Eru tæknibönn bara til að takast ekki á við raunveruleikann?

cell-phone-ban
Í Fréttablaðinu í dag, 13. febrúar, er stutt frétt um notkun nemenda á farsímum í skólum. Þar segir Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands, m.a. að það þurfi að kenna börnum að nota þessi tæki, eins og önnur, í samræmi við almennar samskiptareglur. Eins og Svanhildur bendir á þá eru þetta auðvitað mjög öflug tæki sem nýtast á ýmsan hátt, s.s. upplýsingaleit, samskipti, samstarf, sköpun og margt fleira. En raunin er, að sárafáir skólar leyfa notkun þessara tækja. Líklega eru ýmsar ástæður gefnar fyrir farsímabönnum, en ég held að helsta ástæðan komi fram í því sem haft er eftir Óskari S. Einarssyni, skólastjóra Fossvogsskóla, að “verið [er] að reyna að finna leiðir til þess að geta nýtt farsíma”. Þá spyr ég, af hverju, þegar farsímar hafa verið áberandi í samfélaginu eins lengi og raunin er og þykja nú nauðsynlegir í flestum störfum og annarri iðju utan skóla, er verið að “reyna að finna leiðir” núna? Af hverju er ekki löngu búið að því? Það er fátt sem hefur gerst í tengslum við þróun farsíma og snjallsíma síðustu 10 árin sem hefur komið á óvart. Það hefði verið hægt að hugsa út í þetta fyrir löngu.

Vandinn með bann-hneigðina, sem einkennir oft afstöðu skólafólks gagnvart upplýsingatækni, er að hún leiðir til sýndaraðgerða. Þegar skóli bannar farsíma, Facebook, eða hvaða tækni sem er, þá gefur hann sig út fyrir að vera að taka afstöðu og fylgja henni eftir með aðgerðum. Raunin er, hins vegar, að það að banna tækni sem fellur vel að öllum helstu markmiðum menntunar og þykir þarfasta tól í daglegu lífi utan skóla er ekkert annað en frestun, og þar með aðgerðaleysi. Bann á slíkri tækni felur í sér viðurkenningu að tæknin er til staðar og hún hefur áhrif, en viðkomandi stofnun ætlar bara ekki að díla við hana á þessari stundu.

Fartæknin, þ.e. snjallsímar og spjaldtölvur, hefur breiðst út hraðar en nokkur upplýsingatækni sem á undan hefur komið. Nú eru tæplega 6 ár síðan snjallsímavæðingin hófst fyrir alvöru (miðað við fyrsta iPhone síma Apple) og fæstir skólar hafa enn mótað raunverulega stefnu um hvernig skuli nýta þessa tækni í þágu menntunar. Ef þetta er raunin í dag, hver verður staðan eftir næstu 6 ár? Hvað ætla skólar að gera þegar fartæknin verður orðin nánast ósýnileg á næstu árum? Verða skólar tilbúnir þegar nemendur mæta í kennslustofu og kennarinn hefur enga leið til að vita hvort þeir eru að hlusta á sig eða að kaupa nýtt geimskip af Eve Online spilara í Timbúktú? Ætla skólar þá ennþá að vera að “reyna að finna leiðir” til að nýta 6 ára gamla tækni?

Rök gegn því að háskólar taki upp skólagjöld

Skolagjold_throun_1978-2012b

Í fréttum Stöðvar 2 í gær (09.02.2014) var rætt við Frosta Ólafsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, um skólagjöld í HÍ. Þar lýsti hann því yfir fyrir hönd Viðskiptaráðs að háskólar á Íslandi ættu að innheimta skólagjöld. Helstu rökin hans eru að háskólanám er persónuleg fjárfesting sem skilar arði fyrir viðkomandi og þar af leiðandi ætti einstaklingurinn að bera kostnaðinn. Þetta er hins vegar alls ekki eins skýrt og Frosti vill láta. Ávinningur af menntun fólks er margþættur og hagur fyrir bæði viðkomandi og samfélagið í heild. 
 
Með ummælum sínum kemur Frosti inn á nokkuð flókna umræðu sem á sér töluverða sögu. Spurningin sem umræðan snýst um er þessi: Á að líta á menntun einstaklinga sem almannagæði eða einkagæði (þetta eru tæknileg hugtök úr hagfræðinni sem ég vona að ég sé að þýða rétt: almannagæði=public good, einkagæði=private good)? Hér á landi og víða í Evrópu hefur almennt verið litið svo á að menntun einstaklinga leiðir af sér þekkingu sem gagnast samfélaginu og telst því til almannagæða. Þannig er hægt að réttlæta það að ríkið kosti menntun einstaklinga að miklu eða jafnvel að mestu leyti. Hins vegar mátti greina í umfjöllun Frosta að hann lítur á menntun fyrst og fremst sem einkagæði þeirra einstaklinga sem hana hljóta og því réttlætanlegt að viðkomandi beri sjálfur kostnaðinn enda er menntunin fjárfesting í eigin framtíð. Þetta svipar mjög til hugsunarhátta sem hafa orðið ríkjandi í Bandaríkjunum og orðið til þess að skólagjöld þar í landi hafa rokið upp úr öllu valdi. Að mínu mati er þetta hættulegur hugsunarháttur sem getur haft mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið.
 
Umræðan um hvort menntun telst til almannagæða eða einkagæða er töluvert flóknari en svo að þetta sé einungis spurning um það hver hagnast af menntuninni. Munurinn á almannagæðum og einkagæðum felst í eðli tiltekinnar vöru eða þjónustu en ekki hver hagnast af henni. 
 
 
Hver er munurinn almannagæðum og einkagæðum?
 
Almannagæði: Almannagæði eru vörur eða þjónusta sem eru sagðar vera aðgengilegar (e. non-rival) og ekki útilokanlegar (e. non-excludable).
 
- Það að eitthvað sé aðgengilegt í þessum skilningi þýðir að varan eða þjónustan rýrnar ekki vegna neyslu á henni. Klassískt dæmi um almannagæði eru vitar. Vitar varpa ljósi út á haf til að stýrimenn skipa geti áttað sig á staðsetningu skipsins. Þegar stýrimaður eins skips hefur notað ljós vitans í þessum tilgangi þá er ekki minna ljós eftir fyrir önnur skip. Neysla á ljósi vitans takmarkar ekki aðgengi þeirra sem á eftir koma. Ljósið af vitanum er því jafn aðgengilegt öllum óháð því hversu margir hafa áður notað það.
 
- Það að vara eða þjónusta er ekki útilokanleg þýðir að það er ekki hægt að koma í veg fyrir að tilteknir aðilar neyti hennar. Það er að segja að það er ekki hægt að takmarka neyslu vörunnar eða þjónustunnar við þá sem hafa sérstaklega áunnið sér rétt til þess, t.d. með því að borga fyrir hana. Hér er aftur gagnlegt að taka vita sem dæmi. Það er ekki hægt að takamarka neyslu ljóssins af vitanum þannig að aðeins þeir sem hafa sérstaka heimild til þess geti notað það, eða að slíkt myndi ekki svara kostnaði. Þannig að ljósið af vitanum verður sjáanlegt hvort sem sjáandinn hafi sérstaka heimild til að nota það eða ekki.
 
Einkagæði: Einkagæði eru þær vörur eða þjónustur sem er hægt að stýra aðgengi að og hægt að útiloka eða takmarka neyslu.
 
- Klassískt dæmi um einkagæði er brauðhleifur. Brauðhleifur er ekki aðgengilegur (e. rival) vegna þess að þegar einn aðili hefur borðað brauðið er útilokað að nokkur annar geti borðað það. Ennfremur, þegar búið er að selja og borða alla brauðhleifa, þá fær enginn brauð. Brauðhleifur er útilokanlegur (e. excludable) vegna þess að neytandinn fær ekki að njóta brauðsins nema að hann borgi fyrir.
 
Telst menntun til almannagæða eða einkagæða? 
Þá komum við aftur að spurningunni sem við byrjuðum með: telst menntun til almannagæða, það er að segja er hún aðgengileg og óútilokanleg; eða telst hún til einkagæði, það er að segja að hægt er að takmarka aðgengi og útiloka tiltekna einstaklinga frá því að neyta hennar?
 
Þá kemur upp önnur spurning (munið, ég sagði að þetta er flókið): Hver er varan eða þjónustan sem við erum að tala um? Er það menntunarferlið eða er það þekkingin/reynslan sem verður til í mennuntarferlinu?
 
Vissulega er hægt að takmarka aðgengi að menntunarferlinu og menntunarferlið er útilokanlegt. Eins og menntun gengur fyrir sig í dag þá notum við ýmsar aðferðir til að stýra aðgengi að menntunarferlinu. T.d. við setjum lágmarkskröfur fyrir aðgengi að námi, námsfólk þarf að fórna ýmsu fyrir að stunda nám og skólarými/starfslið skóla setur vissar takmarkanir fyrir því að allir geti neytt vörunnar og þjónustunnar sem felst í menntunarferlinu. Þannig mætti segja að það er margt við það að stunda nám sem líkist einkagæðum.
 
Það gildir hins vegar allt annað um þekkinguna og reynsluna sem verður til vegna menntunar. Við gerum ráð fyrir að einstaklingur sem menntar sig öðlast þannig þekkingu og reynslu sem nýtist í þágu samfélagsins. Þekking þessara einstaklinga rýrnar ekki við notkun (eins og til dæmis brauðhleifurinn) og líkist þess vegna almannagæðum. Hins vegar er spurning að hve miklu leyti þekkjandinn getur takmarkað aðgengi að eigin þekkingu.
 
Hér verða málin svolítið loðin og óljós. Auðvitað getur einstaklingur sett upp gjaldskrá fyrir þjónustu eða vöru sem er afurð eigin þekkingar. Vel flestir menntaðir einstaklingar gera það. Við þurfum að borga til að fara til læknis, kennari kennir ekki nema að hann þiggi laun, o.s.frv. En hvort sem við borgum fyrir þjónustu þessara einstaklinga eða ekki, þá njótum við samt góðs af vörum eða þjónustu sem þeir selja. Það skiptir mig miklu máli að þeir sem ég vinn með eru við góða heilsu. Ég hef líka beinan hag af því að aðrir í samfélaginu, jafnvel þeir sem ég þekki ekki neitt, séu sæmilega vel menntaðir - ég vil t.d. að mínir samborgarar sem taka þátt í borgarlegum kosningum samhliða mér, séu færir um að taka upplýsta ákvörðun. Ennfremur, það sem skiptir kannski mestu máli, er að ég vil vera viss um að þeir sem á þurfa að halda (hvort sem það eru stjórnmálamenn, nágrannar eða aðrir) geti sótt í áreiðanlega þekkingu þegar hennar er þörf. Þannig nýti ég mér þekkingu menntaðs fólks í gegnum áhrif þeirra á samfélagið í heild og það er ekki hægt að takmarka aðgengi mína að slíkum afurðum hvort sem ég hef borgað fyrir hana eða ekki.
 
Niðurstaðan er þá þessi: þekking sem verður til vegna menntunar telst til almannagæða vegna þess að hún rýrnar ekki við neyslu og það er ekki hægt að takmarka aðgengi tiltekinna einstaklinga að afurðum þekkingar menntaðs fólks. Menntun sem slík telst einnig til almannagæða vegna þess að hún er nauðsynlegur þáttur í að tryggja að sú þekking sé til staðar.
 
Niðurstaðan 
Vörur og þjónusta sem teljast til almannagæða eru ekki sérlega markaðsvæn. Þar sem almannagæði eru aðgengileg og ekki hægt að takmarka þau þá er erfitt að græða á framleiðslu þeirra. Það er ekki hægt að takmarka neyslu þeirra við þá sem hafa greitt fyrir. En þar sem almannagæði eru samt sem áður nauðsynleg fyrir samfélagið þarf að tryggja að þau séu fyrir hendi. Þar af leiðandi eru almannagæði yfirleitt kostuð af hinu opinbera. Ef þekking menntaðs fólks telst til almannagæða og er nauðsynleg fyrir samfélagið þá er eðlilegt að hið opinbera komi að kostnaðinum af því að tryggja að hún sé til staðar.
 
Rök Frosta fela í sér breytt gildismat þar sem gæði menntunar eru metin út frá einstaklingnum frekar en samfélaginu sem heild. Það verður því einstaklingurinn sem ber allan kostnað og ber ábyrgð á því að endurheimta útlagðan kostnað á starfsævinni. Þar af leiðandi er kominn töluverður áhættuþáttur í því að afla sér menntunar. Þetta getur orðið til þess að fæla suma frá námi og haft áhrif á námsval þeirra sem kjósa að fara í nám. Þeir sem fara í nám verða þá líklegri til að kjósa annaðhvort nám sem þeir telja lofa skjóta endurheimt á útlögðum kostnaði eða tiltölulega einfalt, fljótlegt og áhættulítið nám. Útkoman verður einsleit þekkingarflóra sem getur ekki tryggt aðgengi að nauðsynlegri þekkingu hverju sinni í samfélaginu. Þetta má sjá nú þegar víða í Bandaríkjunum þar sem framsæknustu tæknifyrirtæki berjast fyrir því að fá aukaheimildir til að flytja inn hámenntað vinnuafl vegna þess að þau hafa ekki aðgang að þekkingunni sem þau telja sig þurfa meðal Ameríkana sjálfra. Eftir sitja fjölmargir ungir Ameríkanar, skuldugir upp fyrir haus og með þekkingu sem vinnumarkaðurinn metur lítils. Maður sér þá gjarnan bakvið afgreiðsluborðið á Starbucks Coffee að ræða um fordæmisgildi vinnustaðalöggjafarinnar sem þeir lærðu um í laganáminu meðan þeir þeyta mjólk í latté viðskiptavinarins (sem er sennilega stjarneðlisfræðingur starfandi hjá Google fyrst hann hefur efni á kaffi á Starbucks).
 
Mynd fengin af vef Nörd Norðursins:  http://nordnordursins.is/2013/02/leikur-ad-laera-a-tolvuold/

Verða hlynntir fleiri en andvígir fyrir lok þessa kjörtímabils?

ThumbupwithEUflag-large
Í könnunum sem þessum þar sem viðhorf er kannað með nokkuð reglulegu millibili er mesta upplýsingagildið í breytingum yfir lengri tíma. Við sjáum á þessari gröf að breytingar milli kannana segja okkur afskaplega lítið. Þar hoppar allt upp og niður og líklegt að þessar smávægilegu breytingar endurspegli frekar umræðu hverju sinni frekar en almennt álit landsmanna. Eins er munurinn milli andvígra og hlynntra hverju sinni lítið áhugaverður þar sem hver slíkur punktur er út af fyrir sig aðeins svipmynd af stöðunni á tilteknum tíma og skortir víðara samhengi. Ferlið frá upphafi tímabilsins sem sýnt er í gröfinni og til dagsins í dag er því aðal fréttin hér og hún er nokkuð áhugaverð. Það er mjög skýrt að fjöldi þeirra sem segjast vera andvígir aðild fer minnkandi meðan fjöldi þeirra sem segjast vera hlynntir fer vaxandi.


Raunin er að á rúmlega 2 árum hefur fjöldi andvígra fækkað um næstum 10% meðan fjöldi hlynntra hefur aukist um ca. 5%.

Ef þessi þróun heldur áfram gætu hlynntir orðið fleiri en andvígir á þessu kjörtímabili.

mbl.is Fleiri hlynntir inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna stunda blaðamenn lélega blaðamennsku?

dumb-reporter-new-york-timesTvær "fréttir" sem ég hef lesið nýlega hafa verið að angra mig. Sú fyrsta hefur farið ört um frétta- og félagsmiðla á vefnum síðustu daga - um að vonda Evrópusambandið ætli að banna kanil og drepa þar með ástsæla kanilsnúð Dana. Hin sagði frá því að "haldið er utan um" rafræna gjaldmiðilinn Bitcoin í gagnaveri í Reykjanesbæ. Báðar eru svo illa upplýstar og misvísandi að þær fá mig til hugsa hvað það sé eiginlega sem nútíma blaðamenn gera, eða telja vera sitt hlutverk í samfélaginu? Svo fussum við og sveium yfir því að tæplega þriðjungur íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns, en ég verð að spyrja - hvert er gagnið þegar lesefnið er svona? 

Kanilsnúðadráp? 
Fyrri fréttin hefur birst á mbl.isvisir.is og dv.is. Engin tilraun virðist hafa verið gerð hjá blaðamönnunum né ritstjórum til að ganga úr skugga um að fréttin sé rétt. Raunin er (og þarf ekki að leita langt til að komast að því) að það er ekkert í reglugerðinni umræddu sem bannar eða takmarkar á nokkurn hátt notkun kanils í matvælum. Reglugerðin takmarkar innihald kúmaríns í matvælum, en það er efni sem finnst í töluverðu magni í sumum plöntutegundum, meðal annars kassíu, sem er sú kaniltegund sem algengast er að notuð er í matargerð. Kúmarín finnst í mjög litlu magni í öðrum tegundum af kanil, þar á meðal Ceylon kanil, sem er líka kallað á ensku "true cinnamon" og þykir fínna og er dýrara en kassía. Svo lítið er kúmarínið í Ceylon kanil að það mætti nota heilu hrúgurnar af því í hvern kanilsnúð án þess að fara upp fyrir leyfileg mörk kúmaríninnihalds. Sem sagt, það eina sem kemur í veg fyrir að danskir bakarar haldi áfram að baka sína dýrindis kanilsnúða er ef þeir neita alfarið að nota ögn dýrara og töluvert betra hráefni. Að Evrópusambandið skuli voga sér að gera okkur saklausu borgurum svona!
 
(Þess má líka geta að kúmarín er notað í rottueitur. Þannig að það mætti svo sem búa til frétt með sömu aðferð og virðist liggja að baki þessarar um að danskir bakarar noti rottueitur í kanilsnúðana sína. Ansi gott skúbb fyrir þá sem þora…)
 
Bitcoin stjórnað frá Íslandi? 
Hin fréttin, sem fjallar um "utanumhald" um Bitcoin, birtist á viðskiptasíðum mbl.is í síðustu viku. Bitcoin er opinn og frjáls gjaldmiðill. Það er ekki "haldið utan um hann" á Ásbrú eða annarsstaðar. Það sem verið er að gera (og er útskýrt í frétt NYT sem mbl.is vísar í) er að einkaaðili hefur sett upp sérhæfðan búnað til að "nema" ný bitcoin, eins og það er kallað. Bitcoin náma er innbyggð í Bitcoin kerfið og er aðferðin sem er notuð til að setja nýtt fjármagn í umferð. Hver sem er getur reynt að nema ný Bitcoin. Þetta virkar þannig að í Bitcoin gagnflæðinu eru kóðar, sem allir hafa aðgang að. Kóðinn er útkoma flókinnar reikniaðgerðar. Sá sem getur fundið út hver nákvæmlega reikniaðgerðin er fær nokkur Bitcoin í verðlaun. Verðlaunapeningarnir eru ekki greiddir út með millifærslu heldur eru nýtt fjármagn í kerfinu. Vandinn er að það þarf gríðarlega reiknigetu til að eiga nokkra von á að leysa dæmið og hver kóði hefur takmarkaðan gildistíma. Þar að auki þyngjast reikningsdæmin í hvert skipti sem eitt er leyst. Þannig er sjálfvirk stýring á því hvað fer mikið nýtt fjármagn í kerfið hverju sinni. Eins og kerfið er byggt upp núna munu á endanum fara um 21 miljón Bitcoin í umferð. Í dag er rúmlega helmingur fjarmagnsins (eða um 12 miljón) komið í umferð. Þetta hefur gerst á 5 árum. Áætlað er að allt fjármagnið verði komið í umferð í kringum 2030. Það er því augljóst að það verður töluvert erfiðara og mun krefjast nánast stjarnfræðilegrar reiknigetu til að nema þau Bitcoin sem eftir eru á þessum 16 árum sem eru til 2030.

Hver tilgangur blaðamanns mbl.is var með hans útgáfu af þessari "frétt" veit ég ekki en honum tekst e.t.v. að ljá henni svona víst-er-Ísland-miðpunktur-alls blæ með þessum einstaka skáldskap.

mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um samkeppni í menntamálum

TOW_students
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlits, vill koma á samkeppni í menntamálum eftir fyrirmynd Svía. Hann segir meðal annars að samkeppni leiði til betri þjónustu og að hún snúist fyrst og fremst um gæði. Hvað eru "gæði" í menntamálum? Það er væntanlega að skólar skili betri árangri í formi námsárangurs nemenda. Páll bendir svo á reynslu Svía sem dæmi um að þetta sé hægt og að það gangi upp. Hann segir það ekki berum orðum en ýjar að því -og eiginlega ekki hægt að skilja hann öðruvísi- að aukin samkeppni í menntamálum muni leiða til betri námsárangurs nemenda. Gallinn er að rannsóknir á námsárangri sænskra nemenda eftir að tekið var upp núverandi kerfi sem leyfir opinberu fjármagni að renna til einkarekinna skóla sem eru í samkeppni við opinbera skóla styðja ekki hans fullyrðingar.

Áhrif samkeppnisvæðingar menntamála í Svíþjóð hafa verið rannsökuð nánast í þaula allt frá því að nýja kerfið var tekið upp. Fyrst voru það rannsóknir Martin Carnoy á 10. áratug síðustu aldar. Síðan hafa fylgt ótal rannsóknir og kannanir Svía og annarra sem sýna nánast allar það sama. Val eykst, ójöfnuður eykst og breytingar á námsárangri eru nánast engar. Þrátt fyrir að mikill meirihluti rannsókna sýni að samkeppnisvæðingin í Svíþjóð hafi ekki haft teljandi áhrif á námsárangur eru alltaf einhverjir sem halda hinu gagnstæða fram. Nánast allir sem það gera styðjast við tvær rannsóknir:



Báðar þessar rannsóknir eru sagðar sýna að námsárangur hafi aukist, einkum í stærðfræði, eftir samkeppnisvæðingu menntamála í Svíþjóð. Rannsóknirnar nota svipaða nálgun en Ahlin notar ítarlegri gögn og þykir Ahlin því styrkja niðurstöðurnar sem Sandström & Bergström fengu áður.

Björklund, Edin, Fredriksson & Krueger segja frá endurskoðun þeirra á gögnum og greiningu Ahlin í skýrslu frá 2004. Niðurstöður þeirra benda til þess að Ahlin hafi ofmetið breytingu á námsárangri í stærðfræði. Endanleg niðurstaða þeirra er að það eru einhverjar vísbendingar um bættan námsárangur, en "more often than not there is no relationship between student performance and private school attendance and school competition respectively." (bls. 119).

Niðurstaðan er því eins og ég sagði áður - nánast allar rannsóknir á samkeppnisvæðingu menntamála í Svíþjóð sýna að hún hefur haft óveruleg áhrif á námsárangur og ójöfnuður jókst. Það sem meira er þá er þetta í samræmi við rannsóknir á svipuðum kerfisbreytingum í öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, Chile og Nýja Sjálandi. Það getur verið að samkeppnisvæðing menntamála hafi einhverja kosti í för með sér, en það er hæpið að fullyrða að hún bæti "gæði" (hvað sem er meint með því) og þjónustu.

Mér er því spurn - af hverju heldur Páll Gunnar að samkeppnisvæðing í menntamálum auki gæði og þjónustu?

mbl.is Vill aukna samkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um tillögur hagræðingahóps

Loks eru birtar tillögur hagræðingahópsins sem allir hafa beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Þvílíkt spennufall! Þvílíkt svekkelsi. Kemur í ljós að tillögurnar eru ekkert annað en samansafn af flestum þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram af hinum og þessum aðilum síðustu 5-6 árin. Meira segja er það svo að margar tillögurnar eru þegar í vinnslu. Hópsfólk gerði okkur þann greiða að merkja þær sérstaklega í listanum með rauðri stjörnu. Mér er spurn - hvernig getur eitthvað sem er þegar í vinnslu orðið að tillögu að nýbreytni?

En hvað um það - það eru smáatriðið. Stóra málið er, e.o. hópurinn segir:
Tillögur sem svipar til tillagna hagræðingarhópsins hafa í mörgum tilfellum verið lagðar fram áður. Það er hins vegar ekki nægilegt að leggja fram góðar tillögur og hugmyndir, það þarf að koma þeim til framkvæmda.

Ekki vitlaus ráð. H.v. áður en kemur til framkvæmda þarf að ganga úr skugga um að raunhæft sé að áætla að breytingar sem mælt er með munu hafa tilætluð áhrif. Já, það þarf að gera kostnaðaráætlanir, kanna viðhorf hagsmunaaðila, gera innleiðingaráætlanir, o.s.frv. Ég horfi helst til þeirra tillagna sem varða skóla- og menntamál, e.o. vanalega. Ég get ekki séð að neitt slíkt hafi verið gert. Ég er t.d. enn að bíða eftir því að fá skýringu frá einhverjum, mér er eiginlega sama hver það er, hvernig stytting skólagöngu eigi að leiða til þeirrar hagræðingar sem haldið hefur verið fram. Hefur lengd skólagöngu virkilega það mikil áhrif á kostnað skólakerfisins að við þurfum að einblína á það frekar en t.d. að auka notkun rafræns námsefnis, meta kostnað og gagnsemi kostnaðarsamra samræmdra prófa og annað sem hefur augljós tengsl við kostnað. Þannig að, já, e.o. hópurinn segir, nú þarf framkvæmdir - en það er víst ekki í verkahring þessa hóps að koma að þeirra vinnu sem þarf til að það verði hægt.

Hvað hefur þá þessi hagræðingarhópur skilað okkur? Ég sé ekki betur en að það sem þessi hagræðingarhópur hefur gert er að safna saman alls kyns tillögum sem settar hafa verið fram á undanförnum árum (sérstaklega tillögur vinnuhóps um aukna "hagsæld", sem eru í raun meira um hagræðingu en ekki hagsæld) og telja þær. Tillögurnar eru víst 111. Þetta er í það minnsta efni í verðuga Trivial Pursuit spurningu.

mbl.is 41 tillaga þegar í úrvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð menntunar: Hvað á að horfa langt fram í tímann?

Þessi grein varð til eftir stutt samtal við Jón Torfa Jónasson, sem hefur undanfarin ár vakið athygli á þörf fyrir umræðu um framtíð menntunar hér á landi.

aaron-tech-image-1-2
Það heyrist æ oftar talað um "framtíð menntunar" í tengslum við skólaþróun - að skólaþróun í dag þarf að taka mið af samfélaginu eins og það verður í framtíðinni en ekki eins og það var í fyrra eða er í dag.  En hvenær kemur þessi "framtíð" sem verið er að tala um? Hvað eigum við að horfa langt fram í tímann til að breyta menntun í dag?

Tilgangur umræðu um framtíð menntunar er í stórum dráttum þessi:
1. Að móta hugmyndir um æskilega þróun menntunar til langs tíma.
2. Að búa viðkomandi aðila undir að takast á við breytingar sem kunna að eiga sér stað  í framtíðinni.

En hvað eigum við þá að horfa til langs tíma þegar við erum að móta menntastefnu?

Irvine & Martin, frumkvöðlar í þróun "tækniforsjálni" (e. technology foresight), rannsökuðu framtíðarmiðaða stefnumótun í tengslum við fjármögnun rannsókna í Bretlandi og víðar á níunda áratug síðustu aldar og skilgreina tímaskeiðin sem horft er til í stefnumótun þannig:

- til skamms tíma: næstu 1-2 ár,
- til meðallangs tíma: u.þ.b. næstu 5 árin,
- til langs tíma: næstu 10 árin eða lengra.

Þetta eru ágætis viðmið en við þurfum að huga að samhenginu. Þessi flokkun var lögð fram fyrir 30 árum og ætlað að vera leiðbeinandi fyrir allt annað stefnumótunarsvið en menntun. Ég held að við þurfum að meta þetta öðruvísi í samhengi við mótun menntastefnu í dag af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þá eru tæknilegar og félagslegar breytingar mun örari í dag en fyrir 30 árum. Í öðru lagi, menntun er í eðli sínu langtíma verkefni sem spannar lengra tímabil en það sem þessi flokkun miðast við. Eðlileg flokkun fyrir menntun held ég að sé frekar á þessa leið (og ég ætla að útskýra af hverju á eftir):

- til skamms tíma: næstu 5 árin,
- til meðallangs tíma: u.þ.b. næstu 10 árin,
- til langs tíma: næstu 15 árin eða lengra.

Útskýringar:
Stefnumótun til skamms tíma nær yfir a.m.k. næstu 5 árin
- Í fyrsta lagi: Markmið framtíðamiðaðrar stefnumótunnar er að horfa fram fyrir breytingar sem kunna að eiga sér stað með áherslu á það óvænta. Þegar horft er til fyrirsjáanlegrar framtíðar, hvort sem það eru næstu klukkustundir, dagar, mánuðir eða ár, er sterk tilhneiging til að tengja framtíðina við nútímann þannig að við sjáum bara fram á stigbreytingar út frá núverandi ástandi. Til að geta ímyndað okkur róttækari umsviptingar sem fela í sér eigindlegar breytingar á félagslegri hegðun þurfum við að slíta okkur úr samhengi við nútímann. Ég veit s.s. ekki um neina vísindalega þekkingu sem er hægt að fara eftir í þessum málum, en mín reynsla er að almennt þarf að fá fólk til að horfa fram um a.m.k. 5 ár til að skapa hæfilega fjarlægð frá nútímanum. Þegar horft er fram til styttri tíma festist fólk í tæknilegum veruleika nútímans.

- Í öðru lagi eru það nemendurnir sjálfir og tæknilegur veruleiki þeirra. Miðað við rannsóknir á tækninotkun ungs fólks í dag má gera ráð fyrir að nemendur, sem eru að byrja í grunnskóla á þessu ári, verði tæknilega sjálfstæð eftir u.þ.b. 5 ár - þ.e.a.s. að þá eiga þau sín eigin tæki sem þau nota að vild og að miklu leyti án eftirlits. Þar með eru þeir orðnir áhrifavaldar í sköpun eigins tæknilegs veruleika. Ef hlutverk menntunar er að búa fólk undir framtíðina ætti menntastefna að taka mið af þeim tæknilega veruleika sem ætla má að ungt fólk þurfi að takast á við.

Stefnumótun til meðallangs tíma nær yfir u.þ.b. næstu 10 árin
- Miðað við þá hröðun sem við sjáum fram á í tæknilegri þróun má gera ráð fyrir að tæknilegur veruleiki verði gjörbreyttur eftir 10 ár. Að horfa til baka um 10 ár þá verður eins og að horfa til baka um 20-30 ár í dag. Árið 1990, fyrir 23 árum, var Veraldarvefurinn ekki til, heimilistölvur voru á 10-15% heimila, Ísland hafði tengst Internetinu ári áður, nánast engin átti farsíma - hvað þá snjallsíma, o.s.frv. Breytingarnar sem hafa átt sér stað síðan þá eru gífurlegar og hafa haft áhrif á störf, nám, efnahagskerfi, samskipti o.fl. Búast má við að munurinn á nútíma samfélagi og samfélaginu eftir 10 ár verði álíka mikill eða meiri. Þetta er veruleikinn sem mun taka við þeim sem eru að byrja í grunnskóla í dag um það leyti sem þau eru að ljúka skyldunámi, verða sjálfstæð, byrja að vinna, o.s.frv. Þetta er veruleikinn sem menntun á að vera að undirbúa þau fyrir.

Stefnumótun til langs tíma nær yfir næstu 15 árin eða lengra
- Hröðun tæknilegrar þróunar skapar mikla óvissu og það er nákvæmlega þessi óvissa sem við viljum takast á við með langtíma stefnumótun. Þeim mun lengra sem við horfum fram í tímann þeim mun meiri er óvissan. Það er ekki bara út af því að það er erfiðara fyrir okkur að segja til um hvernig tækni muni þróast til langs tíma heldur líka vegna þess að ímyndunaraflið okkar er ekki eins háð viðmiðum nútímans. Þegar við horfum langt fram í tímann frelsum við ímyndunaraflið og erum þá líklegri til að velta fyrir okkur -að því er virðist- fjarstæðukenndum óvissuþáttum. Raunin er h.v. að við vitum sjaldnast hvenær við þurfum að takast á við óvissuþættina sem við veltum fyrir okkur. Það gæti gerst fyrr og það gæti gerst síðar, en hvenær sem það verður þá höfum við alla vega búið okkur undir þá og aukið líkurnar á að okkur takist að skapa framtíðina sem við viljum.
 
UhuraKirkKiss
Skemmtilegur útúrdúr sem þó tengist umræðuefninu: Skömmu áður en Gene Roddenberry bjó til Star Trek sjónvarpsþáttaröðina frægu, hafði hann búið til þáttaröð sem hét The Lieutenant. Roddenberry vildi með þessum þáttum varpa ljósi á félagsleg deilumál samtímans og hvetja til opinberrar umræðu um þau - t.d. kynþáttahatur, kynjamisrétti o.s.frv. Þetta þótti stjórnarmönnum NBC sjónvarpsstöðvarinnar, sem sýndi þættina, of djarft. Roddenberry var gert að gera minna úr ádeilu og var m.a.s. einum þætti, sem fjallaði um kynþáttamisrétti, hafnað og var aldrei sýndur. Roddenberry ákvað þá að búa til þætti sem gerðust ekki í nútímanum heldur í fjarlægri framtíð svo hann gæti fjallað um þessi deilumál án þess að ganga of nærri stolti og siðferðiskennd samborgara sína og úr varð Star Trek. Star Trek þættirnir voru mjög framsæknir að því leyti að þar var tekið á ýmsum málum þ.a.m. samskipti kynþátta (fyrsta skipti sem hvítur maður sást kyssa svarta konu í skáldverki í Bandarísku sjónvarpi var ástríðufullur koss Captain Kirk og Lieutenant Uhura í Star Trek þættinum "Plato's Children"), kynjamisrétti, hnattvæðingu o.fl. Mörg voru þetta málefni sem Roddenberry var bannað að taka fyrir samtímaumhverfi The Lieutenant en þóttu ekki tiltökumál í framtíðarheimi Star Trek þáttanna.

Samkynhneigðir eru stjörnur!

sk_fani

Páll Vilhjálmsson birti í dag grein á blogginu sínu þar sem hann talar m.a. um "upphafningu samkynhneigðar". Þegar ég les greinina heyri ég þennan týpíska niðrandi tón sem mér finnst einkenna flest skrif hans. Ég fæ á tilfinninguna að Páli finnst samkynhneigðir fá meiri athygli en þeir eiga skilið. Það er ekki oft sem skrif Páls vekja mig sérstaklega til umhugsunar en þetta orðalag sem hann kaus að nota gerði það. Hverjir eru það sem við sem samfélag upphefjum? Það eru þeir sem hafa lagt mikið á sig í lífinu og oft barist á móti ríkjandi straumum til að hafa áhrif á sig, aðra og samfélagið sem heild. Íþróttafólk æfir sig nótt og dag til að byggja upp styrk og þrek til að sigra í sínum keppnisgreinum oft fyrir hönd þjóðarinnar allrar. Listamenn þrauka við erfiðar aðstæður til að koma á framfæri þeirra sýn á heiminum sem við búum í til að við getum orðið betri manneskjur. Vísindamenn, uppfinningamenn, og afreksfólk á hinum ýmsu sviðum leggja mikið á sig til að auka þekkingu okkar, auka þægindi og lina þjáningar þeirra sem minna mega sín. Þetta er fólkið sem við upphefjum.
 
Ef þetta eru kríteríurnar fyrir að fá upphafningu þá veit ég um fáa sem eiga það jafnmikið skilið og samkynhneigðir. Flestir samkynhneigðir hafa þurft að þola það stórann part ævinnar að vera sagt að það sé eitthvað að þeim eða jafnvel að þeir séu eitthvað annað en þeir eru. Ég hugsa að fáir gagnkynhneigðir geta ímyndað sér hversu erfitt er að koma úr felum fyrir sjálfum sér og öðrum þegar nánast allt umhverfið spyrnir á móti. Ég er ekki viss um að ég gæti það en get vel ímyndað mér að það þurfi kjark og styrk sem ég efast um að jafnvel okkar hæfasta fótbolta- og handboltafólk búi yfir.
 
Þannig að ég segi upphefjum samkynhneigða meira og verum stolt af þeim og af okkur fyrir vikið! Þeir eiga það skilið. Samkynhneigðir eru stjörnur.

Af hverju halda sumir að stytting náms muni draga úr brottfalli?

skolastofa
Á vef mbl.is í gær var sagt stuttlega frá samtali við Frosta Ólafsson, nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, þar sem hann segir m.a. að hann sé "bjartsýnn á að stytting náms geti verið hagkvæmur kostur og með betri nýtingu fjármuna dregið úr brottfalli nemenda". Af hverju stafar þessi bjartsýni hans? Hvað er það sem bendir til að stytting náms dragi úr brottfalli? Nú er töluvert til af rannsóknargögnum um brottfall (t.d. langtímarannsóknir Jóns Torfa Jónassonar, Andreu Jónsdóttur og Kristjönu Stellu Blöndal og fjölda annarra rannsókna) - bæði íslenskum og erlendum - og ég kannast ekki við að þar hafi nokkurn tíma komið fram að lengd náms orsaki brottfall.
 
Framkvæmdastjórn ESB lét rannsaka brottfall fyrir nokkrum árum þar sem m.a. var sérstaklega athugað hvort það væru tengsl milli lengd náms og brottfalls. Þar kemur fram eitt og annað áhugavert: t.d. að engin fylgni er milli lengd skyldunáms (s.s. grunnskólinn í íslenska kerfinu) og brottfalls nema að einu leyti - í þeim löndum þar sem skyldunám er lengst er brottfall minnst.

Þannig að mér er spurn - á hverju er þessi bjartsýni Frosta byggð?

Ef markmiðið er raunverulega að draga úr brottfalli eru ýmsar aðrar leiðir sem þekking og reynsla bendir til að væru mun áhrifaríkari, t.d. að gera námið áhugaverðara fyrir nemendur og bjóða upp á meiri stuðning. Svo eru ýmsar þekktar leiðir sem krefjast lítils undirbúnings eða kostnaðar. Það er t.d. hægt að þurrka út brottfall með því einfaldlega að afnema hugtakið. Nemendur fengju skírteini sem útlistar því námi sem þeir hafa lokið hvort sem það er 1 ár, 2 eða fleiri. Voilà! Ekkert brottfall, bara nemendur með mismikið nám að baki. Einnig mætti lækka eða afnema lágmarkseinkunn, e.o. Atli Harðarson hefur bent á að gert er í sumum löndum.
 
Ég held að það vanti meiri heiðarleika í þessa umræðu. Hvað er það sem Frosti og hans skoðanabræður vilja og af hverju? 


mbl.is Stytting náms hagkvæmur kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrsti 3víddar prentarinn á almennum markaði

mb-rep2-features-4

Blaðamaður mbl.is virðist hafa gjörsamlega misskilið fréttina sem hann notar sem heimild. Þar er ekki sagt að þetta sé fyrsti 3víddar prentarinn á "almennum markaði" heldur að þetta sé fyrsti prentarinn sem seldur er á "high street", þ.e.a.s. út úr gamaldags staðbundinni verslun (og er sennilega átt við Bretland sérstaklega). Þrívíddar prentarar hafa verið auðfáanlegir í nokkur ár, þá helst með því að panta á netinu. Einn sá fyrsti sem var tiltölulega ódýr og aðgengilegur almenningi á netinu var RepRap prentarinn. Hægt er að sækja teikningar fyrir samsetningu RepRap og þrívíddar teikningar fyrir alla nauðsynlega parta og íhluti ókeypis á netinu. Notandinn sér svo um að verða sér úti um parta og setja tækið saman. Fab@home býður upp á svipað og RepRap. Í dag eru margir 3víddar prentara sem hægt er að kaupa á netinu og fá senda bæði samsetta og ósamsetta og er verð á þeim sem ætlaðir eru almenningi allt frá nokkrum þúsundum bandaríkjadölum og niður í 6-700 dollara.

Fyrir þá sem hafa keypt 3víddar prentara eru komnir upp vefir þar sem hægt er að sækja fjölda módela til að prenta eftir, t.d. Thingiverse þar sem öll módel er opin og ókeypis.

Þrívíddar prenttæknin er komin töluvert lengra á leið en margan grunar... 


mbl.is Fyrsti 3D prentarinn í almenna sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband