Upplýsingatækni og menntun - hvort kemur á undan, hænan eða eggið?

Það er áhugaverð umræða að skapast í tengslum við upplýsingatækni og menntun í þróunarlöndum. Eins og eflaust margir vita hefur hópur við MIT háskólann í Bandaríkjunum undir stjórn Nicholas Negroponte lofað að setja á markað hræódýra ferðatölvu fyrir námsfólk. Tölvan verður ekki seld á almennum markaði heldur verður leitast við að gera samninga við yfirvöld, fyrst og fremst í þróunarlöndum, um magnkaup á tölvum fyrir stóra hópa nemenda, sem hver fengi þá að eiga eigin tölvu. Alls ekki galin hugmynd sem hefur vakið mikla athygli.

En undanfarið hafa fleiri verið að hugsa um upplýsingatækni fyrir þróunarlönd. Microsoft hefur gagnrýnt Negroponte og sína félaga harðlega fyrir það að vera að þróa annars flokks tölvu fyrir þróunarlönd. Þeir vilja frekar ýta undir notkun farsíma í þróunarlöndum og þá sérstaklega öfluga farsíma sem þeir vilja meina að gætu gert flest það sem ferðatölvur Negroponte gera - með Windows stýrikerfi auðvitað.

Núna nýlega hefur svo annar stór aðili blandað sér í málið. Intel hefur núna sett á fót World Ahead verkefnið sitt. Ætlun Intel manna er fyrst og fremst að auka kennaramenntun í notkun upplýsingatæknis í þróunarlöndum.

Hér eru þá komnar tvær andstæðar hugmyndir um hvernig skal koma upplýsingatækni inn í skólastarf í þróunarlöndum. Annars vegar er að láta nemendur tæknina í hendur og hins vegar að láta kennara leiða og ráða ferðinni.

Ég er ekki tilbúinn að taka afstöðu í þessu máli. Reyndar finnst mér báðir aðilar hafa eitthvað til síns máls. En ég spyr ykkur góðir lesendur hvort kemur á undan, hænan eða eggið - nemendurnir eða kennarar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Thayer

Skiptir ekki öllu máli að "við" þykjumst vita hvað MS er að meina. Það sem þeir segja er að farsímavæðingin gengur hraðar í þróunarlöndum en tölvuvæðingin. Og það er alveg hárrétt hjá þeim. Af hverju ættum við þá ekki að framleiða síma sem bjóða u.þ.b. upp á sömu möguleika og tölvur? Það eru reyndar margar ástæður til að gera það ekki sem MS og þeirra félagar virðast reiðubúnir til að líta framhjá. Fyrst og fremst eru svona öflugir símar rándýrir í þróuðum löndum enn þann dag í dag. Hvernig ætla þeir að fara að því að gera svona síma sem er á viðráðanlegu verði fyrir lönd þar sem landsframleiðsla er bara brot af árslaunum forstjóra? Í öðru lagi, hefurðu prófað að nota farsíma til að fara á netið - hvað þá að setja efni á netið? Þessi hugsunarháttur byggir á úreltum hugmyndum um hvað netið er (bara að sækja upplýsingar ekki að búa til og miðla) og gerir lítið úr fólki í þróunarlöndum.

Tryggvi Thayer, 15.5.2006 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband