Eru gagnaver raunverulega stórir kúnnar Farice?

Í frétt á Vísi.is í dag er sagt frá því að Farice ætli að hækka gjöld fyrir aðgengi almennings að sæstrengssambandi við netið. Það hefur komið fram að almenningur mun borga töluvert meira fyrir netsambandið en gagnaver. Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, réttlætir þetta þannig, "Gagnaverin eru mun stærri kúnni". Spurt hefur verið um eignarhald og notkun á strengjum Farice á þingi og skv. svörum sem fengust þá (2010-2011) er nýting Farice þessi:

Burðargeta og nýting:
StrengurBurðargetaNýtingarhlutfall
Farice100 Gbit/s45%
Danice100 Gbit/s55%


Viðskiptavinir:
  • Íslensk síma- og fjarskiptafélög 41% 
  • Erlend síma- og fjarskiptafélög 15%
  • Aðilar sem reka rannsókna- og háskólanet 17% 
  • Gagnaver og erlendir viðskiptavinir gagnavera 27%

Til samanburðar má geta að álbræðslur nota um 80% af raforku sem framleidd er á Íslandi. Það eru stórir kúnnar - gagnaverin eru það ekki.

Augmented reality = gagnaukinn veruleiki: Tillaga að nýrri þýðingu

Sú tækni sem líklegust er til að hafa teljandi áhrif á því hvernig við notum upplýsingatækni á komandi árum hefur verið nefnd á ensku "augmented reality" (AR) (sjá t.d. um tæknina hér, hér og hér. Ég á enn eftir að sjá góða íslenskun á þessu hugtaki. Sumir hafa þýtt hugtakið beint sem "viðbættur raunveruleiki" en þetta hugtak er bæði óþjált og lýsir illa því sem er átt við. Ég hef stungið upp á að þetta verði þýtt sem "gagnaukinn veruleiki" sem ég tel að virki vel á íslenskri tungu og lýsir tækninni einstaklega vel, jafnvel betur en enska hugtakið. Fyrst ætla ég að útskýra hvað gagnaukinn veruleiki (GV) er og svo rökstyð ég þessa þýðingu mína.

GV byggir á notkun gagna og tækni sem eru til í nútímatölvum og snjallsímum í dag, s.s. myndavél, staðsetningartækni, þráðlaust net. Þessi tækni hefur töluverð áhrif á samskipti okkar við umhverfið - bæði hvernig við skynjum umhverfið okkar og hvernig við skilgreinum og mótum umhverfið. Í vissum skilningi má segja að tæknin gerir umhverfinu kleift að upplýsa okkur um sig sjálft - t.d. getum við beint snjallsímanum að tilteknu fjalli og fengið að vita hvað það heitir, hvað það er hátt, o.s.frv. Við getum líka notað þessa tækni til að koma fyrirbærum fyrir í umhverfinu sem eru ekki annars til staðar - t.d. er eitt snjallsímaforrit sem gerir fólki kleift að fara í boltaleik án þess að nota raunverulegan bolta. Sennilega er Google Maps mest notaða GV tæknin í dag. Google Maps víkkar út okkar skynjaða umhverfi til muna. Ég get staðið á götuhorni í framandi borg í leit að kaffihúsi og vitað um öll kaffihús í göngufæri við mína staðsetningu en ekki bara þau kaffihús sem ég sé með eigin augum. GV tæknin þróast mjög ört og það er aðeins hugmyndaflugið sem takmarkar hvað við getum gert með henni. Nokkrir möguleikar: Af hverju ekki að þýða AR sem "viðbættur raunveruleiki"?
Í fyrsta lagi, GV bætir ekki endilega neinu við umhverfið okkar. Þegar við notum GV til að upplýsa okkur um fjall þá er ekki um neina viðbót við umhverfið okkar að ræða. Í vissum skilningi mætti segja að tæknin eykur merking fjallsins fyrir okkur. Fjallið sjálft breytist ekki á nokkurn hátt. Raunin er að "viðbætt" er ekki einu sinni rétt þýðing á enska orðinu "augmented" nema í einstökum tilfellum. Enska orðið "augmented" þýðir í raun að eitthvað sé aukið umfram það sem það er venjulega. T.d. þegar við notum Google Maps þá eykst skilningur okkar á umhverfinu umfram það sem skynfærin okkar myndu venjulega færa okkur. Umhverfið er samt algjörlega óbreytt.

Í öðru lagi, tæknin snýst ekki beint um "raunveruleikann" sem slíkan. Minn skilningur á "raunveruleika" er að hann er bara það sem hann er og við bætum ekki neinu við hann né tökum frá honum. "Veruleikinn" er hins vegar sú sýn á raunverukeikanum sem mótast af skynjun okkar á raunveruleikanum og skilgreiningum á því sem í honum er. Við höfum því miklu meira vald yfir "veruleikanum" heldur en raunveruleikanum. Ég gæti farið út í ítarlegar heimspekilegar verufræði pælingar hér en ég held ég láti það vera að sinni. Ég læt nægja að segja að GV tækni hefur þannig áhrif á tilvist hluta í umhverfinu okkar að þeir öðlast dýpri merkingu, meira notagildi eða að þeir eru hreinlega skapaðir úr engu.

Af hverju að þýða AR sem "gagnaukinn veruleiki"?
Það eru tvær ástæður fyrir því að ég kýs að nota forskeytið "gagn" í hugtakinu mínu.
Í fyrsta lagi, GV byggir fyrst og fremst á samspil gagna við umhverfið okkar. Veruleikinn er "aukinn" með notkun tölvugagna sem miðlast með upplýsingatækni. Fyrri tækni hefur ekki boðið upp á þetta nána samspil umhverfis og gagna. Gögn annars vegar og það sem þau lýsa hins vegar hafa ekki haft möguleika á að vinna saman í sama skynjaða rými. Gögn hafa átt sinn stað í tölvum eða á pappírum og yfirfærsla á umhverfið aðeins verið hægt með því að nota ímyndunaraflið til að fylla inn í eyður. Með tilkomu GV eru gögn færð inn í skynjunarrýmið þannig að skynjunin mótast af gögnunum og því sem er skynjað í sama ferlinu.

Í öðru lagi eykst gagnsemi umhverfisins með notkun GV. Þeim mun meira sem við vitum um umhverfið þeim mun betri ákvarðanir getum við tekið varðandi samskipti okkar og þess. Segjum sem svo að ég nota GV til að fræðast um hvað tiltekið fjall er hátt og hversu langan tíma tekur að ganga upp á það. Þá er ég betur stæður til að ákveða hvort aðstæður henta til fjallgöngu á tilteknu fjalli eða ekki.

Þannig að ég legg til að enska hugtakið "augmented reality" verði þýtt sem "gagnaukinn veruleiki" vegna þess að það er þjálla en "viðbættur raunveruleiki" og það lýsir betur notagildi, áhrifum og möguleikum tækninnar sem um ræðir.

Enn ein byltingin í nánd í menntun?!? Ég er ekki svo viss.

Á vísi.is í dag birtist grein eftir Hjálmari Árnasyni, framkvæmdastjóra Keilis, um að "kennsluheimurinn standi á verulegum tímamótum um þessar mundir." Vísar Hjálmar þar til spjaldtölvuvæðingarinnar og telur að hún muni loks umbylta menntun. Því hefur margsinnis verið haldið fram á síðustu áratugum að bylting sé í nánd en aldrei virðast þessar breytingar eiga sér stað. Af hverju ættum við að halda að það gerist nú?

Allt frá því að menn fóru að sjá fyrir sér útbreiðslu tölvutækninnar hafa bjartsýnir lýst undraverðum "kennsluheimi" þar sem nemendur sækja sér sjálfir upplýsingar og stýra eigin lærdómi. Fyrst var það almenningstölvan, svo var það Vefurinn, og svo röð tækniundra - fartölvur, lófatölvur, snjallsímar, félagslegir miðlar, o.s.frv. - sem áttu allar að breyta menntun. Samt er menntun í megindráttum eins í dag og hún var fyrir 2-3 áratugum. Af hverju breytist ekkert?

Hjálmar heldur því fram að lítið hafi breyst vegna þess að "hin aldagamla hefð gegnsýrir allt kerfið." Ég er nú ekki viss um að það sé hárrétt. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að breyta "kerfinu" á Íslandi. T.d. má nefna Skólarannsóknadeildina sálugu, sem gott dæmi um það hvernig ákveðin öfl í samfélaginu streitast á móti breytingum og finna sér jafnvel leiðir til að kæfa þær. Annað dæmi sem kemur í hugan varðar skóla einn sem átti að vera "opin skóli" - hugmyndafræði sem var nokkuð vinsæl víða í heimi á þeim tíma. Fljótlega eftir að skólinn tók til starfa ákváðu kennarar að þeir höfðu takmarkaðan áhuga á að starfa skv. þessari nýju hugmyndafræði og byrjuðu að hólfa af sín svæði í beinni andstöðu við kennsluaðferðinni sem átti að fylgja. Í rannsókn sem ég gerði á hópi fjarnema sem stunduðu doktorsnám við Háskólann í Minnesota kom í ljós að ein helsta hindrun fyrir upptöku tækninýjunga í náminu voru nemendurnir sjálfir, sem virtust gera allt sem þeir gátu til að láta námið sitt sem mest líkjast því sem þeir höfðu upplifað áður í sinni skólagöngu. Er þetta "kerfið" (hvað s.s. það er) að verki eða er eitthvað annað eða meira sem vinnur gegn breytingum á menntun?

Menntunarfræðingurinn þekkti Michael Fullan hefur, að ég tel réttilega, haldið því fram að "Educational change is cultural change." Þ.e.a.s. að til þess að ná fram raunverulegum breytingum í menntakerfinu þarf að breyta hugmyndum stjórnenda, stefnumótenda, almennings og nemenda um hvað menntun er og hvers vegna hún er stunduð. Reynslan hefur sýnt að engin tækni ein og sér breytir menntun nema að henni fylgi vilji til að breyta og skilningur á því hvers vegna þurfi að breyta. Ég hef ekki getað séð að spjaldtölvuvæðingin sem nú er að hefjast í íslenskum skólum byggist á vilja til að breyta. Nefni ég sérstaklega ummæli skólastjórnenda í Vogaskóla þegar þar var verið að taka í notkun Kindle spjaldtölvur um að tæknin var valin sérstaklega með það í huga að hún takmarkaði notkunarmöguleika. Ég held því að Hjálmar sé full bjartsýnn í þessum málum. Sjálfur ætla ég að bíða með byltingaryfirlýsingar þangað til ég sé raunveruleg merki um breytingu.

Málstofa um framtíð menntunar

Ég sagði nýlega frá fyrirhugaðri málstofu um framtíð menntunar sem ég tek þátt í í næstu viku. Nú er allt um málstofuna komið á hreint. Hún verður haldinn þriðjudaginn, 20. mars kl. 15-17, í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð (gamli kennaraháskólinn), stofu H-101. Allir eru velkomnir. Frekari upplýsingar hér fyrir neðan:

Þriðjudaginn 20. mars kl 15-17 verður málstofa um framtíð menntunar. Hún verður haldin í stofu H-101 í húsnæði Menntavísindasviðs.

Málshefjandi er Arthur M. Harkins prófessor við Minnesota háskóla, sem hefur verið frumkvöðull í umræðu um þessi efni. Hann svarar einnig fyrirspurnum um efnið. Í kjölfarið verður málstofa um hvernig megi flétta umfjöllun um framtíðina betur inn umræðu um inntak og skipan menntunar.

Meðal þátttakenda í málstofunni verða Tryggvi Thayer frá Minnesota, Svanborg R. Jónsdóttir og undirritaður frá Mvs, en gert er ráð fyrir þátttöku allra málstofugesta.

Þeir Tryggvi og Harkins starfa við "Department of Organizational Leadership, Policy and Development, College of Education and Human Development" í Minnesota háskóla. Harkins stýrir ásamt fleirum námskeiði um framtíð samfélagsins og Tryggvi vinnur að doktorsverkefni sem snýst um menntun og framtíðina.

Erindið og málstofan er öllum opin.



Tuesday the 20th of March 15-17 The School of Education in collaboration with the Department of Organizational Leadership, Policy and Development, College of Education and Human Development, University of Minnesota, will host a seminar on issues related to the future of education. This will be in H-101 in the School of Education.

Professor Arthur M. Harkins from the University of Minnesota will review some of the important issues in an opening presentation and answer questions on the issues he discusses.

In a discussion seminar Tryggvi Thayer from the University of Minnesota and Svanborg R. Jónsdóttir and Jón Torfi Jónasson from the School of Education, with other participants, will reflect on the presentation and speculate with professor Harkins on where we go from here.

The seminar is open to all interested in the issues.

Málstofa um framtíð menntunar

Þann 20. mars tek ég þátt í opinni málstofu Menntavísindasviðs HÍ um framtíð menntunar. Frummælandi á málstofunni verður leiðbeinandi minn í doktorsnáminu mínu, Dr. Arthur Harkins. Dr. Harkins er heimsþekktur framtíðarfræðingur sem hefur að mestu fengist við framtíð menntunar og vinnumarkaðarins. Dr. Jón Torfi Jónassson, forseti Menntavísindasviðs HÍ, tekur líka þátt ásamt öðru háskólafólki Menntavísindasviðs.

Málstofan verður þriðjudaginn, 20. mars, kl. 15-17 og er opin almenningi. Nákvæm staðsetning hefur ekki verið ákveðinn en verður að öllum líkindum í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð (gamli Kennaraháskólinn). Ég tilkynni aftur um staðsetningu þegar það er komið á hreint. 


Menntun kennara á 21. öld: Svar til Sighvats

Þann 7. febrúar birtist einstaklega illa upplýst grein Sighvats Björgvinssonar um menntakröfur sem gerðar eru til kennara og læsi ungra drengja í Fréttablaðinu. Ég ákvað að svara Sighvati og skrifaði grein þar sem ég bendi á hvernig starf kennara og starfsumhverfi hefur breyst - greinin birtist hér fyrir neðan. Ég sendi greinina mína til Fréttablaðsins í von um birtingu en hún hefur enn ekki birst þar þannig að ég birti hana þá frekar hér. Það er sama hvað ritsjórn Fréttablaðsins finnst - mér finnst þetta skipta máli.

Það er þó rétt að benda á að Fréttablaðið birti svargrein eftir Jakobínu Ingunn Ólafsd. sem Sighvatur svaraði svo fyrr í þessar viku - en sú umræða var ekki mjög gagnleg. Jakobína Ingunn snobbar fyrir menntun og Sighvatur sakar menntasnobbara um að vera úr tengslum við raunveruleikann.


Titill: Menntun kennara á 21. öld
Höfundur: Tryggvi Thayer


Sighvatur Björgvinsson gerir menntamál að umræðuefni í grein sem birtist í Fréttablaðinu þann 7. febrúar og beinir athyglinni sérstaklega að auknum menntakröfum sem gerðar eru til kennara. Sighvatur rifjar upp gömlu skóladagana sína "þegar engin kennara okkar [hafði] svo mikið sem grunnpróf úr háskóla" og "Ekki ... [einn einasti nemandi var] úrskurðarður ... lesblindur". Í framhaldinu veltir hann fyrir sér hvers vegna nú sé farið fram á að kennarar hafi ekki bara grunnpróf úr háskóla heldur m.a.s. meistarapróf - að kannski sé verið að gera of miklar menntakröfur til kennara og að vandi skólakerfisins felist í einhverju allt öðru?

Forneskjuleg hugsun Sighvats þykir mér allt að því krúttleg - á sama hátt og mér þótti krúttlegt að hlusta á sögur eldri borgara um löngu liðna tíð þegar ég starfaði sem sjálfboðaliði á elliheimili sem unglingur. Þeir lýstu svo vel einfaldleika fyrri tíma þegar fátt breyttist frá degi til dags og "framtíðin" var bara fyrirsjáanlegt framhald af núinu sem börnin lifðu í. Þetta fólk vissi nokkurn veginn frá ungum aldri hvað það myndi gera í lífinu og þurfti því lítið að velta framtíðinni fyrir sér. Sumir sáu fram á eilíft strit og puð meðan aðrir gátu gert sér vonir um meiri þægindi, en allir áttu það sameiginlegt að óvissan var lítil ef þá nokkur.

Það er sennilega rétt hjá Sighvati að sú var tíðin að kennarar þurftu ekki mikla menntun, enda starfið ekkert sérlega flókið. Hlutverk kennara var í megindráttum tvíþætt. Í fyrsta lagi var að fylgja nokkuð nákvæmum leiðbeiningum yfirvalda um hvað skyldi kennt og hvernig. Í öðru lagi var að sía út þá einstaklinga sem þóttu efnilegir til frekara náms. Að greina lesblindu eða annars konar náms- "blindu" var ekki á þeirra verkalista enda almennt litið svo á að þeir sem náðu ekki tilætluðum árangri, sama hver ástæðan kunni að vera, voru bara latir eða illa gefnir og þeim því stefnt í verkamannastörf eða í besta falli iðnnám. Það er því ekki að furða að Sighvatur muni ekki eftir samnemendum með námsörðugleika. Þeir voru sennilega ekki lengi með honum í skóla. Þeir voru löngu komnir út á sjó, í frystihúsin eða á verkstæðin.

Sighvatur lýsir miklum efasemdum um að kennari þurfi meistarapróf úr háskóla til að geta kennt börnum að lesa. Ég kannast ekki við að krafan um framhaldsmenntun kennara hafi nokkurntíma verið sérstkalega rökstudd með því að þeir verði þá hæfari til að kenna lestur. Ein helsta ástæðan fyrir því að gott þykir að kennarar hafi staðgóða framhaldsmenntun er að kröfur til kennara eru sífellt að aukast eftir því sem samfélagslegar breytingar verða örari. Í dag lifum við á tímum veldisvaxandi breytinga (e. exponential change) og með þeim breytingum ríkir mikil óvissa um framtíðina. Munar þar mestu um þróun upplýsingatækni og sívaxandi upplýsingaflæði samfara henni, auknum fólksflutningum milli heimssvæða, og auknum samskiptum milli ríkja. Allt hefur þetta mikil áhrif á samfélag okkar – Íslendingar eru fjölbreyttari þjóð en áður, ný störf og starfsvettvangar spretta upp, ný tækifæri til vöruútflutninga hafa skapast meðan önnur hafa glatast. Ennfremur virðist ekkert lát á þessum breytingum. Hverjum hefði t.d. dottið í hug fyrir 20 árum að á Íslandi ætti einhver eftir að starfa við að greina efnahagsþróun í sýndarveruleika e.o. nú er hjá leikjafyrirtækinu CCP? Hvaða störf munu þeir sem nú eru að hefja nám gegna eftir 20 ár? Hvernig verður íslenskt samfélag þá? Þetta eru spurningar sem erfitt er að svara. Samt gerum við ráð fyrir að kennarar munu gegna lykilhlutverki í að búa okkar unga fólk undir að vera virkir þátttakendur, stjórnendur og leiðtogar í þessari óvissu framtíð.

Starf kennara hefur tekið miklum stakkaskiptum undanfarna áratugi og gerðar eru töluvert meiri kröfur til þeirra en áður. Er það að miklu leyti vegna þeirra breytinga sem ég nefndi áður en líka vegna þess að þekking okkar á því hvernig fólk lærir er sífellt að aukast og við erum meðvitaðri um menntaþarfir einstaka nemenda og samfélaga. Ný lög um skóla og nýjar námskrár veita kennurum og skólastjórnendum töluvert svigrúm til að sníða menntun að þörfum einstaklinga og samfélaga sem þeir þjóna. Þessum breytingum fylgir mikil ábyrgð og kennarar þurfa að fylgjast grannt með þróun menntavísinda og vera reiðubúinn að bregðast við nýjum aðstæðum. Þær námskröfur sem nú eru gerðar til kennara er ætlað að tryggja að kennarar búi yfir þeirri hæfni og þekkingu sem þarf til að sinna sínu starfi við þessar nýju aðstæður.

Að lokum ber að nefna nemendurna sjálfa. Ungt fólk hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni gagnvart tækninýjungum og öðrum breytingum. Það er fljótt að tileinka sér nýjustu upplýsingatækni og tengdar þjónustur á borð við snjallsíma, spjaldtölvur, samfélags miðla, tölvuleiki o.s.frv. Þessa tækni notar það óspart til að eiga samskipti við jafningja og miðla upplýsingum sín á milli og stuðla þannig að mótun nýs félagsmynsturs og þekkingarsköpunarferla sem eru í grundvallaratriðum frábrugðin því sem áður hefur þekkst. Ungt fólk er sérlega meðvitað um áhrifin sem þessar nýjungar hafa á sitt umhverfi og heimta í síauknum mæli að menntun sé sniðin að þeim veruleika sem þau eru að skapa og lifa í. Þetta setur enn meiri pressu á kennara að sníða nám að gjörbreyttum aðstæðum sem breytast ótrúlega ört. Það krefst mikils hugvits og þekkingar af hálfu kennara til að mæta þessum þörfum og eru auknar námskröfur mikilvægur þáttur í að tryggja að kennarar séu vel undir það búnir að takast á við þessi viðfangsefni.

Það kann vel að vera að ýmis vandamál í menntakerfinu verði ekki leyst með því einu að heimta að kennarar hafi meistaragráðu af háskólastigi. Þó er ljóst að með auknum námskröfum hefur verið stigið mikilvægt skref í menntamálum Íslendinga. Með þessum breytingum hafa kennarar og skólastjórnendur fengið töluvert svigrúm til að bregðast við sífellt örari breytingum í nútíma samfélögum.

Höfundur er doktorskandídat í stjórnun og stefnumótun menntamála við Háskólann í Minnesóta.


Fyndin "fréttaskýring" um ESB og Evrópustofu

Maður getur nú ekki annað en hlegið að "fréttaskýringu" Hjartar J. Guðmundssonar á mbl.is í dag. Eins og flestir vita er Hjörtur ein helsta málpípa Heimssýnar, sem keppist við að (mis)upplýsa landsmenn um yfirvofandi yfirtöku ESB á Íslandi. Hjörtur, Heimssýn og aðrir andstæðingar ESB hafa miklar áhyggjur af nýopnaðri Evrópustofu - að þar sé komin áróðursmiðstöð sem mun heilaþvo vesæla íslenska þjóð, sem Hjörtur virðist telja að sé ómögulegt að hugsa fyrir sig sjálf. Til að rökstyðja mál sitt vísar Hjörtur í eina og eina samhengislausa setningu sem birst hefur hér og þar í gögnum sem tengjast ESB. Hann nefnir m.a. þennan upplýsingapésa um stækkunarmál ESB. Andstæðingar eru sérlega hrifnir af því að afskræma það sem sagt er í þessum bæklingi, sem hefur auðvitað ekkert stefnumótandi gildi. Svo ef kynningarbæklingarnir eru ekki nægilega tortryggilegir þá er alltaf hentugt að grípa í einhver formlegri plögg sem hafa ekkert með málið að gera. Hjörtur ályktar svo út frá öllum þessum kynningarbæklingum og samhengislausum frösum, sem hann virðist búinn að kryfja til mergjar, að Evrópustofa geti ekki verið hlutlægur upplýsingaaðili um málefni ESB. En ef það er raunverulega yfirlýst stefna ESB og Evrópustofu að heilaþvo okkur, af hverju getur hann ekki vísað í einhver gögn sem mark er takandi á? Eða, sem betra væri, að sýna okkur einfaldlega dæmi um heilaþvóttastarfsemi Evrópustofu?
mbl.is Evrópusambandið kynnir sig sjálft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarefni fyrir skóla sem hyggjast taka í notkun spjaldtölvur

Nú berast mér fréttir um að sífellt fleiri menntastofnanir séu að íhuga að taka í notkun spjaldtölvur í kennslu, nú síðast Norðlingaskóli og Vífilsskóli í Garðabæ. Ég rakst á þessa áhugaverðu grein um notkun iPad spjaldtölva í skólum, sjá sérstaklega um matsskema fyrir iPad forrit neðst í greininni. Mér finnst eitt og annað athugavert við þetta skema sem ég hef ekki tíma til að greina nánar frá í augnablikinu en mun birta eitthvað á næstu dögum.

Áhugaverð erindi um opið menntaefni á netinu

Erindi frá "Fyrsta alþjóðlega málþingi um opið menntaefni", sem haldið var Utah, USA í apríl, 2011 eru komin á netið. Margt áhugavert fyrir þá sem eru að hugsa um opið menntaefni.

 

 


iPad í skóla Hjallastefnunnar: Þarf meira en æðislegt tæki til að gera æðislega hluti

Í gær var sagt frá því í Morgunblaðinu og á mbl.is að forsvarsmenn skóla Hjallastefnunnar hyggjast taka iPad spjaldtölvur í notkun á árinu. Þessi tilkynning fylgir fast á hælum umræðu um fyrirhugað tilraunaverkefni með Kindle spjaldtölvur í Vogaskóla sem ég skrifaði lítillega um hér og hér. Þessi aukna umræða um upplýsingatækni í skólum er mjög áhugaverð og e.t.v. til merkis um vaxandi meðvitund um nauðsyn þess að íhuga nýjar leiðir í skólamálum þar sem upplýsingatækni skipar meiri sess en hefur verið. Ég var samt svolítið ósáttur við umfjöllunina um verkefnið í Vogaskóla og viðbrögð mín og annarra við henni hafa komið af stað þarfri umræðu um innleiðingu upplýsingatækni í skólum. Þar sem ég átti minn þátt í að koma þessari umræðu af stað finnst mér ómögulegt að segja ekki líka eitthvað um áform Hjallastefnunar sem nú hafa komið fram - svona til að reyna að vera samkvæmur sjálfum mér.

Ég er svolítið sáttari við nálgun Margrétar Pálu hjá Hjallastefnunni - hún er að minnsta kosti ekki upptekin af því að leita leiða til við takmarka aðgengi að tækninni e.o. í Vogaskóla - sem hljóta að teljast með furðulegustu rökum fyrir vali á tækni sem ég hef heyrt. Ég held að Margrét Pála sé samt aðeins of bjartsýn á tæknina líkt og fulltrúar Skólavefs - þ.e.a.s. þau heillast af hugmyndinni um tæknina og allt sem hún á að geta "gert" en hafa lítið hugsað um hvað skólafólkið og nemendurnir munu gera við tæknina. Í Morgunblaðinu segir hún m.a. "[iPad] tölvurnar opna óendanlega möguleika" og "þær ... henta flestöllum námsgreinum". Þetta kann að vera rétt hjá henni en yfirlýsingarnar minna óneitanlega á yfirlýsingar tölvugúrúa um hvernig tæknin myndu bylta námi í lok síðustu aldar - og svo var beðið og beðið og ekkert breytist. Ég er auðvitað bara að tjá mig um það sem ég hef lesið. Það kann s.s. að vera að þeir hjá Hjallastefnunni séu komnir lengra í hugmyndavinnunni og eru bara ekki að segja frá því.

Ég ætla að láta eina reynslusögu fylgja hér frá Háskólanum í Minnesota. Ég held að hún sé mjög viðeigandi þó svo að himinn og haf eru milli grunnskóla á Íslandi og háskóla í Bandaríkjunum.

Á haustönn 2010 var ákveðið að allir nýnemar í kennslufræðideild háskólans fengju iPad í upphafi náms. Hugmyndin var að nemendur og kennarar deildarinnar fengju þá tækifæri til að kynna sér það nýjasta í upplýsingatækni og prófa hana í sínu námi og kennslu. Verkefnið var styrkt af ónafngreindum velvildarmanni skólans og tilkynnt var um það skömmu áður en námsönnin hófst. Kennarar við deildina höfðu lítinn tíma til að búa sig undir þessar breyttu aðstæður og nemendur vissu lítið hvað átti að gera við þessi tæki. Það náðist þó að breyta kennsluskrám í nemendanna svo þeir gætu notað rafbækur á fínu nýju iPad-tölvum sínum.

Önnin leið og lítið markvert gerðist. Hvað fínu iPad-tölvurnar snerti, fór önnin að mestu í smávægilegar tilraunir og áætlanagerð fyrir næstu önn. Nemendur héldu svo áfram með rafbækurnar sínar. Í lok annar rann upp fyrir nemendum að þeir gætu ekki endurselt rafbækur eins og vaninn var að gera við hefðbundnu bækurnar. Gróðinn af endursölunni nýttist alltaf vel til að halda upp á annarlok eða þá í smá vasapening í fríinu. Í huga sumra nemenda var hreinlega verið að hafa af þeim pening!

Á næstu önninni völdu margir nemendur að kaupa frekar hefðbundnar bækur en að notast við rafbækurnar. Enn voru fáar hugmyndir um hvað ætti að gera við þessi blessuðu tæki í kennslunni. Ég var með nokkra í kúrs sem ég kenndi þá önn sem notuðu að vild iPad tölvur herbergisfélaga sem voru kennslufræðinemar. Skipti litlu máli vegna þess að þegar hér var komið var notkun þeirra í kennslufræðinni nánast engin.

Ákveðið var að halda áfram með verkefnið á þessu skólaári og fengu nýnemarnir í kennslufræði í haust splunkunýja iPad 2. Segja má að það sé algjört iPad æði í öllum deildum skólans sem hafa með menntun að gera núna. Samt er ekki að sjá að tækin séu mikið meira notuð en í fyrra.


Steve Jobs tókst auðveldlega að sannfæra okkur um það hvað iPad spjaldtölvurnar eru æðislegar og stórmerkilegar - en hann sagði okkur aldrei hvað þær gera eða hvað við eigum að gera við þær. Það er okkar hlutverk að finna út úr því hvernig þessi æðislegu tæki geta gert líf okkar æðislegt og ef vel á að takast til þarf það vandaða áætlanagerð og skýrar hugmyndir um hvaða tilgangi tæknin á að þjóna. Ein og sér gerir tæknin ekki neitt sama hvað hún er æðisleg.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband