Rit um mikilvægi framtíðarfræða frá NESTA - nýsköpunarstofnun í UK

future_flashlight

NESTA er sjálfstæð stofnun í Bretlandi sem hvetur til nýsköpunnar í þágu samfélags, iðnaðar og atvinnulífs - einskonar bresk útgáfa af Nýsköpunarmiðstöð okkar. Þeir voru að senda frá sér þetta áhugaverða rit um mikilvægi framtíðamiðaðar hugsunar sem heitir Don't stop thinking about tomorrow: A modest defence of futurology.

Mjög þörf lesning! 


Vendikennsla - nám sniðið að þörfum nemenda

Á mánudaginn, 22. apríl, var haldin ráðstefna um vendikennslu (e. flipped classroom) á Keilissvæðinu á Miðnesheiði (áður vallarsvæði Bandaríkjahers). Ég og ca. 499 aðrir áhugamenn um skóla- og menntamál mættum á svæðið og héldum til Andrews Theater (gamla bíóið). Þar hlýddum við á vendikennslugúrúinn Jonathan Bergmann og aðra segja frá reynslu sinni af þessari nýjung í skólastarfi sem hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Að loknum ræðuhöldum fóru þátttakendur í vinnustofur þar sem skipt var upp eftir skólastigum. Ég fór í vinnustofuna um vendikennslu á háskólastigi. Ég hafði hugsað mér að flakka á milli vinnustofa til að sjá hvað fólk er að hugsa í tengslum við önnur skólastig. Hins vegar fór það svo að umræðurnar voru svo áhugaverðar að ég ílengdist með háskólafólkinu. Þegar ég loksins ætlaði að kíkja á aðrar vinnustofur var eiginlega allt búið. Það er almennt mat allra sem ég hef talað við að fyrirlestrarnir og vinnustofurnar voru mjög gagnlegar og margir eru áhugasamir að stiga skrefið og venda sinni kennslu.
 
Hvað er vendikennsla?
Vendikennsla snýst fyrst og fremst um að finna leiðir til að nýta betur tímann sem kennari hefur með nemendum til að auka skilning þeirra og þekkingu á viðfangsefninu með áhugaverðum verkefnum. Upplýsingatæknin á stóran þátt í að venda kennslu vegna þess að nútímatæknin gerir okkur kleift að miðla upplýsingum á svo marga vegu. Í stuttu máli virkar þetta þannig að kennari nýtur tæknina til að forðast að sóa dýrmætum tíma með nemendum í einstefnumiðlun þar sem kennari talar yfir nemendur hvort sem þeir eru að fylgjast með eða ekki. Í staðinn getur kennari tekið upp fyrirlestra eða annars konar innlögn, sett á netið og nemendur fara yfir á sínum eigin hraða utan skóla og mæta í tíma vel upplýst og tilbúinn að vinna.
 
Í reynd er það töluvert flókið mál að venda kennslu. Það þarf að huga að mörgu, s.s. tæknimálum, kennslufræðilegum forsendum, ólíkum vinnubrögðum nemenda o.s.frv. og breytingarnar verða því ekki á einum degi, einum mánuði eða jafnvel einni önn. En eins og Bergmann sagði á ráðstefnunni er mikilvægast að taka ákvörðunina og stíga fyrstu skrefin. Síðan má laga og bæta í framhaldinu.
 
Af ráðstefnunni
Það var tvennt sem ég var svolítið ósáttur við á ráðstefnunni. Fyrst var að Bergmann skyldi halda fram að vendikennsla væri viðsnúningur frá því námsskipulagi sem er reitt fram úr "fílabeinsturninum"… Ég geri ráð fyrir að Bergmann sé að vísa til fræðasamfélags með vísun í "fílabeinsturninn" e.o. oftast er og skil hann þannig að vendikennsla er lausn á einhverju vandamáli sem má rekja til fræðasamfélagsins. Rauninn er að þær aðferðir sem Bergmann lýsti og eiga að henta fyrir vendikennslu eru nákvæmlega þær sömu og fræðasamfélagið hefur agenterað fyrir í meira en öld, eða allt frá tímum Deweys. Sérstaklega má nefna einstaklingsmiðað nám, lausnamiðað nám, reynslumiðað nám, samvinnunám o.m.fl. Það er því hæpið að kenna fræðasamfélagi um hugmyndaleysi um nýjar aðferðir í námi. Vandamálið sem vendikennsla á að leysa er annars eðlis og á sér upptök annarsstaðar í samfélaginu. Ég er með ýmsar hugmyndir um hvað það er í raun en ætla ekki að fara náið út í það hér - það er efni í aðra grein (og sennilega töluvert lengri).
 
Hitt sem ég var ósáttur við var skipulag ráðstefnunnar. Við vorum mætt -ca. 500 manns- til að fræðast um það hvers vegna fyrirlestrarformið hentar ekki í kennslu í dag og hvernig megi gera öðruvísi. Fyrstu þrjár klukkustundirnar fengum við að sitja í hálfmyrkvuðum sal (það var ekki hægt að glósa nema að vera með upplýsta spjaldtölvu) meðan talað var til okkar (ekki "við okkur") um vendikennslu. Ég fékk á tilfinninguna að Bergmann væri að fá útrás fyrir mikilli fyrirlestrarþörf sem hann hefur ekki fengið að svala í eigin kennslu undanfarin ár (hann viðurkenndi seinna að honum finnst gaman að halda fyrirlestra þannig að þetta var kannski rétt ályktað hjá mér). Þegar mér varð ljóst eftir fyrstu tvær klukkustundirnar að þetta væri langt frá því að vera búið varð ég að taka mér pásu og yfirgaf salinn um stund og lék mér í símanum mínum meðan ég drakk kaffi. Þrátt fyrir þessa pásu mína var eirðarleysið enn svo mikið þegar ég settist aftur í salinn að ég óttast að margt af því sem sagt var í lokin hafi farið inn um eitt eyra og út um hitt. Samt náði Bergmann að sannfæra mig um að svona lagað á ekki heima í kennslustofu (þurfti ekki mikið - ég er af fyrrnefnda fræðasamfélagi) en ég held að hann þurfi að hlusta aðeins betur á eigin boðskap.
 
Í heildina var þetta mjög áhugaverður dagur. Það var sérsktalega gaman að heyra frá dóttur Bergmanns sem sagði frá eigin reynslu sem nemandi í námskeiðum sem búið er að venda. Stundum hef ég heyrt -bæði á þessari ráðstefnu og annarsstaðar- að einstakir kennarar þurfa að taka málin í sínar hendur og taka ákvörðun um að venda sinni kennslu. Ég hef líka heyrt um og rætt við kennara sem hafa gert það og þurft að reka sig á og leysa vandamál þegar þau koma upp. En það var mjög fróðlegt að heyra frá kennurum Keilis sem hafa þegar vendað sínum kúrsum í vinnustofunni síðar um daginn. Mér þótti augljóst að þar skipti miklu máli að stór hópur kennara vendi sínum námskeiðum á sama tíma og njóta þeir mikils stuðnings samstarfsfólks síns. Ég vona að það skapist hér samfélag kennara þar sem þeir geta hjálpast að við að venda sinni kennslu og held að slíkt myndi skipta sköpum fyrir þá sem vilja fara þessa leið.

Tækninýjungar og framtíð menntunar

Aaron-Tech-Image-1-2
Á föstudaginn 5. apríl, 2013 var ég með innangserindi á ráðstefnunni "Í skýjunum", árleg ráðstefna 3F sem var haldin í Háskólanum í Reykjavík í samstarfi við HR og Upplýsingu-Félag bókasafns- og upplýsingafræða. Erindið kallaði ég "Gagnaukinn veruleiki og framtíð menntunar" (glærurnar má nálgast hér).

Markmiðið með erindinu var tvíþætt. Í fyrsta lagi að gera grein fyrir gagnauknum veruleika (GV - e. augmented reality) sem nýja tæknilega þróun sem skiptir máli fyrir menntun. Í öðru lagi að vekja ráðstefnugesti til umhugsunar um hvernig við, sem komum að menntun á Íslandi, eigum að bregðast við tækninýjungum meðan þær eru enn nýjar. Það er nefnilega svo með tækninýjungar sem hafa ekki náð mikilli útbreiðslu og eru enn í þróun að við vitum ekki alltaf hvaða áhrif þau munu, eða geta, haft. Þá þarf að hugsa heildrænt (möguleg áhrif á samfélagið í heild - ekki bara menntun), vera opin fyrir ýmis konar breytingum (hvað getur mögulega komið okkur að óvörum) og ekki síst að nota ímyndunaraflið - hvernig getum við notað tækninýjungar til að breyta því sem við viljum? Ég held að þetta hafi komist ágætlega til skila. Alla vega voru margir þeir sem ég ræddi við eftir erindið mjög spenntir fyrir að kanna möguleika GV og annarra tækninýjunga.

Í erindinu notaði ég GV sem lýsandi dæmi um tækni sem er í örri þróun og breiðist hratt út en hefur ekki ratað í umræðu um upplýsingatækni og menntun. T.d. fékk ég mjög fyrirsjáanleg viðbrögð þegar ég spurði ráðstefnugesti hversu margir höfðu nýtt sér GV þann daginn. Innan við 5 svöruðu játandi. Hins vegar, þegar ég spurði hversu margi höfðu nýtt sér Google Maps þann daginn svöruðu næstum allir játandi. Eins og kemur fram í glærunum sem ég vísa í hér að ofan, er Google Maps líklega útbreiddasta dæmið um notkun GV í samfélaginu í dag. Það að fáir ráðstefnugestir gerðu sér grein fyrir því segir mér að við erum ekki nægilega upplýst um þær breytingar sem GV hefur í för með sér og eigum því á hættu að missa af mikilvægum tækifærum til að nýta tæknina í menntun.
 
E.o. ég hef sagt notaði ég GV aðeins sem dæmi um tækninýjung sem hefur, eða gæti haft, mikla umbyltingu í för með sér fyrir skólastarf. Vissulega er fjöldi annarra tækninýjunga sem þyrfti líka að huga að. Ég ætla að lýsa hér stuttlega tveimur tækninýjungum (reyndar er önnur ekki svo ný) sem skólafólk ætti að vera farið að huga að:
Í fljótu bragði mætti velta fyrir sér hvað í ósköpunum þessar tækninýjungar hafa með menntun að gera? Raunin er sú að þær hafa báðar mikið með menntun að gera vegna þeirra samfélagslegra breytinga sem þeim fylgja - og forsjálir aðilar eru þegar að prófa sig áfram með þær í skólastarfi.
 
Þrívíð prentun 
Þrívíð prentun er tækni sem notar ýmis efni til þess að búa til þrívíðan hlut eftir tölvugerðu módeli. T.d. er hægt að teikna upp þrívítt módel af legókubb í þar til gerðu forriti (e.o. Blender, ókeypis opið forrit sem er mikið notað) og láta svo þrívíðan prentara búa til raunverulegan, meðhöndlanlegan og nothæfan legókubb. Ástæðan fyrir því að þessi tækni skiptir miklu máli eru margar. T.d.:
  • aukið aðgengi að alls kyns hlutum vegna þess að það þarf ekki að hugsa um hvernig eigi að koma framleiddum vörum á þá staði þar sem þær verða notaðar
  • fýsilegt að setja á markað vörur sem hefðu ekki svarað kostnaði þar sem ekki þarf að taka tillit til framleiðslukostnaðar á vörum sem er gert ráð fyrir að seljist í litlu upplagi
  • krefst annarrar hæfni í vöruþróun, sérstaklega þarf hæfni eða innsýn í hönnunarferli
  • þarf að huga að sjálfbærni og umhverfislegum þáttum til þess að tryggja að breyttar framleiðsluaðferðir (sem færist á neytandann) leiði ekki til sóunnar og ofnotkunar á takmörkuðum auðlindum
 
Vélmenni 
Okkur þykir gjarnan hugmyndin um vélmenni bæði heillandi og ógnandi í senn. Annars vegar njótum við góðs af vélmennavæðingu í ýmsum starfsgeirum sem heilla lítið, s.s. framleiðslu, einfaldri þjónustu o.þ.h., og hins vegar sjáum við fyrir okkur kuldaleg, ópersónuleg og óútreiknanleg mannslíki vísindaskáldskaparins. Ef einhver möguleg tengsl við menntun greinast er það helst að leyfa ungu fólki að spreyta sig við smíði einfaldra vélmenna á borð við fyrri kostinn e.o. gert er í First Lego League vélmennakeppninni sem íslendingar hafa tekið þátt í og árlegri hönnunarkeppni verkfræðinema í HÍ sem hefur verið sjónvarpað um árabil.

Í Austur-Asíu er litið vélmennavæðingu öðrum augum. Í löndum e.o. S-Kóreu og Japan er fólk opnara fyrir hugmyndum um vélmenni sem líkjast mönnum og að þau sinni ýmsum verkum sem fela í sér mikla nálægð og umgengni við fólk. Í S-Kóreu hafa yfirvöld sett sér þau markmið að frá og með árinu 2020 verði vélmenni á hverju heimili þar í landi og að þau sinni ýmsum störfum í samfélaginu, t.d. umönnun eldri borgara og framkvæmd skurðlækninga. Það kemur því varla á óvart að vélmenni skulu nú þegar vera búin að rata inn í skóla þar í landi. Þau eru helst notuð til að koma nemendum í samband við fjarstadda kennara. T.d. hafa vélmenni verið notuð við enskukennslu barna þar sem vélmennin eru fjarstýrð af kennurum í Filipseyjum og Ástralíu. Vélmennin eru sérstaklega hönnuð til að höfða til ungra nemenda og líta gjarnan út e.o. litrík og skemmtileg leikföng. Tilraunir með þessa kennsluhætti þykja hafa gengið framar vonum og eru ungir nemendur sérstaklega heillaðir af þessum nýju kennurum sínum.

Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um nýstárlega notkun vélmenna í skólum. Einnig má nefna vélrænann tvífara japanska prófessorsins Hiroshi Ishiguro sem sér um að sitja í kennslustofunni hans þegar hann kemst ekki á staðinn. Í Singapúr hafa yfirvöld tilkynnt um að á næstu árum verða gerðar tilraunir með notkun gervigreindarsamræðuvéla sem nemendur munu nota til að ræða um námsefni og fá þannig meira innsýn í það sem verið er að læra.

Þessi dæmi sýna okkur að hægt er að finna skemmtilega og nýstárlega möguleika fyrir notkun tækninýjunga í menntun svo lengi sem fólk er opið fyrir breytingum og óhrætt við að prófa sig áfram. En þá er ekki síður mikilvægt að hlutaðeigandi sé meðvitað um tækniþróun og geri sér grein fyrir þeim tækninýjungum sem eru að ryðja sér til rúms - eða jafnvel enn betra - að það geri sér grein fyrir þeim tækninýjungum sem er að vænta á næstu árum. Með slíkri forsýni getum við gripið fljótt tækifæri og haft áhrif á þróun tækninýjunga þannig að hún þjóni markmiðum um uppbyggingu menntunar fyrir 21stu öldina.

Höfundarréttur, efnahagskerfið og ábyrgð menntakerfisins

against_copyright

Sjóræningjarnir á Pirate Bay eru komnir í slag við finnsku höfundarréttarsamtökin CIAPC. Málið fékk mig til að hugsa enn einu sinni um höfundarrétt og sérstaklega hlutverk höfundarrétarsamtaka, en í þetta sinn velti ég líka fyrir mér hvert hlutverk menntunnar er  í tengslum við höfundarrétt. Samkvæmt gildandi námskrám er höfundarréttur lykilþáttur í upplýsingalæsi. Það er einkum tvennt sem truflar mig: Í fyrsta lagi, hugmyndin að menntakerfið eigi að standa vörð um það sem margir telja vera úrelt höfundarréttakerfi. Í öðru lagi, að höfundarréttarmál eru orðin svo flókin með tilkomu opinna leyfa og svo framvegis, að það er mjög óljóst hvað eigi að kenna skólabörnum um höfundarrétt.
 
Réttast er að taka fram strax í upphafi að ég er ekki óháður aðili í þessari umræðu. Ég er tónlistarmaður og hef sent frá mér slatta af tónlist og ég birti heilmikið ritað efni víða á stafrænu og prentuðu formi. Allt sem ég sendi frá mér er gefið út með Creative Commons leyfi - þ.a.s. að almenningur hefur rétt til að nota efnið eins og það sýnist en ég fer aðeins fram á að það geti heimilda. H.v. sem fræðimaður og tónlistarmaður er það ekki alltaf undir mér komið hvaða heimildir eru settar á efni sem ég bý til - en það er allt önnur umræða sem ég ætla ekki að fara út í hér.
 
Svo ég byrji á sögunni um slag Sjóræninga og CIAPC - Stutta útgáfa sögunnar er þessi: CIAPC setti upp síðu sem líkir eftir síðu Sjóræningjana þar sem myndinni af mikilfengu sjóræningjaskipi er skipt út fyrir drungalegri mynd af sökkvandi skipi. Sjóræningjar vilja meina að með þessu hafi CIAPC brotið á höfundarrétti sínum og eiga því skilið sömu meðferð og aðrir sem brjóta höfundarréttarlög. Lengri sagan er þessi: Síðasta haust gerðist 9 ára stúlka í Finnlandi sek um að hlaða niður einu lagi af Pirate Bay vefnum. Í kjölfarið var tölva stúlkunnar gerð upptæk og CIAPC sækir nú málið gegn foreldrum hennar, sem eru gerðir ábyrgir fyrir brotum barna á netinu í Finnlandi. Þetta gerist þrátt fyrir að söngkonan hafi sagst ekki vilja gera mikið úr málinu og meira að segja benti stúlkunni á að hún gæti hlustað á lagið ókeypis í gegnum Spotify. Sjóræningjar, sem ég held að séu í raun nokk sama um það að CIAPC líki eftir vef þeirra, ákváðu í kjölfarið að sækja höfundarréttarmál gegn CIAPC og nota hvert tækifæri til að vekja athygli á fáránleika málsins. Til dæmis var haft eftir Sjóræningjum í frétt á vísi.is:
<kaldhæðni>Okkur blöskrar þessi framkoma. Fólk verður að skilja muninn á réttu og röngu. Að stela efni sem þessu [útlit vefsíðu Sjóræningja] á internetinu er ógn við hagkerfi heimsins.</kaldhæðni>
Ef undirstöður ríkjandi hagkerfis felast í höfundarréttarlögum sem kveða á um að refsa skuli 9 ára stúlku sem hleður niður einu lagi af Pirate Bay þá er kannski rétt að endurhugsa það hagkerfi. Höfundarréttarsamtök hafa haldið því fram að brot á höfundarréttarlögum verða sífellt tíðari. Þá er vert að spyrja, og að ég held í samræmi við meginhugmyndir ríkjandi kapitalísks efnahagskerfis, er þetta ekki rödd neytandans að lýsa yfir breyttu verðmætamati á höfundarréttavörðu efni? Ef það er rétt sem höfundarréttarsamtök halda fram, þá heyrist mér neytendur vera að hrópa hástöfum að þeir vilja ekki borga fyrir að fá að hlusta á eitt og eitt lag á netinu eða birta ljósmynd á Tumblr síðu, o.s.frv. Höfundarétthafar hafa val - þeir geta breytt sínum háttum til að svara kalli neytenda eða haldið til streitu þvert á vilja þeirra. Fjölmargir hafa kosið að hlusta á neytendur og gefa út efni undir opnum leyfum -t.d. Creative Commonsopin hugbúnaðarleyfi (GPL, BSD, o.s.frv.)- og virðast lifa það af þvert á dómsdagsspár höfundarréttarsamtaka. Það er margt sem bendir til þess að merkilegar breytingar séu að eiga sér stað á þessu sviði og skriðurinn jafnvel orðinn það mikill að ekki verði aftur snúið. Spurning er þá hvort höfundarréttarsamtök eru að heyja vonlausa baráttu við breytingaröfl sem mér sýnist ætla að ganga eins og valtari yfir þeirra staðfasta virki? Ég held að rödd neytandans hljóti að sigra á endanum.
 
En snúum okkur svo að menntamálunum. Í gildandi námskrá um upplýsingatækni og tölvu/upplýsingalæsi er skólum landsins gert að standa vörð um gildandi fyrirkomulag höfundarétta. Eitt helsta markmið náms í tölvu/upplýsingalæsi frá yngstu bekkjum er að nemendur þekki hugtakið "höfundarréttur" og á síðari stigum að þau kunni skil á helstu þáttum höfundarréttarlaga. Þetta kann að virðast nokkuð einfalt við fyrstu sýn, en eins og fyrirkomulag um höfundarrétt er nú orðið flókið, með gildandi lögum og sífelldri endurtúlkun þeirra og öll þau opnu og hálfopnu leyfi sem spretta upp eins og gorkúlur, þá vex þetta um sig. Hvað á eiginlega að kenna skólabörnum um höfundarrétt?
 
Einhverntíma (ég man ekki hvar eða hvenær) las ég eftir einhvern að best væri að kenna börnum að ganga skuli út frá því að aldrei megi nota efni annarra án leyfis. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það eru tímamörk á höfundarrétti og heilmikið efni til sem engin "á" rétt á, þ.e.a.s. að það er opinber eign. Einnig er til mikið efni í dag sem er gefið út með opnu leyfi - þ.e.a.s. að allir hafa heimild til að nota efnið í eigin sköpunarverk. Til dæmis, þegar þetta er ritað eru rúmlega 250 miljónir mynda á Flickr.com vefnum sem eru birtar með opnu leyfi. Og, eins og ég nefndi áður, færist sífellt í aukanna að tónlistarmenn veiti ókeypis aðgang að tónlist sinni og leiti annarra leiða til að afla sér tekna en á sölu eins og eins lags (hljómsveitin Nine Inch Nails verið leiðandi í þessu). Stefnan virðist vera í þá áttina að útgáfa sköpunarverka undir opnum leyfum færist í aukanna.
 
Er það hlutverk menntunar að viðhalda gildandi venjum og normum eða á að mennta fólk fyrir framtíðina? Mér sýnist flestir staldra stutt við í núinu og enn styttra í fortíðinni, en þau losna aldrei undan framtíðinni og ég held þar af leiðandi að svarið sé nokkuð ljóst. Menntun fólks þarf að horfa til framtíðar og ég held að þegar það er gert þjónar það litlum tilgangi orðið að tala um höfundarrétt í þeim skilningi sem hefur verið gert. Við eigum frekar að hugsa þetta út frá rétti neytenda - það er að segja, hver er réttur almennings þegar kemur að sköpunarverki annarra? Gagnvart efni sem er gefið út með hefðbundnum (úreltum?) höfundarleyfum er réttur almennings nánast enginn (og þau litlu réttindi sem eru fara hraðminnkandi með sífelldri endurtúlkun laga). Þegar horft er frá sjónarhorni neytenda er ekki margt sem þarf að kenna um þetta og þá spurning hvort höfundarréttur þurfi að vera jafnstór þáttur í námskrám eins og er núna. Hins vegar, ef við hugsum um leyfismál almennt út frá réttindum neytenda þá eru opin leyfi, creative commons leyfi, og þess háttar mun bitastæðara efni og meira viðeigandi, sem mætti gera betur skil. Ég legg því til að í nýjum námskrám verði allt um "höfundarrétt" skipt út fyrir orðalagi sem miðar að réttindum neytenda frekar en höfunda og að kennsla verði miðuð að því sem almenningur má frekar en því sem hann má ekki. Mér virðist að sé miðað við réttindi neytenda sem felast í mismunandi tegundum höfundarleyfa ætti þá að leggja hlutfallslega mestu áherslu á opin leyfi, creative commons leyfi, og þess háttar. Og að lokum, þá bendir ýmislegt til þess að slík nálgun sé frekar í samræmi við það sem vænta má í framtíðinni.

Mjög áhugaverð keppni í forritun og vélmennahönnun um helgina

Um helgina verður FIRST LEGO League forritunar- og vélmennahönnunarkeppni haldin í Háskólabíói. Þetta er mjög áhugaverð keppni sem hefur verið haldin árlega á Íslandi í nokkuð mörg ár núna þar sem ungt fólk fær tækifæri til að sameina tækniþekkingu og hugvit við að leysa mjög praktísk verkefni.

Í gegnum árin hefur Lego átt þátt í að leiða margt hæfileikaríkt ungt fólk á braut uppfinninga og tækniþróunar. Smá sögulegt ágrip fyrir þá sem ekki þekkja: Lego hóf samstarf við Seymour Papert(frumkvöðull í notkun upplýsingatækni í skólastarfi - bjó til Logo forritunarmál fyrir krakka, kom af stað einni fyrstu stórtæku 1:1 fartölvuvæðingunni í skólum í Maine-fylki í BNA. og margt fleira) fyrir nokkrum áratugum sem leiddi af sér Lego Mindstorms vörulínuna. Það sem gerir Lego Mindstorms vörulínuna sérlega áhugaverða fyrir skólafólk, að vörulínan er hönnuð út frá vel grunduðum pedagógískum pælingum. Lego Mindstorms eru forritanleg Lego sett sem eru notuð til að búa til einföld og lítil vélmenni. Með þessu kynnist ungt fólk forritun, vélmennahönnun, gervigreind, o.s.frv. Lego Mindstorms hefur líka verið notað til kennslu á háskólastigi. Notkun Lego Mindstorms innan skóla jafnt sem utan hefur verið mikið rannsökuð og þykir það mjög heppilegt tæki til að kynna fyrir ungu fólki möguleika nútíma tækni á öllum skólastigum.

Salvör Gissurardóttir benti á þessa upptöku frá Málþingi RANNUM um First Lego League keppnina sem var haldið á síðasta ári: http://frea.adobeconnect.com/p4o23javfm6/


mbl.is Forrita vélmenni til að leysa verkefni eldri borgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er stöðugleiki í kristinni trú?

Agnes biskup telur að meirihluti Íslendinga hafi e.t.v. kosið að varðveita þjóðkirkju í stjórnarskrá landsins vegna þess að "fólk vill hafa þann stöðugleika sem felst í því að hafa þjóðkirkju." Hvaða stöðugleiki er það sem Agnes vísar til? Er það stöðugleikinn sem gerir það að verkum að hún, sem kona, geti verið biskup þvert á boðskap heilagasta rits kristinnar trúar? Er það stöðugleikinn sem felst í því að þrælahald skuli vera bannað í siðuðum ríkjum þvert á boðskap heilagasta rits kristinnar trúar? Er það stöðugleikinn sem birtist í afstöðu meirihluta Íslendinga til samkynhneigðra þvert á boðskap heilagasta rits kristinnar trúar? Agnes, það er enginn stöðugleiki í boðskap kristinnar trúar frekar en mannlegri tilveru almennt.

Kannski er það þá stöðugleikinn sem felst í því að þessar blessuðu kristnu kirkjur skuli finnast í öllum landshornum… S.s. að kristinn trú er McDonald's siðaboðskapsins, sami matseðill hvert sem farið er, og þess vegna skal henni varðveitt?!? Nei, það gengur ekki upp heldur e.o. deilur innan prestasamfélags undanfarin ár sýna.

Agnes, hvaða stöðugleika ertu eiginlega að tala um?
mbl.is Flestir vilja ákvæði um þjóðkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkar ekki að leiðrétta staðreyndavillur með staðreyndavillum

Heiðar Már Guðjónsson, einn af þeim sem hafa agenterað fyrir því að íslendingar taki einhliða upp gjaldmiðil annars lands, og Manuel Hinds, fv. fjármálaráðherra El Salvador, rituðu grein sem birtist á Vísi.is í dag undir yfirskriftinni "Staðreyndavillur í skýrslu Seðlabanka Íslands". Í greininni gagnrýna þeir nýja skýrslu sem var unnin fyrir Seðlabankann um gjaldmiðlamál. M.a. saka þeir höfunda seðlabankaskýrslunar um að fara með rangt mál um niðurstöður rannsóknar Edwards og Magendzo á hagkerfum landa sem hafa tekið upp gjaldmiðla annarra landa. Ég er engin hagfræðingur en það vill svo til að ég þekki þessa grein sem ég las fyrir verkefni sem ég vann í hagfræðikúrs fyrir nokkrum árum.

Heiðar Már og Hinds halda því fram að höfundar seðlabankaskýrslunnar mistúlki niðurstöður Edwards og Magendzo þegar þeir segja rannsókn þeirra síðarnefndu sýna að hagvöxtur sé að jafnaði minni í löndum sem hafa tekið upp gjaldmiðil annars lands. Þetta er stórmál! Atriði númer eitt á villulistanum.

Heiðar Már og Hind segja "Ef sú rannsókn [Edwards og Magendzo] er lesin kemur fram að höfundar telja engin tengsl á milli hagvaxtar og upptöku annarrar myntar." Það er svolítið erfitt að ráða í þessa fullyrðingu greinarhöfunda. Hvað meina þeir þegar þeir segja "tengsl"? Ef þeir eru að meina orsakatengsl þá er það rétt. Edward og Magendzo telja alveg örugglega ekki vera orsakasamband milli upptöku gjaldmiðils og hagvaxtar, enda væri mjög erfitt að sýna fram á orsakasamband e.o. er reyndar tilfellið með orsakasambönd yfirleitt í félagsvísindum. Hins vegar er alveg ljóst að Edward og Magendzo komast að þeirri niðurstöðu að hagvöxtur er minni í þeim löndum sem taka einhliða upp gjaldmiðla annarra. Þeir segja þetta aftur og aftur og m.a.s. sannreyna það tvisvar með mismunandi aðferðum. Þetta er tölfræðilega marktækur munur og ein meginniðurstaða rannsóknarinnar. S.s. það er sama hvaða merkingu Heiðar Már og Hind leggja í þessi "tengsl", þetta er rangt hjá þeim.

Svo er önnur fullyrðing Heiðars Más og Hinds í sömu málsgrein: þeir halda því fram að Edward og Magendzo hafi komist að þeirri niðurstöðu að hagsveifla sé minni hjá ríkari löndum eftir einhliða upptöku gjaldmiðils. Nú er ég ekki alveg með á hreinu hvað þeir meina með "hagsveiflu" en ætla að gera ráð fyrir að þar sé átt við "volatility" sem er eitt helsta efni rannsóknarinnar. Einnig skil ég ekki alveg af hverju þeir taka fram "ríkari lönd" því ég man ekki til þess að Edward og Magendzo hafi sérstaklega gert greinarmun á ríkari og fátækari löndum. Ef þetta er allt rétt túlkað hjá mér þá er þessi fullyrðing greinarhöfunda einfaldlega röng. Edward og Magendzo komast að þeirri niðurstöðu að engin marktækur munur er á hagsveiflu (e. volatility) í löndum sem hafa tekið upp gjaldmiðil annarra og þeim sem nota eigin gjaldmiðil. Þetta er enn ein meginniðurstaða rannsóknarinnar og e.o. með hagvöxtin er fullyrðingin endurtekin oft í greininni sem vísað er í.

Svo til að hafa þetta komplett þá var þriðja meginniðurstaða Edward og Magendzo að verðbólga var lægri í löndum sem tóku upp gjaldmiðil annarra en í löndum sem notuðu eigin gjaldmiðil.

Afgangurinn af villulistanum fer út fyrir mitt þekkingarsvið og kannski ýmislegt athyglisvert þar að finna fyrir þá sem þekkja til. Mér finnst þó frekar aulalegt að hefja leiðréttingu á staðreyndavillum með eigin staðreyndavillum. Hins vegar er mögulegt að ég sé kominn langt út fyrir mitt þekkingarsvið og algjörlega á villugötum með þessar athugasemdir mínar. En mér finnst samt full ástæða að einhver sem býr yfir meiri hagfræðiþekkingu en ég renni aðeins augum yfir afganginn af villulistanum...

Sérkennsla í íslenskum skólum: Er hátt hlutfall gott eða slæmt?

Í síðustu viku birtust 2 greinar á mbl.is þar sem fjallað er um hátt hlutfall íslenskra grunnskólanemenda sem hafa þurft sérkennslu (fyrsta grein - önnur grein). Fyrst verð ég að segja að mér finnst Anna Lilja Þórisdóttir, blaðamaður, eiga hrós skilið fyrir hlutlausa framsetningu hennar á efninu og að gera þetta ekki að æsifrétt e.o. oft hefur verið tilhneiging þegar menntamál rata í íslenska fjölmiðla. Anna Lilja setur fram gögnin en lætur vera að segja hvort þetta sé slæm eða góð þróun. En e.o. mátti búast við hafa sumir verið fljótir að dæma íslenskt menntakerfi út frá fréttinni og telja þetta ekki góða þróun. Hátt hlutfall sérkennslu er í hugum sumra augljós vottur um sóun á opinberu fé, slæma starfshætti kennara og skólayfirvalda og jafnvel merki um almenna leti íslensks námsfólks.

Í fréttunum tveimur er hlutfall íslenskra nemenda borið saman við reynslu í nágrannalöndum. Fram kemur að hlutfallið er töluvert hærra á Íslandi en í Danmörku, Noregi og Bandaríkjunum (rétt í kringum 10%) en aðeins hærra en í Finnlandi. Segir að hlutfallið í Finnlandi er um 21% miðað við 27,5% á Íslandi (reyndar hef ég séð hærri tölur frá Finnum sjálfum, allt upp í 27%, og geri ég ráð fyrir að munurinn stafar af því að það sé svolítið óljóst hvað telst til "sérkennslu").

Þannig að sú þjóð sem kemst næst okkur er Finnland. Þetta er mjög athyglisvert því að Finnar líta svolítið öðruvísi á sérkennslu en margir aðrir. Þeir eru stoltir af háu hlutfalli nemenda sem fá sérkennslu og líta á það sem mikilvægan þátt í velgengni finnskra nemenda í alþjóðlegum könnunum (aðallega PISA og TIMSS). Finnar hafa mótað sitt menntakerfi til að tryggja að finnskir námsmenn búi yfir tiltekna hæfni að loknu skyldunámi. Þetta er töluvert frábrugðið því sem gerist í mörgum öðrum menntakerfum þar sem markmiðið er ekki endilega að nemendur kunni tiltekna hluti við lok náms, heldur að þeir hafi fengið leiðbeiningu í tilteknum fræðum við lok náms. Vegna þessara áheyrslna í námsmarkmiðum hafa Finnar mótað sitt menntakerfið þannig að kennarar reyna að koma auga á námsörðugleika eins fljótt og hægt er og beita hvaða úrræðum sem þörf þykir til að hjálpa námsfólki að komast á það þekkingarstig sem þeir eiga að vera. Þess vegna er hlutfall nemenda sem fá sérkennslu í Finnlandi mjög hátt miðað við önnur lönd.

Það að tiltölulega hátt hlutfall íslenskra nemenda skulu fá sérkennslu er ekki endilega neikvætt. Það gæti líka verið vísbending um að íslenskir skólar eru að leggja sig fram við að mæta ólíkum þörfum nemenda.
mbl.is 35,4% í sérkennslu á Vesturlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangfærslur um kostnað skóla á RÚV

Frétt RÚV um kostnað menntunar á Íslandi sem var í fréttum í kvöld (23.8.12) byggist á misskilningi og rangfærslum. Þar er sagt að opinbert framlag til menntamála á Íslandi sé með því hæsta í heimi, eða "11ta hæsta í heiminum" (er að ég held rúmlega 8% af landsframleiðslu núna), og kvartað undan því að árangur sé ekki í samræmi við það. Þetta er ekki rétt. Opinber framlög til menntamála á Íslandi er 11ta hæsta meðal OECD ríkja, sem eru ca. 30, og er rétt við OECD meðaltalið. Á heimsvísu eru mörg lönd sem leggja fram umtalsvert meira opinbert fé til menntamála - má t.d. nefna Kúbu þar sem framlög til menntamála nálgast 15% af landsframleiðslu. Svo eru mörg þróunarlönd sem leggja fram vel yfir 8% af landsframleiðslu til menntamála. Og nei, við erum ekki nálægt því að vera hæst í Evrópu e.o. ýjað er að í fréttinni. Sviss, Noregur, Danmörk, Austurríki, Holland, Belgía og Svíþjóð eru öll með hærri heildarframlög en við.

Það er hins vegar mjög athyglisvert að skipting opinbera framlaga til menntamála á Íslandi eftir skólastigum er mjög á skjön við það sem gerist í öðrum OECD löndum. Íslendingar leggja hlutfallslega meira (töluvert meira) í for- og grunnskóla, minna til framhaldsskóla og fáránlega lítið til háskóla (þar sem kennararnir fyrir öll þessi skólastig eru menntaðir!).

Það hefur lítið að segja að kvarta undan háum opinberum framlögum til menntamála á Íslandi án þess að athuga í hvað þessi framlög fara. Ísland hefur töluverða sérstöðu í hópi OECD ríkja vegna smæðar. Það er t.d. miklu dýrara að framleiða vandað námsefni fyrir okkar litlu hópa námsmanna. Og svo eru það blessuðu samræmduprófin sem má gera ráð fyrir að kosti okkur töluvert meira en í fjölmennari löndum. Svona mætti vel halda áfram en ég læt þetta nægja að sinni.

Það er lágmark þegar á að búa til einhverjar tengingar milli kostnaðs menntunar og árangurs að hafa staðreyndirnar á hreinu.

Smá viðbót (24.8.12): Það er hárrétt hjá Ólafi Loftssyni að ekkert samhengi virðist vera milli aldurs kennara og getu til að tileinka sér tækni. Samkvæmt skýrslu Framkvæmdastjórnar ESB frá 2008 var meðalaldur kennara í Svíþjóð með því hæsta í Evrópu en Svíþjóð var líka eitt þeirra ríkja sem notaði mest tækni í skólum. Lægsti meðalaldur var í Austur-Evrópu en þar var notkun á tækni með minnsta móti.

(Ath. að tölur eru flestar skv. Education at a Glance 2011 sem byggir á gögnum frá 2008. Education at a Glance 2012 er væntanleg í september á þessu ári)

Evrópuþing felldi ACTA: Löngu tímabært að endurhugsa höfundarétt.

Í dag felldi Evrópuþingið alþjóðlega samkomulaginu um höfundarétt, ACTA (Anti-Counterfeiting Trade Agreement) með miklum meirihluta atkvæða, eða 478 á móti 39. Áður hafði Framkvæmdastjórn ESB samþykkt samkomulagið. Það er ýmislegt merkilegt sem felst í þessari niðurstöðu.

Í fyrsta lagi, má segja að Evrópuþingið hafi fellt ACTA á heimsvísu. Samkomulagið hefði m.a. hert mjög lög um höfundarétt og refsingar fyrir brot á höfundaréttarlögum. Samkomulagið er stutt af samtökum rétthafa e.o. samtaka rétthafa kvikmynda, tónlistar, hugbúnaðar, lyfja o.fl. Ýmis samtök sem berjast fyrir réttindum almennings til að nota réttindavarið efni hafa barist gegn samkomulaginu, t.d. Læknar án landamæra, sem segja að samkomulagið muni hefta mjög aðgang að nauðsynlegum lyfjum í þróunarlöndum. Áður höfðu 8 lönd samþykkt samkomulagið en áttu eftir að staðfesta samþykkið. Án þátttöku ESB er ljóst að samkomulagið er orðið að engu. Þó svo að hin löndin myndu staðfesta samkomulagið eru ESB löndin það stór hluti af markaðssvæðinu sem það er ætlað að taka til að það myndi aldrei vera hægt að framfylgja reglunum sem því fylgja.

Í öðru lagi hefur Evrópuþingið sýnt það og sannað að lýðræði er til staðar í ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur sagst ætla að leggja samkomulagið aftur fyrir þingið en það er ljóst að það mun ekki skila árangri. Í raun hefur Evrópuþingið málsstað netnotenda um allan heim, en ekki bara í ESB og hefur þannig sýnt að lýðræðisleg stofnun svo stórs markaðssvæðis getur haft töluverð áhrif á þróun heimsmála.

Mér þótti undarlegt að ekkert heyrðist um þessa merkilegu kosningu frá ESB andstæðingum á Íslandi, sem þreytast ekki á því að lýsa ESB sem miðstýrðu peði almáttugs Framkvæmdastjórnar. En svo áttaði ég mig á því að mbl.is hefur ekki séð ástæðu til að segja frá þessari merkilegu frétt. Ætli andstæðingarnir viti nokkuð af þessu þá?

Segja má að höfundarréttur sé einn hornsteinn kapitalísmans. Ég hélt að kapitalístar hlustuðu á markaðinn. Mér heyrist markaðurinn vera að tala. Eru kapitalístarnir að hlusta? Það er löngu orðið ljóst að rétthafar þurfa að endurhugsa sín mál.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband