Hvaðan kemur orðið "hönnun"?

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls.* Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design).** Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

*(viðbætt: 11.05.2015) Hilmar Þór Björnsson, arkitekt fékk leyfi til að endurbirta þessa grein á vefnum Arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Í umræðum þar bendir Sigurður St. Arnalds á grein sem birtist í DV 24. september, 1994, á bls. 16 undir yfirskriftinni Sögur af nýyrðum: Að hanna. Þar er staðfest að fyrirmynd að orðinu "hönnun" megi rekja til rótar orðsins "hannarr" en nefnt annað samróta sem ég hef ekki rekist á, "hanþón", sem ég kíki kannski betur á við tækifæri.

**(viðbætt: 11.05.2015) Ég hef nú lesið umrædda grein. Þar er mjög augljóst að verið er að kynna nýyrði til sögunnar - gerð ítarlega grein fyrir merkingu hugtaksins og hliðstæðu í ensku. Hins vegar er ekkert sagt um hvernig hugtakið hefur verið búið til. Líklega er eins og Anna Rögnvaldsdóttir segir í ummælum fyrir neðan að orðið hafi verið búið til af íðorða- eða nýyrðanefnd.


Eru það nemendur 7. & 10. bekkjar sem setja Ísaksskóla í sérflokk?

standardized-testsUm daginn stoppaði ég við á kaffihúsi í bænum á leið minni á fund. Þar fann ég nýjasta tölublað DV þar sem var heil opnugrein um hvað nemendur Ísaksskóla brillera á samræmdum prófum undir yfirskriftinni „Ísaksskóli í sérflokki”, hvorki meira né minna. Stór orð sem þessi verðskulda nánari rannsókn. Ég komst að tveimur niðurstöðum:
1. Ég veit ekki um Ísaksskóla en greinarhöfundur er örugglega í sérflokki hvað varðar skapandi túlkun tölfræðigagna!
2. Það virðast vera nemendur 7. & 10. bekkjar sem setja Ísaksskóla í sérflokk.

Skoðum þetta nánar
Í greininni segir í hnotskurn að þegar reiknað er meðaltal af öllum samræmdum prófum, þ.e. fyrir 4., 7. og 10. bekk, fyrir alla skóla landsins skarar Ísaksskóli lang fram úr öllum öðrum. Reiknuðu meðaltölin styðja þetta enda er reiknað meðaltal Ísaksskóla yfir 40 stig og næsti skóli þar á eftir vel innan við 40.

En nú vakna ýmsar spurningar enda reikniaðferðirnar svolítið sérstakar. Ég ætla að skoða hér tvær:
1. Hvað segir það okkur að reikna meðaltal af útkomum úr samræmdum prófum mismunandi árganga?
2. Hvernig er útkoman ef við reiknum þetta á annan hátt?

1. Það er stórfurðulegt og vægast sagt dúbíus að reikna meðaleinkunn fyrir hvern skóla til að gera samanburð eins og er gerður í greininni. Í fyrsta lagi, þá eru próf ekki lögð fyrir alla árganga í þessum skólum. Eina samræmda prófið sem er lagt fyrir í Ísaksskóla er í 4. bekk. Þannig að það er verið að bera saman meðaltal úr sumum skólum sem byggist á prófum í 4., 7. og 10. bekk við útkomur skóla sem er bara með 4. bekk eða (annað tilfelli sem er fjallað um í greininni) bara 4. og 7. bekk. Til að slíkur samanburður gangi upp þyrfti að sýna fram á ýmislegt - sérstaklega að niðurstaða í samræmdu prófi í 4. bekk í Ísaksskóla gefi áreiðanlega til kynna hvernig nemendum muni ganga á samræmdum prófum í 7. og 10. bekk, hvar svo sem þeir eru í skóla á þeim árum. Ég kannast ekki við að þetta hafi verið gert og ef svo er þá er allavega ekki vísað í neitt í greininni. Þannig að þetta er mjög hæpinn samanburður.

2. Eðlilegast er að bera niðurstöður nemenda í Ísaksskóla við niðurstöður 4. bekkjar í öðrum skólum. Ef við gerum þetta þá kemur í ljós að Ísaksskóli er ekki algjörlega í sérflokki. Reyndar er hann næstum hnífjafn við nemendur Njarðvíkurskóla. Ennfremur er ekki eins mikill munur á Ísaksskóla og öðrum skólum sem eru að ná góðum árangri.

Niðurstaðan virðist því vera þessi: Ef Ísaksskóli er í sérflokki þá virðist það vera vegna nemenda í 7. og 10. bekkjum. En Ísaksskóli er, eins og allir vita, hvorki með 7. né 10. bekk.


HÍ meðal bestu háskóla í heimi? Fer eftir því hvernig þú skilgreinir "bestur"...

first_placeEinar Steingrímsson segir í frétt á Vísi.is að staða Háskóla Íslands í alþjóðlegu samhengi sé ekki nærri eins góð og Kristín Ingólfsdóttir, rektor, vill meina. Kristín hafði bent á að HÍ væri meðal 300 bestu háskóla í heimi. Þetta er rétt samkvæmt lista Times Higher Education (THE) en Einar bendir á að það eru aðrir listar þar sem HÍ nær ekki hátt á eða jafnvel ekki neitt. "Villandi málflutningur af þessu tagi, þar sem valin eru gögn sem henta málstað manns, eru óboðleg fyrir forystu háskóla með sjálfsvirðingu.”, segir Einar. Hann lætur þó ósagt hver munurinn á þessum listum er og má segja að það sé ekki síður villandi málflutningur en hann sakar rektor um. Listarnir sem Einar bendir á eru:
 - US News & World Report
 - Shanghai listinn, sem heitir nú ARWU
 - QS, sem heitir nú CWUR

Fyrst er að útiloka það sem hreinlega á ekki við. Ísland er ekki með í US News & World Report könnuninni. Að nefna hann er eins og að dæmi mig hæfileikalausan vegna þess að ég vann ekki Ísland got talent. Ég var ekki skráður í keppnina þannig að við munum aldrei vita í hvaða sæti ég hefði lent. Sama á við um stöðu HÍ á US News & World Report listanum.

Shanghai listinn er oft sagður vera mjög virtur og marktækur. Raunin er að hann er mjög dúbíus - svo mikið svo að staðið hefur til að endurskipuleggja hann frá grunni í mörg ár en það hefur af einhverjum ástæðum ekki gerst. Persónulega held ég að eina ástæðan fyrir því að hann hefur verið notaður er að hann var lengi vel sá eini sem hægt var að komast í á netinu án þess að greiða fyrir. Einn helsti þátturinn í Shanghai mælingunum er fjöldi Nóbels og Fields verðlaunahafa meðal fyrrum nemenda og prófessora. Hvað það á að segja mér um gæði háskóla veit ég ekki en er kannski heillandi fyrir suma tilvonandi nemendur. Engin tilraun er gerð til að meta gæði kennslu í viðkomandi háskólum.

QS listinn er mjög svipaður Shanghai listanum. Þar er líka lögð mikil áhersla á fjölda verðlauna sem fólk tengt skólum hefur unnið til. Eins og Shanghai listinn er engin tilraun gerð til að meta gæði kennslu. Eitt matsatriðið, sem vegur ekki minna en 25%, er fjöldi fyrrum nemenda sem hafa stýrt stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Ætli fangarnir á Kvíabryggju styrki stöðu HÍ á listanum? Hvað þetta hefur með gæði háskóla að gera veit ég ekki. Eitt sem QS gerir sem gerir hann sérstakan er að kanna viðhorf vinnuveitenda til háskóla, sem er kannski áhugavert fyrir tilvonandi nemendur en segir lítið um gæði út af fyrir sig.

THE listinn er sá eini af þessum sem eru nefndir sem raunverulega reynir að meta gæði kennslu og náms. Námsumhverfi vegur 30% og er reiknað út frá fjölbreyttum gögnum sem er aflað með ýmsum hætti - meðal annars könnun sem nær til um 10.000 fræðimanna um allan heim.

Háskólar eru margslungnar stofnanir sem er ætlað að vera margt í senn: námsvettvangar, rannsóknarmiðstöðvar, miðstöðvar þekkingarmiðlunar, og margt fleira. Það er ekki lítið mál að meta gæði þeirra og sennilega engin kvarði sem nær yfir allt. En þegar verið er að meta stöðu tiltekinna stofnana út frá þeim listum sem eru til er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað er verið að mæla. Í stefnumótun HÍ 2006, þar sem meðal annars var stefnt að því að stofnunin yrði meðal 100 bestu háskóla í heimi, var lögð mikil áhersla á hlutverk stofnunarinnar gagnvart íslensku samfélagi. Fræðsluhlutverk stofnunarinnar var haft að leiðarljósi og því er eðlilegast að meta árangur í samræmi við það. THE listinn er sá eini af þeim sem nefndir eru sem er marktækur á því sviði. Að draga hina inn í umræðuna er frekar villandi.

 


Geta geirvörtur breytt heiminum?

miles-davis-san-francisco-ca-1971-jim-marshall

Miles Davis og geirvörtur hans um það leyti sem hann var að breyta heiminum.

Um fátt annað hefur verið rætt eins mikið síðustu daga en brjóst og geirvörtur. Margir furða sig á þessu nýjasta uppátæki íslenskra ungmenna sem tóku sig til og flössuðu geirvörtum sínum fyrir hverjum sem vildu sjá, sem og þeim sem ekki vildu. „Ég bara skil þetta ekki!”, segja sumir. Biggi lögga heldur því fram að þátttakendur munu sjá eftir því síðar meir. Sumir ganga svo langt að kalla þátttakendur „plebba". Sérfræðingur í kynjafræðum velti fyrir sér í fréttum RÚV hvort átakið „tali inn í það samhengi” sem skapast hefur í kringum ríkjandi orðræðu um jöfnuð og réttindi kynja. En þá spyr ég: af hverju ætti unga fólkið að vera að tala inn í það samhengi? Sú orðræða hefur augljóslega ekki skilað því sem það vill. Skilaboð unga fólksins eru skýr fyrir mér: nú skal hafna gömlu gagnslausu orðræðunni og taka upp nýja, sem verður á forsendum nýrrar kynslóðar. Það er því ekki að furða að aðgerðirnar „tala ekki inn í” gamla samhengið. Það er þveröfugt við markmiðið. Þeir sem ætla að taka þátt í nýju orðræðunni verða að tala inn í hana - aðrir munu aldrei heyra né skilja það sem unga fólkið er að segja.

Það sem unga fólkið er að gera nú minnir um margt á það sem Miles Davis gerði í djasstónlistinni á 7da áratug síðustu aldar. Mörgum fannst djassinn þá vera orðinn einsleitur og þreyttur - búinn að hjakka í sama farinu í áratugi. Þegar Miles Davis gaf svo út plötuna Bitches Brew voru margir sem höfnuðu henni og sögðu Davis vera algjörlega genginn af göflunum að vera senda frá sér þvílíkan hávaða og kalla „djass”. Í dag er Bitches Brew auðvitað talin eitt mesta meistaraverk tónlistarsögu 20. aldar. Hún markaði upphaf byltingar í tónlist, sem breytti ekki aðeins hvernig tónlist er samin og spiluð heldur líka hvernig við hlustum á og heyrum tónlist. Davis tók sér það bessaleyfi að gjörbreyta tónlistarorðræðunni og hann gerði það ekki með því að tala inn í það sem samhengi sem var til staðar. Hann bauð tónlistarmönnum og unnendum að taka þátt í að móta nýja orðræðu, sem þeir og gerðu. Hvort sem hlustað er í dag á djass, rock, R&B, klassík eða hvað annað, er öruggt að greina má áhrif Bitches Brew í einhverju formi.

Þeir vita það vel sem hafa fengist við nýsköpun og/eða breytingastjórnun að oft er besta, og jafnvel eina leiðin til að ná árangri að skapa nýja orðræðu. Ef sú gamla er orðin svo rótgróin að engin man t.d. hver ákvað að konur mega ekki sýna geirvörtur sínar né hvers vegna, en samt er staðið fast á því að það megi alls ekki, þá er líklega kominn tími til að taka málið upp á nýjum forsendum. Það er það sem unga fólkið er að gera nú og ég fagna því. Ég er kannski ekki alveg tilbúinn að hella mér í þá umræðu en ég ætla að leggja mig fram við að hlusta á það sem unga fólkið er að segja og reyna að skilja þeirra mál svo ég geti talað inn í þeirra samhengi - þeirra sem munu líta skammarlaust til baka þegar þau benda á myndir sem þau póstuðu og segja „Þetta er þegar ég byrjaði að breyta heiminum.


Um skaðsemi þráðlauss nets, súrsaðs grænmetis og annarra hættulegra efna

Vegetable-picklesÍ Fréttatímanum um daginn birtist grein Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Snjallbörn í snjallheimi, þar sem hún varar við ýmsum hættum snjalltækja í umhverfi barna. Hún bendir t.d. á uppeldisleg áhrif þess að börn fái e.t.v. ekki nægilega fjölbreytta örvun. Þetta getum við sagt að sé "kommon sens" - ekkert nýtt þar á ferðinni. Annað tel ég vera hræðsluáróður. Margrét Pála bendir á mögulegar heilsufarslegar hættur útvarpsbylgja þráðlausra neta. Máli hennar til stuðnings bendir hún á að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hafi sett utvarpsbylgjur af því tagi sem um ræðir á lista yfir mögulega krabbameinsvaldandi umhverfisþætti. Ennfremur segir hún, sem á væntanlega að styðja hennar málstað enn frekar, að Frakkar hafi bannað þráðlaus net í leikskólum.

Rétt er að Frakkar samþykktu nýjar reglur um þráðlaus net á svæðum þar sem börn 3ja ára og yngri hafast við. Ég er ekkert sérstaklega sleipur í frönskunni en eins og ég skil þetta væri réttara að segja að reglugerðin takmarki mjög notkun þráðlausra neta en ekki að þau séu með öllu bönnuð (hvet lesendur sem skilja betur til að leiðrétta mig ef þarf). En hér má spyrja, af hverju var þessi reglugerð samþykkt? Eflaust hefur það eitthvað með ákvörðun franskra yfirvalda að gera að útvarpsbylgjur voru settar á lista WHO sem Margrét Pála nefnir, enda oft vísað í hann í umræðunni um nýju reglugerðina.

WHO setti útvarpsbylgjur í svokallaðan 2b flokk yfir umhverfisþætti sem eru mögulega krabbameinsvaldandi en ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamband. Það er ansi margt í þessum 2b flokki, en þar finnum við t.d. kaffi, aloe vera og súrsað grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Nú er ekki óalgengt að við takmörkum aðgengi ungra barna að kaffi enda finnst þeim það rosalega vont og sennilega mega þau ekki við auka peppinu sem fylgir. Ég kannast hins vegar ekki við að Frakkar né aðrir hafi sérstaklega reynt að takmarka aðgengi ungra barna að aloe vera eða súrsuðu grænmeti. Það að efni eða umhverfisþættir séu settir í 2b flokk WHO þykir því auglóslega ekki nægileg ástæða til að takmarka aðgengi að þeim.

Af hverju hafa Frakkar þá ákveðið að takmarka þráðlaus net í umhverfi barna? Tja… Satt að segja þá veit ég það ekki. Fræðimenn eru að mestu á einu máli um að lítil krabbameinshætta stafi af útvarpsbylgjum. Þeir telja almennt að engin fræðilegur möguleiki er á því að útvarpsbylgjur geti valdið krabbameini, að slíkt samræmist ekki náttúrulögmálum eins og við skiljum þau nú. Það er að segja, að mati helstu lífeðlisfræðinga heims er ekki hægt að sýna fram á að útvarpsbylgjur valdi krabbameini nema með því að gjörbreyta vísindalegri heimsmynd okkar.

Það er alltaf einhver lítill hópur meðal fræðimanna og almennings sem sér hlutina öðruvísi. Slíkir hópar er oft nokkuð duglegir að koma skoðunum sínum á framfæri og halda þannig á lofti ímynduðum vafa. Og þarna virðumst við komin að kjarna rökfærslu Margrétar Pálu enda segir hún:

"Ef börn eiga að njóta vafans ættu barnafjölskyldur að slökkva á þráðlausa netinu nema þá stuttu stund sem samkomulag er um að fjölskyldan skreppi í netheimana."

Og þá spyr ég - hvaða vafi er það, Margrét Pála, og eigum við að hafa sömu áhyggjur af súrsuðu grænmeti?

 


Hugvísindi og skapandi greinar ekki síður mikilvægar

Fuzzy-math-300x221Vissulega er stærðfræði mikilvæg undirstaða ýmissa starfsgreina og full ástæða til að leggja áherslu á hana. En allar þessar greinar þurfa, eða hafa gagn af, hugvísindum, félagsvísindum og skapandi greinum líka. Hvað væri Eve Online án listamanna og söguhöfunda? Hvernig viðmót hefði stærðfræðingur hannað fyrir QuizUp? Hefði Martin Cooper farið að búa til farsíma ef hann hefði ekki séð "communicator-inn" í Star Trek? Í áhrifaríkri tækniþróun birtist hæfileg blanda ímyndunar, sköpunar, samfélagsvitundar og tækni- og stærðfræðiþekkingar. Menntakerfið þarf að endurspegla þetta flókna samspil og tryggja að allir fái tækifæri til að þróa sína hæfileika.

Ef ég skil orð Kristínar Ingólfsdóttur, rektors HÍ, rétt þá er hún frekar að tala um að auka þurfi samþættingu stærðfræði við aðrar greinar frekar en einfaldlega að kenna meiri stærðfræði. Mikilvægast er að það sé hæfilegt jafnvægi milli greina til að nemendur öðlist þá hæfni sem þeir þurfa til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir um eigin framtíð. Þegar ungt fólk lætur óþarfa ótta ráða námsvali, e.o. rannsóknir hafa sýnt að gerist (t.d. hér og hér), þá er líklegt að við verðum af mögulega hæfileikaríku og skapandi fólki í mikilvæg störf.


mbl.is Vill leggja áherslu á stærðfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður en allir fara að segja upp Facebook...

scaryfacebookSíðustu daga hefur verið nokkur umræða um meðferð Facebook á persónulegum gögnum. Umræðan virðist eiga rætur að rekja (að þessu sinni - er alls ekki ný af nálinni) til erindis sem Ævar Einarsson, ráðgjafi hjá Deloitte, flutti á einhverri samkomu nýverið. Fréttir RÚV um málið gefa til kynna að miklar breytingar hafi átt sér stað um áramótin sem fela í sér stóraukið aðgengi Facebook að persónulegum gögnum sem hafa ekkert með notkun á miðlinum að gera. Skilaboðin eru nokkuð skýr, “Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú notar Facebook!”, eða eins og Ævar segir,

“Ef þú vilt vera alveg viss að þessar upplýsingar leki ekki til þriðja aðila og að myndirnar þínar séu ekki notaðar, þá verðurðu náttúrulega bara að hætta að nota Facebook…”

En Facebook hefur reynst mjög gagnleg fyrir marga notendur (sjá t.d. öll starfssamfélög skólafólks sem nota fésbók í markvissa starfsþróun). Er það sem hér er verið að ræða næg ástæða til að fórna því öllu? Ég held ekki. Í þessari umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga er farið heldur frjálslega með sumar staðreyndir, byggt á vanþekkingu á heimildakerfum í nútímatækjum, sök varpað á ranga aðila og alið á ótta sem ég tel að eigi ekki rétt á sér.

Ég ætla taka hvert atriði í þeirri röð sem birtist hér að ofan:

1. Hefur einhver stórtæk breyting átt sér stað nýlega sem gerir meðferð Facebook á persónulegum gögnum meira áhyggjuefni en var áður?
Það er ekki að sjá að svo sé. Þær heimildir sem Facebook-öpp (Facebook Messenger þar með talin) láta notendur samþykkja eru nokkurn veginn þær sömu í dag og þær voru síðasta haust þegar spjall-möguleikar voru endanlega færðir í sér app á snjall- og fartækjum. Ég hef ekki skoðað heimildirnar lengra aftur í tímann en leyfi mér að giska að þær hafi lítið breyst í nokkurn tíma. Ástæðan skýrist þegar ég segi aðeins frá því hvernig þessar heimildir virka í snjall- og fartækjum. Annars má áætla að margar smávægilegar breytingar hafi verið gerðar af og til enda breytast þarfir með virkni hugbúnaðar og Facebook öppin eru í stöðugri þróun.

2. Af hverju eru Facebook öppin að láta samþykkja mjög víðtækar heimildir?
Umsýsla og skipulagning heimilda í snjall- og fartækni er furðu vanþróuð og vantar mikið upp á gagnsæi í þeim málum. Í mjög einföldu máli þá virkar þetta þannig að öpp fara fram á að fá þær heimildir sem þau þurfa til að gera það sem þeim er ætlað að gera. Gallinn er að notendur eru ekki alltaf með á hreinu hvað öppunum er ætlað að gera og hvernig þau gera það. Þar við bætist að heimildir í snjall- og fartækjum eru yfirleitt bara samþykktar einu sinni, þ.e. þegar appið er sett upp. Þar af leiðandi þarf appið að fara fram á að fá heimildir fyrir fítusa sem viðkomandi ætlar sér kannski ekki að nota í upphafi til þess að þeir verði til staðar síðar.

Samfélagsmiðlar e.o. Facebook hafa þróast mjög hratt á undanförnum árum þannig að fólk notar þá núorðið til ansi margs (skoðið heimildirnar fyrir önnur slík öpp, t.d. Google+ eða Twitter - öll þessi öpp eru með mjög víðtækar heimildir). Fólk er að deila myndum, spjalla, skiptast á skjölum, láta vita af sér (og kannski hvar maður er) og margt fleira. Hugbúnaðarframleiðendur eru ekki í því að sérsníða öpp fyrir hvern notanda þannig að appið þarf að geta gert allt sem Facebook býður upp á. Ef heimildirnar sem Facebook appið fer fram á eru skoðaðar þá sést greinilega hvað er þarna í gangi, t.d.:
- Appið þarf að geta notað myndavélina vegna þess að sumir vilja deila myndum.
- Appið þarf aðgang að sms vegna þess að sumir notendur vilja fá tilkynningar um virkni eða þjónustu (t.d. vegna glataðs leyniorðs) í sms.
- Appið þarf aðgang að símaskrá vegna þess að sumir vilja geta hringt í vini beint úr appinu eða tengt saman vinaskrá og símaskrá.
- Appið þarf aðgang að skráningum fyrir ýmsar þjónustur vegna þess að sumir vilja geta skráð sig inn í þjónustur með Facebook aðganginum.
- Appið þarf aðgang að upplýsingum um vefnotkun vegna þess að sumir vilja deila vefsíðum.
- o.s.frv.
Þannig að Facebook appið fer fram á þær heimildir sem þarf til að gera það sem fólk vill nota appið til að gera. Það breytir því ekki að möguleiki á misnotkun er fyrir hendi en það er ekki Facebook (né öðrum hugbúnaðarframleiðendum) að kenna, eins og ég útskýri í næsta lið.

3. Af hverju get ég ekki slökkt á heimildum sem fylgja fítusum sem ég nota ekki?
Það fer reyndar eftir því hvaða stýrikerfi þú ert að nota. Í IOS kerfi Apple er hægt að stjórna heimildum að einhverju leyti. Í “privacy” stillingunum er hægt að slökkva og kveikja á tilteknum heimildum fyrir einstök öpp (það sést þar líka hvaða öpp hafa nýtt sér heimildir og á iPadnum mínum er notkun Facebook og annarra þekktra samfélagsmiðla í fullkomnu samræmi við það sem ég myndi búast við - ekkert spúkí í gangi). Í Android kerfi Google var um tíma hægt að breyta heimildum fyrir einstök öpp. Til þess að gera það þurfti að setja inn app sem gerði falinn fítus sýnilegan. Þetta hvarf með kerfisútgáfu 4.4 og engin leið er að vita hvort né hvenær það ratar aftur inn. Þannig að sökin hvað þetta varðar (ef einhver er) liggur ekki hjá Facebook eða öðrum sem framleiða öpp heldur hjá aðilanum sem býr til stýrikerfið, sem er auðvitað í flestum tilvikum Apple eða Google. Apple hefur staðið sig betur hvað þetta varðar.

4. Þarf ég þá ekkert að óttast?
Ég held að óttinn sem maður verður stundum var við er frekar yfirdrifinn. Ef okkur finnst ástæða til að óttast þá er líklegast fátt í stöðunni annað en að endurhugsa hvernig við notum samfélagsmiðla og netið yfirleitt. Betra er að reyna að vera meðvituð um það sem við gerum með tækni, skilja hvernig tæknin virkar og beita heilbrigðri skynsemi í okkar samskiptum í stafræna veruleikanum. Eins og öll önnur samskipti og viðskipti þá byggist þetta allt á trausti og ef við treystum ekki aðilanum sem við erum að díla við þá þurfum við að hafa það í huga þegar við notum þjónustuna hans eða hreinlega að nota hana ekki. Ég veit ekki til þess að Facebook eða aðrir samfélagsmiðlar hafi orðið uppvísir að því að misnota aðstöðu sína gagnvart notendum með saknæmum hætti og ég treysti þeim þess vegna. Það breytir því samt ekki að ég fer mjög varlega á netinu og í mínum rafrænu samskiptum almennt. Þar að auki verð ég líklega með þeim fyrstu til að breyta heimildum appa samfélagsmiðla í Android símanum mínum þegar það verður hægt. Það er einfaldlega vegna þess að það eru heimildir í gangi sem tengjast þjónustum sem ég nota ekki og því ástæðulaust að þær séu opnar.

Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvort og hvernig þeir vilja nota samfélagsmiðla. En ekki láta ákvörðunina ráðast af svona æsifréttamennsku sem hefur verið í gangi hér á landi síðustu daga. Kynntu þér málið - hver er raunverulega hættan, hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir? Umfram allt beittu heilbrigðri skynsemi. Af hverju ætti aðili eins og Facebook að fórna stöðu sinni sem stærsti og helsti samfélagsmiðill í heiminum með því að laumast í sms skilaboð sem hafa ekkert með hann að gera? Þetta er bara frekar asnaleg pæling. Ef þú hefur virkilega áhyggjur af þessu þá hefurðu ýmsa valkosti: Fáðu þér iPhone, hakkaðu Android símann þinn til að geta stýrt heimildum (það eru ýmsar leiðir til þess), eða hreinlega hættu að nota samfélagsmiðla. En umfram allt vertu með á hreinu af hverju þú kýst þá leið sem þú ferð og hvað hún felur í sér. Mín ráð eru, slappaðu af, láttu ekki stjórnast af æsifréttamennsku og kynntu þér málin.


Manifesto 15 - gott framtak en örlítið gallað

manifesto15Nýlega sendi Dr. John Moravec og fleiri frá sér Manifesto 15: Evolving Learning (sjá íslenska þýðingu Ragnars Þórs Péturssonar hér - Manifesto 15: Nám í þróun). Þetta er frábært framtak hjá Moravec og kollegum, og Ragnar Þór á þakkir skildar fyrir snara snörun yfir á íslensku.

Eins og segir í upphafi yfirlýsingarinnar, þá er um að ræða yfirlit yfir stöðu skóla- og menntamála í dag í ljósi reynslu kennara, stefnumótenda, skólastjórnenda og annarra sem koma að menntamálum. Það er margt hér sem er mjög kunnuglegt fyrir mér enda erum við Moravec ágætir kunningjar og kenndum saman kúrs um framtíð samfélags og starfa við Háskólann í Minnesóta, ásamt leiðbeinanda okkar beggja, Dr. Arthur Harkins.

Þó mér finnist framtakið lofsvert er tvennt sem böggar mig í yfirlýsingunni sjálfri. Í fyrsta lagi er fullyrðingin “The future is already here…”, og í öðru lagi að höfundar virðast ganga út frá því að strategísk framtíðarsýn á skóla- og menntastarf sé til staðar eða að hún geti orðið til með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Þetta tvennt er svolítið skylt vegna þess að bæði tengjast hæfni til að móta uppbyggilega og raunhæfa framtíðarsýn sem hægt er að byggja menntastefnu á. Mín reynsla er að það vantar að efla þessa hæfni innan íslensks menntakerfis. Það stafar af ýmsu, en aðallega af tvennu: þeir sem koma að stefnumótun og innleiðingu hafa takmarkaða þekkingu á tækniþróun og hvernig hún mótar samfélag; og þekking á framtíðarfræðum og aðferðum hennar, sem framtíðarsýn þarf að byggja á, er mjög lítil ef þá nokkur.

Það er vinsælt að vitna í þessa fleygu setningu Williams Gibsons, “The future is already here - it’s just not very evenly distributed.”, enda er hún ansi smellin og flott. En hún er líka röng og villandi. Framtíðin er ekki “hér” í neinum skilningi. Hana er ekki að finna neins staðar í umhverfinu okkar. Framtíðin er alltaf þessi óráðni tími sem er framundan sem við höfum ekki enn upplifað. Við getum bent á ýmislegt í kringum okkur sem okkur finnst gefa vísbendingar um hvernig framtíðin getur orðið en þá erum við að benda á hluti sem eru í núinu, ekki í framtíðinni. Sumum finnst ég kannski vera með hártoganir út af engu hér, en mín reynsla er að þetta hugarfar, að halda að framtíðin sé einhversstaðar í kringum okkur, er ein helsta hindrunin fyrir framtíðarmiðaðri hugsun í skólastarfi og stefnumótun. Ég hef skrifað um þessi mál áður og frekar en að endurtaka mig bendi ég á eftirfarandi greinar, sem ættu líka að varpa ljósi á seinni athugasemdina mína:

 


Vilja SA & VÍ fylgja fordæmi eina Norðurlandsins sem er neðar en Ísland í PISA?

Samtök Atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa kynnt sínar áherslur í menntamálum í skýrslunni Stærsta efnahagsmálið: Sóknarfæri í menntun, sem kom út í síðasta mánuði. Helstu áherslurnar í skýrslunni virðast snúast fyrst og fremst um aukna aðkomu einkageirans að menntakerfinu og þá helst í formi einkarekinna skóla sem þó verða kostaðir af hinu opinbera. Það eru ansi margir veikir punktar í skýrslunni en ég ætla aðallega að tala hér um gröf sem kemur fram strax á bls. 9. Umfjöllunin hér er um meintan slakan árangur íslenskra nemenda á PISA og sérstaklega fundið að því að okkar nemendur skuli koma illa út í samanburði við önnur Norðurlönd þrátt fyrir það mikla fjármagn sem sett er í íslenska skólakerfið. Þessi mynd er svo birt til að sýna lesandanum hversu alvarlegur þessi mikli vandi er:

VI_SA_Menntun

Höfum nú í huga að skýrsluhöfundar halda því fram að íslenskir skólar kosta of mikið og ná ekki ásættanlegum árangri. Miðað við þessar forsendur og það sem kemur fram í myndinni fyrir ofan ættum við helst að fylgja fordæmi Finna. Þeir ná lang besta árangri miðað við fjárútlát. Um þetta verður ekki deilt. Þetta kemur mjög skýrt fram.

Höfum nú í huga hvað skýrsluhöfundar vilja að verði gert til að bjarga íslenska skólakerfinu, þ.e. að einkaaðilar fái opinbert fjármagn til að sjá um rekstur skóla. Það er aðeins eitt Norðurland sem hefur tekið upp slíkt fyrirkomulag að einhverju ráði. Það er Svíþjóð. Lítum nú aftur á myndina fyrir ofan. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að skýrsluhöfundar séu s.s. að leggja til að við fylgjum fordæmi eina Norðurlandsins sem er fyrir neðan Ísland í PISA!!!


Hvað hefur fræðasamfélagið um málefni framhaldsskóla að segja?

HvitbokÁ vef MenntaMiðju birtist í dag brot úr umræðu fræðimanna um Hvítbók um umbætur í menntun og málefni framhaldsskóla sem hefur farið fram innan Menntavísindasviðs HÍ síðustu vikur. Þetta er mjög áhugavert og þarft innlegg í þessa umræðu. Meðal þess sem þar kemur fram:

Gestur Guðmundsson: "Á bak við stefnumiðið um 'fleiri námslok á tilsettum tíma' búa vissulega réttmætar áhyggjur af þeim fjölmörgu íslensku framhaldsskólanemum sem 'finna sig ekki' í náminu, og hvítbókin tekur réttilega undir ábendingar um aðgerðir sem greina slíkan vanda snemma og taka á honum. En oft eru réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám."

Helgi Skúli Kjartansson: "Úr því svona margir ljúka stúdentsprófi, þá er minni sérhæfing fólgin í þess háttar námi, minna val eða ákvörðun að leggja út í það og markmið þess óhjákvæmilega almennari. Þess vegna er eðlilegt að stytta námið svo að nemendur fái á eðlilegum aldri að taka raunverulegar ákvarðanir um markmið sín í námi og framtíðarstarfi."

Atli Harðarson: "Gestur bendir réttilega á (í grein á bls. 23 í Fréttablaðinu 3. júlí 2014) að munurinn á skólagöngu ungmenna hér á landi og í Danmörku er mun minni en ætla mætti af yfirlýsingum þeirra sem hafa stór orð uppi um brottfallið hér á landi. Veruleikinn er sá (skv. Education at a Glance 2014, bls. 313) að hér á landi var fremur hátt hlutfall fólks á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2012 eða 88%. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 86% til 87% og meðaltalið fyrir OECD var 84%. Þessar nýjustu samanburðartölur um skólasókn benda því ekki til að íslensk ungmenni flýji framhaldsskólana í meira mæli en gerist og gengur í öðrum OECD löndum.
Ekki er nóg með að skólasókn hér sé með meira móti heldur var útskriftarhlutfall líka hátt árið 2012 eða 95% (Education at a Glance 2014, bls. 67). Á hinum Norðurlöndunum var það á bilinu 77% til 93% og meðaltalið fyrir OECD var 84%."

Greinin í heild er hér


mbl.is 17 ára með ráðstefnu í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband