa líka áhrif. Þá er allavega ein spurning sem Hannes þarf að svara, er jafnvægispunkturinn fyrir Ísland á Laffer kúrvunni virkilega svo mikið lægri en í Bandaríkjunum að breytingar á skattaprósentu um 5-10% munu hafa áhrif á skattatekjur ríkisins? Með öðrum orðum, er Ísland nú öfugum megin á Laffer kúrvunni með tekjuskatt rétt innan við 40%?

 

Að lokum (út af því að einhver á eftir að benda á að þetta er í raun það sem Hannes er að fara) - Það er önnur hlið á Laffer kenningunni sem tengist s.k. framboðshliðar kenningum (e. supply-side) í hagfræði. Þessar kenningar nota Laffer kúrvuna á annan hátt - til að sýna að lækkun tekjaskatts hefur jákvæð áhrif á hagvöxt. Þetta er óumdeilt. Skattalækkanir hafa jákvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega til skamms tíma. Það segir sig sjálft, ef almenningur hefur meiri pening milli handa er meira fjárstreymi í samfélaginu. En þetta hangir allt saman. Spurningin er hvort við séum til í að auka hagvöxt á kostnað ríkissjóðs, því það fer ekki milli mála að, miðað við núverandi aðstæður, hafa skattalækkanir neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs. Besta dæmið um það hvernig skattalækkun hefur jákvæð áhrif á hagvöxt um leið og hún hefur neikvæð áhrif á ríkissjóð eru skattalækkanir Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum 2003. Við vitum hvernig það endaði (eða á eftir að enda...).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er áhugaverð umræða. Þrennt sem rétt er að hnykkja á: Þótt vitanlega reyni fólk frekar að komast hjá skattgreiðslum ef skattar eru mjög háir snýst kenning Laffers aðallega um að ef skattar eru óhóflegir dregur úr hvata til vinnu. Málið snýst aðallega um það en í minna mæli um skattsvik (eða skattvik eins og HHG kallar það reyndar). Eins og þú bendir réttilega á ráðast áhrif skattahækkana og lækkana af aðstæðum, þ.e. því hverju fólk er vant. Því er ólíklegt að til sé einhver einn Laffer punktur. Eins og þú nefnir er mjög gagnlegt að hafa þennan jafnvægispunkt í huga og reyna að átta sig á hvar hann liggur. Það kann hins vegar ekki góðri lukku að stýra að ætla að fara að hafa áhrif á hagvöxt með skattbreytingum. Hagvöxtur er nefnilega ekki markmið í sjálfu sér heldur fyrst og fremst bara mælikvarði á hversu hratt þjóðfélag þróast í átt til sérhæfingar. Því á aðeins að nota Laffer kúrfuna til að hámarka afrakstur ríkissjóðs, ekki til neins annars.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.9.2010 kl. 12:22

2 Smámynd: Tryggvi Thayer

Takk fyrir ábendingarnar Þorsteinn. Gott að fá innlegg hagfræðings.

Tryggvi Thayer, 27.9.2010 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband