18.11.2015 | 07:04
Nýja orðræðan um menntun: Þín fjárfesting - þín framtíð?
UPPFÆRT 4.12.2015
Ég hef fengið nokkur komment um þessi skrif mín, sérstaklega varðandi skilgreiningar á einkavæðingu og einkarekstri í menntun. Upphaflega ætlaði ég að fjalla aðeins um þá umræðu í þessari grein en hún var orðin það löng að ég sleppti því. Það er líklega efni í aðra grein. EN Sumir vilja gera greinarmun á einkavæðingu og einkarekstri. Yfirleitt þannig að eitt vísar til þess að einkaaðilar stofna nýjan skóla frá grunni og hitt að einkaaðilar reki opinberar stofnanir. Ég held að í reynd hafi verið sáralítill munur á þessu þar sem einkaaðilarnir fara fram á að reka stofnun sína fyrir opinbert fé hvernig svo sem staðið er að stofnun eða rekstri. Á endanum snýst þetta alltaf um eitt - að flytja opinbert fé yfir til einkaaðila sem sjá svo um að mennta fólk. Þetta er umræða sem mætti taka og kannski til einhvers gagns að skýra þessi mál.
Þetta er hins vegar ekki það sem ég er að tala um hér. Það sem ég er að tala um er breytta gildismatið sem fylgir því að innleiða rekstarform sem byggir á markaðslögmálum og lengri tíma áhrif þess. Þar sem reynsla er virðist tilhneigingin vera að þiggja opinbera fjármagnið en hækka um leið beinan kostnað fyrir nemendur. Í greininni vísa ég í ummæli formanns Samtaka sjálfstætt starfandi skóla sem er ósátt við að einkareknir skólar megi ekki innheimta skólagjöld, sem verða að teljast nokkuð há, ofan á opinber fjárframlög. Þetta bendir til þess að aukin einkavæðing sé líkleg til að leiða til sömu þróunar hér á landi og við höfum séð annarsstaðar í heiminum. Það er, aukinn kostnaður, persónuleg áhætta og ójöfnuður.
Gestur Guðmundsson birti nýlega áhugaverða grein á vef Visir.is þar sem hann gagnrýnir skýrslu Hagfræðistofnunar um efnahagsleg áhrif styttingar framhaldsnáms. Gestur vekur meðal annars athygli á orðalaginu sem er notað í skýrslunni, sem tengir menntun við einkahag, velferð og tekjumöguleika einstaklingsins. Lítið er hins vegar gert úr samfélagslegu samhengi menntunar. Í tíð núverandi ríkisstjórnar virðist fara meira en áður fyrir þessari orðræðu, sem miðar að því að sannfæra almenning um að þeirra menntun er þeirra einkahagsmunamál, sem ætti þar af leiðandi að líta á sem þeirra eigin fjárfestingu. Þessa orðræðu má greina í almennri umræðu stjórnarflokka um menntamál, Hvítbók menntamálaráðherra, fyrrnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar og ýmsum skýrslum Samtaka Atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að hér sé markvisst verið að reyna að breyta gildismati varðandi menntun án þess að huga nægilega vel að því hvert það muni leiða okkur.
Ég er ekki í nokkrum vafa um markmið málsvara þessarar orðræðu. Það er að greiða fyrir aukinni einkavæðingu í menntakerfi þjóðarinnar. Það verður að segjast að þeir eru ekki mjög frumlegir sem standa á bak við þetta verkefni. Ég hef fylgst með þróun sömu orðræðu í menntamálum Bandaríkjana þar sem ég hóf fyrst háskólanám fyrir um 25 árum og stundaði framhaldsnám í gegnum seinni hluta síðasta áratugar. Frá því að ég skráði mig fyrst til náms í Bandarískum háskóla hefur kostnaður einstaklinga vegna háskólanáms rokið upp um næstum því 1.000%. Þetta er að miklu leyti tilkomið út af tvennu. Í fyrsta lagi, rekstarbreytingar innan háskóla og samfara því mikil aukning hálaunaðra stjórnunarstaða. Í öðru lagi, tilfærslu kostnaðar frá hinu opinbera til einstaklinga sem stunda háskólanám. Það er einmitt orðræða um menntun sem einkahagsmunamál og breytt gildismat um menntun sem hefur greitt fyrir þessari tilfærslu kostnaðar háskólana á einstaka borgara.
Fjöldin allur af bandarískum ungmennum hefur látið sannfærast af yfirvöldum, fulltrúum skóla og annarra að fjárfestingar þeirra í eigin námi, oft upp á svimandi upphæðir, muni borga sig að námi loknu. Annað hefur komið í ljós. Nýútskrifaðir háskólanemar í Bandaríkjunum hafa þurft að horfast í augu við það að störfin sem þeim var lofað eru ekki til staðar og þegar vinna við hæfi finnst ná launin engan veginn fyrir skuldunum sem var safnað á námstímanum. Hvað gerist þá? Þeir sem eiga að fjársterka bakhjarla fá forskot í lífinu, einstaka aðili nær að fóta sig, þeir sem eftir eru fara að vinna á Starbucks og misjöfnuður í samfélaginu eykst. Aukinn misjöfnuður leiðir svo til þess að það er fjárhagur sem ræður hver kemst í áhrifastöður í samfélaginu en ekki hæfni. Samfélagið tapar á endanum þar sem þeir hæfileikar sem eru til staðar (eða er hægt að rækta) fá ekki að njóta sín í þágu þess.
En það er ekki bara háskólastigið sem um ræðir. Einkavæðingaóskhyggjan nær yfir öll skólastig. Aftur eru það Bandaríkin sem við getum leitað til eftir fyrirmyndum. Mikil einkavæðing hefur verið í menntun á grunn- og framhaldsskólastigum þar - sérstaklega í formi svokallaðra charter schools, sem er eiginlega tilfærsla opinbers fés til einkaaðila. Eitt hneykslið á eftir öðru hefur komið upp í tengslum við charter skólana (þetta er þó ekki algilt - ég hef heimsótt hreint frábæra charter skóla í Bandaríkjunum). Skólar hafa farið á hausinn vegna slæms reksturs eða jafnvel fjármálamisferli rekstraraðila og skilið eftir strandaða nemendur sem geta lítið annað gert en hrökklast aftur í opinberu skólana. Skólar hafa orðið uppvísir að því að hafna eða að losa sig við erfiða nemendur eða þá sem þurfa auka aðstoð í náminu. Sumstaðar hafa charter skólar verið stofnaðir sem eru látnir höfða bara til ákveðinna þjóðfélagshópa sem hefur leitt til aukins aðskilnaðar í samfélögum. Og ávinningurinn af þessu öllu? Lítið sem enginn. Sama hvernig á það er litið - gæði náms, tækifæri til náms, námsárangur, nýsköpun í námi - nánast ekkert af því sem charter skólarnir áttu að skila samfélaginu hefur ræst.
En einkavæðingasinnar láta ekki svona leiðinda staðreyndir stoppa sig. Einkavæðinga- og einstaklingshyggjuorðræðan býður upp á ýmsar aðrar leiðir til að sannfæra en með staðreyndum. Eitt slíkt dæmi birtist nýlega í Viðskiptablaðinu. Þar heldur Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla, því fram að með tilkomu Hjallastefnunnar og Alþjóðaskólans í Garðabæ, sem eru báðir einkareknir skólar, hafi staðlar hækkað. Ég veit ekki hvaða staðla Áslaug Hulda er að tala um og fullyrðingin er ekki rökstudd frekar í greininni sem birtist á vef Viðskiptablaðsins. Kannski er fjallað meira um þetta í prentuðu útgáfunni. Ef við lítum til samræmdra prófa í 10. bekk þá hefur verið lítil sem engin breyting á útkomum í Garðabæ síðustu árin - og þetta eru árin sem fyrstu nemendur Hjallastefnunnar í Garðabæ eru að taka prófin. En ég veit ekki hvort samræmdu prófin hafi nokkuð með þennan staðal að gera sem Áslaug Hulda talar um.
Áslaug Hulda kvartar líka yfir því að einkareknir skólar sem þiggja opinbert fé í Garðabæ megi ekki rukka skólagjöld að vild. Hún kallar það ósanngjarnt meira að segja. Ég get ekki séð að hægt sé að túlka þetta öðruvísi en svo að henni finnst brotið á rétti einkarekinna skóla til að mismuna skólabörnum eftir fjárhag heimila. Augljóslega hafa ekki allir ráð á að borga þessar kr. 60.000 á mánuði, sem Áslaug Hulda telur vera hæfilegt gjald, ofan á skattana sem þeir borga núþegar til að reka skólakerfi og fleira.
Hvernig svo sem við kjósum að ræða um menntamál þá breytir það því ekki að menntun telst til almannagæða, sem þýðir að menntun einstaklinga, sama hvernig menntastofnanir eru reknar eða fjármagnaðar, nýtist alltaf samfélaginu öllu. Þetta er ekki skilgreiningaratriði né hagfræðilegt sjónarmið. Þetta er einfaldlega eðli menntunar.
Á sama hátt, hefur það áhrif á allt samfélagið þegar hindranir eru settar fyrir aðgengi tiltekinna einstaklinga að menntun. Á Alþingi í dag var einmitt tekin upp umræða um áhrif stefnubreytinga ríkisstjórnar í menntamálum. Fjöldi nemenda í námi á framhaldsskólastigi sem eru 25 ára og eldir hefur fækkað umtalsvert á milli ára, enda ekki gert ráð fyrir þeim í fjárlögum. Auðvitað eru ýmis önnur tækifæri fyrir þá að mennta sig, en það verða þeir að gera á eigin kostnað. Þetta er hindrun og verður eflaust til þess að færri bæti við sig þessa menntun en ella. Þetta eru samstarfsaðilar okkar í uppbyggingu og þróun samfélagsins. Það er okkur í hag gera allt sem við getum til að tryggja að það, og allir, hafi þá þekkingu og hæfni sem þarf til að taka þátt í upplýstri og gagnrýninni umræðu um framtíð samfélags okkar. Ég sé ekki hvernig á að tryggja þetta í því menntakerfi sem málsvarar nýju orðræðunnar virðast vilja.
Ég hef aldrei séð skýra framtíðarsýn setta fram samfara orðræðubreytingunni. Segjum sem svo að við ákveðum að fara sömu leið og sést hefur í löndum eins og Bandaríkjunum. Hvernig sjáum við fyrir okkur menntakerfi sem byggist á einkahagsmunum eftir 20-25 ár? Er jafn aðgangur að menntun óháð fjárhag eða stöðu í samfélaginu? Fá allir tækifæri til að blómstra - eða verða besta útgáfan af sjálfum sér, eins og ég hef heyrt það orðað? Eða á útkoman að ráðast af því sem hver og einn getur, eða vill, borga fyrir?
Menntun og skóli | Breytt 4.12.2015 kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2015 | 11:23
Áhugaverð heimsókn í eTwinning móðurskipið
Í lok október mætti ég á ráðstefnu eTwinning áætlunarinnar í Brussel ásamt hundruðum kennara, skólastjórnenda og annarra sem koma að skólastarfi víðsvegar að úr Evrópu. Mér leið svolítið eins og ég væri meðal ótal geimkönnuða að koma í móðurskipið til skýrslutöku um landkannanir og ávinninga í óravíddum síbreytilegra tækniveruleika. Allir höfðu spennandi sögur að segja. Helst vildi ég heyra þær allar en til þess hefði þurft meira en þessa þrjá daga sem ég hafði.
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í móðurskipið, eða "ráðstefnuhótelið" eins og sumir myndu kalla það, var að rjúka í skráningarlistana til að tryggja mér sæti í spennandi málstofum. Sætafjöldi var takmarkaður og af mörgu spennandi að velja. Við vorum líklega með þeim síðustu sem lögðu að móðurskipinu því allt það sem þótti mest spennandi var óðum að fyllast. Í boði voru málstofur um tölvur og leiki, forritun, samfélagsmiðla, reynslu kennara af samstarfi á neti og ótal margt fleira. Ég náði að skrá mig í málstofur um forritun, tækni í vísindakennslu og sýndarveruleika svo eitthvað sé nefnt. Það átti þó eftir að koma í ljós að skráningin hafði lítið að segja. Margir virðast hafa ákveðið að mæta í þær vinnustofur sem þeir vildu hvort sem þeir voru skráðir eða ekki. Fyrir vikið kom fyrir að engin laus sæti voru í sumum málstofum fyrir þá sem höfðu skráð sig. Í sumum tilvikum reyndist þetta þó lán í óláni því ég datt þá inn á vinnustofur sem ég ætlaði mér ekki að sækja en sem reyndust svo afar áhugaverðar.
Ein slík vinnustofa bar þann frekar litlausa titil Teacher exchange workshop I, sem er ekki mjög lokkandi yfirskrift miðað við t.d. Learning to game, gaming to learn, sem ég ætlaði að vera í þá stundina. Í málstofunni sem ég lenti í fékk ég meðal annars að heyra um verkefni Grískra og Slóvenskra kennara sem voru að nota MOOC (Massive Online Open Courses) til að kenna framhaldsskólanemum ensku. Nemendur skráði sig í námskeið á Coursera ásamt fjölda annarra í samstarfsskólunum, sem og annarra þátttakenda í MOOC-inu. Nemendurnir unnu verkefni í samræmi við kröfur Coursera námskeiðsins, tóku þátt í umræðum þar og unnu verkefni en voru líka í samskiptum sín á milli og við sína kennara í skólastofum og á netinu. Þetta þótti mér mjög skemmtileg notkun á möguleikum MOOC námskeiða til að auðga námsumhverfi nemendana sem tóku þátt.
Mér tókst að koma mér inn á málstofu um forritun sem ég hafði skráð mig í með því að mæta mjög snemma og tryggja mér sæti. Áhugaverðast á málstofunni fannst mér leiðir sem voru kynntar til að kenna grunnatriði í forritun án þess að kenna kóðun, eða ritun skipana á forritunarmálum. Notaður var leikur sem heitir Cody & Roby þar sem þátttakendur búa til leiðakerfi fyrir vélmenni með pílum og öðrum táknum sem vísa vélmenninu réttu leið að settu marki. Þetta passaði mjög við mínar eigin vangaveltur um það hvers vegna vaxandi áhugi er á því að kenna forritun og hvernig best er að fara að til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Ég nýtti mér það sem ég lærði í þessari vinnustofu nýlega þegar ég kynnti nýstárlegt tæki frá hljóðgervlaframleiðandanum Moog, Moog Werkstatt, á menntabúðum UT-torgs og Menntamiðju. Með Moog Werkstatt framleiðir notandinn margskonar hljóð með því að senda rafstraum í gegnum ýmis svokölluð módúl sem umbreyta merkinu. Í grundvallaratriðum er þetta eins og forritun þar sem gögn eru send í gegnum ýmsar rútínur sem umbreyta þeim, nema án flókins forritunarmáls. Eins og forritun, getur tækni eins og Moog Werkstatt nýst í þjálfun algóriþmískrar hugsunar, það er að segja sköpun ferla til að umbreyta gögnum og fá þannig út afurð sem gagnast okkur.
Þetta er aðeins lítið brot af því sem ég kynntist áður en allir yfirgáfu móðurskipið uppfullir af nýjum reynslusögum og hugmyndum eftir áhugaverðar málstofur og umræður. Á heildina litið var ég mjög heillaður af því hvað kennarar sem ég hitti á ráðstefnunni eru skapandi og áhugasamir um notkun tækni í námi og kennslu. Einnig sýna viðburðir eins og þessi hvers virði Evrópusamstarfið í skólamálum er mikilvægt fyrir okkur. Viljinn til að vinna saman og leita nýrra leiða til að gera nám gagnlegra og áhugaverðara fyrir nemendur á öllum aldri sem ég varð var við er einstaklega aðdáunarverður. Kostir áætlunar eins og eTwinning eru greinilega miklir og margþættir. Ég vona að íslenskir kennarar verði áfram duglegir að nýta sér þau tækifæri sem þær veita til samstarfs um nýja landvinninga í ört breytileikum heimi.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2015 | 17:58
Við erum víst ekki margir framtíðarfræðingarnir hér á landi...
Ætli ég komi ekki fyrst upp þegar gúglað er eftir íslenskum framtíðarfræðingi. Í tilefni dagsins var ég í viðtali um framtíðarfræði og framtíðina í Víðsjá á Rás 1.
Back to the Future dagurinn í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2015 | 09:22
Af hverju heldur Vigdís að íslenskir skólar séu að "sóa" fé?
Það þyrfti að fá frekari skýringar á þessu (ég tek fram að ég er ekki með Morgunblaðið í höndunum og get því ekki borið þessa stuttu grein saman við það sem sagt er að komi fram í blaðinu).
Fyrir það fyrsta þá eru fjárframlög til menntamála hér á landi ekkert sérlega há (og hafa lækkað töluvert síðan 2008). Það er hægt að mæla fjárframlög á ýmsan hátt til að gera þau samanburðarhæf (US$ pr/nem, % af þjóðarframleiðslu o.s.frv.). Eftir því hvernig er mælt er Ísland allt frá botninum miðað við önnur OECD lönd og upp í ca. meðaltal.
Hvað námsárangur varðar þá er Ísland mjög nálægt PISA meðaltalinu í öllum greinum ásamt löndum eins og Noregur, Bretland, Frakkland, Danmörk og Lúxemborg, svo eitthvað sé nefnt.
Að lokum, ég er ekki sannfærður um að það sé ástæða til að telja að það eigi að vera fylgni milli fjárframlaga til menntamála og námsárangurs eins og gefið er í skyn í þessari grein. Til dæmis, meðal þeirra landa sem setja hvað mest af fjármagni í menntamálin eru Sviss, Noregur og Lúxemborg. Eins og áður sagði er árangur Noregs og Lúxemborgar skv. PISA svipaður og á Íslandi en Sviss er meðal hæstu PISA-landa. Svo er auðvitað Finnland, sem flestir þekkja, með fjárframlög nálægt meðaltalinu en mjög góðan námsárangur.
Hvað er það í þessum gögnum (PISA eða tölur OECD varðandi fjárframlög til menntamála) sem bendir til að skólar séu að "sóa" fé?
Mikil sóun í menntakerfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2015 | 07:55
Pínlegt að sjá fjölmiðla falla fyrir augljósu plati
Uppfært aftur: Það er loksins búið að breyta fréttinni og allt um grínistana á @Riverblufdental fjarlægt. En það má sjá brot af því sem stóð upphaflega (og í rúmar 12 klst. þar á eftir) á skjáskotinu fyrir neðan. E.o. víti til varnaðar - vinna rannsóknarvinnuna fyrst og svo birta. Ekki öfugt.
Uppfært: Þessi frétt er núna sú mest lesna á vef mbl.is og enn ekki leiðrétt eftir 12 klst. á netinu. Þetta er áhugavert dæmi um s.k. síubólu held ég.
@Riverblufdental, Twitter notandinn sem vísað er í í fréttinni, byrjaði að tísta nokkrum dögum eftir að tannlæknirinn sem rekur stofuna, Walter Palmer, komst í fréttir fyrir að hafa drepið ljónið Cecil. Alla tíð síðan hefur @Riverblufdental verið að ögra fólki með myndum af köttum, ljónum og ýmsum öðrum dýrum ásamt tístum um tannheilsu og það sem umsjónarmönnum finnst vera óþarfa æsingur vegna frétta um veiði Palmers. Stundum fyndið, stundum ekki, en allt í plati. Þeir trúgjörnustu hefðu allavega mátt taka eftir því að gríntístarinn skrifar "River Bluff Dental" rangt (@Riverblufdental: bara eitt 'f'), sem er algeng taktík til að plata fólk í netheimum.
Ég geri ráð fyrir að blaðamenn mbl.is leiðrétti þetta fyrr eða síðar þannig að ég tók skjáskot til að varðveita mómentið:
Ljónadráparinn snýr úr felum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2015 | 20:02
Aum umfjöllun um gagnaukinn veruleika í RÚV
Ég verð að segja að ég er svolítið ósáttur við umfjöllunina um gagnaukinn veruleika í fréttum í RÚV í kvöld. Mér fannst viðmælandi fréttamanns gera frekar lítið úr möguleikum þessarar stórkostlegu tækni. Gagnaukinn veruleiki (GV), sem var kallaður aukinn veruleiki (sem mér finnst ekki góð þýðing) í fréttinni, er þýðing á enska hugtakinu augmented reality (sjá hér af hverju ég vil kalla þetta gagnaukinn veruleika).
Í stórum dráttum verður GV til þegar skynjarar og gögn sem eru sótt yfir nettengingar í snjalltækjum eru notuð til að búa til yfirlag yfir veruleikann til að auka gagnsemi og upplýsingagildi hans. Ég hef fjallað mikið um þessa tækni og sérstaklega möguleika hennar í námi og kennslu í einhver ár núna. Mér finnst frábært að sjá umræðuna breiðast út en er ósáttur við að tæknin sé gerð að einföldu gimmick til að skemmta nemendum.
Í fréttinni sagði viðmælandinn, sem tengist samstarfsverkefni sem Háskólinn á Akureyri tekur þátt í, að helsti kostur tækninnar er wow faktorinn, þ.e. að tæknin gerir hið hversdagslega sem notað er í námi skemmtilegra og áhugaverðar. GV getur gert miklu meira en það og býður upp á mjög spennandi möguleika til að samþætta nám, nýta tækni í tengslum við nám, auka sköpun í námi og margt fleira.
Ég hef fjallað um þetta allt saman margoft áður og vísa frekar í fyrri skrif og erindi en að fara telja upp hér enn eina ferðina:
- Tækninýjungar og framtíð menntunar
- Gagnaukinn veruleiki og framtíð menntunar (glærur)
- Augmented reality in education (glærur)
- Learning in augmented reality: Extending functional realities (kennslufræðilegar pælingar)
- Upptaka af erindi á vorráðstefnu 3F 2013
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2015 | 18:26
Menntamálaráðherra virðist misskilja máltækið um bókvitið
Í frétt á Vísi.is í dag er sagt frá umræðum um menntamál á Alþingi í dag. Þar kallaði Guðmundur Steingrímssón eftir aðgerðaráætlun um menntamál og talaði m.a. um þann fjölda sem menntar sig hér en starfar svo erlendis og borgar skatta þar. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, svaraði þá skv. Vísi, "Við erum þjóðin sem bjó til máltækið: 'Bókvitið verður ekki í askana látið'." Þarna held ég að Illugi hljóti að vera að misskilja máltækið. Ég lærði einhverntíma fyrir löngu að máltækið merkir að það þurfi að hafa fyrir bókvitinu, því verður ekki ausað í kollinn á fólki eins og að fá mat í askinn sinn. Hér eru tvær greinar sem styðja þennan skilning minn: Guðrún Kvaran á Vísindavefunum og grein á mbl.is.
Eftir umræðu hér á heimilinu og snögga leit á vefnum virðist algengt að fólk misskilji/misnoti máltækið. Sjá t.d. nýlega grein Ágústs H. Ingþórssonar þar sem hann skilur máltækið greinilega á sama hátt og Illugi.
Kannski er jafnvel hægt að segja að merking þess hafi breyst í tímanna rás, eða hvað?
Menntun og skóli | Breytt 8.7.2015 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2015 | 16:46
Tölfræðilegur misskilningur eða blekkingar?
Í gær (10.06.2015) birtist frétt á vef Viðskiptaráðs Íslands sem hefst á þessum orðum:
Áætluð fjarvera starfsfólks vegna veikinda er tvöfalt meiri á opinberum vinnustöðum en á almennum vinnustöðum. Þetta er ein af niðurstöðum þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sem kynntar voru í síðasta mánuði.
Nei, þetta er ekki ein af niðurstöðum verkefnisins sem vísað er til. Ein af niðurstöðunum er að hlutfall fjarveru var hærra á þeim opinberu vinnustöðum sem tóku þátt í verkefninu í samanburði við einkarekna vinnustaði sem tóku þátt. Tekið er fram í grein um verkefnið (bls. 43) að:
Mikilvægt er að hafa í huga, þegar skoðaðar eru niðurstöður frá söfnun lykiltalna hjá þátttökufyrirtækjum, að fjöldi og gerð fyrirtækja og stofnanna sem tóku þátt í verkefninu Virkur vinnustaður var takmarkaður og því er ekki hægt að yfirfæra tölurnar almennt yfir á opinberan og almennan vinnumarkað.
Samt gerir greinarhöfundur VÍ nákvæmlega þetta - yfirfærir niðurstöður um takmarkað úrtak á þýðið og ályktar út frá því að niðurstöður lýsi almennu ástandi.
Það sem verra er er að greinarhöfundur veit af takmörkunum tölfræðilegu greiningarinnar sem hann er að vísa í en reynir samt að réttlæta alhæfingar sínar. Í lok greinarinnar bendir höfundur á að:
Þar sem fjöldi vinnustaða í þróunarverkefninu var takmarkaður gefur þróunarverkefnið ekki endanlega niðurstöðu um tíðni veikinda á opinberum og almennum vinnumörkuðum.
Þá vaknar spurningin, af hverju er hann þá að nota niðurstöðurnar til að alhæfa um opinbera og almenna vinnumarkaði? Greinarhöfundur er með tilbúið svar:
Þá þarf að athuga að í upphafi verkefnisins, árið 2011, fóru þeir vinnustaðir sem tóku þátt í greiningu á fjarveru og útbjuggu fjarverustefnu með þátttöku starfsmanna sem samþykkt var af stjórnendum og innleidd í kjölfarið. Það gefur vísbendingu um að veikindafjarvera gæti verið meiri á opinberum og almennum vinnumarkaði í heild.
Þetta er óskiljanlegt. Af hverju ætti það að viðkomandi vinnustaðir fóru í stefnumótun árið 2011 að breyta tölfræðilegum takmörkunum greiningarinnar sem er verið að fjalla um? Það er kannski vísbending um að þetta þyrfti að kanna betur en réttlætir ekki alhæfingar.
Hér er annaðhvort verið að misskilja tölfræðina sem byggt er á eða verið að beita blekkingum.
Veikindi tvöföld hjá hinu opinbera | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.5.2015 | 14:47
Android snjallúrið mitt er æði! En ég get ekki mælt með því fyrir aðra.
Ég á snjallúr. Mjög fínt Android Wear LG G Watch R, sem ég nota mikið og hefur haft töluverð áhrif á hvernig ég nýti mér upplýsingatækni almennt. Ég er oft spurður Á ég að fá mér svona? Því miður er svarið mitt í flestum tilvikum nei. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ef viðkomandi veit ekki hvað það er að róta (e. root) símann sinn (og þar með ógilda ábyrgðina) og er smeykt við að krukka í kerfisskjölum þá er það að fá meingallaða vöru. Það er eiginlega eins og að kaupa íbúð á fullu verði en fá ekki lyklana að dyrunum - þú getur kíkt inn um gluggan en þú getur ekki gert neitt. Google (sem n.b. rekur fyrirtæki hér á landi) hefur nefnilega kosið að gera Google Now, sem er sú eining Android fartæknikerfisins sem framtíðarþróun þess byggist á, óvirkt á Íslandi. Án Google Now eru Android úrin lítið meira en dýrt skraut. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá að vita af hverju þetta er hef ég ekki fengið nein svör. Þar með talið eru m.a.s. samskipti sem ég átti við verkefnisstjóra Google Now hjá Google. Ég held að hún hafi ekki einu sinni áttað sig á því að Google Now væri óvirkt í sumum löndum.
En hvað er Google Now? Líklega eru margir Íslendingar sem þekkja þetta aðeins sem óvirkan valmöguleika í snjalltækjum sínum sem er Not available in your country. Google Now er gervigreindarbúnaðurinn í Android tækjum og af mörgum talinn töluvert betri en Siri, gervigreindin í snjalltækjum Apple. Google Now getur fylgst með staðsetningu notandans, hvað hann er að gera, hver áhugamál hans eru og fleira og fært honum upplýsingar eftir því. Til dæmis:
- Google Now veit að ég fylgist með ákveðnum vefsvæðum þar sem fjallað er um framtíðarfræði og menntamál og lætur mig vita þegar nýtt efni birtist þar.
- Google Now notar skynjara í snjalltækjum mínum til að átta sig á þegar ég er að ganga, hjóla eða stunda aðra hreyfingu og tekur upplýsingarnar saman til að ég viti hversu latur eða duglegur ég er búinn að vera.
- Google Now veit hvar ég á heima og notar staðsetningu mína til að láta vita hversu löng heimferðin verður og hver sé besta leiðin eftir því hvaða ferðamáta ég nota.
- Google Now les dagatalið mitt og veit hvenær og hvar ég þarf að vera mættur á fund og lætur mig vita í tæka tíð svo ég hafi tíma til að koma mér á staðinn.
- Google Now veit af bókuðum flugferðum o.þ.h. og passar að ég sé vel undirbúinn þegar þar að kemur.
Þetta allt gerir Google Now án þess að ég gefi nokkrar skipanir þar um. Ég hef sett upp mínar upplýsingaþjónustur þannig að Google Now hefur aðgang að þeim og gervigreindarbúnaðurinn sér um afganginn. En Google Now býður líka upp á margt fleira. Til dæmis eru fjölmargar raddskipanir í Android kerfinu tengd Google Now. Íslendingar þekkja það vel að hægt er að framkvæma leit með raddskipunum og er það íslenska talhermi Google að þakka, sem er sagður vera fullkomnasti íslenski talhermir sem til er í dag. Með Google Now verða ýmsar raddskipanir virkar sem eru það ekki annars. Þá get ég til dæmis með röddinni einni:
- Beðið snjalltækið um að minna mig á að gera eitthvað þegar ég er kominn á tiltekinn stað - t.d. að kaupa mjólk næst þegar ég er í matvörubúð eða að setja í þvottavél þegar ég kem heim.
- Ræst tiltekið smáforrit í snjalltækinu.
- Samið og sent smáskilaboð eða tölvupóst.
- Hringt í einhvern úr símaskránni.
- Fengið eða látið þýða einstaka orð eða frasa á ótal tungumál.
- Fengið lausn á stærðfræði dæmi.
- Látið spila tónlist sem ég vil úr eigin safni eða smáforriti eins og Spotify.
- og margt fleira.
En ef Google Now er ekki virkt þá er flest af þessu ekki í boði.
Snjallúrið er sítengt símanum og með hljóðinntak til að taka á móti raddskipunum og skjá til að birta upplýsingar (og klukku auðvitað). Þannig get ég beðið úrið um að segja mér hvernig ég segi ég hjólaði út í búð á dönsku eða hvað (55*372)/3 er (svarið er 6820) án þess að þurfa að taka upp símann. En allt þetta get ég bara út af því að ég er hæfilega mikill nörd að ég treysti mér til að hakka símann minn. Hefði ég ekki verið búinn að ganga úr skugga um að ég gæti hakkað símann til að virkja Google Now hefði ég aldrei keypt mér Android snjallúr. Það skal viðurkennast að Google Now þegar það er virkt hér á Íslandi gerir ekki nærri jafn margt og það gerir í Bandaríkjunum en nóg að mínu mati til að réttlæta vesenið sem það kostar.
Mér finnst ægilega gaman að sýna kennurum hvað ég get gert með úrinu mínu - spyrja það spurninga, gefa því skipanir, láta það þýða fyrir mig og svo framvegis. Flestir verða mjög hissa því þeir hafa ekki áttað sig á þessum möguleikum snjallúranna og gera sér því litla grein fyrir því hvað það hefur að segja að nemendur allt niður í grunnskóla eru byrjuð að mæta með slík tæki í skóla (ég hef heyrt um fjölmörg dæmi þess). En því miður þá er þessi tækni enn óaðgengileg fyrir flesta íslenska notendur. Og það sem er verst er að margir átta sig ekki á þessu fyrr en þeir eru búnir að spreða á tækjakaupin. Google er nefnilega ekki að láta vita að notkun þessarar tækni er mjög takmörkuð í löndum eins og Ísland þar sem lokað er á Google Now. Það er meira að segja þannig að notendur Android hér á landi (alla vega þeir sem eru með Lollipop stýrikerfið 5.*) eru sífellt hvattir til að virkja Google Now til að fá alla frábæru fítusana. Þegar þeir reyna að gera það kemur í ljós að það er ekki hægt - en þeir fá samt áfram ábendingarnar um hversu mikilvægt er að virkja það.
Að lokum skora ég á þá aðila hér á landi sem selja Android vörur að upplýsa okkur neytendur um það af hverju einn helsti kerfishluti Androids er gerður óvirkur og hvenær megi vænta þess að það breytist.
Menntun og skóli | Breytt 28.5.2015 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2015 | 11:27
Að eiga við menntakerfið
Nýlega hef ég átt í samræðu við fólk á netinu sem gagnrýnir menntakerfið m.a. fyrir það að það verji sig sjálft gagnvart breytingum til að halda sér gangandi, sem leiðir til stöðnunar, ofvaxtar og eflaust margt fleira. Gagnrýni sem þessi á eflaust rétt á sér að einhverju leyti en undirstrikar um leið hversu brýnt er að skilja hvernig kerfi virka almennt ef gagnrýni og aðgerðir eiga að hafa áhrif. Þar kemur að gagni s.k. kerfiskenning (sem mér finnst frekar afleit tilraun til að þýða systems theory en ég má ekki vera að því að láta mér detta eitthvað betra í hug núna). Kerfiskenning hjálpar til við að greina aðstæður í hvers kyns kerfi út frá heildrænum áhrifum umhverfis, innviða og virkni. Skv. kerfiskenningu eru ákveðin lögmál sem eru að verki í öllum kerfum og skiptir þá engu hvort við erum að tala um menntakerfi, leikkerfi landsliðsins í handbolta eða vél í bíl. Í öllum tilvikum er kerfi í gangi sem tekur við innleggi, umbreytir því og sendir frá sér sem afurð. Kerfiskenning (eða kerfisnálgun, e. systems thinking) segir okkur að þegar við erum að fást við slík kerfi þurfum við að horfa heildrænt á þau og skilja hvernig allir partarnir virka saman ef við ætlum að geta haft áhrif á þau. Kerfiskenning hefur orðið nokkuð algengt greiningartæki til að skoða menntakerfi, sérstaklega eftir að Peter Senge og félagar gáfu út bókina Schools That Learn: A Fifth Discipline Fieldbook for Educators, Parents, and Everyone Who Cares About Education árið 2000.
Þegar við erum að fást við kerfi eða að reyna að breyta kerfi þá er mikilvægt að við skiljum hvernig kerfi virka og hvað hefur áhrif á þau. Hér eru nokkur grundvallaratriði sem öll kerfi eiga sameiginlegt sama hvers eðlis þau eru. Sumt kann að virðast nokkuð mótsagnarkennt.
- Eðli kerfa er að leita jafnvægis. Í kerfiskenningu er þetta jafnvægi kallað homeostasis. Það er algengt að fólk telji eðli kerfa vera að halda sér gangandi því þannig vinna þau verk sín og það hlýtur þá að vera grunneðlið. Svo er ekki. Kerfi getur fórnað ganginum til að halda jafnvægi en það fórnar síður jafnvæginu til að halda sér gangandi. Til dæmis, ef olían á bílvél klárast heldur vélin áfram að ganga þangað til vélarhlutir eru svo illa farnir að hún nær ekki lengur að stilla jafnvægi milli bensíninntaks og þess að knýja bílinn áfram og vélin hættir að ganga. Það gerir lítið gagn að reyna að gangsetja bílinn á ný. Við þurfum að gera breytingar inni í vélinni þannig að kerfið geti aftur farið að stilla sjálft til jafnvægis eftir þörfum. Það er eins með menntakerfið - það leitar sífellt jafnvægis til að halda sér gangandi. Ef það getur ekki lengur stillt jafnvægi (t.d. vegna fjárskorts) þá hættir það að ganga, en ekki fyrr en það hefur reynt til þrautar að vinna tilætlað verk með þeim aðföngum sem það hefur hverju sinni. Sjá meðfylgjandi mynd sem útskýrir homeostasis á einfaldan hátt.
- Þar sem kerfi er sífellt að leita jafnvægis þá er það sífellt að breytast. Það er oft sagt um menntakerfið að það breytist ekkert en þá er yfirleitt verið að tala um að það breytist ekki eins og tiltekinn aðili vill. Menntakerfið, eins og öll kerfi, bregst við innri og ytri áreitum með því að breyta sér á hagkvæmasta hátt sem kostur er á og aðföng leyfa. T.d. þegar notkun samfélagsmiðla var að breiðast meðal ungmenna þá voru viðbrögð skóla að banna slíka miðla innan veggja þeirra og gera ýmislegt til að koma í veg fyrir að nemendur hefðu aðgang að þeim. Þetta er breyting. Þetta er kannski ekki sú breyting sem mörg okkar hefðu viljað sjá en er breyting samt sem áður. Þarna voru búnar til reglur sem breyta getu kerfisins til að leita jafnvægis í ljósi nýrra aðstæðna og er í fullkomnu samræmi við það sem við er að búast af kerfi.
- Margir vilja að menntakerfið verði opnara fyrir nýjungum og verði meira skapandi en þeir telja það vera og halda að til þess að það gangi þurfi að einfalda og minnka kerfið. Hins vegar er það svo að einföld og lítil kerfi leiða síður til nýsköpunar en flókin kerfi þar sem ríkir hæfileg óreiða, það sem stundum er kallað chaordia (sem mætti þýða sem skipulagt kaos). Óreiða er afl sem verkar stöðugt á jafnvægispunkt kerfisins þannig að hann er alltaf að færast til. Kerfið bregst við með að leita jafnvægis og þegar óreiðan er hæfilega mikil þá dugir ekki að fara hagkvæmustu eða auðveldustu leið og nýsköpun á sér þá stað. Hins vegar er mjög erfitt að átta sig á hver hæfilega hlutföll óreiðu og skipulags þurfa að vera til að láta þetta ganga upp. En, ef ætlunin er að stuðla að nýsköpun þá er einfalt og lítið kerfi sennilega ekki rétta leiðin.
- Kerfi mótast ekki síður af umhverfinu en innviðum. Til að átta okkur á kerfi og hvað það er sem hefur áhrif á kerfi þurfum við að hugsa heildrænt. Kerfi afmarkast ekki af gangverkinu einu. Um leið og einhver aðili er farinn að skipta sér af kerfinu í orði eða verki þá er sá orðinn hluti af því og hefur áhrif á það. Það má t.d. líta á vél í bíl sem eitt heildstætt kerfi. En um leið og ökumaður stígur á bensíninngjöfina þá er sá orðinn hluti af kerfinu. Þeir sem tala um menntakerfið opinberlega, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt, eru um leið að gera sjálfa sig að parti af kerfinu.
Ég hef því miður ekki tíma til að skrifa meira um þetta þessa stundina þar sem ég þarf að koma mér út á flugvöll. En skilaboðin eru þessi: ef við erum að fást við kerfi og viljum breyta því kerfi þá þurfum við að skilja hvernig kerfi virka. Tilraunir til að breyta kerfi án þess að skilja þau leiða til óútreiknanlegra útkoma sem verða til þegar kerfið leitar jafnvægis. Ef við skiljum hvernig kerfi virka þá sjáum við fljótt að leiðin til að breyta þeim er að huga að jafnvægispunktinum. Hvernig truflum við jafnvægispunktinn á þann hátt að kerfið leiti jafnvægis í þá átt sem við viljum að það leiti? Ef þetta tekst þá breytir kerfið sig sjálft eins og við viljum að það breytist.
Menntun og skóli | Breytt 10.12.2016 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)