8.11.2008 | 01:51
"Finnska leiðin"
Áður en við getum gagnast af fordæmi Finna þurfum við að átta okkur á því að það er sérstaklega tvennt sem einkennir finnsku leiðina:
1. kerfisbundin heildræn hugsun - vandamálin ná til allra þátta samfélagsins og til að takast á við þau þarf að huga að öllum þessum þáttum og hvernig þeir geta stutt hvern við annan.
2. langtímaáætlanir sem miða að því að breyta allri samfélagsgerðinni í samræmi við vel mótaða framtíðarsýn.
Eins og allir vita brugðust Finnar við ástandinu sem hafði skapast með því taka ákvörðun um að ganga í ESB og Evrópumyntbandalagið, en þetta var bara byrjunin. Það sem kom á eftir (eða samtímis) var mun róttækara. Finnar ákváðu markvisst að endurskilgreina sína samfélagsgerð í samræmi við þarfir þekkingarhagkerfisins. Í framhaldi af því mótuðu þeir stefnu sem miðaði að því að nýta þá þekkingu sem þegar var til og tengja saman ýmsa þætti atvinnulífs og menntakerfis til að stuðla að nýsköpun. Þeir vissu að þekking sem þegar hafði skapast í upplýsingatæknigeiranum var mikilvæg til að ná settum markmiðum og byggðu því að miklu leyti á henni. Það er ekki að segja að meginmarkmiðið varð að þróa upplýsingatækni og selja, þó vissulega gerðu þeir það, en hvernig mætti nýta upplýsingatæknina til að stuðla að breyttri samfélagsgerð. Niðurstaðan varð sú að samskipti og opið upplýsingaflæði væri kjarninn í því að efla þekkingarsamfélag.
Útkomurnar úr þessu sjáum við víða í finnsku samfélagi í dag og hefur verið bent á margt af þessu í umræðum á Íslandi síðustu daga. T.d. efling tengsla milli háskóla og atvinnulífs og samfélags með stofnun þekkingarsetra og nýsköpunarmiðstöðva. Ég held þó að ef við viljum draga einhvern gagnlegan lærdóm af þessum aðgerðum Finna verðum við að skoða þær í ljósi heildarstefnu Finna en ekki sem einstakar aðgerðir. Annars missum við af öðrum mikilvægum þáttum í þessum aðgerðum Finna sem gætu orðið okkur að gagni. T.d. eitt sem ég hef ekki séð nefnt í allri umræðunni, að með þessum aðgerðum hafa Finnar stuðlað að víðtæku þverfaglegu samstarfi milli þekkingargreina með því að skapa umhverfi sem hvetur til þverfaglegs samstarfs til að ýta undir nýsköpun. Það eru mörg dæmi um mjög áhrifaríkan árangur af þessu, t.d. að upplýsingatækni iðnaður hefur unnið mjög náið með heilbrigðisgeiranum í þróun s.k. "m-health", sem Finnar eru nú leiðandi í. Núna nýlega hafa Finnar svo stofnað nýjan háskóla, Alvar Aalto háskólinn, sem byggir alfarið á þeirri hugmynd að samskipti milli ólíkra greina stuðlar að nýsköpun og verður hann því vettvangur til að leiða saman verkfræðinga, viðskiptafræðinga og listafólk í nýstárlegu námsumhverfi.
Menntun hefur auðvitað verið mikilvægur þáttur í endurskilgreiningu finnsks samfélags. Finnar dældu miklum peningum í menntun og það hefur augljóslega skilað sér miðað við útkomur úr PISA og TIMSS. Það er eins með menntunina og annað í finnsku umbreytingunni, að þetta þarf að skoða í víðara samhengi til að átta sig almennilega á hvað er þarna að gerast. Auðvitað hefur eitt markmiðið verið að hækka menntunarstig almennings og hafa t.d. tækniháskólarnir (e. polytechnics, f. ammattikorkeakoulu) og endurmenntunarhlutverk þeirra skipt miklu þar. Skólar hafa líka fengið það hlutverk að búa ungt fólk undir það að verða virkir þátttakendur í nýja þekkingarsamfélaginu og það hefur ýmislegt í för með sér. Við sjáum þetta t.d. í hlutverki sem upplýsingatækni gegnir í finnsku menntastarfi. Þar er hlutverk upplýsingatækni að stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun milli einstaklinga. Þetta er allt annað en hefur verið gert á Íslandi (og víðar) þar sem mesta áherslan hefur verið á upplýsingatækni sem tæki til að afla upplýsinga. Þetta er munurinn á að vera þiggjandi á hliðarlínu eða virkur þátttakandi í netsamfélagi og ég held að það hljóti að vera augljóst að síðari kosturinn skilar meiri árangri.
Á Íslandi höfum við allt sem til þarf til að móta stefnu í samræmi við "finnsku leiðina". Upplýsingatæknin er frábær, við höfum öflugt háskólaumhverfi (þó er ýmislegt sem mætti bæta, sérstaklega á verkmenntasviðinu - spyrjið ef þið viljið meira um þetta - og í alþjóðavæðingu), við höfum sérþekkingu á ýmsum sviðum. Við þurfum hins vegar að setjast niður og fara gaumgæfilega yfir málin og ekki að koma með einstakar aðgerðir sem hugsanlega fylla í einhverjar eyður sem við teljum okkur nú skynja, heldur að ákveða hvers konar samfélag við viljum hafa á Íslandi, á hverju ætlum við að byggja það og móta svo stefnu sem miðar að því að ná því markmiði. Upplýsingatæknin og menntastofnanir eiga stórt hlutverk í þessu starfi en þá þurfum við að tryggja að einstaklingar á Íslandi hafi þá færni sem þarf til að vera fullgildir þátttakendur í alþjóðlegu nettengdu samfélagi. Þetta er "finnska leiðin".
Menntun og skóli | Breytt 23.11.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2008 | 17:57
Finnar gott fordæmi en engar skyndilausnir
Athyglisvert framtak og athyglisverður hópur sem er nefndur þarna. Mér þykir þetta sýna að þeir ætla að skoða þetta svolítið heildrænt en ekki bara hagfræðilegu hliðina, sem var það sem mér datt í hug fyrst þegar ég sá yfirskriftina. Það er nefnilega það áhugaverðasta við Finnana hvernig þeir hafa tekið mjög heildrænt á sínum málum eftir erfiðleikana á tíunda áratugnum (ég er einmitt að rannsaka þetta í dr. náminu mínu).
Í raun má segja að Finnarnir hafi notað tækifærið til að endurskilgreina og endurskipuleggja sitt samfélag og má segja að menntamálin hafi verið lykilatriði í þeim aðgerðum. Á þessum tíma ákváðu Finnar að leggja mikla áherslu á símenntun og nýsköpun í samfélaginu öllu og voru einstakar aðgerðir ákveðnar í samræmi við þessar áherslur - einfaldlega spurt, ef við ætlum að verða öflugt nýsköpunarsamfélag (eða þekkingarhagkerfi eða hvað svo sem á að kalla það), hvað þarf að gera? Þeir fóru beint í að stórefla menntun fyrir alla, jafnt starfandi fólk sem og nemendur á ýmsum skólastigum, efldu kennaramenntun, bæði fyrir nýja og starfandi kennara, lögðu mikla áherslu á upplýsingatækni og svo nýsköpun (rannsóknir, einkaleyfi, markaðssetning, o.s.frv.). Með þessu tókst þeim að snúa efnahagsþróuninni við á örfáum árum.
Þar sem ég er "menntamaður" beini ég helst athyglinni að því sem Finnar hafa gert í þeim málum. Þar er margt sem við getum lært af. Eitt helsta atriðið hjá þeim er að símenntun ("menntun frá vöggu til grafar") er meginmarkmið allrar menntastefnu. Nám (allt nám - skyldunám, háskólanám, endurmenntun o.s.frv.) miðar að því fyrst og fremst að kenna einstaklingum að læra og meta sinn lærdóm. Markmiðið er að Finnar geti notað allar þær upplýsingar sem þeir hafa aðgang að (með upplýsingatækni t.d.) til að byggja upp sína þekkingu og nota hana til að gera nýja hluti. En Finnar hafa líka sýnt að þetta er ekki einfalt. Það er ansi margt sem þarf að huga að. En með áræðni og að ganga skipulega til verks er ekki annað að sjá en að þeim er að takast ætlunarverk sitt.
Það sem Íslendingar þurfa að varast ef við ætlum að fara út í það að reyna að læra af þjóðum eins og Finnum, er að halda ekki að við getum einfaldlega líkt eftir einstökum aðgerðum Finna. Við þurfum að fara sömu leið og þeir - byrja á upphafinu. Við þurfum að skilgreina hvað það er sem við ætlum að stefna að, hvers konar samfélag við viljum sjá í framtíðinni, og fara skipulega yfir málin og ákveða okkar eigin leiðir. Við getum lært margt af "Finnsku leiðinnni" en við skulum ekki halda að hún bjóði upp á neinar skyndilausnir.
Ræða finnsku leiðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2008 | 12:54
HÍ ekki meðal bestu heims?
Ég ætla að leyfa mér að staðfesta að Sjanghæ-listinn er alls ekki mikils metinn og raunar einn sá sem hefur þurft að þola mestu gagnrýni af þeim velþekktu listum sem gefnir eru út árlega. Gagnrýnin snýst að miklu út á það að aðferðafræðin mælir hluti sem hafa lítið með gæði háskóla að gera, t.d. fjölda nóbelsverðlaunahafa o.þ.h. vitleysu (sjá t.d. neðst hér). M.a.s. hefur verið bent á að aðferðafræði þeirra virðist ekki einu sinni ganga upp við endurteknar mælingar, sem er mesti áfellisdómur sem listi af þessu tagi getur fengið á sig.
En, eins og blaðamaður Fréttablaðsins bendir á, vitna virt tímarit eins og Economist í þennan lista! Ástæðan fyrir því er afar einföld - listinn er gefinn út á netinu og það þarf ekki að borga fyrir aðgengi að honum. En aðrir listar (þeir hafa allir sína galla en þykja þó margir marktækari en Sjanghæ-listinn) eru ekki birtir almenningi í heild og aðeins veittur aðgangur með áskrift, enda er það fyrirferðamikill og dýr bransi að meta háskóla.
Hvort HÍ er að fikra sig upp einhverja lista yfir bestu háskóla heims, í samræmi við sína stefnu, veit ég ekki. En Sjanghæ-listinn er ekki áreiðanleg heimild um það.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2008 | 09:30
Eins og orkuvæðing í Nepal
Mikilvægur þáttur í þessari þróun í Nepal er að heimamönnum hefur verið kennt að setja saman eða smíða þessi litlu raforkuver sjálfir. Þeir hafa svo geta miðlað sinni þekkingu til annarra á nálægum svæðum. Það kemur ekki fram í fréttinni hvort farið hefur verið sömu leið í Afganistan en það væri vert að hugsa um það. Eins og ég hef oft sagt áður tel ég að slíkur menntaþáttur er mikilvægastur í allri þróun af þessu tagi.
Borga tuttugu smávirkjanir í Afganistan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2008 | 07:14
OECD vill álit þitt á framtíð netsins
Það er ca. vika síðan OECD tilkynnti þetta en nú eru ekki komnar nema 10 athugasemdir inn á YouTube síðuna þeirra (og mikið af því á austurlenskum tungumálum sem ég skil ekki). Verst að skólarnir skulu vera búnir. Þetta hefði verið fyrirtaks verkefni fyrir þá.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2008 | 08:41
IFC Alþjóðabankans tilbúinn að fjármagna REI í Djíbútí
"To fight poverty with passion and professionalism for lasting results. To help people help themselves and their environment by providing resources, sharing knowledge, building capacity, and forging partnerships in the public and private sectors."
S.s. að gera má ráð fyrir því að fjármagni frá IFC fylgi kröfur um að þróunarmarkmið séu höfð að leiðarljósi í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu. Djíbútí verkefnið er þá væntanlega aftur orðið þróunarverkefni e.o. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, lýsti því á fundi utanríkisráðuneytisins um vor 2007. En þá vakna spurningarnar sem ég hef svo oft bent á (og þetta skiptir heilmiklu máli þegar verið er að hvetja einkageirann til að taka þátt í þróunarsamstarfi, e.o. utanríkisráðuneytið er að gera núna með Viðskiptaþróunarsjóðnum (sjá neðst á síðunni)) - hvernig á að meta slík verkefni, hver ætlar að gera það og hvernig tryggjum við samræmi í þróunaraðstoð Íslendinga þegar það er komið á svo margra hendur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2008 | 11:45
Viðskiptadeild HR meðal bestu í Evrópu?
Það hefur verið nokkur umræða um mat á viðskiptadeildum háskóla sem fyrirtæki að nafni Eduniversal tilkynnti um nýlega. Helst hafa það verið formenn viðskiptafræðideilda í HÍ og HR sem hafa deilt um gildi mats Eduniversal. Mér hefur fundist nokkuð áhugavert hvernig þetta mál hefur þróast - alla vega hvernig það birtist fyrir mér:
1) Ég sá frétt á mbl.is um að viðskiptadeild HR væri meðal topp viðskiptadeilda/skóla í Evrópu. Mér fannst þetta strax undarlegt og kannaði málið. Þá komst ég að sömu niðurstöðu og forsvarsmenn viðskiptadeildar HÍ að þetta væri mjög dúbíus og líklega frekar gert í auglýsingaskyni fyrir Eduniversal en fyrir umrædda skóla. Þegar ég ætlaði svo að blogga um fréttina var hún horfin. Í raun var ég hálf feginn því ég hélt þá að HR hefði haft samband við mbl.is og fengið þá til að draga fréttina til baka, sem mér fannst hárrétt og virðingaverð viðbrögð. Svo gerist ekki meir þá stundina. (frétt mbl.is hefur ekki komið aftur en vísir.is er með sambærilega frétt hér)
2) Mér er svo sagt frá bréfi sem Runólfur Smári Steinþórsson, formaður viðskiptaskorar Háskóla Íslands, sendi nemendum í viðskiptafræði í HÍ þar sem hann gagnrýnir þetta mat Eduniversal og segir þetta í raun vera innantóm auglýsingabrella. Svo sé ég frétt um þessi viðbrögð Runólfs Smára á vísi.is. Og ég hugsa með mér, já en HR er ekkert að gera úr þessu...
3) Svo sé ég aðra frétt á vísi.is þar sem talað er við Þorlák Karlsson, forseta viðskiptadeildar HR, þar sem hann heldur því fram að þetta sé marktækt mat og að HR sé bara nokkuð stoltur af útkomunni. Svo segir hann,
"Það er fjöldi aðila sem metur háskóla og nota þeir mismunandi aðferðir. Þetta er ein aðferðin og voru gæðin metin útfrá ákveðnum stöðlum sem eru tilgreindir á heimasíðu Eduniversal."
Ég hef nú skoðað svolítið matsmál háskóla og fjallaði m.a. um það í grein sem birtist í sérblaði Morgunblaðsins um menntamál fyrr á árinu (þarf áskrift). En áhugi minn á þessu er m.a. sprottin af því að þegar ég starfaði hjá Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins fékk ég oft póst frá hinum og þessum aðilum út í heimi sem voru að stinga upp á samstarf við háskóla á Íslandi. Þá voru iðulega fyrstu viðbrögðin að kanna alþjóðlegt mat á viðkomandi stofnun. Ég var svolítið hissa þegar ég kom fyrst á Alþjóðaskrifstofuna að komast að því að þar var oft stuðst við hið umdeilda mat Shanghai Jiao Tong háskólans í Kína, sem leggur t.d. mikla áherslu á fjölda starfsfólks sem hefur unnið Nobels verðlaunin (einhvern tíma var bent á að skv. þessu mati myndi MR sennilega koma betur út en HÍ!). Þannig að þetta er raunverulegt áhyggjuefni því niðurstöður mats eru stundum notuð án þess að fólk kynnir sér almennilega hvað liggur þarna að baki.
Svo ég snúi mér svo aftur að ummælum Þorláks sem ég vísaði í fyrir ofan, þá er í raun svo lítið sagt um matsaðferð Eduniversal á heimasíðu þeirra að það er ekki nokkur leið að meta gildi þess. Hvergi á vef Eduniversal kemur fram hverjar kríteríur þeirra eru né vægi einstakra atriða. Þar er bara listað hvers konar upplýsingar matsmenn studdust við og verður að segjast að þetta er allt saman mjög loðið og óljóst. T.d. er talið upp "size and quality of international networks and partnerships". Ekki orð um það hvernig þessi alþjóðlegu samstarfsnet og alþjóðlegt samstarf eru metin. Ekki einu sinni orð um það hvað er átt við með "alþjóðlegu samstarfi" - hversu virkt þarf það að vera til að teljast "samstarf", hversu margar þjóðir þurfa að vera til að það teljist "alþjóðlegt"? Þar að auki kemur hvergi fram hvaðan gögn eru fengin sem matið byggist á. M.a.s. mat Shanghai Jiao Tong er betra en Eduniversal hvað þetta varðar því þeir eru alla vega með mjög nákvæma lýsingu á matsaðferðinni þótt kríteríurnar séu svolítið vafasamar.
Nei, ég held að þetta mat Eduniversal er bara ómerkilegt tækifærissinnað bull og að best væri fyrir HR að rjúfa öll tengsl við það batterí og nefna það ekki oftar. Annað lítur bara út fyrir að vera of desperat fyrir einhverja alþjóðlega viðurkenningu, sem ég held að geri meira ógagn fyrir HR en gagn.
Menntun og skóli | Breytt 26.5.2008 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2008 | 14:54
Málþing FÁH um heimspeki menntunar
Kristján tók fyrstur til máls og kynnti rannsóknir sínar á sjálfsvitund, sérstaklega "róttæk" sjálfshvörf sem leiða af samskiptum kennara og nemanda, þ.e.a.s. þegar kennari hefur slík áhrif á nemanda að nemandinn "finnur sig". Kristján reifaði kenningar nokkurra fræðimanna, Gergen, Dweck og Swann, um þetta og gerði það á mjög skilvirkan og skemmtilegan hátt.
Eitt sem Kristján benti á er að viðfangsefnið hans krefst þverfaglegra vinnubragða og að það háir hann og aðra sem hafa skoðað þessi mál að samskipti milli faggreina eru lítil. M.a. vildi hann meina að lítið sem ekkert sé til um empirískar rannsóknir á sjálfshvörfum. Þá vaknaði hjá mér spurning sem umræður leiddu síðan í ljós að hafði kviknað hjá mörgum - hvað með trúarskipti (sinnaskipti eða "frelsun")? Eru þau ekki dæmi um misróttæk sjálfshvörf? Ég veit nefnilega að þetta hefur verið töluvert rannsakað í Bandaríkjunum. Svar Kristjáns við þessu var áhugavert. Hann vill meina að þetta séu mjög ólík fyrirbæri og t.d. nefndi hann að trúarskiptum fylgi venjulega töluverðar félagslegar breytingar, þ.e.a.s. viðkomandi fer í aðra kirkju. Hins vegar þegar sjálfshvörf af því tagi sem hann er að tala um eiga sér stað verða ekki þessar félagslegu breytingar því viðkomandi er jú enn í sama bekknum. En ég held að við vitum öll að í bekkjum, sama hvað þeir eru stórir, geta þrifist margir félagslegir hópar. Það væri því mjög áhugavert (og að ég held nauðsynlegt áður en trúarskipti eru afskrifuð sem viðeigandi viðfangsefni) að rannsaka félagslega þáttinn í sjálfshvörfum þeim sem Kristján er að fást við. T.d. mætti kanna hvort breytingar verða í vinahópi viðkomandi innan bekkjar og ef svo er, gerist það fyrir eða eftir sjálfshvörf? Ef niðurstaðan yrði að félagslegar breytingar eru algengar og töluverðar bendir það til að rannsóknir á trúarskiptum séu e.t.v. gagnlegur og breiður reynslubrunnur til að byggja frekari rannsóknir á sjálfshvörfum á.
Ólafur Páll kynnti grein sína í Hug þar sem hann heldur því fram að á Íslandi sé engin menntastefna. Þetta byggir hann á 20 ára gamalli grein eftir Pál Skúlason og vill meina að lítið hafi breyst. Ólafur Páll byggir þetta að mestu á greiningu á aðalnámskrám og vill meina að þar birtist e.t.v. fræðslustefna en engin menntastefna.
Ólafur Páll hefur talað um þetta áður og þá benti ég honum á að menntastefnu væri e.t.v. að finna annars staðar en í þeim gögnum sem hann hefur skoðað. Þetta kom svo fram í athugasemdum Jóns Torfa við framsögu Ólafs Páls, en hann vill meina að í raun séu í gangi margar stefnur og að þær birtast í ýmsum gögnum. Þær kunna vissulega að skarast að einhverju leyti en það er samt engin skortur á menntastefnu. Ég held að vandi Ólafs Páls liggi í því að hann sé að leita að einhverju á röngum stað. Námskrá er ekki stefnuyfirlýsing þó svo að einhver vottur af stefnu megi greina í henni. Nær væri að líta á hana sem framkvæmdaáætlun. Mér finnst því ekki skrítið að Ólafur Páll telji sig finna þar fræðslustefnu því auðvitað er fræðsla framkvæmdarhliðinn á menntun.
Eins og Jón Torfi benti á á málþinginu birtist stefna í ýmsum skjölum og verkum yfirvalda. M.a.s. ef til væri skýr stefnuyfirlýsing um menntun er ekki einu sinni þar með sagt að það sem í henni stæði væri hárrétt lýsing á raunverulegri stefnu yfirvalda. Stefnugreining þarf að taka til allra þessara birtingarforma stefnu yfirvalda til þess að leiða í ljós raunverulega stefnu, skort þar á og misræmi. Ég held að það sé gagn af því sem Ólafur Páll er að gera og vissulega þarf umræðu um þessi mál, en mér finnst samt að hann sé að leita á röngum stað eftir því sem hann vill finna.
Menntun og skóli | Breytt 20.6.2008 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2008 | 18:31
Intel Classmates tölvur - bara barnaleikur?
Tölvurnar tvær eru í harðri samkeppni um nýja markaði í þróunarlöndum en byggjast á gerólíkri hugmyndafræði. MIT vill setja tæknina í hendur barna og leyfa þeim að fikra sig áfram. Intel vill mennta kennara til að nota tæknina í kennslustofunni með nemendum. Ef haft er í huga að markmið beggja aðila er að stuðla að menntun barna virðist XO hafa betur, eða hvað?
22.4.2008 | 11:58