Færsluflokkur: Tölvur og tækni
14.6.2006 | 13:43
Tölvur og netið sem kennslutæki
Ég er kominn langt út fyrir efnið sem ég ætlaði að tala um. Kveikjan að þessari færslu var frétt um leik sem frönsk yfirvöld hafa sett á netið þar sem almenningi er boðið að búa til fjárlög. Þetta er stórsniðug leið til að kenna fólki um skatta og ríkisútgjöld og fleira. Þetta minnir á "Food Force", leikur sem Sameinuðu Þjóðirnar hafa búið til sem gengur út á það að koma matvælum til bágstaddra. Líka stórsniðugur. Svo er það innreið Eve Online í Kína. Ég man ekki hvar ég las eða heyrði þetta, en mér skilst að þegar leikurinn var kynntur þarlendis ruku kínverjarnir beint í menntamálaráðuneytið og sögðu að hér væri komið briljant tæki til að kenna samvinnu og frumkvöðlastarfsemi!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2006 | 16:51
Hlutleysi á netinu í USA - kemur þetta okkur við?
Og þá býst ég við að sumir segja, uuuu... ha? Bandarísk lög tryggja nefnilega hlutleysi í samskiptatækni eins og t.d. síma. Þeir sem bjóða upp á símaþjónustu mega ekki takmarka aðgang að þjónustu annarra aðila. Þ.e.a.s. símafyrirtæki sem býður upp á upphringisímaskrá má ekki láta viðskiptavini sína borga meira fyrir að nota upphringisímaskrá annars aðila (þeir mega láta borga minna fyrir sína þjónustu en engin aukagjöld fyrir aðgang að þjónust annarra). En þetta gildir ekki um upplýsingaþjónustur. Reyndar var þetta allt saman orðið svolítið flókið þegar farið var að bjóða upp á netþjónustu eftir leiðum öðrum en gömlu símaleiðunum. Bandaríkjamenn byrjuðu t.d. snemma að bjóða upp á nettengingar í gegnum kapalkerfi. Kapalkerfið og allur sá iðnaður var flokkaður sem upplýsingaþjónusta en ekki samskiptatækni. Þannig að það voru mismunandi reglur eftir því hvort þú varst með ADSL eða kapal tengingu. Þvílík flækja!
Sumir hugsa kannski, og hvað með það? Þetta er nefnilega svolítið meira mál en virðist vera. Þetta er ekki bara spurning um að hafa jafn greiðan aðgang að bæði Google og Yahoo. Ef hlutleysi er ekki tryggt geta netþjónustuaðilar farið að ákveða hvernig samskipti fara fram og það eru reyndar dæmi um þetta. Þegar almenningi var farið að bjóðast þráðlaust net á heimilum voru netþjónustuaðilar ekki par ánægðir. Þeir ætluðu nefnilega að stórgræða á háhraðanettengingum í heimahús með því að skylda kúnna til að kaupa sértengingu fyrir hverja tölvu á heimilinu! En þráðlausi búnaðurinn gerði nánast hverjum sem var kleift að setja upp samnýtta tengingu á heimilinu. Sumir netþjónustuaðilar reyndu að halda því fram að þetta væri stuldur (sumir voru búnir að lauma klausu þess varðandi inn í þjónustusamninga sína, sem engin les) og hótuðu málsókn gegn þeim sem þetta gerðu. Svo voru "Vitual Private Network" (VPN) tengingarnar næsti höfuðverkurinn. Með VPN tengingum geta fyrirtæki leyft starfsfólki að tengjast neti fyrirtækisins hvaðan sem er úr heimi þannig að það virkar eins og þeir séu fyrir framan tölvu í vinnunni með aðgang að allri netþjónustu sem því fylgir. Einn netþjónustuaðili var svo ósáttur við þetta að hann lokaði fyrir öllum VPN samskiptum á sínu neti. Eiga netþjónustuaðilar að fá að stjórna þróun upplýsinga- og samskiptatækninnar með þessum hætti?
Í Evrópu er almennt litið svo á að tryggja eigi hlutleysi á netinu. Þetta var sett mjög skýrt fram í Bangemann skýrslunni um upplýsingasamfélagið í Evrópu sem var birt 1993. Mörg Evrópulönd hafa síðan staðfest þetta með lögum. Svo er spurningin hvernig þessu er háttað hér á Íslandi. Ég er búinn að renna í gegnum fjarskiptalögin en þessi "lagíska" er ansi snúinn. En mér sýnist þetta vera nokkuð skýrt í 28. og 30. mgr.
Er þá nokkuð sem við þurfum að hafa áhyggjur af? Vissulega. Það verður að viðurkennast að Bandaríkin eru mikilvægur markaður fyrir upplýsingatækni. Útbreiðsla nýrrar tækni og þjónustu getur ráðist af því hvernig gengur að innleiða nýjungarnar þar. En getum við nokkuð gert? Ósköp fátt held ég.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2006 | 16:14
Netið á Íslandi - í góðu lagi... í bili.
Við virðumst hafa smá forskot hér á landi í netmálum núna, en það er ekki sjálfsagt að við höldum því (Ísland féll úr 2. sæti í 4. í Global Information Technology Report í ár). Grein í BBC í dag fjallar um tæknivæðingu Malasíu og hvernig hún hefur orðið að engu (eða litlu) þar sem upphaflegum áætlunum var ekki fylgt eftir. Tæknivæðing, netvæðing og upplýsinga-/þekkingavæðing er ekki eitthvað sem gerist í eitt skipti á afmörkuðu sviði. Það þarf allt að vinna saman - stefnumótun, menntun, tækni og markaðssetning - og þegar allt kemur saman þarf að halda þróuninni áfram. Þetta er "upplýsinga-/þekkingasamfélagið" í hnotskurn - byggja upp hreyfiafl og svo halda því. Aðgengi að netinu verður stórlega bætt með einföldun gjaldskráa. Við þekkjum örugglega öll fólk sem forðast háhraðatenginga vegna ótta við að falinn kostnaður fari úr böndunum. Núverandi gjaldskrár eru orðnar gamaldags og ástæðulausar.
(ES: Svo á meðan við erum að kippa þessu í lag verðum við að gera eitthvað í sambandi við Farice og Cantat. Er ekki hægt að fá eitthvað af þessum álfyrirtækjum og íslenskum fjölþjóðafyrirtækjum til að borga hluta af þessu?)
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2006 | 13:13
Vegatollur á upplýsingahraðbrautinni, Vefur2006 og fleira
En það er margt áhugavert að gerast í heiminum. Um þessar mundir fer fram WWW2006 ráðstefnan í Edinborg. BBC fylgist vel með og er með viðtöl við Tim Berners-Lee og fleira. Sérstaklega áhugavert er þetta þar sem Tim Berners-Lee talar um hugmyndir netþjónustu aðila hér í Bandaríkjunum um að skipta netinu svo hægt verði að láta upplýsingaþjónustur greiða sérstaklega fyrir að fá forgang á netinu (fáránleg hugmynd að mínu mati og mjög amerísk). Hugsið ykkur ef við þurfum í framtíðinni að bíða eftir að fá upp bloggsíðu fjölskyldunnar út af því að hún tímdi ekki að borga "hraðflutningagjald"! Eða að þurfa að bíða í nokkra klukkutíma eftir tölvupósti frá vinum en að auglýsingapóstur birtist strax. Er nokkur notandi sem vill þetta?
BBC er líka með áhugaverða síðu um þróun mála í Kína og Indlandi þar sem hinir og þessir einstaklingar segja frá því hvernig þróunin er að hafa áhrif á þeirra líf.
Ég er ennþá að bíða eftir að einhver bjóði sig fram til að sponsora ferð mína til Indlands...
19.5.2006 | 13:54
Hver borgar mest fyrir netnotkun?
Markaðsöflin hafa ekki séð sér ástæðu til að veita Afríkulöndum greiðan aðgang að netinu. Fyrst að markaðsöflunum finnst þeir ekki hafa neitt að sækja til Afríku láta þeir Afríku koma til sín og fyrir það þurfa Afríkubúar að greiða allan kostnað. Manni finnst eðlilegt að þegar tölvupóstur er sendur frá Nígeríu til Bandaríkjanna greiðir sendandinn, þ.e.a.s. Nígeríumaðurinn. Hver á þá að greiða þegar Bandaríkjamaður sendir tölvupóst til Nígeríu? Ég vona að allir svari, Bandaríkjamaðurinn. En þannig er það ekki - Nígeríumaðurinn greiðir - og þannig er um mestalla netumferð til og frá Afríku.
Nýlega var svo önnur tilraun til að gera eitthvað í þessu barin niður. Aftur voru það Bandaríkjamenn sem voru þar í fararbroddi. Síðasta haust var seinni áfangi "World Summit of the Information Society" (WSIS) haldinn í Túnis. Annað af tveimur aðalmálum sem átti að afgreiðast var fjármögnun á "The Digital Solidarity Fund" (hitt var "internet governance", þ.e.a.s. hver á að stjórna lénakerfinu). Hugmyndin var að þróuð lönd myndu samþykkja að leggja peninga í sjóð sem skyldi nýttur til að byggja upp samskiptakerfið í Afríku. Peningarnir áttu að koma frá fyrirtækjum sem unnu verkefni fyrir opinberar stofnanir og áttu að nema 1% af heildarupphæð samningsins sem unnið var samkvæmt. Bandaríkjamönnum tókst að kæfa bæði þessi mál kvöldið áður en ráðstefnan hófst. Sjóðurinn er reyndar til en án skylduframlaga frá þróuðum löndum.
Sorgleg saga en sönn. Nánast ótrúleg meira að segja. Það er því engin furða að einn fréttavefur skyldi kjósa að orða fyrirsögnina á þessa frétt þannig, "Afríka rukkar mest fyrir netnotkun". En það er ekki Afríka sem sér um innheimtuna.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.5.2006 | 14:54
Búið að brúa stafrænu gjána?
18.5.2006 | 03:57
Endalaust Web 2.0 bull
Web 2.0 er oftast notað í tengslum við blogg, mynddreifingar vefi, podcasts (sá einhverjar umræður um hvað ætti að kalla þetta á íslensku en man ekki meir), o.s.frv.. Breytingin er helst sú að í fyrstu útgáfunni voru fáir að framleiða upplýsingar fyrir marga en nú geta allir framleitt efni - og mikið af því. Þar af leiðandi er vefurinn víst orðinn félagslegri en áður. En vefurinn átti alltaf að vera svona. Það er mjög skýrt í bók Berners-Lee, Weaving the Web. Og það sem meira er, Berners-Lee var að vinna út frá hugmyndum sem voru settar fram fyrir 62 árum (!!!) í stórmerkilegri grein Vannevar Bush, "As we may think" (sem ég mæli með að allir lesi vel). Þar setur hann fram hugmyndir um tæknivætt upplýsingasamfélag og vefurinn er eitt skrefið í átt að þessu upplýsingasamfélagi, sem er augljóslega félagslegt fyrirbæri. Ég myndi segja að við höfum ekki enn upplifað draum Bush vegna þess að við erum ennþá að reyna að átta okkur á því hvernig upplýsingar og tækni funkera í félagslegu samhengi (meira um þetta hér). Þannig að vefurinn er kannski bráðum að komast út úr beta. Það er ennþá langt í útgáfu 2.0. Svolítið fyrir neðan beltisstað að gagnrýna fyrirtæki fyrir að vera sein að skilja misskilning. Breytir því ekki samt að það borgar sig að fara að reyna að átta sig á þessu upplýsingasamfélagi.
Tölvur og tækni | Breytt 21.5.2006 kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2006 | 13:55
Ef þú ætlar að vinna í upplýsingatækni farðu fyrst til Indlands - STRAX!
Í nýjasta þætti Digital Planet í BBC er rætt við nokkra Indverska bloggara sem eru að gera merkilega hluti. Þeir sem ætla sér að vera í fararbroddi á sviði upplýsingatækni verða að fylgjast með því sem er að gerast í Indlandi. Vill einhver sponsora mig til Indlands?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2006 | 04:54
Björt framtíð fyrir WiMAX
WiMAX, ásamt farsímatækni, hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir þróunarlönd þar sem þetta tvennt krefst ekki landlínu sem er dýr fjárfesting og á mörgum stöðum ekki til staðar. Í tengslum við farsíma er oft talað um svokallaða "stökkþróun" (e. leapfrogging development - N.B. ekki í sama skilningi og hugtakið er oft notað í tengslum við borgarskipulag), þ.e. að þróunarlönd geta komist hjá því að fara sömu leið og þróuð lönd í upptöku samskiptatækni þar sem ekki er þörf fyrir dýrar landlínur og tengdan búnað. Bjartsýnustu menn halda því jafnvel fram að ódýrari og aðgengilegri tækni jafnar leikvöllinn milli þróaðra landa og þróunarlanda. WiMAX gerir stökkþróun enn meira heillandi vegna þess að þá er líka hægt að auka netaðgang með tiltölulega litlum kostnaði.
En tæknin er ekki allt sem þarf. Fólk þarf líka að kunna að nota hana og vita til hvers á að nota hana. Þróunarstarf hefur breyst gífurlega mikið á síðustu áratugum og er miklu meiri áhersla lögð nú á sjálfsstyrkingu, sjálfbæra þróun og að rækta séreinkenni þjóða. Allt er þetta í réttu áttina, en upplýsingatæknin og upplýsingasamfélagið krefjast enn nýrrar hugsunar. Við erum að sjá betur að stökkþróun þarf að ná til þekkingarsköpunar og þekkingarmiðlunar líka, sem breytir ýmsu en er ekki ógerlegt svo lengi sem við vitum af því. Það er kannski ekki fráleitt markmið að "jafna leikvöllinn" og reyndar telur Thomas L. Friedman upp fjölmörg dæmi um slíkt í bókinni The World is Flat. Þetta eru áhugaverðir tímar.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 04:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2006 | 14:28
Er erfitt að nota Linux eða bara öðruvísi?
Spurningin er alltaf sett fram á ca. þennan hátt - Geta Windows notendur skipt yfir í Linux (eða annan opin hugbúnað) án þess að læra allt upp á nýtt? Og ég svara með spurningunni - Af hverju í ósköpunum ættu þeir að geta það?
Málið er það að við hættum að kenna fólki á tölvur fyrir löngu og fórum að kenna á hugbúnað í staðinn. Þegar ég fékk fyrst kennslu á tölvu (fyrir mörgum en samt ekki svo mörgum árum) var mér kennt á tölvu, ekki hugbúnað. Mér var kennt hvernig tölvur virka og hvernig á að gera hluti með tölvu. Alla tíð síðan hef ég reynt að átta mig á því hvernig hlutirnir virka í tölvum frekar en hvernig "eigi að gera hluti" í tilteknu umhverfi. Og ég hef aldrei verið í vandræðum með að skipta um umhverfi, hugbúnað eða annað. Nú til dags er fólki kennt á tiltekinn hugbúnað og lítill tími sem fer í að útskýra hvað er verið að gera og hvers vegna. Af ýmsum ástæðum miðast kennslan oftar en ekki við Windows og MS hugbúnað. En það hefur ekkert með gæði eða einfaldleika hans að gera.
Tölvukennsla í dag virðist gera ráð fyrir að engar róttækar breytingar verði í upplýsingatækni í náinni framtíð. Windows er notað mest, það verður alltaf notað mest og því er best að kenna á það og engin ástæða að ætla að fólk þurfi að vera tilbúið að læra á eitthvað annað. En, svo ég taki nú annað dæmi úr eigin reynsluheimi, þegar ég var fyst að vinna með tölvur með grafísku viðmóti í textavinnslu og uppsettningu ("desktop publishing" var það kallað í þá daga), var Aldus Pagemaker helsta verkfærið í bransanum. Í kringum 1991-2 kom svo nýr hugbúnaður á markaðinn, Quark, sem á endanum gerði algjörlega út af við Pagemaker á mjög skömmum tíma. Margt var öðruvísi í Quark, en það sem gerði yfirfærsluna auðvelda var að notendur Pagemaker höfðu margir einhverja þekkingu úr prentgeiranum og þekktu því hugtökin og starfsaðferðir sem tengdust vinnslunni. Þeir þurftu því ekki að læra á nýtt forrit, bara hvar gömlu skipanirnar voru.
Hlutirnir breytast og þeir geta breyst hratt. Þeir sem læra á tölvur í dag eiga margir erfitt með að yfirfæra sína þekkingu vegna þess að þeim var aldrei kennt að "gera hluti" með tölvu. Þeim var bara kennt á tiltekin forrit. Ekki endilega bestu forritin, bara þau sem voru útbreiddust þá stundina. Nú er ýmislegt sem bendir til þess að algeng forrit eiga eftir að færast á netið. Þetta er mikil breyting og engin leið þessa stundina að vita hver sigrar í þeirri baráttu sem er í nánd. Það er allt eins líklegt að MS missi sína yfirburði með þessarri þróun og hvað gera þeir þá sem eru seinir að skipta yfir?