Rafrænar námsbækur í Vogaskóla: Yfirlýsingar fulltrúa Skólavefsins eru út í hött!!!

Á vef vísis.is er ný grein um Kindle-væðinguna í Vogaskóla. Rætt var við Jökul Sigurðsson og Ingólf Kristjánsson hjá Skólavefnum, sem er einkafyrirtæki sem kemur að verkefninu. Það vantar ekki yfirlýsingarnar frá þessum fulltrúum Skólavefsins! Þeir fullyrða að auk sparnaðar munu rafbækur "[auka] námsárangur", "[hvetja] til lesturs og jafnvel [hjálpa] börnum með námsörðugleika"! Það væri áhugavert að fá að sjá rannsóknirnar sem styðja þessar fullyrðingar. Að þetta litla tæki -eitt og sér- skuli gætt þeim töfrum að geta umturnað menntun með slíkum árangri er kraftaverki líkast. Ég held að yfirlýsingagleði fulltrúa Skólavefsins sé farin að reyna um of á þolmörk sannleikans. Það er allavega niðurstaða tilraunaverkefnis með Kindle spjaldtölvur sem náði til fjölda bandarískra háskóla.

Ég fylgist ansi vel með rannsóknum á notkun upplýsingatækni í skólastarfi og á eftir að sjá eina einustu áreiðanlega rannsókn sem gæti stutt yfirlýsingar fulltrúa Skólavefsins. Það sem rannsóknir hafa sýnt okkur er að innleiðing tækni í skólastarf er flókið ferli sem þarf að fylgja kerfislægum breytingum ef hún á að hafa áhrif í líkingu við fullyrðingar fulltrúa Skólavefsins. Ótal verkefni hafa farið út um þúfur vegna þess að allt of miklar vonir voru um að tæknin sjálf væri breytingarafl og endað með því að gífurlegar fjárhæðir hafa farið í vitleysu. Larry Cuban lýsir þessu mjög vel í frægri bók sinni Oversold and Underused: Computers in the Classroom og nógu margir lýst svipaðri reynslu til að það þykir nú almenn vitneskja að svona gerir fólk ekki!

Fyrir nokkrum árum var gerð tilraun í bandarískum háskólum með Kindle spjaldtölvur, nánar tiltekið Kindle DX útgáfuna sem var sérstaklega þróuð með þarfir námsfólks í huga. Tilraunin náði til eftirfarandi háskóla:
  • University of Washington
  • Princeton University
  • Case Western Reserve University
  • Reed College
  • Arizona State University
  • Pace University
  • og University of Virginia
Sumar niðurstöður koma varla á óvart; nemendur notuðu miklu minni pappír en áður, það þótti mikill kostur að hafa alltaf aðgang að öllu lesefni námskeiða og nemendum fannst almennt gott að lesa af Kindle tölvunum. En eitt þykir sérlega áthyglisvert; sumir kennarar sem tóku þátt í tilrauninni fullyrða að nemendur sem notuðu Kindle tölvurnar náðu ekki jafngóðum tökum á námsefninu og nemendur sem notuðu hefðbundnar bækur! Líklegasta skýringin er að Kindle tölvurnar leyfa nemendum ekki að merkja og glósa ofan í bækurnar á sama hátt og hefðbundnar bækur. Sumum þátttakendum í tilrauninni þótti þetta það mikill galli að þeir hættu að nota Kindle tölvurnar.

Svona órökstudd yfirlýsingagleði, eins og hjá fulltrúum Skólavefsins, er síst gagnleg fyrir okkur sem erum að reyna að breyta og bæta nám með vandlega íhugaðri notkun upplýsingatækni. Við vitum að upplýsingatækni getur haft mjög jákvæð áhrif í skólastarfi þegar vandað er til verks og byggt á þeirri miklu þekkingu og reynslu sem hefur skapast á undanförnum áratugum. Í Vogaskóla er greinilega vilji til að gera eitthvað nýtt - eitthvað sem gæti m-gulega skipt sköpum fyrir skólahald þar á bæ, og það er mjög jákvætt. Hins vegar, miðað við það (að vísu litla) sem ég hef lesið um verkefnið virðast þeir komnir á mjög hálann ís. Ástæðurnar eru rangar (sjá fyrri grein mína um "tækni valið til að takmarka aðgengi að tækni"), væntingarnar eru óraunhæfar og aðferðirnar vanhugsaðar. Ég er hræddur um að hér sé að verða til efni í nýjan kafla fyrir næstu útgáfu hjá Larry Cuban.

Kindle tölvur í Vogaskóla: Var tæknin sérstaklega valin til að takmarka aðgengi að tækni?

Í frétt á visi.is í dag er sagt frá því að í Vogaskóla verða Kindle spjaldtölvurnar frá Amazon.com notaðar fyrir rafrænt námsefni á þessari vorönn. Frábært framtak og í raun mesta furða að þetta hafi ekki verið gert áður. Íslensk skólabókaútgáfa er auðvitað ansi erfið vegna mikils kostnaðar og lítils markaðar og ljóst að rafrænar bækur geta breytt ansi miklu þar um.

Það er þó miður hvernig sagt er frá þessu verkefni í frétt vísis.is sem einkennist af skeptískum mýtum og ranghugmyndum um tengsl upplýsingatæknis og lærdóms. Það er engin leið að vita hvort þetta sé frá skólafólki komið eða illa upplýstum blaðamanni. Sagt er í fréttinni að Kindle tölvurnar tölvur voru valdar meðal annars vegna þess að þær "[henta] eingöngu til lestrar, svo nemendur geta ekki laumað sér á Fésbókina eða leikjasíður." Já, þvílík hörmung væri það ef skólinn færi að fjárfesta í nýrri tækni sem ungt fólk mundi síðan bara nota til þess að vafra um á vefsíðum sem það notar til þess að skiptast á upplýsingum og skoðunum með sínum jafnöldrum og þ.a.l. fræðast um efni sem skiptir það máli. Er það raunin að valið á tækni í þessu tilviki miðast m.a. við að takmarka notkunarmöguleika á upplýsingatækni? Það finndist mér merki um mikla skammsýni og skort á kjarki til að innleiða raunverulegar og þarfar breytingar á því hvernig við menntum ungt fólk í dag.

Ein spurning sem vakir fyrir mér í tengslum við þessa frétt er þessi: Ef nemandi við Vogaskóla á þegar tæki sem keyrir Kindle hugbúnað, e.o. snjallsíma, lófatölvu, spjaldtölvu, o.s.frv., getur hann notað sitt eigið tæki eða ætlar skólinn að banna honum það og gefa honum frekar Kindle tölvu (nýlegar rannsóknir sýna að um 95-99% af 15 ára krökkum á norðurlöndum eiga minnst eitt slíkt tæki)? Er það ekki bara peningasóun (og ég tala ekki um glataða tækifærið til að sýna nemendum hvernig hægt er að nota eigin tæki til að auka sína þekkingu á skipulagðan hátt)?

Uppfærsla: Guðmundur Rúnar Árnason tjáði mér á Facebook að skólastjóri Vogaskóla notaði þessa rökfærslu, þ.e.a.s. að tæknin er valin með það í huga að takmarka aðgengi að tækni, í hádegisfréttum í dag. Undarlegur hugsunarháttur að mínu mati.

Ég er greinilega ekki einn um að finnast eitthvað bogið við þessa frétt. Ragnar Þór Pétursson skrifar um sama efni hér.

Er brottfall í HÍ bara stúdentum að kenna?

Ólafur Þ. Stephensen blandar sér í umræðuna um að taka upp inntökupróf í einhverjum deildum HÍ í leiðara á visi.is í dag. Það er margt athyglisvert í grein hans, sérstaklega varðandi rökin sem hann telur upp fyrir því að taka upp inntökupróf. Ef þetta eru raunverulega rökin fyrir þessu og ekki bara einhver misskilningur hjá Ólafi þá held ég að það sé eitthvað verulega að þessari umræðu.

Það sem vekur helst athygli í grein Ólafs er að sök vegna brottfalls stúdenta í HÍ er alfarið skellt á stúdentana sjálfa. Möguleikanum að eitthvað sé ábótavant í kennslu í HÍ virðist ekki vera til umræðu. Þó höfum við vísbendingar um að ungt fólk vilji og þurfi nýjar leiðir í náminu sínu sbr. grein ungs stúdents við MS sem vakti mikið umtal á síðasta ári. Kannski er vandinn bara sá að námsfyrirkomulag við HÍ er orðið úrelt og ekki í takti við þarfir og væntingar nútímastúdenta. Ég hef ekki séð, hvorki hjá Ólafi né öðrum sem hafa fjallað um þetta mál, neinar vísbendingar um það að ástæður fyrir miklu brottfalli í HÍ hafi verið rannsakaðar með skipulögðum hætti. Spurning er þá hvort inntökupróf séu til þess ætluð að sporna við miklu brottfalli eða hreinlega að komast hjá því að leggjast í þarfar breytingar til að sníða námi að þörfum nútímastúdenta?

Annað sem mér þykir afar athyglisvert í grein Ólafs er tilvísun hans í markmið HÍ að verða meðal 100 bestu háskóla heims sem rök fyrir því að það þurfi að taka upp inntökupróf! Þarna virðist það markmið núna trompa lagalegar skyldur HÍ um að stuðla að menntun og þróun vísinda á Íslandi.

Það fer ekki milli mála að brottfall er mikið í HÍ og eitthvað þarf að gera. Væri ekki réttast að beita vísindalegum aðferðum til að greina vandamálið og finna viðeigandi lausnir frekar en að skella allri skuldinni á stúdenta og ana útí skyndilausnir sem bitna fyrst og fremst á Íslendingunum sem HÍ er ætlað að þjóna?

*** Eftir að ég birti þessa færslu var mér bent á fyrirhugað málþing í HÍ um þessi mál sem vert er að benda á. ***

Hver á að hugsa um framtíð menntunar? Ég býð mig fram.

Á student.is er mjög áhugaverð grein um erindi sem Jón Torfi Jónasson flutti á málþingi um stöðu menntunar. Jón Torfi lagði fram spurninguna, "Hver ætlar að hugsa um þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað núna fyrir þá nemendur sem útskrifast eftir fjögur ár og verða á vinnumarkaðinum til ársins 2055?" Þetta er það sem mínar rannsóknir snúast um þannig að mér finnst sjálfsagt að ég bjóði mig hér með fram í það hlutverk. En ég ætla ekki að gera það einn.

Eins og Jón Torfi bendir á þá vitum við heilmargt um framtíðina og það er fullt af fræðafólki víða um heim sem vinnur við það að spá í hlutverk menntunar í framtíðarsamhengi. En því miður er allt of algengt að það er hreinlega ekki hlustað á það. Við mína deild í Háskólanum í Minnesota, þ.e.a.s. Stjórnun og stefnumótun menntamála, eru þrír framtíðafræðingar: 2 kennarar og einn doktorskandídat (það er ég). Sameiginlega höfum við lagt mikið á okkur til að vekja athygli á því sem við gerum (aðallega í gegnum Leapfrog Institute, sem er kostuð af deildinni) en flestum er bara nokkuð sama - þetta passar ekki inn í þeirra rannsóknaráætlun né kennslu - þ.á.m. þjálfun kennara framtíðarinnar sem fer fram í annarri deild á sömu sviði og við. Það er m.a.s. svo að eftir ítrekaðar tilraunir til að opna eyru og huga hér í Minnesota vinnur annar forstöðumaður Leapfrog Institute, John Moravec, nær alla sína vinnu núna í Hollandi frekar en hér í Minnesota.

Við framtíðafræðingarnir þrír erum að kenna saman kúrsa um framtíðarhugsun sem er í boði deildar okkar en opin fyrir stúdenta úr öðrum deildum og sviðum (flestir eru þó af menntavísindasviði). Eftirspurnin er rosaleg - mun færri komast að en vilja þrátt fyrir að nemendaplássin hafa nær þrefaldast síðan við byrjuðum á þessu. Þetta er mikil uppvakning fyrir nemendurna, sem flestir hafa aldrei fengið kennslu í framtíðarhugsun áður. Sumir verða jafnvel reiðir þegar þeir átta sig á því hversu úrelt menntakerfið er sem verið er að ýta þeim í gegnum. Við hvetjum svo nemendur til að spyrja spurninga sem lúta að framtíðinni í kúrsum sem þeir taka síðar og vonandi getur það orðið til þess að þrýsta að einhverju litlu leyti á breytingar - en við getum bara vonað að svo verði. Þetta er víst ekki í okkar höndum.

Hvað varðar framtíð menntunar sem slíka tel ég að það þurfi að byrja á kennaranemum. Helst að það verði skylda fyrir alla verðandi kennara að ljúka námskeiði sem hefur með framtíðarhugsun um tækni, menntun og samfélag að gera. Í menntakerfi e.o. á Íslandi þar sem miðstýring er núna nánast engin er sama hversu framtíðarmiðuð menntastefna getur orðið því á endanum eru það kennarar í sínum skólum og kennslustofum sem sjá um innleiðingu og útfærslu á henni. Ef þeim hefur ekki verið kennt að hugsa uppbyggilega og skapandi um framtíð og breytingar sem henni fylgja er ólíklegt að nokkrar breytingar verða. Þetta hefur sannast víða þar sem reynt hefur verið að innleiða "framtíðarmiðaða" menntastefnu án þess að huga nægilega vel að undirbúningi kennara, t.d. í Singapore, víða í Bandaríkjunum og í Finnlandi (já, af öllum stöðum - í lok síðustu aldar fór stefna þeirra um upplýsingatækni í menntun út um þúfur þar sem kennarar voru illa undirbúnir og höfðu nægilegt svigrúm til að hundsa stefnuna).

Einnig þarf að huga að menntastefnunni sjálfri og hvernig framtíðarmiðuð menntastefna ætti að líta út (sjá t.d. eina tilraun hér). Segja má að áætlunin Ísland 2020 hafi verið tilraun í þessa átt. Ég held samt að sú áætlun hafi misheppnast að ýmsu leyti þar sem málefni líðandi stundar höfðu of mikil áhrif á útkomurnar þannig að þær sneru að mestu um að leysa þau mál frekar en að móta sameiginlega framtíðarsýn sem íslendingar vilja sameinast um að stefna að. Slík framtíðarsýn sem allir vilja stefna að er mjög mikilvægur þáttur í stefnumótuninni og segja sumir að það sé einmitt velmótuð framtíðarsýn sem hefur gert Finnum kleift að ná þeim aðdáunarverðum árangri í mennta-, félags- og efnahagsmálum sem raunin er.

Að lokum, svo við snúum okkur aftur að spurningu Jóns Torfi, þá er greinilegt að allir sem koma að menntamálum þurfa að hugsa um þessi mál. Í raun þarf algjöra hugarfarsbreytingu hvað þetta varðar. Þá er spurningin hvernig best er að knýja fram nauðsynlegar breytingar? Ég er s.s. ekki með svarið á reiðum höndum en hef ýmsar hugmyndir byggðar á reynslu og þekkingu og er til í taka saman höndum með öðrum og reyna...


Innflytjendur í íslenskum skólum

Það er mjög gagnlegt að fá þessa staðfestingu á skólamálum inflytjenda á Íslandi. Á stundum hefur komið upp umræða um þessi mál sem hefur allt of oft mótast af getgátum og "tilfinningu" manna fyrir þessum hlutum. Þessi gögn sem Hagstofa hefur nú birt taka af allan skarann alla vega hvað varðar stöðu innflytjenda á framhaldsskólastiginu.

Mér lék hins vegar forvitni að vita hvernig staðan væri á háskólastiginu. Ástæðan fyrir því er að einn doktorsnemi við Háskólann í Minnesota ræddi nýlega við mig um áhuga hans á að rannsaka stöðu innflytjenda (og þá sérstaklega þeim sem tilheyra menningarlegum minnihlutahópum í íslensku samfélagi) í háskólum á Íslandi. Mér finnst þetta áhugavert rannsóknarefni en mín fyrstu viðbrögð voru að það væri illframkvæmanleg rannsókn þar sem þýðið (þ.e.a.s. heildarfjöldi innflytjenda í háskólanámi á Íslandi) væri svo lítið að úrtak (þ.e.a.s. marktækt hlutfall af þýðinu) myndi ekki vera nægjanlegt fyrir rannsókn sem uppfyllir kröfur um doktorsverkefni. Viðbrögð mín byggðust auðvitað á "tilfinningu" minni einni þar sem ég hafði ekki greiðan aðgang að marktækum gögnum.

Þegar ég las þessa frétt sá ég að nú væri tækifæri til að fá staðfestingu á þessari tilfinningu minni. Ég leitaði því í gögnum Hagstofu um innflytjendur í háskólanámi. Það kom mér á óvart að fjöldinn reyndist nokkuð hár, eða vel yfir 1.000 stúdentar í viðbótarnámi eftir framhaldsskóla, hefðbundnu háskólanámi og doktorsnámi. Hafandi unnið lengi í málum tengdum erlendum stúdentum í háskólanámi, og þá sérstaklega skiptistúdentum, sá ég strax að þessar tölur svipuðu mjög til talna yfir fjölda stúdenta sem koma til landsins til þess eins að stunda nám á háskólastigi. Ég hafði því samband við Hagstofu og fékk það staðfest að í þeim tölum sem ég fékk upp á vef þeirra er ekki gerður greinarmunur á stúdentum sem hafa komið til landsins til þess eins að stunda nám og þeim sem myndu raunverulega teljast "innflytjendur". Mér var þá bent á gögn á vef OECD þar sem erlendir stúdentar eru skiptir eftir því hvar þeir hafa lögheimili, ríkisfang og hvar þeir luku prófi sem veitir rétt til háskólanáms (e.o. stúdentspróf). Þær tölur staðfesta að langstærsti hluti stúdenta af erlendum uppruna sem eru í háskólanámi á Íslandi hafa flust til landsins í þeim tilgangi einum að stunda háskólanám. Af þeim litla fjölda sem eftir situr má gera ráð fyrir að aðeins lítið brot sé af uppruna sem getur talist til menningarlegs minnihluta meðal íslensks mannfjölda.

Niðurstaðan er því sú að þau gögn sem við höfum nú staðfesta að eftir því sem hærri skólastig eru skoðuð fer þátttaka innflytjenda (sem tilheyra menningarlegum minnihlutahópum) sem hlutfall af heildarfjölda námsmanna minnkandi. Stóra spurningin er hvað veldur þessu og sérstaklega hvort það sé eitthvað í skólakerfinu, skólamenningunni, og/eða samfélaginu sem fælir innflytjendur frá námi? Þetta þarf að rannsaka. En eins og ég sagði við doktorsnemann hér við Háskólann í Minnesota er sennilega ekki rétti tíminn til að skoða háskólastigið. Þróunin virðist eiga sér stað á fyrri skólastigum - sérstaklega á síðari stigum grunnskóla og fyrstu árum framhaldsskóla.
mbl.is Færri innflytjendur í framhaldsnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið hvernig? Hið “opna” og myndun þekkingarsamfélaga

Ég hef sett upp skjámyndirnar sem fylgdu erindi sem ég flutti á Ráðstefnu um opið menntaefni í Hörpu 21. nóvember, 2011 á vefinn minn Education4site.

Snjallsímar notaðir til að svindla: Er lausnin að leyfa upplýsingatækni í prófum?

Nokkrir ónefndir háskólanemar rituðu grein sem birtist á Eyjan.is í dag þar sem þeir uppljóstra um það að sumir nemendur nota snjallsíma til að svindla á prófum í HÍ. Greinarhöfundar segja að tilgangur prófa er að "prófa þekkingu nemenda". Því sé þetta háalvarlegt mál þar sem það mismunar nemendum í prófum - þ.e.a.s. að þeir sem hafa snjallsíma og nota þá til að svindla hafa forskot yfir aðra sem gera það ekki. Mögulegar lausnir eru að banna síma í prófum eða þá að hafa munnleg próf í stað skriflegra. Ég set stór spurningamerki við mat höfunda á tilgangi prófa og hvað vandamálið sé og hvort raunverulega er um vandamál að ræða.

E.o. áður segir telja greinarhöfundar að tilgangur prófa sé að kanna þekkingu nemenda. Í heimi þar sem breytingar verða sífellt örari er spurning hversu gagnlegt er að prófa þekkingu með þessu móti. Hvaða gagn er t.d. í því að kanna hvort laganemi geti lært lagabókstaf á minnið til að geta gúlpað því út úr sér á prófi þegar lög breytast sífellt? Ef þetta er raunverulega tilgangur prófa þá þarf að endurskoða prófin. Í breytilegum heimi skiptir ekki máli hvað nemandi getur lagt á minnið, heldur frekar hæfni hans til að afla sér og nýta upplýsingar til lausnar á tilteknum viðfangsefnum. Þetta reynir mjög á getu nemanda til að skipuleggja tímann sem hann hefur til að leysa prófverkefni og þekkingu hans á þeim gögnum sem nýtast við lausn verkefnisins.

Ef tilgangur prófa er e.o. ég hef lýst (sem er gagnlegri að mínu mati) þá held ég að vandamálið sé ekki að tilteknir nemendur noti upplýsingatækni til að svara prófspurningum heldur að flestir nemendur gera það ekki. Lausnin er því einföld - þ.e. einfaldlega að leyfa öllum nemendum að nota upplýsingatækni, hvort sem það er snjallsími eða tölva, í prófum og laga prófin að dýnamísku nútíma þekkingarsamfélagi.

Í raun finnst mér eitt það sorglegasta við þessa grein að þessir háskólanemar skulu vera svo heilaþvegnir af úreltum prófmiðuðum hugsunarhætti að þeim finnist eina lausnin í stöðunni vera að leita leiða til að viðhalda gamaldags aðferðunum. Samfélag nútímans er ört að breytast og það er fyrst og fremst þróun upplýsingatækni sem veldur þessum breytingum. Það virðist vera sterk tilhneiging, sér í lagi þegar kemur að menntamálum, að streitast á móti þessum breytingum. Þessi grein sýnir að það er ekki bara við stjórnendur og kennara að sakast heldur virðast margir nemendur vera fastir í úreltum hugsunarhætti líka. Ef nokkuð er þá staðfestir þetta mál og hvernig greint er frá því fullyrðingar Michael Fullans um að breytingar á menntakerfi krefjast umfangsmikilla samfélagslegra og menningarlegra breytinga til að ná tilætluðum árangri.


Facebook í skólum? Auðvitað!

Vísir.is er með brot úr viðtali við Vilborgu Einarsdóttur í Mentor í dag þar sem hún segir m.a. að Facebook ætti að nýtast í námi. Það ætti ekki að koma þeim á óvart sem kannast við skrif mín að ég er fullkomlega sammála henni. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að afturhaldsemi skólafólks varðandi tækni er að skapa gjá milli þeirra og nemenda sem leiðir til þess að nemendur sjái síður tilgang í formlegri menntun. Áhugaverð grein Ásgríms Hermannssonar, ungs menntskælings, sem birtist nýlega bendir til þess að íslenskt skólafólk má vel fara að huga að þessum málum líka. Að læra er félagsleg athöfn og skólar þurfa því að taka mið af félagslegum veruleika ungs fólks við mótun umhverfis sem er ætlað að hvetja til náms. Norskt skólafólk hefur loks áttað sig á þessu og er að taka sig á í þessum málum. Persónulega finndist mér skynsamlegt að fella það undir hlutverk skóla að hvetja ungt fólk til að nota félagslega miðla á uppbyggilegan hátt til að auka sína þekkingu og meðvitund um persónusköpun á netinu.

En hvernig er best að nota Facebook og svipaða tækni í skólum? Satt að segja veit ég það ekki. En miðað við það sem Ásgrímur segir í fyrrnefndri grein væri kannski ekki vitlaust að byrja á því að spyrja nemendurna sjálfa. Ég efast ekki um að Ásgrímur og hans félagar luma á mörgum góðum hugmyndum.

Hér eru tenglar á ýmsar greinar þar sem kennarar lýsa því hvernig þeir nota félagslega miðla í skólastarfi:

Ten ways schools are using social media effectively

Teens & social networking in school & public libraries [PDF skjal] (komið svolítið til ára sinna en góðar hugmyndir samt - þarf að bara að skipta út "myspace" með "facebook")

How to use social networking technology for learning

Framsýni - hvaða framsýni?

Það er ekki spurning um að "passa [okkur] að dragast ekki aftur úr" heldur hvernig við ætlum að bæta upp fyrir það sem við höfum þegar misst. Ég hef bent á það oft hér á blogginu mínu að Íslendingar hafa stöðugt verið að dragast aftur úr vinaþjóðum síðan við toppuðum aðrar þjóðir í alþjóðlegum samanburðum kringum 2004-5. Í dag eru nettengingar á Íslandi með þeim hægustu og dýrustu meðal OECD þjóða. 100 Mb tengingar eru nú þegar í boði í flestum OECD ríkjum og á töluvert betra verði en gerist á Íslandi. Lönd e.o. Svíþjóð eru komin langt fram úr okkur og þar er hægt að fá allt upp í 1 Gb tengingar. Það væri því áhugavert að fá nánari útlistun á þeirri "framsýni" sem nefnd er í greininni. Að stefna að því að komast upp í það sem þegar er orðið norm í öðrum löndum felur í sér litla framsýni að mínu mati.


downloadspeeds_1118290.pngVið verðum vör við sífellt örari breytingar í heiminum sem langflestar tengjast eða eru afleiðingar þróunar á upplýsingatækni (UT). Á Íslandi virðist algjörlega vanta framsýni í UT málum og við erum að sjá afleiðingarnar í fyrrnefndum alþjóðlegum samanburðum. Mest er þetta áberandi í tengslum við menntamál (eða kannski fylgist ég bara mest með þeim). MMR gaf síðast út stefnuskrá um UT í menntun fyrir 2005-2008. Sú stefna var innihaldslítil og má í raun segja að hún hafi fallið gleymsku áður en hún komst í framkvæmd. Engin stefna hefur komið frá MMR síðan.


mbl.is Haldi í við tæknina þrátt fyrir minna fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað kostar ófullnægjandi menntakerfi?

Það þarf að hafa í huga að Finnar eru ekki þeir einu sem krefjast meistaraprófs fyrir fulla löggildingu kennara. Mörg lönd gera sömu kröfu og eins mörg fylki Bandaríkjana. Þessir aðilar ná þó ekki sama árangri og Finnar. Það er ekkert sem bendir til þess að meistarapróf út af fyrir sig sé töfralausn þó það sé mikilvægt skref í réttu átt (e.o. Þórður Hjaltested ýjar að í greininni sem birtist í Morgunblaðinu).

Að einblína á einhverjar upphæðir sem eru teknar úr samhengi við allt e.o. gert er í þessari grein er ekki gagnlegt. Það sem skiptir máli fyrir eflingu menntunar á þessu stigi er hvort og hvernig yfirvöld ætla að styðja við þessa nýmenntuðu kennara og veita þeim ráðrúm til að gera þær breytingar sem þarf að gera. Í þetta þarf langtíma og heildræna hugsun um hvernig við sjáum fyrir okkur menntun í framtíðinni.

Finnar hafa farið í gegnum mjög margþætta þróun yfir töluverðan tíma til að komast þangað sem þeir eru núna. Ég skrifaði svolítið um þetta nýlega á enska blogginu mínu í kjölfar netumræðna við ýmsa menntafræðinga hér í Bandaríkjunum. Mér þykir nokkuð ljóst að það þarf að dýpka íslenska umræðu um menntamál töluvert áður en við getum átt nokkra von á að komast með tærnar þar sem Finnar hafa hælana.


mbl.is Meistaraprófskrafa kostar milljarð á næstu sjö árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband