Höfundarréttur, efnahagskerfið og ábyrgð menntakerfisins

against_copyright

Sjóræningjarnir á Pirate Bay eru komnir í slag við finnsku höfundarréttarsamtökin CIAPC. Málið fékk mig til að hugsa enn einu sinni um höfundarrétt og sérstaklega hlutverk höfundarrétarsamtaka, en í þetta sinn velti ég líka fyrir mér hvert hlutverk menntunnar er  í tengslum við höfundarrétt. Samkvæmt gildandi námskrám er höfundarréttur lykilþáttur í upplýsingalæsi. Það er einkum tvennt sem truflar mig: Í fyrsta lagi, hugmyndin að menntakerfið eigi að standa vörð um það sem margir telja vera úrelt höfundarréttakerfi. Í öðru lagi, að höfundarréttarmál eru orðin svo flókin með tilkomu opinna leyfa og svo framvegis, að það er mjög óljóst hvað eigi að kenna skólabörnum um höfundarrétt.
 
Réttast er að taka fram strax í upphafi að ég er ekki óháður aðili í þessari umræðu. Ég er tónlistarmaður og hef sent frá mér slatta af tónlist og ég birti heilmikið ritað efni víða á stafrænu og prentuðu formi. Allt sem ég sendi frá mér er gefið út með Creative Commons leyfi - þ.a.s. að almenningur hefur rétt til að nota efnið eins og það sýnist en ég fer aðeins fram á að það geti heimilda. H.v. sem fræðimaður og tónlistarmaður er það ekki alltaf undir mér komið hvaða heimildir eru settar á efni sem ég bý til - en það er allt önnur umræða sem ég ætla ekki að fara út í hér.
 
Svo ég byrji á sögunni um slag Sjóræninga og CIAPC - Stutta útgáfa sögunnar er þessi: CIAPC setti upp síðu sem líkir eftir síðu Sjóræningjana þar sem myndinni af mikilfengu sjóræningjaskipi er skipt út fyrir drungalegri mynd af sökkvandi skipi. Sjóræningjar vilja meina að með þessu hafi CIAPC brotið á höfundarrétti sínum og eiga því skilið sömu meðferð og aðrir sem brjóta höfundarréttarlög. Lengri sagan er þessi: Síðasta haust gerðist 9 ára stúlka í Finnlandi sek um að hlaða niður einu lagi af Pirate Bay vefnum. Í kjölfarið var tölva stúlkunnar gerð upptæk og CIAPC sækir nú málið gegn foreldrum hennar, sem eru gerðir ábyrgir fyrir brotum barna á netinu í Finnlandi. Þetta gerist þrátt fyrir að söngkonan hafi sagst ekki vilja gera mikið úr málinu og meira að segja benti stúlkunni á að hún gæti hlustað á lagið ókeypis í gegnum Spotify. Sjóræningjar, sem ég held að séu í raun nokk sama um það að CIAPC líki eftir vef þeirra, ákváðu í kjölfarið að sækja höfundarréttarmál gegn CIAPC og nota hvert tækifæri til að vekja athygli á fáránleika málsins. Til dæmis var haft eftir Sjóræningjum í frétt á vísi.is:
<kaldhæðni>Okkur blöskrar þessi framkoma. Fólk verður að skilja muninn á réttu og röngu. Að stela efni sem þessu [útlit vefsíðu Sjóræningja] á internetinu er ógn við hagkerfi heimsins.</kaldhæðni>
Ef undirstöður ríkjandi hagkerfis felast í höfundarréttarlögum sem kveða á um að refsa skuli 9 ára stúlku sem hleður niður einu lagi af Pirate Bay þá er kannski rétt að endurhugsa það hagkerfi. Höfundarréttarsamtök hafa haldið því fram að brot á höfundarréttarlögum verða sífellt tíðari. Þá er vert að spyrja, og að ég held í samræmi við meginhugmyndir ríkjandi kapitalísks efnahagskerfis, er þetta ekki rödd neytandans að lýsa yfir breyttu verðmætamati á höfundarréttavörðu efni? Ef það er rétt sem höfundarréttarsamtök halda fram, þá heyrist mér neytendur vera að hrópa hástöfum að þeir vilja ekki borga fyrir að fá að hlusta á eitt og eitt lag á netinu eða birta ljósmynd á Tumblr síðu, o.s.frv. Höfundarétthafar hafa val - þeir geta breytt sínum háttum til að svara kalli neytenda eða haldið til streitu þvert á vilja þeirra. Fjölmargir hafa kosið að hlusta á neytendur og gefa út efni undir opnum leyfum -t.d. Creative Commonsopin hugbúnaðarleyfi (GPL, BSD, o.s.frv.)- og virðast lifa það af þvert á dómsdagsspár höfundarréttarsamtaka. Það er margt sem bendir til þess að merkilegar breytingar séu að eiga sér stað á þessu sviði og skriðurinn jafnvel orðinn það mikill að ekki verði aftur snúið. Spurning er þá hvort höfundarréttarsamtök eru að heyja vonlausa baráttu við breytingaröfl sem mér sýnist ætla að ganga eins og valtari yfir þeirra staðfasta virki? Ég held að rödd neytandans hljóti að sigra á endanum.
 
En snúum okkur svo að menntamálunum. Í gildandi námskrá um upplýsingatækni og tölvu/upplýsingalæsi er skólum landsins gert að standa vörð um gildandi fyrirkomulag höfundarétta. Eitt helsta markmið náms í tölvu/upplýsingalæsi frá yngstu bekkjum er að nemendur þekki hugtakið "höfundarréttur" og á síðari stigum að þau kunni skil á helstu þáttum höfundarréttarlaga. Þetta kann að virðast nokkuð einfalt við fyrstu sýn, en eins og fyrirkomulag um höfundarrétt er nú orðið flókið, með gildandi lögum og sífelldri endurtúlkun þeirra og öll þau opnu og hálfopnu leyfi sem spretta upp eins og gorkúlur, þá vex þetta um sig. Hvað á eiginlega að kenna skólabörnum um höfundarrétt?
 
Einhverntíma (ég man ekki hvar eða hvenær) las ég eftir einhvern að best væri að kenna börnum að ganga skuli út frá því að aldrei megi nota efni annarra án leyfis. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það eru tímamörk á höfundarrétti og heilmikið efni til sem engin "á" rétt á, þ.e.a.s. að það er opinber eign. Einnig er til mikið efni í dag sem er gefið út með opnu leyfi - þ.e.a.s. að allir hafa heimild til að nota efnið í eigin sköpunarverk. Til dæmis, þegar þetta er ritað eru rúmlega 250 miljónir mynda á Flickr.com vefnum sem eru birtar með opnu leyfi. Og, eins og ég nefndi áður, færist sífellt í aukanna að tónlistarmenn veiti ókeypis aðgang að tónlist sinni og leiti annarra leiða til að afla sér tekna en á sölu eins og eins lags (hljómsveitin Nine Inch Nails verið leiðandi í þessu). Stefnan virðist vera í þá áttina að útgáfa sköpunarverka undir opnum leyfum færist í aukanna.
 
Er það hlutverk menntunar að viðhalda gildandi venjum og normum eða á að mennta fólk fyrir framtíðina? Mér sýnist flestir staldra stutt við í núinu og enn styttra í fortíðinni, en þau losna aldrei undan framtíðinni og ég held þar af leiðandi að svarið sé nokkuð ljóst. Menntun fólks þarf að horfa til framtíðar og ég held að þegar það er gert þjónar það litlum tilgangi orðið að tala um höfundarrétt í þeim skilningi sem hefur verið gert. Við eigum frekar að hugsa þetta út frá rétti neytenda - það er að segja, hver er réttur almennings þegar kemur að sköpunarverki annarra? Gagnvart efni sem er gefið út með hefðbundnum (úreltum?) höfundarleyfum er réttur almennings nánast enginn (og þau litlu réttindi sem eru fara hraðminnkandi með sífelldri endurtúlkun laga). Þegar horft er frá sjónarhorni neytenda er ekki margt sem þarf að kenna um þetta og þá spurning hvort höfundarréttur þurfi að vera jafnstór þáttur í námskrám eins og er núna. Hins vegar, ef við hugsum um leyfismál almennt út frá réttindum neytenda þá eru opin leyfi, creative commons leyfi, og þess háttar mun bitastæðara efni og meira viðeigandi, sem mætti gera betur skil. Ég legg því til að í nýjum námskrám verði allt um "höfundarrétt" skipt út fyrir orðalagi sem miðar að réttindum neytenda frekar en höfunda og að kennsla verði miðuð að því sem almenningur má frekar en því sem hann má ekki. Mér virðist að sé miðað við réttindi neytenda sem felast í mismunandi tegundum höfundarleyfa ætti þá að leggja hlutfallslega mestu áherslu á opin leyfi, creative commons leyfi, og þess háttar. Og að lokum, þá bendir ýmislegt til þess að slík nálgun sé frekar í samræmi við það sem vænta má í framtíðinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband