Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Könnun Vísinda- & tækniráðs um áskoranir framtíðarinnar

samfelagslegar_askoranirVísinda- & tækniráð vill vita hvað þér finnst vera helstu áskoranir framtíðarinnar en ég held að það þurfi að fara öðruvísi að.

Vísinda- og tækniráð Íslands (VTRÍ) opnaði nýlega fyrir könnun um helstu áskoranir Íslands í framtíðinni. Ég er ekki viss um að þessi könnun geri mikið gagn - allavega ekki á þessum tímapunkti. Mikið af minni vinnu og nánast öll mín rannsóknarvinna snýst um framtíðina og sérstaklega hvernig fólk myndar sér hugmyndir um framtíðina og hvernig það notar upplýsingar og gögn sem það hefur um framtíðina. Vandinn með opna könnun, eins og þessa sem VTRÍ er að framkvæma, er að fólk er almennt illa undir það búið að taka þátt í uppbyggilegri orðræðu um framtíðina (og þá er ég að tala um minnst 15-20 ár fram í tímann). Þekking á breytingaröflum er fremur lítil og jafnvel þegar breytingaröflin eru þekkt þá skortir hæfni til að vinna markvisst með og úr slíkum upplýsingum.

Undanfarin 6-8 ár hef ég farið víða um hér á landi og erlendis og unnið með fólki, mest skólafólki (það er sá vettvangur sem ég kýs helst að starfa á vegna þess að það að mennta fólk er eitt mesta framtíðamiðaða verk sem við tökum okkur fyrir hendur sem samfélag), að framtíðamiðaðri og langtíma stefnumótun. Þegar ég var að byrja átti ég til að gefa mér að fólk kynni almennt að hugsa um og vinna með framtíðina. Það er ekki svo fjarstætt enda gerum við mannfólkið það öll og nánast á öllum stundum, að hugsa um og plana framtíðina. Við ákveðum á morgnana hvaða leið og hvernig við ætlum að komast í vinnuna. Við reynum að sjá fyrir okkur hvernig líf okkar verður langt fram í tímann og gerum áætlanir í samræmi við það, t.d. að plana menntun okkar, gera ráðstafanir um myndun fjölskyldu, stofnum fyrirtæki, og svo framvegis. Ef eitthvað er þá mætti jafnvel segja að þessi geta okkar, og tilhneiging, til að hugsa um ókominn tíma er eitt af því sem gerir mannkynið sérstakt í lífríki jarðar.

Hins vegar, er himin og haf milli þess að huga að persónulegri framtíð í tengslum við eigið daglegt líf og þess að gera langtíma áætlanir sem eru ætlaðar að stuðla að farsælli samfélagsþróun. Munurinn er helst sá að þegar við erum að gera áætlanir fyrir okkur sjálf getum við bruðgist við breyttum forsendum nær samstundis án þess að verða sérstaklega vör við allar breytingarnar sem við gerum. Segjum t.d. að ég hafi ákveðið að labba í vinnuna þennan dag. Þegar ég lít út um gluggan sé ég að það er grenjandi rigning og ákveð að taka strætó í staðinn. Þetta er töluverð breyting á áætlunum mínum en ég verð lítið var við smáatriðin vegna þess að ég hef oft tekið strætó í vinnuna og reynslan segir mér að ég get fylgt áætlun sem ég hef notað áður. Það er annað þegar verið er að gera samgönguáætlun fyrir 120.000 manna borg til næstu 10 ára. Þá þarf að hafa í huga hvernig fleiri þættir gætu þróast, t.d.:

  • Hvaða breytingar verða á mannfjölda?
  • Hvernig þróast dreifing byggðar?
  • Hvaða breytingar verða á samgöngutækni?

Þessir þættir eru allir að einhverju leyti háðir ytri áhrifavöldum sem þarf þá líka að huga að, t.d.:

  • Gerist eitthvað fyrir utan landið sem hefur áhrif á mannfjölda á Íslandi?
  • Eru einhverjar fyrirsjáanlegar tæknilegar breytingar sem munu hafa áhrif á byggðarþróun?
  • Eru einhverjir aðilar út í heimi að þróa tækni sem mun leiða til byltingar í samgöngutækni?

Undirliggjandi í allri framtíðahugsun er kerfisleg hugsun (systems thinking, systems theory), það er (í mjög svo stuttu máli), ef eitt breytist, þá veldur það breytingu annarsstaðar í kerfinu, sem veldur annarri breytingu, og svo framvegis. Munurinn á því að vinna með eigin framtíð og framtíð annarra er að með eigin framtíð erum við mest að vinna með innri kerfi, þ.e. að við stjórnum breytum og ferlum í kerfinu að mestu sjálf. Þess vegna getum við brugðist hratt við þegar forsendur breytast - við ráðum ferðinni. Þegar við erum að gera áætlanir sem varða framtíð annarra eru það flókin ytri kerfi sem hafa mest áhrif. Oftar en ekki eru þetta kerfi sem viðkomandi, þ.e. þeir sem eru að gera áætlanirnar eða að móta framtíðarsýn, geta haft lítil eða engin áhrif á. Viðkomandi þarf því að hafa skilning á því hvernig þessi ytri kerfi bregðast við þegar breytingar verða til að geta gert raunhæfar áætlanir (slíkar áætlanir gætu hugsanlega falið í sér að valda kerfisbreytingu sem kallar þá á enn meiri innsýn í virkni kerfisins - en það er önnur umræða).

Ég er þeirrar skoðunar að framtíðamiðuð starfsemi á alltaf að byggjast á samstarfi. Það er einfaldlega óraunhæft að ætla að einstaklingur, eða jafnvel tiltölulega þröngur hópur einstaklinga, geti haft yfirsýn yfir alla þá þætti sem geta mögulega haft áhrif á framtíðina. Hins vegar þarf að tryggja að þeir sem koma að verkefninu skilji hvað það felur í sér. Þar liggur vandi VTRÍ, sérstaklega þegar almenningi er boðið að koma að verkefninu án undirbúnings. Það er lítil ef nokkur áhersla á framtíðar- eða kerfislega hugsun í skólakerfi okkar. Allavega er hún ekki næg til að geta gert ráð fyrir að almenningur hafi þá þekkingu sem þarf til að koma að þessu verkefni. Mín reynsla, sem er orðin töluverð að ég tel, segir mér að eins og þessi könnun VTRÍ er framkvæmd, á hún ekki eftir að varpa ljósi á áskoranir framtíðarinnar, heldur mun hún í besta falli undirstrika hverjar eru áskoranir nútímans (það er í dag og næstu ca. 5 árin). Það er ekki vegna þess að ég tel almenning skorta framtíðarsýn, heldur vegna þess að almenningur hefur ekki fengið nægilega þjálfun í kerfislegri hugsun, sem er forsenda þess að verkefni eins og þetta skili gagnlegum niðurstöðum.

Ég fagna því að VTRÍ bjóði almenningi að koma að þessu mikilvæga verkefni og hlakka mjög til að sjá hverjar niðurstöður verkefnisins verða. Hins vegar, held ég að þessi könnun sé ekki rétta leið til að fá innlegg almennings. Áður en almenningur er spurður um áskoranir framtíðarinnar þá þarf að fara fram samtal um hver raunveruleg staða tækniþróunar er í dag (fæstir vita t.d. á hvað stigi þróun gervigreindar og vélmenna er) og hvernig áhrif slík þróun hefur. Ég hef t.d. oft spurt þá sem hafa verið á námskeiðum eða í vinnustofum hjá mér hvaða áhrif þeir telja að sjálfakandi bílar munu hafa á menntun. Svörin eru nokkuð fyrirsjáanleg: ferðir í og úr skóla verða einfaldari, tími sem fer í samgöngur nýtist betur, og svo framvegis. Sjaldnast (held ég aldrei) hugar fólk að þeirri tækni sem þarf að þróa til að sjálfakandi bílar verði að veruleika og áhrif hennar, sem mætti segja að eru óbein áhrif sjálfakandi bíla. Þar má t.d. nefna gervigreind, rýmisskynjun (-vitund) tækni, rafgeyma, netsamskipti milli tækja, og margt fleira. Ef við lítum bara á gervigreindina, þá er ljóst að gervigreind sem verður þróuð til að gera sjálfakandi bíla að veruleika nýtist ekki bara í samgöngur. Hún kemur til með að dreifast um samfélagið og nýtast í allt mögulegt, þar á meðal í menntun. Til að koma auga á þessa möguleika þarf meira innsýn í tækniþróun og breytingarferla en flestir hafa.

(Upphafleg drög að greininni voru miklu lengri og ítarlegri. Ég skar verulega niður til að gera þetta aðgengilegra (og svo að fólk nenni að lesa þetta...). Ég er meira en til í frekari umræðu um þetta í kommentum...)


Af hverju þurfum við þráðlaus net í skólum?

- Að fórna öllu því góða sem fylgir aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi á grundvelli veikra raka örlítils hóps manna, sem virðist staðráðinn að sýna fram á skaðsemi þess þvert á meirihlutaálit vísindasamfélagsins, væri glapræði. -

TinFoilHatAreaOnlyNýlega hélt Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík ráðstefnu undir yfirskriftinni Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun. Fjórir af sjö fyrirlesurum á ráðstefnunni fluttu erindi um skaðsemi örbylgjugeislunar sem eru í hrópandi ósamræmi við ráðleggingar eftirlitsstofnana og meirihluta vísindasamfélags.

Þessi fámenni hópur heldur því fram að efasemdir um mat vísindasamfélagsins og eftirlitsaðila, sem eru mest þeirra eigin, sýna fram á vafa sem nægir til að krefjast algjörs banns á notkun þráðlausra neta í skólum. Á ráðstefnunni var engin fyrirlesari sem útskýrði eða studdi málstað vísindasamfélags né eftirlitsaðila þótt af mörgum væri hægt að velja. Ég held því að óhæft sé að kalla þetta ráðstefnu, í vísindalegum skilningi. Þetta hljómar meira eins og predíkun - og heyrist það hafa verið raunin af fréttaflutningi (tek það fram að ég mætti ekki).

Burt séð frá því hvort við eigum að kalla þetta vísindalega ráðstefnu eða eitthvað annað þá held ég að ráðstefnuhaldarar hafi gert mikil mistök með því að blanda saman umræður um skjátíma og örbylgjugeislun. Eða kannski var það með ráðum gert til að rugla umræðuna. En þetta tvennt er gjörólíkt - ekki bara efnislega heldur líka í hugum fólks. Ég hef t.d. séð ummæli frá fólki sem sótti ráðstefnuna sem heldur því fram að ráðstefnan var fyrst og fremst um skjátíma. Það virðist hafa misst af þessum 4 af 7 fyrirlesurum sem gerðu örbylgjugeislun að sínu aðalumræðuefni.

En það er ekki ætlun mín að ræða hér um örbylgjugeislun né skjátíma þótt þar sé af nógu að taka. Ragnar Þór Pétursson hefur skrifað ágæta grein um málið og ég skrifaði fyrir nokkru stuttan pistil um það sama.

Það sem ég vil fjalla um hér varðar kröfu sumra um að "leyfa börnum að njóta vafans" (ef einhver er) og banna þráðlaus net í skólum landsins. Þetta er augljóslega markmið ráðstefnuhaldara og það sem fyrirlesarar hafa kallað eftir.

Í umræðum á samfélagsmiðlum eftir þessa ráðstefnu sést að lítill hópur hefur tekið upp málstað ráðstefnuhaldara og fyrirlesara. Þeir eru ekki allir sammála hversu langt eigi að ganga. Sumir vilja banna þráðlaus net, sumir öll snjalltæki, sumir virðast ekki sjá nokkurn tilgang í því að nota upplýsingatækni í skólum yfir höfuð (allavega ekki í yngri bekkjum og leikskólum). En öll eiga þau það sameiginlegt að vilja takmarka mjög notkun upplýsingatækni í skólum miðað við það sem nú er og stefnt er að. Rökin er tvenns konar. Annars vegar að forða börnum frá örbylgjugeislun (sem er e.o. ég hef sagt ekki það sem ég vil ræða hér) og hins vegar að upplýsingatækni, og þá sér í lagi far- og snjalltækni, gerir lítið sem ekkert gagn í skólum. Það er þetta síðara sem ég vil ræða.

Í einum Facebook hópi sagði einn viðmælandi, "Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að börn á leikskólaaldri þroskist betur með snjalltæki eða fái aukin lífsgæði með þráðlausu neti." Þetta virðist vera í samræmi við það sem margir sem vilja úthýsa upplýsingatækni úr skólastarfi eru að hugsa. En í þessum ummælum felst mikill misskilningur á bæði menntavísindum og skólastarfi almennt.

Það er sennilega rétt að það eru engar "vísindalegar sannanir" fyrir því að börn læri betur eða meira með snjalltækni. Við höfum heldur ekki óyggjandi vísindalegar sannanir fyrir því að nemendur læri stærðfræði af stærðfræðikennurum. Hins vegar eru mjög sterkar vísbendingar að eitthvað samband er þar á milli. Og þetta á við um öll menntavísindi.

Í menntavísindum, ef við ætlum að sanna að einhver tækni eða kennsluaðferð hafi tiltekin áhrif á nám, þurfum við að sýna fram á beint orsakasamband milli orsakavaldans og afleiðingarinnar. Við þurfum þá að útiloka að aðrir þættir í umhverfinu hafi áhrif á breyturnar sem við teljum okkur vera að mæla. Þetta getum við ekki í menntavísindum.

Nám fer fram í umhverfi þar sem eru fjölbreyttir og margþættir kraftar að verki: nemendur eru ólíkir, kennarar eru ólíkir, áreiti í umhverfinu virka misjafnt á fólk, o.fl. Við getum ekki einangrað þær breytur sem við viljum mæla frá öllu hinu og getum þess vegna aldrei sýnt fram á beint orsakasamband. Möguleikinn er alltaf fyrir hendi að útkoma úr tilraunum sé vegna einhvers annars, eða samspils við eitthvað annað, en þess sem við erum að reyna að mæla. Það er því óraunhæft að krefjast vísindalegra sannana á áhrifum tækni á námsárangur.

Þótt við höfum ekki vísindalegar sannanir til að styðja við varðandi notkun upplýsingatækni í skólastarfi, þá höfum við þó nokkra reynslu sem gefur okkur ástæðu til að ætla að hægt sé að bæta skólastarf með þessari tækni. Eins og ég sagði áður þá fer nám fram í flóknu umhverfi og að sýna fram á kosti eða galla er ekki eins og að leggja saman 1+1 og fá 2. Raunin er að innleiðsla tækni eins og þráðlaus net, spjaldtölvur eða snjallsíma þar sem það á við, gerir okkur kleift að gera ýmsa hluti sem samræmast námskenningum en var ekki hagkvæmt að gera án tækninnar. Til dæmis:

  • Einstaklingsmiðað nám: Þetta er frábær leið til að mæta þörfum nemenda en nánast óframkvæmanleg þegar þú ert með einn kennara í skólastofu með 20 nemendum. Þegar hver og einn einstaklingur getur verið að vinna með eigið tæki verður þetta hins vega mun raunhæfara.
  • Verkefnamiðað nám: Með fartækni geta nemendur unnið margþætt verkefni sem reynir á og þjálfar alls kyns hæfni. Þar sem þau eru ekki bundið við einn stað geta þau nýtt sér umhverfið í tilraunir, myndatökur og fleira.
  • Skemmtilegt nám: Börn geta lært margt af leikjum og þeim finnst það oft skemmtilegra og þeir halda betur athygli þeirra en margar aðrar aðferðir.
  • Nám með öðrum: Með tækni er hægt að tengja nemendur á ýmsan hátt svo þau læri með og af öðrum, jafnvel nemendum í öðrum löndum.
  • Samsvörun skóla og samfélags: Hlutverk skóla okkar er að undirbúa nemendur fyrir fullgilda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Til að ná þessu markmiði þarf skóli að endurspeglar samfélagið sem hann þjónar og horfa til framtíðar nemenda. Far- og snjalltæki og möguleikarnir sem þau bjóða upp á eru þau öfl sem eiga eftir að móta framtíðina, þ.e. framtíð nemenda okkar.

Með áframhaldandi tækniþróun bætast við enn fleiri möguleikar. Nú eru nemendur í íslenskum skólum að kynnast alls konar áhugaverðum stöðum og aðstæðum í gegnum sýndarveruleika. Þau stunda lausnamiðað nám sem þjálfar rök- og algóritmíska hugsun með því að forrita vélmenni. Þetta eru hlutir sem gera nám áhugaverðara og skemmtilegra þannig að börn eru ekki bara viljug til að læra heldur eru þau spennt fyrir því. Þetta eru hlutir sem væri ekki hægt að gera án fartækni og þráðlausra neta.

En það er ekki bara tækjanotkun nemendana sjálfra sem bætir nám - líka notkun kennara. Með fartækni og þráðlausum netum hafa kennarar aðgang að margvíslegu kennsluefni sem þeir geta deilt með nemendum. Þeir geta safnað gögnum um nám og árangur nemenda á nýjan hátt og fengið þá betri innsýn í hvað nemendur eru að læra og hvernig er best að aðstoða þá.

Þegar við ákveðum að úthýsa tiltekna tækni úr skólum þá þurfum við að hugsa það dæmi til enda og hafa í huga allt sem hverfur með þeirri tækni. Tökum t.d. skriffæri. Segjum sem svo að við ákveðum að banna skriffæri vegna þess að börn geta stungið sig á þeim og þau trufla skólastarf þar sem nemendur eru að nota þau til að teikna skopmyndir af kennurum og senda skilaboð sín á milli. Hvaða áhrif hefði slíkt bann á skólastarf? Það væri ekki bara að nemendur geta ekki lengur skrifað glósur. Við þyrftum t.d. líka að hætta með skrifleg próf. Þá væri eini möguleikinn að vera með munnleg próf. Heill bekkur nemenda getur ekki tekið munnlegt próf samtímis þannig að þá raskast allar tímaáætlanir vegna þess mikla tíma sem fer í prófin. Og svo framvegis.

Að banna þráðlaus net í skólum í dag myndi takmarka svo mjög notkunarmöguleika upplýsingatækni í skólastarfi að ég leyfi mér að fullyrða að það myndi setja skólaþróun aftur um minnst tvo áratugi. Flest af því sem ég nefni fyrir ofan væri ógerlegt og annað ill framkvæmanlegt. En sumir segja að það er einhver vafi varðandi skaðsemi örbylgjugeislunnar og að börn verði að fá að njóta vafans. Ég held að það fólk skilji illa vafann. Það er innbyggt í eftirlitsstaðla að við fáum að njóta vafans, ef einhver er.

Sumir virðast halda að viðmiðunarmörk sem eftirlitsaðilar styðja við séu hættumörk. Þau eru það ekki. Hæstu leyfilegu viðmiðunarmörk eru aðeins 2% af þeim mörkum sem talið er að geislunin geti mögulega haft skaðleg áhrif. Í skólum í dag þar sem er þráðlaust net og far- og snjalltæki í notkun er geislunin vel innan viðmiðunarmarka.

Raunin er að það mætti líklega lækka viðmiðunarmörk töluvert án þess að það gæfi ástæðu til að banna notkun þráðlausra neta í skólum. En við stillum ekki viðmið út frá því sem við viljum hverju sinni. Við stillum þau í samræmi við viðurkenndar vísindalegar niðurstöður rannsókna og prófanna. Þeir aðilar sem fluttu fyrirlestra um örbylgjugeislun á ráðstefnu Foreldrafélags leikskólabarna í Reykjavík eru á skjön við vísindasamfélagið. Vísindasamfélagið og eftirlitsstofnanir um allan heim hafa ályktað að okkur stafar ekki hætta af þráðlausum netum sem eru í notkun í dag né af þeim tækjum okkar sem tengjast þeim.

Að fórna öllu því góða sem fylgir aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi á grundvelli veikra raka örlítils hóps manna, sem virðist staðráðinn að sýna fram á skaðsemi þeirra þvert á meirihlutaálit vísindasamfélagsins, væri glapræði.

 


Samfélagsmiðlar og kvíði: orsakasamband eða fylgni?

The-Joy-of-Social-MediaÁ vef visir.is í dag blasir við þessi fyrirsögn í stóru letri: Mikil notkun samfélagsmiðla gerir ungar stúlkur þunglyndar. Það væri óskandi að við myndum geta neglt niður hvað það er sem veldur þunglyndi stúlkna en það er ekkert um þessa rannsókn sem bendir til þess að það hafi verið gert. Hér virðist blaðamaður búa til orsakasamband, það er að eitt leiði til annars, úr fylgni, það er að tvennt á sér stað við svipaðar aðstæður. Um leið afskræmir blaðamaður vísindalegar niðurstöður þessarar gagnlegu rannsóknar.

Í greininni kemur fram að það mælist fylgni milli kvíða stúlkna og notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Fylgni er ekki það sama og orsakasamband og það er langt stökk þarna á milli. Það er mjög erfitt að sýna fram á orsakatengsl í félagsvísindum. Til þess að sýna örugglega fram á orsakasamband þarf að útiloka allar breytur sem gætu mögulega haft villandi áhrif á niðurstöður. Í félagsvísindum erum við að díla við fólk í margþættu og flóknu félagslegu samhengi. Það er nánast útilokað að við getum einangrað tilteknar breytur til að sýna fram á orsakasamband.

Þar sem niðurstöður þessarar rannsóknar virðast sýna fylgni en ekki orsakasamband þá getum við ekki verið viss hvort tilfellið sé að mikil notkun samfélagsmiðla sé orsök eða afleiðing kvíða ungra stúlkna. Það gæti jafnvel verið að eitthvað annað sem ekki hefur greinst í rannsókninni hafi þarna áhrif.

Það verður að teljast mjög óábyrgt af fjölmiðli að birta frétt sem afskræmir staðreyndirnar svona svakalega. Samfélagsmiðlar eru að mörgu leyti mjög gagnlegir í persónulegu lífi fólks, starfsþróun og námi og mikilvægi þeirra á öllum þessum sviðum eykst stöðugt. Svona villandi fréttamennska getur orðið til þess að við fórnum öllu þessu góða og gagnlega á röngum forsendum.


Helvítis snjalltækin að gera út af við íslenskuna!

frettabl_snjalltÁ forsíðu Fréttablaðsins í dag birtist stórfrétt undir yfirskriftinni "Snjalltækjabörn líklega seinni til máls".

OMG! Beint inn í Faraday búr með þessi litlu grey!

Eða hvað… Það er margt undarlegt í þessari umræðu þegar nánar er skoðað.

Fyrst er það þessi furðufyrirsögn á forsíðu blaðsins. Það er ekkert í grein Fréttablaðsins né öðru sem er vísað í sem styður þessa fullyrðingu sem þar birtist. Haft er eftir Eiríki Rögnvaldssyni að það sé tilfinning margra:

"að áhrif snjalltækja og tækni séu mikil á máltökuna en engar rannsóknir séu til um það."

Með öðrum orðum, mörgum finnst eins og það sé orsakasamband þarna á milli en við vitum ekkert með vissu, hvað þá að við vitum nokkuð um líkurnar að svo sé.

Svo segir á bls. 10 í blaðinu og í netútgáfu greinarinnar:

"Aukin notkun snjalltækja hefur hættur í för með sér fyrir íslenskuna. Annars vegar er hætta á að snjalltækjavæðingin dragi úr mállegum samskiptum barna og fullorðinna…
Svona hefst grein Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors í íslensku, um snjalltækjavæðingu og máltöku íslenskra barna sem birtist í vefritinu Hugrás."

Svona hefst grein Sigríðar reyndar ekki, heldur hefst hún svona:

"Aukin notkun snjalltækja er að ýmsu leyti jákvæð en hún hefur einnig hættur í för með sér fyrir íslenskuna."

Best að taka allt jákvætt út. Hér á greinilega að gera snjalltækin að óvini #1.

Það er ekki bara þessi grein í Fréttablaðinu sem er athugaverð heldur er líka margt einkennilegt í grein Sigríðar sem er vísað í. í raun er svo margt að ég veit ekki alveg hvar skal byrja:

  • Er Sigríður að tala um snjalltæki eða netnotkun? Þetta er mjög óljóst á köflum.
  • Er vandamálið að notendur sækja í efni á ensku eða að þeir hafa ekki kost á að fá efnið á íslensku?
  • Eru snjalltæki eina ógnin eða ættum við að hafa erlent sjónvarp, aukna ferðamennsku, samfélagsbreytingar og annað sem hefur áhrif á málaumhverfi íslenskra barna í dag með í þessari umræðu?
  • Skiptir máli til hvers er verið að nota snjalltæki/net eða fer þetta bara allt undir einn hatt?

Svo er það þessi stórkostlega mynd sem fylgir greininni hennar Sigríðar sem hún lýsir svo:

"Myndin hér að neðan segir meira en mörg orð. Foreldrarnir eru báðir með hugann við spjaldtölvuna og barnið liggur afskiptalaust á milli þeirra. Við þessar aðstæður fara engin málleg samskipti fram."

Þessi uppstillta mynd segir mér hins vegar ekkert - ekki einu sinni eitt orð, hvað þá mörg.

parents_ipads

Fyrir það fyrsta spyr ég, væri betra ef þessir foreldrar væru með bækur í höndunum frekar en spjaldtölvur? Hitt er að við vitum ekkert hvað þessir foreldrar eru að gera. Kannski eru þau að lesa leikrit fyrir barnið og skipta með sér hlutverkum. Kannski eru þau að lesa um gagnlegar hreyfingaæfingar fyrir barnið. Kannski eru þau að lesa nýju ritreglurnar til að tryggja að þau kenni barninu rétt þegar þar að kemur.

Það er hægt að gera ótal margt með snjalltækjum sumt gott, sumt slæmt, sumt líklega á gráu svæði þar á milli. Það er óþarfi að gera þau að sökudólgi í þessari umræðu þegar er af nógu öðru að taka.


Listamannalaun og gildi óheftrar sköpunar

seurat_childÞessi umræða um listamannalaun sem sprettur nú upp á hverju ári veldur mér miklum áhyggjum. Aðallega er það vegna þess að margir þeir sem tjá sig um þau (jafnvel listamenn sjálfir og þeir sem hafa ákvörðunarvald á þessu sviði) virðast misskilja tilgang þeirra, eða vilja ala á misskilningi meðal almennings. Misskilningurinn felst fyrst og fremst í því að líta á (eða skilgreina) alla framleiðslu listamanna sem markaðsvöru og að gildi framleiðslunnar er að öllu leyti háð móttöku markaðarins. Ef þetta er raunin þá meikar alveg sens að velta fyrir sér hvort rétt sé að halda einhverjum uppi meðan hann framleiðir eitthvað sem fær kannski ekki góðar móttökur á opnum markaði. En ég held að þetta sé ekki rétt. Hlutverk listamannalauna, eins og hlutverk margra styrkja til vísindalegra rannsókna, er einmitt að gera listamönnum kleift að stunda sína sköpun óháð þrýstingi frá markaðsöflum hverju sinni. Rökin fyrir því að samfélagið skuli kosta svona vinnu er að slíkt getur (og gerir oft) leitt til jákvæðra breytinga og nýsköpun yfir lengri tíma.

Ég þekki ágætlega til í heimi listsköpunar þar sem allir í minni fjölskyldu (fyrir utan mig) eru menntaðir í og starfa við listsköpun. Hins vegar þekki ég betur til í heimi rannsókna og fræðimennsku, þar sem ég starfa. Þannig að þó svo að umræðan snúist um listsköpun ætla ég að leyfa mér að útskýra mitt sjónarhorn á þessum málum út frá rannsóknum og fræðistörfum með smá listaívafi. Að mínu mati er ekki langt á milli þessara tveggja heima (sjá meira um það hér). Bæði listamenn og fræðimenn hafa það að markmiði að skapa nýja merkingu og þekkingu til að lýsa umhverfina sem við upplifum dags daglega. Þeir gera það bara hver á sinn hátt. Það sem á eftir kemur byggir að miklu leyti á rannsóknum Martin & Irvine (1984), sem mér finnst vera ein besta og hlutlausasta framsetning og greining á málinu.

Spurningin sem um ræðir er þessi: Hvort gagnast samfélaginu mest, að setja opinbert fé í grunnrannsóknir („pure research”) eða hagnýtar rannsóknir („applied research”)? Grunnrannsóknir eru þær sem eru unnar fyrst og fremst til að svala forvitni og þekkingarþörf fræðimanna. Grunnrannsóknir snúast gjarnan um það að skapa eða styrkja fræðilegar kenningar án sérstaks tillits til þess hvort þær leiði til afurða eða þjónustu sem nýtist almenningi. Hagnýtar rannsóknir snúast hins vegar um það að skapa afurðir eða þjónustu á grundvelli fræðilegrar þekkingar sem nýtist samfélaginu og taka því tillit til markaðsafla. Sem dæmi um þetta tvennt:

  • Grunnrannsóknir: Klassíska dæmið um grunnrannsóknir er afstæðiskenning Einsteins. Á sínum tíma hafði afstæðiskenningin vissulega mikil áhrif á heimsmyndina en hafði lítið sem ekkert auðsjáanlegt notagildi með tilliti til daglegs lífs almennings.
  • Hagnýtar rannsóknir: Eitt skýrasta dæmið um hagnýtar rannsóknir eru lyfjaprófanir. Þar er markmiðið að nota vísindi til að skapa vöru sem nýtist almenningi á mjög áþreifanlegan hátt.

Það er ekki algengt, held ég, að listamenn eða aðrir skilgreini listsköpun með sömu hugtökum og ég nota hér fyrir ofan en ég held að eðli sköpunarinnar er samt nógu lík til að láta samlíkinguna ganga upp.

Listamenn taka þátt í orðræðu sín á milli sem snýst um að kanna hvernig er hægt að nota hina ýmsu listrænu miðla (t.d. tungumálið, tónmál, litir, línur, rými, o.s.frv.) til að tjá sína sýn. Þessi þáttur í listsköpuninni líkist grunnrannsóknum. Góður rithöfundur hefur t.d. líklega gert margar tilraunir til að lýsa sögupersónu á sannfærandi hátt og nýtt til þess fyrirmyndir úr listasögunni. Fæstar tilraunirnar enda í bókum viðkomandi en eru samt sem áður nauðsynleg forsenda þess að eitthvað prenthæft verði til. Þennan hluta listasköpunarinnar er ekki hægt að meta út frá arðsemissjónarmiðum nema yfir lengri tíma. Útkomur tilraunanna sem listamaðurinn gerir skila sér kannski ekki í næsta verki, og jafnvel ekki í þarnæsta, og kannski aldrei. En þær hafa samt sem áður sitt gildi vegna þess að þær eiga erindi í orðræðu listamanna og auka þar almenna þekkingu í nærsamfélaginu og jafnvel víðar.

Þegar rithöfundur skrifar bók sem á að fara í sölu notar hann þá þekkingu sem hefur skapast með ótal tilraunum til að búa til verk sem líklegt er til að seljast - eins og þegar fræðimenn framkvæma hagnýtar rannsóknir. Þá skipta markaðsöflin máli. Rithöfundurinn (eins og aðrir listamenn) þarf að geta sett þá þekkingu sem er til staðar varðandi sköpunina í samhengi sem henntar almenningi. Annars skapar verkið ekki tekjur og kostnaðurinn fellur á listamanninn eða aðra.

Í vísindum hefur verið deilt um það hvort sé mikilvægara með tilliti til nýsköpunar, grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir. Á sama hátt getum við spurt hvort sé mikilvægara fyrir nýsköpun í listum, skapandi vinnan eða framleiðsla listavara? Pólana tvo skilgreina Martin & Irvine, sem ég nefndi áður, þannig (meira um þetta hér):

  • „Science-push”: Vísindaleg þekking skapar eftirspurn eftir nýjungum sem hægt er að setja á markað.
  • „Market-pull”: Markaðurinn skapar eftirspurn eftir nýjungum sem krefjast nýrrar vísindalegrar þekkingar.

Ef „science-push” módelið er líklegra til að leiða til nýjunga fyrir markað, er rökrétt að styrkja grunnrannsóknir sem auka vísindaleg þekkingu óháð vilja markaðarins hverju sinni. Ef „market-pull” módelið er líklegra til að leiða til nýjunga þá er rökréttara að styrkja hagnýtar rannsóknir sem taka mið af markaðsöflum hverju sinni.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna hvort nýsköpun ræðst frekar af „science-push” eða „market-pull”. Martin & Irvine fóru yfir þrjár helstu rannsóknirnar (sem eru Project Hindsight, TRACES og Battelle rannsóknin) sem þeim var kunnugt um. Þessar rannsóknir þóttu sýna að nýsköpun er verulega háð grunnrannsóknum en að það þarf að rekja sögu nýjunga nokkuð langt aftur í tímann til að sýna fram á tengslin. Sem dæmi má nefna ljósleiðaratækni en þekkingarsögu hennar má rekja aftur til rannsókna á hegðun ljóss í upphafi 20. aldar. Á þeim tíma hafði þekkingin lítið notagildi (nema þá til að skemmta fólki eins og var gert á Heimssýningunni í París 1889). Martin & Irvine voru hins vegar mjög dipló og ályktuðu að bæði „science-push” og „market-pull” hefðu áhrif á nýsköpun, og þá sérstaklega samvirknin milli þessara tveggja póla.

Ef við snúum þessu svo upp á listir má finna mýmörg dæmi um það að listsköpun hefur ekki fundið farveg á markaði fyrr en löngu eftir að sköpunin hafi átt sér stað. Ég hef mikið dálæti á tónlist þannig að lítum á nokkur dæmi:

  • Vorblót Stravinsky: Þetta þekkta dans- og tónlistaverk þykir í dag með merkilegustu og áhrifamestu tónverkum 20. aldar. Þegar það var frumsýnt í París 1913 brutust út óeirðir meðal áhorfenda sem móðguðust þar sem þeim fannst Stravinsky vera að gera grín að sér. Tónskáldið Puccini sagði verkið augljóslega vera afrakstur geðveiks manns. Það var ekki fyrr en nokkrum áratugum síðar, og þá í Bandaríkjunum, sem tónlistarunnendur byrjuðu að taka verkið í sátt.
  • Fyrsta plata David Bowie (kom fyrst út 1969): Platan vakti litla sem enga athygli fyrr en hún var gefin út öðru sinni árið 1972 og þá eftir að Bowie var búinn að geta sér gott orð með tveimur öðrum plötum. Hún hefur s.s. aldrei verið talin með merkilegustu plötum Bowie en hún náði þó töluverðum vinsældum 1972 og komst fljótlega í topp 10 á vinsældalistum beggja vegna Atlantshafs.
  • Velvet Underground & Nico (oft kölluð „Bananaplatan”): Plata þessi er án efa ein sú áhrifamesta rokksögunnar. Hún seldist nánast ekkert þegar hún kom fyrst út 1967. Brian Eno á að hafa sagt um hana að hún seldist í aðeins 30.000 eintökum fyrstu áratugana eftir að hún kom út, en allir þessir 30.000 stofnuðu hljómsveit. Það var ekki fyrr en eftir 10 ár að hún fór að vekja athygli og þá aðallega meðal ungra pönkara og nýbylgjusinna í leit að einhverju „fersku”. Á 9. og 10. áratugnum voru fáir rokktónlistamenn sem ekki listuðu plötuna meðal helstu áhrifavalda.
  • Bitches Brew - Miles Davis: Þetta tímamótaverk hefur haft gífurleg áhrif ekki bara á djasstónlist heldur líka rokk og s.k. „klassík”. Þegar verkið kom fyrst út 1970 voru margir innan djass-heimsins sem höfnuðu verkinu og töldu þetta vera svanasöng Davis. Raunin varð önnur. Hjá Davis hófst tímabil sem einkenndist af mikilli tilraunastarfsemi og þeir ungu tónlistarmenn sem hann fékk til liðs við sig áttu eftir að móta framtíð djass, popp, og rokk tónlistar: t.d. John McLaughlin, Chick Corea, Wayne Shorter, Herbie Hancock og margir fleiri.

Í öllum þessum tilvikum höfðu listamennirnir fengið tækifæri til að vinna að sinni listsköpun án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig markaðurinn myndi taka á móti afurðinni. Þeim var öllum hafnað í fyrstu en með tímanum náðu þeir eyru annarra listamanna og skapaðist ný merking, nýtt tónrænt tungumál, sem skapaði farveg fyrir mikla nýsköpun. Það er einmitt þetta sem listamannalaunum er ætlað að gera - að gefa listamönnum tækifæri til að vinna að sinni sköpun óháð þrýstingi markaðsafla. Slíkt gefur kannski lítið af sér þegar til skamms tíma er litið en með tímanum getur það leitt til byltinga. Og kannski það sem mikilvægast er, að fáar byltingar gerast án slíks undanfara. Það má segja að markaðurinn er kannski góður í að fylla upp í göt, en það er óheft listsköpun og grunnrannsóknir sem búa til götin.

Listamannalaun, eins og styrkir til grunnrannsókna, eru ætluð að gera listamönnum kleift að stunda sína sköpun án markaðsþrýstings. Hins vegar hefur gagnrýni beinst gegn því að tiltekinn hópur fái opinbert fé fyrir að gera það sem ætlast er til af þeim. En, það er eins og ég sagði áður, listamannalaun eru einmitt ætluð að veita listamönnum tækifæri til að gera annað en það sem vanalega er ætlast af þeim. Þessi gagnrýni er því á röngum forsendum. Tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð komst kannski næst því sem málið ætti raunverulega að snúast um þegar hann spurði af hverju skattfé hans ætti að fara í að kosta listsköpun sem aðeins 30 manns myndu njóta? Þarna er eins og með Velvet Underground á sínum tíma, ef þetta eru réttu 30 manns þá gæti það breytt heiminum til hins betra.

En það eru ekki bara þeir sem gagnrýna listamannalaun sem hafa farið á mis við kjarna málsins. Agnar Kr. Þorsteinsson, blaðamaður á Stundinni, gagnrýndi töframanninn Einar Mikael Sverrisson fyrir að vera mótfallinn listamannalaunum þegar Einar Mikael þáði sjálfur atvinnusköpunarstyrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Listamannalaun og atvinnusköpunarstyrkir eru gjörólíkir og má segja að þeim er ætlað hvor um sig að styðja við þessa andstæðu póla nýsköpunarferlisins, sem ég nefndi áður. Meðan listamannalaun eru ætluð að styðja við óhefta listsköpun eru atvinnusköpunarstyrkir ætlaðir að styrkja markaðsvæðingu góðra hugmynda, sem geta átt rætur í listsköpun eða grunnrannsóknum. Ef við göngum út frá því að tilgangur listamannalauna sé eins og ég hef sagt, þá er engin mótsögn í því að vera á móti listamannalaunum en þiggja atvinnusköpunarstyrk. Blaðamaður Stundarinnar virðist ekki átta sig á þessu.

Þetta er furðuleg staða þegar hvorki þeir sem eru með né þeir sem eru á móti listamannalaunum átta sig á hlutverki þeirra. Öll gagnrýnin umræða, bæði með og á móti, virðist orðin svolítið marklaus.

 


Við erum víst ekki margir framtíðarfræðingarnir hér á landi...

backtofutureÆtli ég komi ekki fyrst upp þegar gúglað er eftir íslenskum framtíðarfræðingi. Í tilefni dagsins var ég í viðtali um framtíðarfræði og framtíðina í Víðsjá á Rás 1.


mbl.is Back to the Future dagurinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan kemur orðið "hönnun"?

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls.* Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design).** Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

*(viðbætt: 11.05.2015) Hilmar Þór Björnsson, arkitekt fékk leyfi til að endurbirta þessa grein á vefnum Arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Í umræðum þar bendir Sigurður St. Arnalds á grein sem birtist í DV 24. september, 1994, á bls. 16 undir yfirskriftinni Sögur af nýyrðum: Að hanna. Þar er staðfest að fyrirmynd að orðinu "hönnun" megi rekja til rótar orðsins "hannarr" en nefnt annað samróta sem ég hef ekki rekist á, "hanþón", sem ég kíki kannski betur á við tækifæri.

**(viðbætt: 11.05.2015) Ég hef nú lesið umrædda grein. Þar er mjög augljóst að verið er að kynna nýyrði til sögunnar - gerð ítarlega grein fyrir merkingu hugtaksins og hliðstæðu í ensku. Hins vegar er ekkert sagt um hvernig hugtakið hefur verið búið til. Líklega er eins og Anna Rögnvaldsdóttir segir í ummælum fyrir neðan að orðið hafi verið búið til af íðorða- eða nýyrðanefnd.


HÍ meðal bestu háskóla í heimi? Fer eftir því hvernig þú skilgreinir "bestur"...

first_placeEinar Steingrímsson segir í frétt á Vísi.is að staða Háskóla Íslands í alþjóðlegu samhengi sé ekki nærri eins góð og Kristín Ingólfsdóttir, rektor, vill meina. Kristín hafði bent á að HÍ væri meðal 300 bestu háskóla í heimi. Þetta er rétt samkvæmt lista Times Higher Education (THE) en Einar bendir á að það eru aðrir listar þar sem HÍ nær ekki hátt á eða jafnvel ekki neitt. "Villandi málflutningur af þessu tagi, þar sem valin eru gögn sem henta málstað manns, eru óboðleg fyrir forystu háskóla með sjálfsvirðingu.”, segir Einar. Hann lætur þó ósagt hver munurinn á þessum listum er og má segja að það sé ekki síður villandi málflutningur en hann sakar rektor um. Listarnir sem Einar bendir á eru:
 - US News & World Report
 - Shanghai listinn, sem heitir nú ARWU
 - QS, sem heitir nú CWUR

Fyrst er að útiloka það sem hreinlega á ekki við. Ísland er ekki með í US News & World Report könnuninni. Að nefna hann er eins og að dæmi mig hæfileikalausan vegna þess að ég vann ekki Ísland got talent. Ég var ekki skráður í keppnina þannig að við munum aldrei vita í hvaða sæti ég hefði lent. Sama á við um stöðu HÍ á US News & World Report listanum.

Shanghai listinn er oft sagður vera mjög virtur og marktækur. Raunin er að hann er mjög dúbíus - svo mikið svo að staðið hefur til að endurskipuleggja hann frá grunni í mörg ár en það hefur af einhverjum ástæðum ekki gerst. Persónulega held ég að eina ástæðan fyrir því að hann hefur verið notaður er að hann var lengi vel sá eini sem hægt var að komast í á netinu án þess að greiða fyrir. Einn helsti þátturinn í Shanghai mælingunum er fjöldi Nóbels og Fields verðlaunahafa meðal fyrrum nemenda og prófessora. Hvað það á að segja mér um gæði háskóla veit ég ekki en er kannski heillandi fyrir suma tilvonandi nemendur. Engin tilraun er gerð til að meta gæði kennslu í viðkomandi háskólum.

QS listinn er mjög svipaður Shanghai listanum. Þar er líka lögð mikil áhersla á fjölda verðlauna sem fólk tengt skólum hefur unnið til. Eins og Shanghai listinn er engin tilraun gerð til að meta gæði kennslu. Eitt matsatriðið, sem vegur ekki minna en 25%, er fjöldi fyrrum nemenda sem hafa stýrt stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Ætli fangarnir á Kvíabryggju styrki stöðu HÍ á listanum? Hvað þetta hefur með gæði háskóla að gera veit ég ekki. Eitt sem QS gerir sem gerir hann sérstakan er að kanna viðhorf vinnuveitenda til háskóla, sem er kannski áhugavert fyrir tilvonandi nemendur en segir lítið um gæði út af fyrir sig.

THE listinn er sá eini af þessum sem eru nefndir sem raunverulega reynir að meta gæði kennslu og náms. Námsumhverfi vegur 30% og er reiknað út frá fjölbreyttum gögnum sem er aflað með ýmsum hætti - meðal annars könnun sem nær til um 10.000 fræðimanna um allan heim.

Háskólar eru margslungnar stofnanir sem er ætlað að vera margt í senn: námsvettvangar, rannsóknarmiðstöðvar, miðstöðvar þekkingarmiðlunar, og margt fleira. Það er ekki lítið mál að meta gæði þeirra og sennilega engin kvarði sem nær yfir allt. En þegar verið er að meta stöðu tiltekinna stofnana út frá þeim listum sem eru til er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað er verið að mæla. Í stefnumótun HÍ 2006, þar sem meðal annars var stefnt að því að stofnunin yrði meðal 100 bestu háskóla í heimi, var lögð mikil áhersla á hlutverk stofnunarinnar gagnvart íslensku samfélagi. Fræðsluhlutverk stofnunarinnar var haft að leiðarljósi og því er eðlilegast að meta árangur í samræmi við það. THE listinn er sá eini af þeim sem nefndir eru sem er marktækur á því sviði. Að draga hina inn í umræðuna er frekar villandi.

 


Hvað hefur fræðasamfélagið um málefni framhaldsskóla að segja?

HvitbokÁ vef MenntaMiðju birtist í dag brot úr umræðu fræðimanna um Hvítbók um umbætur í menntun og málefni framhaldsskóla sem hefur farið fram innan Menntavísindasviðs HÍ síðustu vikur. Þetta er mjög áhugavert og þarft innlegg í þessa umræðu. Meðal þess sem þar kemur fram:

Gestur Guðmundsson: "Á bak við stefnumiðið um 'fleiri námslok á tilsettum tíma' búa vissulega réttmætar áhyggjur af þeim fjölmörgu íslensku framhaldsskólanemum sem 'finna sig ekki' í náminu, og hvítbókin tekur réttilega undir ábendingar um aðgerðir sem greina slíkan vanda snemma og taka á honum. En oft eru réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám."

Helgi Skúli Kjartansson: "Úr því svona margir ljúka stúdentsprófi, þá er minni sérhæfing fólgin í þess háttar námi, minna val eða ákvörðun að leggja út í það og markmið þess óhjákvæmilega almennari. Þess vegna er eðlilegt að stytta námið svo að nemendur fái á eðlilegum aldri að taka raunverulegar ákvarðanir um markmið sín í námi og framtíðarstarfi."

Atli Harðarson: "Gestur bendir réttilega á (í grein á bls. 23 í Fréttablaðinu 3. júlí 2014) að munurinn á skólagöngu ungmenna hér á landi og í Danmörku er mun minni en ætla mætti af yfirlýsingum þeirra sem hafa stór orð uppi um brottfallið hér á landi. Veruleikinn er sá (skv. Education at a Glance 2014, bls. 313) að hér á landi var fremur hátt hlutfall fólks á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2012 eða 88%. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 86% til 87% og meðaltalið fyrir OECD var 84%. Þessar nýjustu samanburðartölur um skólasókn benda því ekki til að íslensk ungmenni flýji framhaldsskólana í meira mæli en gerist og gengur í öðrum OECD löndum.
Ekki er nóg með að skólasókn hér sé með meira móti heldur var útskriftarhlutfall líka hátt árið 2012 eða 95% (Education at a Glance 2014, bls. 67). Á hinum Norðurlöndunum var það á bilinu 77% til 93% og meðaltalið fyrir OECD var 84%."

Greinin í heild er hér


mbl.is 17 ára með ráðstefnu í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgstu með framtíðinni - við vitum meira en margir halda

kettering_tomorrow
Á ráðstefnu Heimilis & skóla síðasta föstudag var sagt í einu erindi um upplýsingatækni í skólastarfi að við vitum ekki hvaða tæknibreytingar eru framundan. Reyndar er það svo að við vitum töluvert um framtíðina og hvernig tækni mun þróast á næstu 5-10 árum og jafnvel lengur. Sjálfakandi bílar munu koma á markað á næstu 5 árum eða svo og hafa töluverð áhrif á samfélagmynstur. Reiknigeta tölvutækni mun stóraukast á næstu árum. Snjalltæki verða sífellt ósýnilegri - fyrst með tilkomu íklæðanlegrar tækni á borð við snjallúr og snjallgleraugu og til lengri tíma litið má gera ráð fyrir að tækni verði jafnvel ígrædd. Vélmenni af ýmsum gerðum munu í auknu mæli sinna störfum sem nú eru í höndum okkar mannana og verða jafnvel sjálfsögð hjálpartæki í námsumhverfi.

Hvernig vitum við þetta? Það er sérstaklega þrennt sem gefur sterkar vísbendingar um hvers sé að vænta í framtíðinni:
  1. Áherslur aðila sem veita styrki til tækniþróunar og verkefni sem tæknifyrirtæki, verkfræðingar og tölvufræðingar eru að fást við hverju sinni.
  2. Neysluvenjur og vilji neytenda.
  3. Skapandi hugmyndir um mögulega tækniþróun sem birtist í myndlist, kvikmyndum, skáldsögum og þess háttar.
Framtíðarfræðingar nota ýmsar misflóknar aðferðir til að meta upplýsingar sem þessar á kerfisbundinn hátt og gera sér grein fyrir líklegri þróun til langs tíma. Flestar eru þessar aðferðir mjög sérhæfðar og niðurstöður ekki endilega á þannig formi að þær gagnast hinum almenna tækninotanda. Hins vegar geta þeir sem hafa áhuga nálgast töluvert af aðgengilegum upplýsingum sem gefa nokkuð raunhæfa mynd af því sem er að vænta. Má t.d. nefna:
  • Kurzweilai.net: Þetta er vefur Ray Kurzweil sem er líklega með þekktustu framtíðarfræðingum heims um þessar mundir. Kurzweil er með öflugt lið sem fæst við að greina upplýsingar um tækniþróun og eru margar niðurstöður settar fram á aðgengilegu formi á þessum vef.
  • Sutura.io: Þetta er tiltölulega nýr vefur þar sem hægt er að nálgast vikuleg yfirlit yfir fréttnæma viðburði úr heimi tækni, vísinda og fleira. Ég er ekki viss hver stendur á bak við þennan vef en held að það sé einn Alex Klokus, frumkvöðull sem starfar í New York borg. Þessi vikulegu yfirlit hófu að birtast fyrir nokkru á Futurology þræðinum á samfélagsvefnum Reddit en auðveldara er að nálgast ný og eldri yfirlit á þessum vef.
  • TED: Þennan vef þekkja líklega margir. TED stendur fyrir “Technology, Entertainment, Design” en efni sem kynnt er á margfrægum TED ráðstefnum nær yfir töluvert breiðara svið en titillinn gefur til kynna. Mörg TED erindi fjalla um það nýjasta sem er að gerast í heimi vísinda og tækni og hvaða áhrif tækni- og vísindaleg þróun getur haft á samfélag og umhverfi til skemmri og lengri tíma litið.
  • Omni Reboot: Omni Reboot er tilraun til að endurlífga hið merka tímarit Omni sem var gefið út á árunum 1978-1995. Tímaritið þótti sérstakt fyrir áhugaverða blöndu efnis úr heimi vísinda og vísindaskáldskapar. Framtíðarmiðaður vísindaskáldskapur er ekki síður gagnleg upplýsingaauðlind fyrir framtíðarfræðinga en vísindin sjálf vegna þess að þar eru oft settar fram hugmyndir um mögulega framtíð á áhrifaríkan og lifandi hátt. Mörg dæmi eru um það að tækninýjung eigi rætur að rekja til þess að einhver með tækniþekkingu heillaðist af möguleikum sem lýstir voru í vísindaskáldsögu eða kvikmynd. Fyrsti farsíminn er eitt þekktasta dæmið um slíkt. Martin Cooper, sem stýrði þróun farsímans, hefur margoft sagt frá því að hann sótti innblástur í upphaflegu Star Trek þáttaröðina.

Það eru til ótal fleiri vefir og upplýsingaveitur þar sem hægt er að kynna sér hvernig tækni mun líklega þróast í framtíðinni og ég vona að sumir leiti þá uppi eftir að hafa fengið smá nasasjón af því sem er í boði. Auðvitað er alltaf möguleiki að hlutirnar fara á annan veg en við höldum en þrátt fyrir það er sumt svo örugglega fyrirsjáanlegt að vert er að taka tillit til þess strax. Hvað eru t.d. margir skólar sem hafa þegar hugað að því hvaða áhrif snjallúr (sem ég hef heyrt að séu þegar farin að sjást í íslenskum skólum) og snjallgleraugu munu hafa á skólastarf? Hvað eru margir skólar sem nota vélmennatækni í námsumhverfinu, þó ekki væri nema að hafa Roomba ryksugu á staðnum? Þeir sem hafa kynnt sér tækniþróun vita að þetta eru allt tækninýjungar sem eru aðgengilegar núþegar og munu hafa áhrif á nám og kennslu í nálægri framtíð. Hvenær er rétti tíminn til að huga að þeim fyrir alvöru?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband