Enn ein byltingin í nánd í menntun?!? Ég er ekki svo viss.

Á vísi.is í dag birtist grein eftir Hjálmari Árnasyni, framkvæmdastjóra Keilis, um að "kennsluheimurinn standi á verulegum tímamótum um þessar mundir." Vísar Hjálmar þar til spjaldtölvuvæðingarinnar og telur að hún muni loks umbylta menntun. Því hefur margsinnis verið haldið fram á síðustu áratugum að bylting sé í nánd en aldrei virðast þessar breytingar eiga sér stað. Af hverju ættum við að halda að það gerist nú?

Allt frá því að menn fóru að sjá fyrir sér útbreiðslu tölvutækninnar hafa bjartsýnir lýst undraverðum "kennsluheimi" þar sem nemendur sækja sér sjálfir upplýsingar og stýra eigin lærdómi. Fyrst var það almenningstölvan, svo var það Vefurinn, og svo röð tækniundra - fartölvur, lófatölvur, snjallsímar, félagslegir miðlar, o.s.frv. - sem áttu allar að breyta menntun. Samt er menntun í megindráttum eins í dag og hún var fyrir 2-3 áratugum. Af hverju breytist ekkert?

Hjálmar heldur því fram að lítið hafi breyst vegna þess að "hin aldagamla hefð gegnsýrir allt kerfið." Ég er nú ekki viss um að það sé hárrétt. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að breyta "kerfinu" á Íslandi. T.d. má nefna Skólarannsóknadeildina sálugu, sem gott dæmi um það hvernig ákveðin öfl í samfélaginu streitast á móti breytingum og finna sér jafnvel leiðir til að kæfa þær. Annað dæmi sem kemur í hugan varðar skóla einn sem átti að vera "opin skóli" - hugmyndafræði sem var nokkuð vinsæl víða í heimi á þeim tíma. Fljótlega eftir að skólinn tók til starfa ákváðu kennarar að þeir höfðu takmarkaðan áhuga á að starfa skv. þessari nýju hugmyndafræði og byrjuðu að hólfa af sín svæði í beinni andstöðu við kennsluaðferðinni sem átti að fylgja. Í rannsókn sem ég gerði á hópi fjarnema sem stunduðu doktorsnám við Háskólann í Minnesota kom í ljós að ein helsta hindrun fyrir upptöku tækninýjunga í náminu voru nemendurnir sjálfir, sem virtust gera allt sem þeir gátu til að láta námið sitt sem mest líkjast því sem þeir höfðu upplifað áður í sinni skólagöngu. Er þetta "kerfið" (hvað s.s. það er) að verki eða er eitthvað annað eða meira sem vinnur gegn breytingum á menntun?

Menntunarfræðingurinn þekkti Michael Fullan hefur, að ég tel réttilega, haldið því fram að "Educational change is cultural change." Þ.e.a.s. að til þess að ná fram raunverulegum breytingum í menntakerfinu þarf að breyta hugmyndum stjórnenda, stefnumótenda, almennings og nemenda um hvað menntun er og hvers vegna hún er stunduð. Reynslan hefur sýnt að engin tækni ein og sér breytir menntun nema að henni fylgi vilji til að breyta og skilningur á því hvers vegna þurfi að breyta. Ég hef ekki getað séð að spjaldtölvuvæðingin sem nú er að hefjast í íslenskum skólum byggist á vilja til að breyta. Nefni ég sérstaklega ummæli skólastjórnenda í Vogaskóla þegar þar var verið að taka í notkun Kindle spjaldtölvur um að tæknin var valin sérstaklega með það í huga að hún takmarkaði notkunarmöguleika. Ég held því að Hjálmar sé full bjartsýnn í þessum málum. Sjálfur ætla ég að bíða með byltingaryfirlýsingar þangað til ég sé raunveruleg merki um breytingu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband