Stefna um upplýsingatækni í skólum

Síðasta stefna menntamálaráðuneytisins um upplýsingatækni var frá 2005-2008. Það er því kominn tími á nýja stefnumótun ef á að halda áfram uppbyggingastarfi sem hefur staðið frá 1996 þegar ráðuneytið gaf út fyrstu stefnuna undir yfirskriftinni Í Krafti Upplýsinga. Ég hef verið að skoðað síðustu stefnu ráðuneytisins og hvað hefur áunnist og verð að segja að niðurstaðan er frekar neikvæð.

Ég hef aðallega skoðað stefnuna 2005-2008 um rafrænt námsefni. Meginmarkmiðin voru þessi:

  1. Auka framboð á stafrænu námsefni sem breytir formi náms - ekki bara að setja gömlu skólastofu gögnin á netið.
  2. Helstu höfundar stafræns efnis eru kennarar - virkja þá áfram og að auka aðkomu einkafyrirtækja.
  3. Auka gæðakröfur um stafrænt námsefni.

Helstu leiðir til að ná markmiðunum eru 3:

  1. Menntagátt
  2. Styrkir menntamálaráðuneytis
  3. Erlent samstarf

Hvernig hefur svo gengið?
  • 1. Menntagátt er stórgölluð. Fréttir á forsíðunni hafa ekki verið uppfærðar síðan nóvember í fyrra. Langflest verkefni sem hafa verið skráð eru lítið áhugaverð með tilliti til 1. markmiðs. Um er að ræða texta sem hefur verið settur á netið. Lítið er um verkefni sem miða að því að virkja nemendur. Margir tenglar eru óvirkir.
  • 2. Nota þróunarsjóð grunnskóla sem dæmi. Í raun virðast frekar fá verkefni sem hafa með upplýsingatækni að gera hafa verið styrkt. Mér sýnist m.a.s. að þeim hafi farið fækkandi með árunum. Vissulega er "vefur" oft nefndur í lýsingum en í flestum tilvikum er vefurinn aðeins ætlaður til birtingar útkomu verkefnis en gegnir ekki mikilvægu hlutverki í þróunarvinnunni. Í 2008-09 úthlutuninni voru aðeins 4 verkefni af þeim 30 sem fengu styrk sem miðuðu að því að skapa eitthvað sem mætti kalla rafrænt námsefni (ég leyfði mér að túlka það mjög lauslega). Þar af er aðeins 1 verkefni sem nefnir kennslufræði og aðferðir í tengslum við notkun upplýsingatækni.

    Einhverjar aukafjárveitingar voru líka til þróunar rafræns námsefnis á tímabilinu sem þessi stefna nær yfir. Sjá má sýnishorn af nokkrum verkefnum sem voru styrkt hér (þ.e.a.s. ef menntagatt.is er að virka - http://www.menntagatt.is/default.aspx?pageid=531). Sum verkefnin eru nokkuð flott. Sum eru virkilega farin að sýna aldur sinn. Sum virðast vera algjörlega horfin af netinu. Það vantaði greinilega eftirfylgni.
  • 3. Íslendingar hafa haft aðgang að ýmsum styrkjum til erlends samstarfs um þróun rafræns námsefnis í gegnum Evrópusambandið og norrænt samstarf. Af einhverjum ástæðum hafa íslendingar ekki verið duglegir að nýta sér þessa möguleika. Á árunum 2004-06 var ESB með eLearning áætlun sem Íslendingar höfðu aðgang að. Skv. skýrslu sem Rannsóknaþjónusta HÍ vann 2005 hafði engin Íslendingur sent inn gilda umsókn. Einhverjir höfðu sýnt áhuga og jafnvel undirbúið umsókn en ekki geta lokið umsóknarferlinu.

    eTwinning áætlunin (http://www.etwinning.net/en/pub/index.htm) var upphaflega partur af eLearning áætluninni en hefur haldið áfram undir Comenius áætluninni síðan eLearning lauk. Það er mesta furða að það er mikill áhugi og mikil þátttaka meðal Íslendinga í þessari áætlun þó svo að hún veiti enga styrki. Í dag eru Íslendingar þátttakendur í 85 verkefnum. Ég býst við að þau séu ekki öll virk en þetta er ansi há tala samt.

  • Það er ekki nema von að framkvæmd Menntamálaráðuneytisins á stefnunni hafi fengið fremur dræmar undirtektir í úttekt Capacent sem kom út 2007. Það er afskaplega lítið samræmi milli markmiða og framkvæmdaraðferða. En hvað fór úrskeiðis? Ég held að Allyson Macdonald hittir naglann á höfuðið í úttekt hennar á menntarannsóknum frá 2005 þar sem hún segir tvennt: að á Íslandi skortir leiðir til að dreifa niðurstöðum starfendarannsókna ("practitioner") á áhrifaríkan hátt. Menntamálaráðuneytið treysti fyrst og fremst á kennara til að stuðla að nýsköpun í notkun upplýsingatækni án þess að huga að því hvernig ætti að miðla reynslu til annarra í faginu - og ath. að úttekt Macdonald kom út sama ár og stefna ráðuneytisins var birt. Það var ekki bara að ráðuneytið skapaði ekki vettvang til að dreifa niðurstöðum, heldur virðist ekki heldur hafa verið nægt svigrúm í starfi kennara til að taka þátt í tímafreku þróunarstarfi. Þetta skýrir e.t.v. hvers vegna eTwinning áætlunin hefur verið svo vinsæl meðan þátttaka í öðrum áætlunum var lítil. Verkefni í eTwinning eru lítil í sniðum og falla vel að starfi kennara að óbreyttu. Það er t.d. engin tímafrek skýrslugerð eða bókhaldsvinna.

    Hver eru þá næstu skrefin? Í raun mætti segja að, alla vega hvað varðar rafrænt námsefni, hafi lítið sem ekkert áunnist á síðustu árum og því mætti formúlera þá stefnu aftur og útfæra á framkvæmanlegri hátt. Það sem þarf helst að hafa í huga er að ef ætlunin er að virkja kennara til þess að leiða og framkvæma þróun og dreifingu rafræns námsefnis þarf að skapa skilyrði til þess að það geti gerst.
    1. Það þarf að tryggja að kennarar hafi næga þekkingu til að sinna því starfi. Eins og er er aðeins einn 4 eininga skyldukúrs um upplýsingatækni í kennaranámi. Kúrsinn snýr meira að notkun upplýsingatækni í daglegu starfi kennara en um þróun framsækinna kennsluaðferða.
    2. Það þarf að tryggja að kennarar hafi svigrúm í sínu starfi til að sinna tímafreku þróunarstarfi. Að búa til áhugavert og framsækið rafrænt námsefni er ekki eins og að henda saman einni powerpoint kynningu. Það tekur mikinn tíma.
    3. Kennarar þurfa að hafa vettvang þar sem þeir geta skipst á upplýsingum og reynslu þeirra af tilraunum með notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Hér áður fyrr voru haldnar árlega UT ráðstefnur sem voru 2ja daga ráðstefnur sem voru nokkuð vel sóttar af kennurum og öðrum sem tengjast skólastarfi. Þetta var svo stytt í einn dag og eiginlega veit ég ekki hvað er orðið af þessu í dag. Í fyrra sagði ráðuneytið frá hugmyndum sínum um að koma upp teymi af svokölluðum UT-leiðtogum í skólum. Eins og Sigurður Fjalar sagði frá á sínum tíma, var ekki sérlega skýrt hvað þessir UT-leiðtogar áttu að vera. Ég veit ekki hvort þetta hafi komist í framkvæmd síðan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband