Færsluflokkur: Evrópumál

Verða hlynntir fleiri en andvígir fyrir lok þessa kjörtímabils?

ThumbupwithEUflag-large
Í könnunum sem þessum þar sem viðhorf er kannað með nokkuð reglulegu millibili er mesta upplýsingagildið í breytingum yfir lengri tíma. Við sjáum á þessari gröf að breytingar milli kannana segja okkur afskaplega lítið. Þar hoppar allt upp og niður og líklegt að þessar smávægilegu breytingar endurspegli frekar umræðu hverju sinni frekar en almennt álit landsmanna. Eins er munurinn milli andvígra og hlynntra hverju sinni lítið áhugaverður þar sem hver slíkur punktur er út af fyrir sig aðeins svipmynd af stöðunni á tilteknum tíma og skortir víðara samhengi. Ferlið frá upphafi tímabilsins sem sýnt er í gröfinni og til dagsins í dag er því aðal fréttin hér og hún er nokkuð áhugaverð. Það er mjög skýrt að fjöldi þeirra sem segjast vera andvígir aðild fer minnkandi meðan fjöldi þeirra sem segjast vera hlynntir fer vaxandi.


Raunin er að á rúmlega 2 árum hefur fjöldi andvígra fækkað um næstum 10% meðan fjöldi hlynntra hefur aukist um ca. 5%.

Ef þessi þróun heldur áfram gætu hlynntir orðið fleiri en andvígir á þessu kjörtímabili.

mbl.is Fleiri hlynntir inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna stunda blaðamenn lélega blaðamennsku?

dumb-reporter-new-york-timesTvær "fréttir" sem ég hef lesið nýlega hafa verið að angra mig. Sú fyrsta hefur farið ört um frétta- og félagsmiðla á vefnum síðustu daga - um að vonda Evrópusambandið ætli að banna kanil og drepa þar með ástsæla kanilsnúð Dana. Hin sagði frá því að "haldið er utan um" rafræna gjaldmiðilinn Bitcoin í gagnaveri í Reykjanesbæ. Báðar eru svo illa upplýstar og misvísandi að þær fá mig til hugsa hvað það sé eiginlega sem nútíma blaðamenn gera, eða telja vera sitt hlutverk í samfélaginu? Svo fussum við og sveium yfir því að tæplega þriðjungur íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns, en ég verð að spyrja - hvert er gagnið þegar lesefnið er svona? 

Kanilsnúðadráp? 
Fyrri fréttin hefur birst á mbl.isvisir.is og dv.is. Engin tilraun virðist hafa verið gerð hjá blaðamönnunum né ritstjórum til að ganga úr skugga um að fréttin sé rétt. Raunin er (og þarf ekki að leita langt til að komast að því) að það er ekkert í reglugerðinni umræddu sem bannar eða takmarkar á nokkurn hátt notkun kanils í matvælum. Reglugerðin takmarkar innihald kúmaríns í matvælum, en það er efni sem finnst í töluverðu magni í sumum plöntutegundum, meðal annars kassíu, sem er sú kaniltegund sem algengast er að notuð er í matargerð. Kúmarín finnst í mjög litlu magni í öðrum tegundum af kanil, þar á meðal Ceylon kanil, sem er líka kallað á ensku "true cinnamon" og þykir fínna og er dýrara en kassía. Svo lítið er kúmarínið í Ceylon kanil að það mætti nota heilu hrúgurnar af því í hvern kanilsnúð án þess að fara upp fyrir leyfileg mörk kúmaríninnihalds. Sem sagt, það eina sem kemur í veg fyrir að danskir bakarar haldi áfram að baka sína dýrindis kanilsnúða er ef þeir neita alfarið að nota ögn dýrara og töluvert betra hráefni. Að Evrópusambandið skuli voga sér að gera okkur saklausu borgurum svona!
 
(Þess má líka geta að kúmarín er notað í rottueitur. Þannig að það mætti svo sem búa til frétt með sömu aðferð og virðist liggja að baki þessarar um að danskir bakarar noti rottueitur í kanilsnúðana sína. Ansi gott skúbb fyrir þá sem þora…)
 
Bitcoin stjórnað frá Íslandi? 
Hin fréttin, sem fjallar um "utanumhald" um Bitcoin, birtist á viðskiptasíðum mbl.is í síðustu viku. Bitcoin er opinn og frjáls gjaldmiðill. Það er ekki "haldið utan um hann" á Ásbrú eða annarsstaðar. Það sem verið er að gera (og er útskýrt í frétt NYT sem mbl.is vísar í) er að einkaaðili hefur sett upp sérhæfðan búnað til að "nema" ný bitcoin, eins og það er kallað. Bitcoin náma er innbyggð í Bitcoin kerfið og er aðferðin sem er notuð til að setja nýtt fjármagn í umferð. Hver sem er getur reynt að nema ný Bitcoin. Þetta virkar þannig að í Bitcoin gagnflæðinu eru kóðar, sem allir hafa aðgang að. Kóðinn er útkoma flókinnar reikniaðgerðar. Sá sem getur fundið út hver nákvæmlega reikniaðgerðin er fær nokkur Bitcoin í verðlaun. Verðlaunapeningarnir eru ekki greiddir út með millifærslu heldur eru nýtt fjármagn í kerfinu. Vandinn er að það þarf gríðarlega reiknigetu til að eiga nokkra von á að leysa dæmið og hver kóði hefur takmarkaðan gildistíma. Þar að auki þyngjast reikningsdæmin í hvert skipti sem eitt er leyst. Þannig er sjálfvirk stýring á því hvað fer mikið nýtt fjármagn í kerfið hverju sinni. Eins og kerfið er byggt upp núna munu á endanum fara um 21 miljón Bitcoin í umferð. Í dag er rúmlega helmingur fjarmagnsins (eða um 12 miljón) komið í umferð. Þetta hefur gerst á 5 árum. Áætlað er að allt fjármagnið verði komið í umferð í kringum 2030. Það er því augljóst að það verður töluvert erfiðara og mun krefjast nánast stjarnfræðilegrar reiknigetu til að nema þau Bitcoin sem eftir eru á þessum 16 árum sem eru til 2030.

Hver tilgangur blaðamanns mbl.is var með hans útgáfu af þessari "frétt" veit ég ekki en honum tekst e.t.v. að ljá henni svona víst-er-Ísland-miðpunktur-alls blæ með þessum einstaka skáldskap.

mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuþing felldi ACTA: Löngu tímabært að endurhugsa höfundarétt.

Í dag felldi Evrópuþingið alþjóðlega samkomulaginu um höfundarétt, ACTA (Anti-Counterfeiting Trade Agreement) með miklum meirihluta atkvæða, eða 478 á móti 39. Áður hafði Framkvæmdastjórn ESB samþykkt samkomulagið. Það er ýmislegt merkilegt sem felst í þessari niðurstöðu.

Í fyrsta lagi, má segja að Evrópuþingið hafi fellt ACTA á heimsvísu. Samkomulagið hefði m.a. hert mjög lög um höfundarétt og refsingar fyrir brot á höfundaréttarlögum. Samkomulagið er stutt af samtökum rétthafa e.o. samtaka rétthafa kvikmynda, tónlistar, hugbúnaðar, lyfja o.fl. Ýmis samtök sem berjast fyrir réttindum almennings til að nota réttindavarið efni hafa barist gegn samkomulaginu, t.d. Læknar án landamæra, sem segja að samkomulagið muni hefta mjög aðgang að nauðsynlegum lyfjum í þróunarlöndum. Áður höfðu 8 lönd samþykkt samkomulagið en áttu eftir að staðfesta samþykkið. Án þátttöku ESB er ljóst að samkomulagið er orðið að engu. Þó svo að hin löndin myndu staðfesta samkomulagið eru ESB löndin það stór hluti af markaðssvæðinu sem það er ætlað að taka til að það myndi aldrei vera hægt að framfylgja reglunum sem því fylgja.

Í öðru lagi hefur Evrópuþingið sýnt það og sannað að lýðræði er til staðar í ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur sagst ætla að leggja samkomulagið aftur fyrir þingið en það er ljóst að það mun ekki skila árangri. Í raun hefur Evrópuþingið málsstað netnotenda um allan heim, en ekki bara í ESB og hefur þannig sýnt að lýðræðisleg stofnun svo stórs markaðssvæðis getur haft töluverð áhrif á þróun heimsmála.

Mér þótti undarlegt að ekkert heyrðist um þessa merkilegu kosningu frá ESB andstæðingum á Íslandi, sem þreytast ekki á því að lýsa ESB sem miðstýrðu peði almáttugs Framkvæmdastjórnar. En svo áttaði ég mig á því að mbl.is hefur ekki séð ástæðu til að segja frá þessari merkilegu frétt. Ætli andstæðingarnir viti nokkuð af þessu þá?

Segja má að höfundarréttur sé einn hornsteinn kapitalísmans. Ég hélt að kapitalístar hlustuðu á markaðinn. Mér heyrist markaðurinn vera að tala. Eru kapitalístarnir að hlusta? Það er löngu orðið ljóst að rétthafar þurfa að endurhugsa sín mál.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband