22.8.2009 | 18:45
Stefna um upplýsingatækni í skólum
Ég hef aðallega skoðað stefnuna 2005-2008 um rafrænt námsefni. Meginmarkmiðin voru þessi:
- Auka framboð á stafrænu námsefni sem breytir formi náms - ekki bara að setja gömlu skólastofu gögnin á netið.
- Helstu höfundar stafræns efnis eru kennarar - virkja þá áfram og að auka aðkomu einkafyrirtækja.
- Auka gæðakröfur um stafrænt námsefni.
Helstu leiðir til að ná markmiðunum eru 3:
- Menntagátt
- Styrkir menntamálaráðuneytis
- Erlent samstarf
Hvernig hefur svo gengið?
- 1. Menntagátt er stórgölluð. Fréttir á forsíðunni hafa ekki verið uppfærðar síðan nóvember í fyrra. Langflest verkefni sem hafa verið skráð eru lítið áhugaverð með tilliti til 1. markmiðs. Um er að ræða texta sem hefur verið settur á netið. Lítið er um verkefni sem miða að því að virkja nemendur. Margir tenglar eru óvirkir.
- 2. Nota þróunarsjóð grunnskóla sem dæmi. Í raun virðast frekar fá verkefni sem hafa með upplýsingatækni að gera hafa verið styrkt. Mér sýnist m.a.s. að þeim hafi farið fækkandi með árunum. Vissulega er "vefur" oft nefndur í lýsingum en í flestum tilvikum er vefurinn aðeins ætlaður til birtingar útkomu verkefnis en gegnir ekki mikilvægu hlutverki í þróunarvinnunni. Í 2008-09 úthlutuninni voru aðeins 4 verkefni af þeim 30 sem fengu styrk sem miðuðu að því að skapa eitthvað sem mætti kalla rafrænt námsefni (ég leyfði mér að túlka það mjög lauslega). Þar af er aðeins 1 verkefni sem nefnir kennslufræði og aðferðir í tengslum við notkun upplýsingatækni.
Einhverjar aukafjárveitingar voru líka til þróunar rafræns námsefnis á tímabilinu sem þessi stefna nær yfir. Sjá má sýnishorn af nokkrum verkefnum sem voru styrkt hér (þ.e.a.s. ef menntagatt.is er að virka - http://www.menntagatt.is/default.aspx?pageid=531). Sum verkefnin eru nokkuð flott. Sum eru virkilega farin að sýna aldur sinn. Sum virðast vera algjörlega horfin af netinu. Það vantaði greinilega eftirfylgni. - 3. Íslendingar hafa haft aðgang að ýmsum styrkjum til erlends samstarfs um þróun rafræns námsefnis í gegnum Evrópusambandið og norrænt samstarf. Af einhverjum ástæðum hafa íslendingar ekki verið duglegir að nýta sér þessa möguleika. Á árunum 2004-06 var ESB með eLearning áætlun sem Íslendingar höfðu aðgang að. Skv. skýrslu sem Rannsóknaþjónusta HÍ vann 2005 hafði engin Íslendingur sent inn gilda umsókn. Einhverjir höfðu sýnt áhuga og jafnvel undirbúið umsókn en ekki geta lokið umsóknarferlinu.
eTwinning áætlunin (http://www.etwinning.net/en/pub/index.htm) var upphaflega partur af eLearning áætluninni en hefur haldið áfram undir Comenius áætluninni síðan eLearning lauk. Það er mesta furða að það er mikill áhugi og mikil þátttaka meðal Íslendinga í þessari áætlun þó svo að hún veiti enga styrki. Í dag eru Íslendingar þátttakendur í 85 verkefnum. Ég býst við að þau séu ekki öll virk en þetta er ansi há tala samt. - Það þarf að tryggja að kennarar hafi næga þekkingu til að sinna því starfi. Eins og er er aðeins einn 4 eininga skyldukúrs um upplýsingatækni í kennaranámi. Kúrsinn snýr meira að notkun upplýsingatækni í daglegu starfi kennara en um þróun framsækinna kennsluaðferða.
- Það þarf að tryggja að kennarar hafi svigrúm í sínu starfi til að sinna tímafreku þróunarstarfi. Að búa til áhugavert og framsækið rafrænt námsefni er ekki eins og að henda saman einni powerpoint kynningu. Það tekur mikinn tíma.
- Kennarar þurfa að hafa vettvang þar sem þeir geta skipst á upplýsingum og reynslu þeirra af tilraunum með notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Hér áður fyrr voru haldnar árlega UT ráðstefnur sem voru 2ja daga ráðstefnur sem voru nokkuð vel sóttar af kennurum og öðrum sem tengjast skólastarfi. Þetta var svo stytt í einn dag og eiginlega veit ég ekki hvað er orðið af þessu í dag. Í fyrra sagði ráðuneytið frá hugmyndum sínum um að koma upp teymi af svokölluðum UT-leiðtogum í skólum. Eins og Sigurður Fjalar sagði frá á sínum tíma, var ekki sérlega skýrt hvað þessir UT-leiðtogar áttu að vera. Ég veit ekki hvort þetta hafi komist í framkvæmd síðan.
Það er ekki nema von að framkvæmd Menntamálaráðuneytisins á stefnunni hafi fengið fremur dræmar undirtektir í úttekt Capacent sem kom út 2007. Það er afskaplega lítið samræmi milli markmiða og framkvæmdaraðferða. En hvað fór úrskeiðis? Ég held að Allyson Macdonald hittir naglann á höfuðið í úttekt hennar á menntarannsóknum frá 2005 þar sem hún segir tvennt: að á Íslandi skortir leiðir til að dreifa niðurstöðum starfendarannsókna ("practitioner") á áhrifaríkan hátt. Menntamálaráðuneytið treysti fyrst og fremst á kennara til að stuðla að nýsköpun í notkun upplýsingatækni án þess að huga að því hvernig ætti að miðla reynslu til annarra í faginu - og ath. að úttekt Macdonald kom út sama ár og stefna ráðuneytisins var birt. Það var ekki bara að ráðuneytið skapaði ekki vettvang til að dreifa niðurstöðum, heldur virðist ekki heldur hafa verið nægt svigrúm í starfi kennara til að taka þátt í tímafreku þróunarstarfi. Þetta skýrir e.t.v. hvers vegna eTwinning áætlunin hefur verið svo vinsæl meðan þátttaka í öðrum áætlunum var lítil. Verkefni í eTwinning eru lítil í sniðum og falla vel að starfi kennara að óbreyttu. Það er t.d. engin tímafrek skýrslugerð eða bókhaldsvinna.
Hver eru þá næstu skrefin? Í raun mætti segja að, alla vega hvað varðar rafrænt námsefni, hafi lítið sem ekkert áunnist á síðustu árum og því mætti formúlera þá stefnu aftur og útfæra á framkvæmanlegri hátt. Það sem þarf helst að hafa í huga er að ef ætlunin er að virkja kennara til þess að leiða og framkvæma þróun og dreifingu rafræns námsefnis þarf að skapa skilyrði til þess að það geti gerst.
Menntun og skóli | Breytt 25.10.2010 kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2009 | 13:35
Frábært netaðgengi á Íslandi - Notað til að læra en ekki í skóla
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2009 | 12:14
Farsímar, ungt fólk og menntun
Farsímar geta verið mjög gagnlegir til kennslu eins og sjá má á þessum veffundi sem ég fylgdist með nýlega - Cellphones as Instructional Tools.
Mikilvægt að fylgjast vel með | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2009 | 15:34
Hvaða kosti hefur ESB aðild fyrir menntun?
Aðgangur að styrkjum og sjóðum
Með EES samningnum urðu Íslendingar fullgildir þátttakendur í mennta-, menningar-, og rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins. Þátttaka Íslendinga í menntaáætlunum ESB hefur haft gríðarleg áhrif á menntun á Íslandi. Eitt áberandi dæmi um ávinning okkar af þátttöku í menntaáætlunum ESB er stóraukið námsframboð á háskólastigi á Íslandi. Það er ólíklegt að okkar fámenna þjóð gæti borið það mikla framboð sem er á framhaldsnámi í íslenskum menntastofnunum í dag. Í gegnum menntaáætlanir ESB hafa íslenskir háskólar getað laðað til sín kennara og nemendur hvaðanæva að úr Evrópu. Þar að auki hafa íslenskar menntastofnanir á öllum skólastigum verið mjög virkar í ýmis konar þróunarsamstarfi í gegnum menntaáætlanir ESB.
Hvað varðar menntaáætlanir ESB hefði ESB aðild Íslands tiltölulega lítil áhrif þar sem Íslendingar eru þegar fullgildir þátttakendur í þessum áætlunum. Helsti munurinn væri þó að aðild myndi auka möguleg áhrif íslendinga á ákvörðunartöku um áætlanirnar. ESB aðild myndi einnig auka lítillega sveigjanleika fyrir íslenska þátttakendur. Verkefni sem eru styrkt af menntaáætlunum ESB eru alltaf samstarfsverkefni milli landa. Þess er krafist að minnst einn þátttakandi er í ESB landi. Þegar um er að ræða verkefni sem fela í sér stamstarf 3ja eða fleiri landa hefur þetta lítið að segja þar sem aðeins eitt þessara landa þarf að vera ESB land. Íslendingar hafa því getað sett saman samstarfshópa frá þátttökulöndum sem standa utan ESB (t.d. Noregur & Tyrkland) og ESB löndum. Hins vegar, þar sem þátttaka í áætlunum byggir á tvíhliðasamstarfi (t.d. háskólasamstarf í Erasmus áætluninni) hefur þessi regla takmarkað möguleika íslenskra stofnanna til samstarfs við ýmis lönd. T.d. geta íslenskir og norskir háskólar ekki nýtt sér Erasmus áætlunina til samstarfs sín á milli vegna þess að hvorugt landið er aðili að ESB.
Þær áætlanir ESB sem íslenskar menntastofnanir hafa aðgang að í gegnum EES samninginn styrkja samstarf milli ESB og EES landa en ekki lönd utan þeirra. ESB hefur hins vegar ýmsar áætlanir sem styrkja samstarf við lönd utan ESB sem EES lönd hafa ekki aðgang að. Nokkrar þeirra áætlana sem íslendingar fengju aðgang að með ESB aðild eru:
- Áætlun ESB um samstarf til uppbyggingar og þróunar menntunar í löndum utan ESB.
- Íslendingar hafa getað tekið þátt í verkefnum en hafa þurft að kosta þátttöku sjálfir.
- Með ESB aðild munu Íslendingar geta fengið styrki í gegnum áætlunina.
- 3 áætlanir, EU-USA og EU-Kanada og EU-ICI ECP (Ástralía, Japan, Nýja Sjáland og N. Kórea), víðtækt samstarf í uppbyggingu og þróun háskólamenntunar.
- Þátttaka er bundin við aðildarlönd ESB.
- Styrkir ýmislegt samstarf til uppbyggingar og þróunar menntunar í þróunarlöndum um allan heim.
- Þátttaka er bundin við aðildarlönd ESB.
Með ESB aðild myndu Íslendingar líka fá aðgang að Byggðasjóðum (e. Structural Funds) ESB. Þessir sjóðir hafa styrkt ýmis konar þróunarverkefni sem tengjast menntun, nýsköpun og svæðisuppbyggingu og eru því mörg tækifæri fyrir menntastofnanir. Sem dæmi má nefna að Finnar nutu aðstoðar Byggðasjóða ESB við uppbyggingu á sínu dreifnámskerfi.
Það er því ljóst að ESB aðild myndi stórauka tækifæri Íslendinga til að taka þátt í margvíslegu uppbyggingar og þróunar samstarfi í menntun.
Annað
Aukin stöðugleiki í gjaldeyrismálum hefði líka töluverð áhrif á þátttöku íslendinga í öllum áætlunum ESB. Styrkir eru reiknaðir í evrum og hafa gjaldeyrissveiflur því haft töluverð áhrif á þátttöku bæði til hins betra og verra.
Flestar menntastofnanir í ESB löndum hafa metið EES aðild til jafns við ESB aðild þegar kemur að menntamálum. Í þeim löndum þar sem háskólar innheimta skólagjöld borga ríkisborgarar ESB landa sömu gjöld og ríkisborgarar viðkomandi lands. Í flestum tilfellum hefur þetta verið látið gilda einnig um ríkisborgara EEA landa. Hins vegar hafa Bretar neitað að samþykkja þetta og heimtað að ríkisborgarar EEA landa borgi skólagjöld til jafns við nemendur sem koma utan Evrópu sem er töluvert hærri en skólagjöld sem eru innheimt af breskum þegnum og ríkisborgurum ESB landa. Bretar hafa því fengið að skapa fordæmi fyrir þessu fyrirkomulagi og gætu því önnur ESB lönd fylgt því. ESB aðild Íslands myndi eyða allri slíkri óvissu.
Menntun og skóli | Breytt 29.6.2011 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2009 | 19:41
Ekki öllum markmiðum náð
Í Stefnuskrá HÍ 2006-2011 segir að "Háskólinn móti sér skýra stefnu um fjarkennslu fyrir árslok 2007. Fjarkennsla verði efld í völdum greinum." Sú stefna virðist enn ekki vera samþykkt ef marka má erindi Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors, á málþingi um fjarkennslu og fjarnám sem haldið var í HÍ í mars á þessu ári. Erindið má sjá hér og ég bendi sérstaklega á 14:30-> um stefnu í fjarkennslumálum og 19:00-> um kostun fjarkennslu.
Íslendingar hafa verk að vinna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.6.2009 | 13:19
Ómissandi á tölvur í skólastofunni
26.1.2009 | 05:51
Hefur upplýsingatækni breytt menntun?
Af einhverjum ástæðum er beðið um innskráningu á vefnum en það virðist nægja að smella á "Cancel" og þá kemst maður áfram.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 05:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 12:36
Rannsókn á notkun ungs fólks á upplýsingatækni - skólar þurfa að breytast
Tillögur höfunda skýrslunnar ganga þvert á viðteknar hugmyndir um tengsl upplýsingatækni og menntunar. Tilhneigingin hefur verið að leita leiða til að taka upplýsingatækni í þjónustu menntunar án þess þó að gera mjög róttækar breytingar á skipulagi menntunar. Þessi rannsókn staðfestir að þetta þarf að endurskoða. Menntun þarf að taka mið af félagslegum veruleika ungs fólks ef hún á að halda gildi sínu fyrir þeim. Upplýsingatækni er miklu meiri þáttur í þessum veruleika en svo að hægt er að hugsa um hana sem eitthvert utanaðkomandi aðskotafyrirbæri sem þarf að þvinga inn í ríkjandi skipulag. Betra er að breyta skipulaginu til að laga það að þörfum netvædds ungs fólks. Þetta kallar á gjörbreyttar áherslur í menntastarfi og breyttu hlutverki kennara og menntastofnana. Það er spurning hvort þetta sé ekki hárréttur tími fyrir okkur að huga að þessum málum nú þegar m.a. er verið að breyta og efla kennaramenntun?
Niðurstöður rannsóknarinnar verða gefnar út í bókinni "Hanging Out, Messing Around, Geeking Out: Living and Learning with New Media" sem er nú þegar hægt að sækja á netinu hér.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2008 | 12:06
Farsímar í skólastarfi
Það er búið að gefa út skýrsla í Bretlandi um notkun farsíma í skólastarfi. Þar er fjallað um nokkrar tilraunir sem þykja hafa tekist vel. Það er margt athyglisvert í skýrslunni en mér finnst athyglisverðust umfjöllunin um það hvernig tækni getur brúað bilið milli "skólalífs" nemenda og daglegs félagslífs þeirra. Þetta sýnir hvernig tækni nýtist til að opna leiðir fyrir nemendur að koma með sinn reynsluheim inn í skólastofuna og nýta í námi. Það virðist samt enn vera töluverður ótti við að nýta tækni á þennan hátt í námi. Það er alltaf þessi tilhneiging til að vilja verja skólastofuna fyrir utanaðkomandi áreiti. Það er athyglisvert að í skýrslunni skuli ekkert vera fjallað um jafnt aðgengi að tækninni, sem Bill Thompson vekur athygli á í umfjöllun um skýrsluna á vef BBC.
Ég hef oft bent á mikilvægi þess að tengja upplýsingatækni við skólastarf á hátt sem endurspeglar þátt tækninnar í samfélaginu og í daglegu lífi námsfólks. Þetta er áhugavert skref í réttu átt.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2008 | 00:55
Myndband um upplýsingatækni í finnskum skólum
1. Upplýsingatækni ekki kennd sem sérgrein heldur flettað inn í alla kennslu.
2. Upplýsingatækni mest notuð fyrir samskipti, ekki upplýsingaöflun.
3. Nemendur hafa aðgang að upplýsingum fyrri nemenda.
4. Samskipti milli nemenda um notkun upplýsingatækni og eins samskipti milli kennara.
http://www.teachers.tv/video/4977