Mála sér ímyndaðan heim með upplýsingatækni

Í árdaga upplýsingatæknibyltingarinnar var því haldið fram að tæknin ætti að veita óheftan aðgang að upplýsingum og þannig að leiða af sér betur upplýstann almenning. Raunin er hins vegar allt önnur. Aukinn aðgangur að upplýsingum hefur fært þeim sem vilja hafa áhrif á skoðanir annarra næstum óendanlegt litaspjald af upplýsingamolum sem þeir blanda saman af eigin geðþótta til að mála ímyndaðan veruleika sem best hentar þeirra málstað hverju sinni. Þetta hefur ekkert með "betur upplýstan almenning" að gera.

Á netinu spretta upp samfélög þar sem deilt er um hin ýmsu mál sem einhverjum finnst skipta máli hverju sinni hvort sem er um pólitík, stök fræði, eða nýjustu tölvuleiki. Oftar en ekki eru þessi samfélög mörkuð af tiltekinni skoðun á málinu sem um er rætt. Það virðist sjaldan vera mikil blöndun mismunandi skoðanahópa. T.d. hér í Bandaríkjunum halda íhaldssamir sér á vefjum Fox News og "framfarasinnaðir" á vefjum CNN. Skoðanahópar geta gengið að því vísu að umræðan sem fer fram á hvorum staðnum fyrir sig endurspeglar fullkomlega þann veruleika sem þeir hafa ákveðið að sé til staðar. Í þau fáu skipti sem einhver dirfist að rengja ríkjandi heimsmynd á tilteknu vefsvæði eru þau ummæli fljótlega kaffærð í kommenta-flóði um óþolandi heimsku og veruleikafirringu viðkomandi. Ef það nægir ekki til að losna við aðskotamanninn er litaspjaldið dregið upp og heimsmyndin máluð á ný með tilvísunum í ótal heimildir sem móta svo skýrar línur að jafnvel hýperrealísku málarar 20. aldarinnar eru sem viðvaningar í samanburði.

Við íslendingar höfum verið fljót að tileinka okkur þessa nýju listgrein sem veruleika-myndgerðin er. Á hinum ýmsu vefsvæðum hafa myndast samfélög málara þar sem heimsmyndin er orðin svo skýr að ekki er um hana að efast. Hér á blog.is, eða "moggablogginu" e.o. það er svo oft kallað, eru nokkrir færustu málararnir. Milli þeirra hefur tekist mjög náin samvinna. Samtvinning verka þeirra hefur orðið til þess að við fáum ekki bara glefsur af heimsmyndinni heldur er líka gegnum gangandi söguþráður þannig að myndgerðin hreinlega lifnar við. Sagan segir sig sjálf og þeir sem dirfast að leggja fram efasemdir eru bara vorkunnsöm blind grey.

Nýlega lenti ég inn á bloggi eins forsprakka málara-elítu moggabloggsins, Jóns Vals Jenssonar, þar sem Jón Valur og félagar voru að móta öflugt nýtt verk um það hvort lönd sem höfðu gengið í ESB gætu sagt sig úr því
. Nýja verkið er auðvitað í takt við ríkjandi heimsmynd þar á bæ, sem segir að ESB er alvald sem gleypir í sig allar þjóðir sem þar knýja á dyr. Auðvitað er ekki hægt að segja sig úr ESB, nema að framkvæmdastjórnin og hvert einasta annað land samþykkir úrsögnina. Eins og við vitum öll sem höfum virt fyrir okkur meistaraverk moggabloggs-málarana er ESB á höttunum eftir aðeins einu - þ.e. þessar miklu auðlindir okkar litla lands. Þegar þeir hafa náð að festa í okkur klærnar verður engin undankomuleið - þeir myndu aldrei samþykkja úrsögn! Það væri eins og að gefa frá sér pott af gulli.

Þó svo að Lissabon Sáttmálin, sem var samþykktur 2009, tók loks af skarið varðandi úrsögn landa úr ESB, er í heimsmynd þessara moggabloggara auðvitað óvefengjanleg staðreynd að það er nánast ómögulegt að segja sig úr ESB. Þessi nýja myndsmíð sýnir í raun hversu hæfileikaríkur hópur þetta er. Á litaspjaldinu þeirra eru bara þrír litir: samhengislausir úrdrættir úr Lissabon Sáttmálanum sjálfum, úrelt vefsíða hjá Danska þinginu, og örstutt samantekt um skýrslu "einhvers grísks embættismanns í seðlabanka ESB". Í Lissabon Sáttmálanum segir að samþykki vegins meirihluta aðildarríkja þarf til að samþykkja samninga. Í meðferð heimsmyndamálarana verður þetta ákvæði um að samþykki allra aðildarríkja þurfi til að einstakt land geti sagt sig úr sambandinu. Vefsíðan hjá Danska þinginu er mjög greinilega dagsett 25.07.2008, rúmu ári áður en Lissabon Sáttmálin var samþykktur. Í skýrslu gríska embættismansins segir ítrekað að með samþykki Lissabon Sáttmálans er ekki nokkur vafi að ESB lönd geta tekið einhliða ákvörðun um úrsögn sína. En þessi atriði skipta ekki nokkru máli. Þau eru ekki á litaspjaldi málarameistaranna heldur bara þessar stakar setningar sem vísað er í:

Lissabon Sáttmálinn: "A qualified majority shall be defined in accordance with Article 238(3)(b) of the Treaty on the Functioning of the European Union."
Danska þingið: "A country can indeed leave the EU, but in principle this requires the consent of all Member States."
gríski embættismaðurinn: "that unilateral withdrawal would undoubtedly be legally controversial"

Með sömu aðferð gæti ég hæglega málað heimsmynd þar sem bækurnar "Sjálfstætt fólk" er um fugla og "Kristnihald undir jökli" er um tertur. Gæti verið skemmtilegt en, satt að segja, sé ég ekki tilganginn í því.

Við höfum tilhneigingu til að ídealiséra upplýsingatækni, að gefa okkur að fólk sé betur upplýst með tilkomu upplýsingatækninnar. Raunin er að upplýsingatækni gerir fólki einstaklega auðvelt að einangra sig í sínum skoðanaheimi. Þegar fólk hafði lítið val um hvaða upplýsingum var miðlað til þess var nánast ógert að verða ekki fyrir ólíkum skoðunum. Nú má hæglega ganga í gegnum lífið nánast án þess að vita af ólíkum skoðunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband