Hvaðan kemur orðið "hönnun"?

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls.* Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design).** Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

*(viðbætt: 11.05.2015) Hilmar Þór Björnsson, arkitekt fékk leyfi til að endurbirta þessa grein á vefnum Arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Í umræðum þar bendir Sigurður St. Arnalds á grein sem birtist í DV 24. september, 1994, á bls. 16 undir yfirskriftinni Sögur af nýyrðum: Að hanna. Þar er staðfest að fyrirmynd að orðinu "hönnun" megi rekja til rótar orðsins "hannarr" en nefnt annað samróta sem ég hef ekki rekist á, "hanþón", sem ég kíki kannski betur á við tækifæri.

**(viðbætt: 11.05.2015) Ég hef nú lesið umrædda grein. Þar er mjög augljóst að verið er að kynna nýyrði til sögunnar - gerð ítarlega grein fyrir merkingu hugtaksins og hliðstæðu í ensku. Hins vegar er ekkert sagt um hvernig hugtakið hefur verið búið til. Líklega er eins og Anna Rögnvaldsdóttir segir í ummælum fyrir neðan að orðið hafi verið búið til af íðorða- eða nýyrðanefnd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Takk fyrir þessar upplýsingar. Ég velti lengi fyrir mér þessu orði á árum áður,langaði að vita hvernig það væri tilkomið.

Helga Kristjánsdóttir, 9.5.2015 kl. 13:30

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Held þetta sé ekki rétt orð fyrir Design. Merking orðsins þýðir eiginlega sköpun- að búa til eitthvað nýtt. Hönnun þýðir framúrskarandi verklag ef það er dregið af hannirð eða hannirðamaður. "Forskrift" væri miklu nær merkingunni.

Jósef Smári Ásmundsson, 9.5.2015 kl. 19:39

3 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Sæll Trygvi, og takk f. þetta innlegg. Ég man bara þegar ég var unglingur og þetta orð "hanna" kom inn í umræðuna/dagblöðin, þá fór þetta orði i taugrnar á mér. Allir töluðu um að hanna þetta eða hitt. Þetta var nýirði á 7. áratutgnum.

Ég hugsaðí alltaf með mér: af hvrju getur þetta fólk ekki talað um t.d. að skapa eitthvað, búa eitthvað til? Þetta "hanna" fór í taugarnar á mér af því að þetta var nýirði sem ég skildi ekki.

Skv. orðabók Menningarsjóðs er til lýsingarorið hannar. Sem merkir duglegur, listfengur. En í þessari bók finn ég ekki sögn af þessu orði. Heldur ekki nafnorð.

Sem sagt, ég get sagt við þig: Tryggvi, þú ert hannar (t.d. listfengur), og við tengdason minn get ég sagt: Hrannar, þú ert hannar (duglegur).

Íslenskt mál er bara þannig, að það fer í hring. Margt gamalt sem við skiljum ekki, en kemst svo í tísku síðar.

En gangi þér vel með hönnunina. En vel að merkja, þá má alltaf nota önnur orð yfir hönnun: skapa, búa til, o.s.frv.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 10.5.2015 kl. 02:37

4 identicon

Sæll Tryggvi.

Heldur finnst mér þetta langsótt hjá þér.

Ég ætla að forliður orðsins sé 'hand' af 'hönd'
enda gengur það upp án frekari skýringa.

Húsari. (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 10:37

5 identicon

Mjög fróðleg grein. Það kemur manni verulega á óvart hversu gamalt orðið er. Skyldi maðurinn sem skrifaði greinina í Iðnaðarmál hafa smíðað það? Því miður er þetta tímarit ekki á timarit.is en stutt gúggl leiddi í ljós að það var gefið út af Iðnaðarmálastofnun. Sem bendir til þess að greinarhöfundur hafi verið opinber starfsmaður.

Mér finnst líklegt að um miðja síðustu öld hafi þörfin fyrir íslenskt orð fyrir 'design' verið orðin mjög brýn, t.d. meðal arktitekta, húsgagnahönnuða og auglýsingafólks (grafískra hönnuða, iðnhönnuða). 

Margar starfsstéttir komu sér upp nýyrðanefnd til að finna góðar þýðingar á fagorðum. Kannski varð þetta orð til í einhverri slíkri nefnd fagstéttar. En mér finnst líklegra að þessi Iðnaðarmálastofnun hafi leitað beint til hinnar opinberu nýyrðanefndar, sem skipuð var íslenskufræðingum og handritagrúskurum. Að þaðan hafi hugmyndin komið, að nýta þetta afdankaða lýsingarorð hannarr. Mikill meirihluta nýyrða nær aldrei fótfestu í málinu en þetta gerði það, enda prýðisorð og fer vel í samsetningum.

Nei, þetta er ekki rétt hjá þér Húsari. Það er alvitað meðal hönnuða (a.m.k. eldri kynslóðanna) að orðið hönnun er byggt á einhverju fornyrði, ég hef hinsvegar aldrei fyrirhitt neinn sem veit nákvæmlega hvaðan það kemur. 

Anna Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 11:56

6 identicon

Anna! Það er ekki von til að þú hafir hitt neinn
'sem sem veit nákvæmlega hvaðan [orðið hönnun] kemur'
því það er ekki vitað.

Í stað þess að seilast svo langt til lokunnar að
taka til orð úr grárri forneskju hef ég getið mér til
að forliðurinn 'hand' af 'hönd' standi þar að baki.

En sem fyrr sagði þá liggur ekkert fyrir um þetta
svo að mark sé takandi á umfram það sem heilbrigð
skynsemi ætti að geta sagt flestum.

Húsari. (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 14:25

7 Smámynd: Tryggvi Thayer

Húsari - Að hugsa um hönnun út frá handverki einu er mikil einföldun. Það er vert að hafa í huga að greinin sem birtist í Iðnaðarmáli þar sem orðið "hönnun" virðist vera kynnt sem nýyrði er líklega ekki að tala um handverk heldur vöru- og iðnhönnun. Orðið "hannar(r)" í þeim skilningi sem lýst er, þ.e. sem lýsingarorð, er þekkt á 20. öld þannig að þetta er ekki eins langsótt og þú vilt meina.

Anna - Já þetta er mjög áhugavert. Ég gerði nú minnst úr tengingunni við dvergasögurnar, þ.e. dverganafnið Hanarr, en hún er líka nokkuð skemmtileg. Þá er tengingin sú að hönnun eigi eitthvað skylt við töfrasmíðar sem dvergar voru þekktir fyrir í sögum.

Tímaritið Iðnaðarmál er til í Þjóðarbókhlöðu og ég vona að ég komist þangað á morgun til að kanna hvað er sagt um orðið "hönnun" þar. Ég uppfæri þá greinina þegar ég er búinn að skoða það.

Tryggvi Thayer, 10.5.2015 kl. 17:02

8 identicon

Tryggvi! Hvergi stendur í texta mínum að ég miði við
handverk eitt. Gefur auga leið að nýyrði þetta
á jafnt við um huga og hönd. Augljóst!

Húsari. (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 19:39

9 identicon

Tryggvi -- þú ert greinilega ekki af baki dottinn! Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr grúskinu.

Ekki skil ég af hverju Húsara finnst þessi orðsifjaskýring vera "langsótt". Orðið var komið fram 1957 svo það má nánast bóka að þeir sem stóðu að nýyrðasmíðinni séu horfnir yfir móðuna miklu svo ekki geta þeir skorið úr um þetta álitamál.

Hin opinbera nýyrðanefnd var lögð niður fyrir um 20 árum (mér finnst langlíklegast að þetta orð hafi verið smíðað þar) en gögnin hljóta að vera varðveitt hjá Þjóðskjalasafninu. Starfsmenn þar hljóta að geta sagt til um hversu auðvelt er að fletta upp í þeim gögnum, hugsanlega væri það margra mánaða vinna að elta uppi eitt nýyrði.

Svo mætti leita til gamalla brýna úr auglýsingastofubransanum, t.d. Gísla B. Björnssonar og Kristínar Þorkelsdóttur. Kannski muna þau hvernig orðið er til komið, hvaða aðila var á sínum tíma falið að finna orð yfir 'design'. Því orðið varð ekki til af sjálfu sér (eins og Húsari virðist trúa). 

Svo má líka auglýsa eftir upplýsingum! Arkitektar, skipulagsfræðingar og hvers kyns áhugamenn um hönnun lesa blogg Hilmars Þórs Björnssonar arkiteksts á eyjunni. Meðal þeirra leynast kannski menn sem muna þá tíma þegar orðið var glænýtt og geta gefið einhverjar skýringar.

Anna Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 22:20

10 identicon

Sæl aftur!

Það er mér ekki sáluhjálparatriði að fá einhvern til
að skrifa uppá hjá mér hvort ég hafi rétt eða rangt fyrir
mér í einstökum efnum og enn síður þar sem ég veit með vissu
að ekkert liggur fyrir um það hvað liggur til grundvallar
einstökum orðum og ritsjórar orðabóka hafa viðurkennt
formálalaust.

Allt slíkt reginrugl er mér fjarri en mér finnst hins vegar
forvitnilegt að skoða einstök orð útfrá orðsifjum og hljóðkerfisfræði
til að átta mig frekar á hugsanlegri tilurð þeirra.
Vil að þessu tilefni gefnu ráðleggja öllum sem áhuga hafa á slíku
að verða sér úti um slíkar bækur en læt afskiptum mínum af
þessari vitleysu þar með lokið.

Húsari. (IP-tala skráð) 11.5.2015 kl. 00:04

11 Smámynd: Tryggvi Thayer

Anna - Bætti við klausu í lokin um greinina í tímaritinu Iðnaðarmál.

Húsari - Mér hefur verið bent á að ef orðið "hönd" væri fyrirmyndin að orðinu "hönnun" væri ólíklegt að sögnin væri "að hanna" sbr. sagnorð sem augljóslega tengjast "hönd" e.o. "henda" og "afhenda".

Tryggvi Thayer, 11.5.2015 kl. 11:46

12 Smámynd: Tryggvi Thayer

Bætti aftur við greinina og nú er staðfest að orðið hönnun má rekja til rótsins "han" eins og í "hannarr".

Tryggvi Thayer, 11.5.2015 kl. 18:21

13 identicon

Gaman að þessu Tryggvi!

Svo virðist sem Halldór Halldórsson og félagar í Orðabókarnefnd Háskólans hafi verið í stökustu vandræðum með að finna gott orð yfir sögnina "to design". En einn góðan veðurdag mætir Alexander Jóhannesson á fund með nýsmíðað orð: hanna. Sem öllum fannst æði langsótt (byggt á hanþón úr frumnorrænu!) og ekki líklegt til að falla í kramið. En nefndin samþykkti þó þessa tillögu Alexanders enda höfðu engar aðrar komið fram.

Nokkrum árum síðar var verkfræðistofnan Hönnun hf stofnuð, það hefur örugglega átt mjög stóran þátt í koma þessu nýyrði á framfæri við þjóðina og festa það í sessi.

Halldór segir að Alexander hafi þótt djarfur í nýyrðasmíði en nefnir engin önnur dæmi.

Anna Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 09:31

14 Smámynd: Tryggvi Thayer

Og ekki síður áhugavert miðað við velgengni orðanna hönnun og að hanna að "hönn" (hannaður hlutur) skyldi ekki ná að festast. En kannski ekki að furða þar sem hin orðin ná að upfylla þarfirnar. Ég veit ekki um orð í ensku alla vega sem myndi þýða það sama eða svipað og "hönn" átti að merkja.

Tryggvi Thayer, 12.5.2015 kl. 11:54

15 identicon

"Hönn" hlýtur að vera kvenkynsorð: "Þetta er falleg hönn". 

Þjóðin eða kannski öllu heldur fagmennirnir höfnuðu "hönn" og tóku þess í stað upp "hönnun". Kannski út af því að "hönn" fellur illa að nútímamáltilfinningu. Eða jafnvel út af því að þessi örfáu -önn nafnorð í málinu -- tönn, fönn, önn, hrönn -- vísa öll til áþreifanlegra/konkret hluta og koma oft fyrir í fleirtölu.

Fleirtalan af "hönn" er mjög ankannaleg, "hennur" eða "hannir".

"Sá margar skemmtilegar hannir á sýningunni í gær".

"Hannanirnar komu á óvart"?

"Hennurnar komu á óvart"?

Ekki þannig að hið ágæta orð "hönnun" (beygist eins og könnun) sé nokkurntíman notað í fleirtölu.

Enska orðið "design" (no) er oft notað í fleirtölu og hefur í raun víðfeðmari og oft hversdagslegri merkingu en íslenska orðið hönnun. Þegar menn tala um "different fabric designs" meina þeir textíl með mismunandi mynstri/vefnaði. Við myndum aldrei nota orðið hönnun um mynstur eða vefnað sem slíkan en við tölum hinsvegar um fatahönnun. Það er eitthvað við þetta orð sem gefur þrívídd í skyn (eina undantekningin er grafísk hönnun og hún hefur reyndar oft þrívíddareinkenni). Kannski er þetta vegna þess að það voru verkfræðingar sem festu þetta nýyrði í sessi á sínum tíma.

Og það er eitthvað í hugmyndaheimi okkar íslendinga sem bannar okkur að nota þetta orð í fleirtölu.

Við erum með Hönnunarmars. Ekki Hannanamars.

Við segjum: "Þessi búð er með rosalega flotta hönnun". Við segjum ekki, "Það eru rosalega flottar hannanir í þessari búð".

Anna Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2015 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband