Valgerður enn að hugsa um þróunarmálin

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún bregst við nýlegum skrifum Sölmundar Karls Pálssonar um skipulag þróunarsamstarfs. Valgerður lýsir þar hamingju sinni yfir að hafa sannan skoðanbróður í Sölmundi. Það sem mér finnst hins vegar sérlega áhugavert við þessi skrif Valgerðar er að hún skuli sjá ástæðu til að bregðast við skrifum Sölmundar núna rúmlega hálfu ári eftir að skýrsla hennar fólks um skipulag þróunarsamstarfs kom út. Hún sá enga ástæðu til að bregðast við grein sem ég skrifaði örfáum vikum eftir að skýrslan kom út þar sem ég bendi á ýmsa vankanta á skýrslunni og stefnu utanríkisráðherra.

Valgerður segir í grein sinni að skýrsluhöfundar tilgreini tvær leiðir til umbóta í þróunarstarfi en eins og ég benti á í minni grein voru leiðirnar þrjár en ekki tvær. Þriðja leiðin - að þróunarstarf færist allt út úr utanríkisráðuneytinu - fékk hins vegar enga athygli skýrsluhöfunda þó svo að gögn sem þeir telja upp sem stuðningsgögn við gerð skýrslunnar lofi þeirri leið eins og hún hefur verið farin í Bretlandi.

Valgerður segist vona að núverandi utanríkisráðherra taki tillit til breytingatillagna hennar, þ.e. að allt þróunarstarf, þ.m.t. ÞSSÍ, verði fært nær utanríkisráðuneytinu og gerir það að hagsmunamáli þróunarsamstarfs "og þar með þróunarlanda". En í skýrlsunni margumræddu má benda á að eina umfjöllunin sem birtist þar um hagsmuni snýr að hagsmunum Íslendinga, ekki þróunarlanda. Þó er dæmið sett þannig upp að það hljóti að vera gott fyrir Íslendinga að það ríki stöðugleiki í þróunarlöndum sem við viljum auka viðskipti við. En það er ekki annað að sjá en að skýrsluhöfundar eru þeirrar skoðunar að það eru "okkar" hagsmunir sem skulu hafðir að leiðarljósi, ekki þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband