Menntun kennara á 21. öld: Svar til Sighvats

Þann 7. febrúar birtist einstaklega illa upplýst grein Sighvats Björgvinssonar um menntakröfur sem gerðar eru til kennara og læsi ungra drengja í Fréttablaðinu. Ég ákvað að svara Sighvati og skrifaði grein þar sem ég bendi á hvernig starf kennara og starfsumhverfi hefur breyst - greinin birtist hér fyrir neðan. Ég sendi greinina mína til Fréttablaðsins í von um birtingu en hún hefur enn ekki birst þar þannig að ég birti hana þá frekar hér. Það er sama hvað ritsjórn Fréttablaðsins finnst - mér finnst þetta skipta máli.

Það er þó rétt að benda á að Fréttablaðið birti svargrein eftir Jakobínu Ingunn Ólafsd. sem Sighvatur svaraði svo fyrr í þessar viku - en sú umræða var ekki mjög gagnleg. Jakobína Ingunn snobbar fyrir menntun og Sighvatur sakar menntasnobbara um að vera úr tengslum við raunveruleikann.


Titill: Menntun kennara á 21. öld
Höfundur: Tryggvi Thayer


Sighvatur Björgvinsson gerir menntamál að umræðuefni í grein sem birtist í Fréttablaðinu þann 7. febrúar og beinir athyglinni sérstaklega að auknum menntakröfum sem gerðar eru til kennara. Sighvatur rifjar upp gömlu skóladagana sína "þegar engin kennara okkar [hafði] svo mikið sem grunnpróf úr háskóla" og "Ekki ... [einn einasti nemandi var] úrskurðarður ... lesblindur". Í framhaldinu veltir hann fyrir sér hvers vegna nú sé farið fram á að kennarar hafi ekki bara grunnpróf úr háskóla heldur m.a.s. meistarapróf - að kannski sé verið að gera of miklar menntakröfur til kennara og að vandi skólakerfisins felist í einhverju allt öðru?

Forneskjuleg hugsun Sighvats þykir mér allt að því krúttleg - á sama hátt og mér þótti krúttlegt að hlusta á sögur eldri borgara um löngu liðna tíð þegar ég starfaði sem sjálfboðaliði á elliheimili sem unglingur. Þeir lýstu svo vel einfaldleika fyrri tíma þegar fátt breyttist frá degi til dags og "framtíðin" var bara fyrirsjáanlegt framhald af núinu sem börnin lifðu í. Þetta fólk vissi nokkurn veginn frá ungum aldri hvað það myndi gera í lífinu og þurfti því lítið að velta framtíðinni fyrir sér. Sumir sáu fram á eilíft strit og puð meðan aðrir gátu gert sér vonir um meiri þægindi, en allir áttu það sameiginlegt að óvissan var lítil ef þá nokkur.

Það er sennilega rétt hjá Sighvati að sú var tíðin að kennarar þurftu ekki mikla menntun, enda starfið ekkert sérlega flókið. Hlutverk kennara var í megindráttum tvíþætt. Í fyrsta lagi var að fylgja nokkuð nákvæmum leiðbeiningum yfirvalda um hvað skyldi kennt og hvernig. Í öðru lagi var að sía út þá einstaklinga sem þóttu efnilegir til frekara náms. Að greina lesblindu eða annars konar náms- "blindu" var ekki á þeirra verkalista enda almennt litið svo á að þeir sem náðu ekki tilætluðum árangri, sama hver ástæðan kunni að vera, voru bara latir eða illa gefnir og þeim því stefnt í verkamannastörf eða í besta falli iðnnám. Það er því ekki að furða að Sighvatur muni ekki eftir samnemendum með námsörðugleika. Þeir voru sennilega ekki lengi með honum í skóla. Þeir voru löngu komnir út á sjó, í frystihúsin eða á verkstæðin.

Sighvatur lýsir miklum efasemdum um að kennari þurfi meistarapróf úr háskóla til að geta kennt börnum að lesa. Ég kannast ekki við að krafan um framhaldsmenntun kennara hafi nokkurntíma verið sérstkalega rökstudd með því að þeir verði þá hæfari til að kenna lestur. Ein helsta ástæðan fyrir því að gott þykir að kennarar hafi staðgóða framhaldsmenntun er að kröfur til kennara eru sífellt að aukast eftir því sem samfélagslegar breytingar verða örari. Í dag lifum við á tímum veldisvaxandi breytinga (e. exponential change) og með þeim breytingum ríkir mikil óvissa um framtíðina. Munar þar mestu um þróun upplýsingatækni og sívaxandi upplýsingaflæði samfara henni, auknum fólksflutningum milli heimssvæða, og auknum samskiptum milli ríkja. Allt hefur þetta mikil áhrif á samfélag okkar – Íslendingar eru fjölbreyttari þjóð en áður, ný störf og starfsvettvangar spretta upp, ný tækifæri til vöruútflutninga hafa skapast meðan önnur hafa glatast. Ennfremur virðist ekkert lát á þessum breytingum. Hverjum hefði t.d. dottið í hug fyrir 20 árum að á Íslandi ætti einhver eftir að starfa við að greina efnahagsþróun í sýndarveruleika e.o. nú er hjá leikjafyrirtækinu CCP? Hvaða störf munu þeir sem nú eru að hefja nám gegna eftir 20 ár? Hvernig verður íslenskt samfélag þá? Þetta eru spurningar sem erfitt er að svara. Samt gerum við ráð fyrir að kennarar munu gegna lykilhlutverki í að búa okkar unga fólk undir að vera virkir þátttakendur, stjórnendur og leiðtogar í þessari óvissu framtíð.

Starf kennara hefur tekið miklum stakkaskiptum undanfarna áratugi og gerðar eru töluvert meiri kröfur til þeirra en áður. Er það að miklu leyti vegna þeirra breytinga sem ég nefndi áður en líka vegna þess að þekking okkar á því hvernig fólk lærir er sífellt að aukast og við erum meðvitaðri um menntaþarfir einstaka nemenda og samfélaga. Ný lög um skóla og nýjar námskrár veita kennurum og skólastjórnendum töluvert svigrúm til að sníða menntun að þörfum einstaklinga og samfélaga sem þeir þjóna. Þessum breytingum fylgir mikil ábyrgð og kennarar þurfa að fylgjast grannt með þróun menntavísinda og vera reiðubúinn að bregðast við nýjum aðstæðum. Þær námskröfur sem nú eru gerðar til kennara er ætlað að tryggja að kennarar búi yfir þeirri hæfni og þekkingu sem þarf til að sinna sínu starfi við þessar nýju aðstæður.

Að lokum ber að nefna nemendurna sjálfa. Ungt fólk hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni gagnvart tækninýjungum og öðrum breytingum. Það er fljótt að tileinka sér nýjustu upplýsingatækni og tengdar þjónustur á borð við snjallsíma, spjaldtölvur, samfélags miðla, tölvuleiki o.s.frv. Þessa tækni notar það óspart til að eiga samskipti við jafningja og miðla upplýsingum sín á milli og stuðla þannig að mótun nýs félagsmynsturs og þekkingarsköpunarferla sem eru í grundvallaratriðum frábrugðin því sem áður hefur þekkst. Ungt fólk er sérlega meðvitað um áhrifin sem þessar nýjungar hafa á sitt umhverfi og heimta í síauknum mæli að menntun sé sniðin að þeim veruleika sem þau eru að skapa og lifa í. Þetta setur enn meiri pressu á kennara að sníða nám að gjörbreyttum aðstæðum sem breytast ótrúlega ört. Það krefst mikils hugvits og þekkingar af hálfu kennara til að mæta þessum þörfum og eru auknar námskröfur mikilvægur þáttur í að tryggja að kennarar séu vel undir það búnir að takast á við þessi viðfangsefni.

Það kann vel að vera að ýmis vandamál í menntakerfinu verði ekki leyst með því einu að heimta að kennarar hafi meistaragráðu af háskólastigi. Þó er ljóst að með auknum námskröfum hefur verið stigið mikilvægt skref í menntamálum Íslendinga. Með þessum breytingum hafa kennarar og skólastjórnendur fengið töluvert svigrúm til að bregðast við sífellt örari breytingum í nútíma samfélögum.

Höfundur er doktorskandídat í stjórnun og stefnumótun menntamála við Háskólann í Minnesóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa grein Tryggvi. Allir sem koma í skóla vilja læra. Þannig er (undir)þrýstingurinn frá nemendum meiri en í hina áttina (ef maður hugsar til osmósu). Engir tveir læra eins. Þessvegna verður að einstaklingsbinda lærdóminn og ekki síst þessvegna þarf að sérmennta kennara. Vandinn er síðan að geta fylgt nemendunum, sem eru eiginlega alltaf kynslóð á undan kennaranum, svo asnalegt sem það hljómar og hinsvegar að búa þá undir ferðalagið út í óvissuna með hæfilega byrði af fortíð í farangrinum. Ögrandi og áhættusamt starf.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband