Færsluflokkur: Fjölmiðlar
15.12.2016 | 13:16
Einhver hjá Viðskiptablaðinu segir kennara fá falleinkunn
Hér fyrir neðan eru ummæli sem ég skrifaði við innlegg frá félaga mínum á Facebook. Hann benti á grein í Viðskiptablaðinu þar sem "Óðinn", ónafngreindur aðili sem skrifar reglulega um allt milli himins og jarðar, gagnrýnir kennara og launakröfur þeirra með tilvísan í nýlegar PISA niðurstöður. Mér finnst þessi skrif "Óðins" svo einstaklega hallærisleg að ég hef ákveðið að birta þetta hér líka. Þetta birtist óbreytt og er á einstaka stað vísað í umræðurnar sem voru á Facebooksíðu félaga míns en ég held að þetta ætti samt að skiljast.
"Ég ætla að leyfa mér að koma með svolítið langt innlegg í þessa umræðu þótt seint sé vegna þess að ég er sammála ****a að þessi grein er eiginlega skammarleg og hálfótrúlegt að svona illa upplýst og innrætt blaður sé birt á prenti.
Fyrir það fyrsta: PISA er ætlað að meta menntakerfi en ekki árangur nemenda. Réttari fyrirsögn á greininni væri (sama á við um flest sem skrifað er um PISA) "Menntakerfið fellur á prófinu". Eins er rangt að tala um að íslenskum skólabörnum fari aftur, frekar að íslenska menntakerfinu fer aftur.
Menntakerfi er flókið fyrirbæri. Það mótast af því sem fram fer innan skólanna, aðgerðum stjórnvalda og ytri þrýstingi hvort sem hann kemur frá foreldrum, fulltrúum atvinnulífsins eða almenningi. Um leið og þessir aðilar fara að skipta sér af menntamálum og reyna að hafa áhrif þar á, hvort sem er í ræðu eða verki, þá eru þeir orðnir partur af kerfinu. Það er því erfitt, ef ekki ógerlegt, að skella skuldinni fyrir slæmt gengi á einhvern einn hóp eða þátt innan kerfisins. Umfjöllun eins og þessi, þar sem er markvisst verið að gera lítið úr kennurum, hafa áhrif á kerfið og það má því alveg eins benda á hana og þá sem henni stýra sem hluta vandans, eins og kennarana.
Hvað varðar rök greinarhöfundar þá eru þau í raun engin. Höfundurinn notar gögn sem hann annaðhvort kann ekki að lesa úr eða notar gagngert á misvísandi hátt. Það eru fjölmörg dæmi um frábært skólastarf í íslenskum skólum sem hefur skilað góðum árangri sem höfundur kýs að horfa framhjá. T.d. má nefna kennslu barna með annað móðurmál en íslensku, samtengingu náms og samfélags til að "mennta ekki burt" nemendur eins og hefur verið vandi víða á landsbyggðinni, eflingu sköpunnar í námi, betri tengingar við tæknilegan veruleika ungs fólks og svo margt fleira. Þessa þætti mælir PISA ekki og ekki heldur aðrar samræmdar mælingar sem eru gerðar. Samt eru þetta þættir sem skipta miklu máli fyrir framtíð nemenda og íslenskrar þjóðar. Samt kýs höfundur að líta framhjá þessu öllu og dæma kerfið allt út frá illa upplýstum lestri sínum á PISA gögnum.
Svo gerir höfundurinn lítið úr því að PISA gögnin sýni að mikill jöfnuður ríkir innan íslenska menntakerfisins. Þetta er sá partur af PISA sem flestir við sem komum að rannsóknum og þróun á skólastarfi horfum helst til. Jöfnuður í menntakerfinu er mikilvægur, ekki vegna þess að við viljum hafa alla eins (e.o. greinarhöfundur ýjar að), heldur að við viljum tryggja að samfélagið njóti ávaxta þeirra hæfustu á meðal okkar sama hvaðan þeir koma. Við vitum ekki fyrirfram hvort næsti Össur h/f kemur úr Garðabænum eða Breiðholtinu.
Eins gagnrýnin og greinarhöfundur er á íslenska kennarastétt, vekur furðu að hann virðist hafa fátt út á PISA að setja. En PISA er alls ekki hafið yfir gagnrýni og þá er ég ekki að tala um þessa smávægilegu hluti eins og þýðingar á könnunartækjum, sem hefur verið áberandi í umræðu undanfarna daga. Upphaflegur tilgangur PISA var að hjálpa stefnumótendum að sjá hvar væri verið að gera góða hluti til að geta lært af reynslu annarra. Síðan PISA hófst hefur þróunin verið þannig að ákveðin lönd hafa verið að raða sér á topp árangurslistanna og eru það fyrst og fremst austurlönd eins og S. Kórea, Singapúr og Sjanghæ í Kína. Í þessum löndum er menntakerfið mjög prófmiðað þannig að framtíð nemenda er nánast að öllu leyti háð árangri á stöðluðum prófum. Þar af leiðandi gengur kennsla að miklu leyti út á það að kenna nemendum að taka próf. Pressan er svo mikil að til hefur orðið það sem kallað er "skugga-menntakerfi" (e. shadow education system) sem er almennt álitið til vandræða. Nemendur eru í skóla nánast frá því að þeir vakna þangað til seint að kvöldi, bæði í opinberum og einkaskólum; skuggakerfið sýgur til sín alla hæfustu kennara þannig að opinberir skólar eru illa mannaðir; og árangur í skóla (og þar með lífinu) er háður því hver getur borgað mest. Í okkar heimshluta er takmarkaður áhugi fyrir því að taka upp slíkt kerfi. Meira að segja hafa yfirvöld í austurlöndunum sjálfum reynt að sporna gegn þessari þróun, en án árangurs. Þá er spurning - hvaða gagn er af PISA ef það eina sem það getur vísað okkur á til að ná árangri er eitthvað sem enginn vill?
Samt sem áður, er það svo að útkoma íslenska menntakerfisins í PISA er, og ætti að vera, umhugsunarefni. Hins vegar er hæpið að þær tillögur til úrbóta sem hafa verið nefndar hér í þessari umræðu (sem ég er kannski svolítið að hijack-a frá Magga með þessari langloku minni) séu líklegar til að snúa málunum við. Við verðum að hafa í huga að það menntakerfi sem hefur verið byggt upp hér og í nágrannalöndum er að miklu leyti andsvar við fyrri kerfi sem voru ýmist einkarekin, aðeins fyrir útvalda eða öðruvísi misskipt. Þeir sem agentera fyrir svona skólarekstri í dag þurfa að mínu mati að gera grein fyrir því af hverju þeir halda að þau skili betri árangri nú en þau gerðu fyrir 100 árum. Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnt. Þetta hefur allt verið reynt: einkarekstur, einkaskólar, úttektarreikningar (voucher schools) og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu skilar betri árangri fyrir samfélagið í heild en opið opinberlega rekið menntakerfi og flest er sannanlega verra.
Það sem hefur verið sýnt að skili árangri í samfélagi eins og okkar er þegar kennurum er sýnd virðing og þeim treyst fyrir því starfi sem þeir vinna. Íslenskir kennarar hafa því miður ekki fengið að njóta slíks trausts né virðingar. Getiði ímyndað ykkur hvernig er að vera hámenntaðir sérfræðingar á ykkar sviði og þurfa að þola ummæli eins og "Markmiðið
er
ekki að tryggja kennurum þægilega innivinnu á launum sem eru langt yfir meðallaunum í landinu." Þetta er skammarlegt og það sem gerir þetta enn verra er að Viðskiptablaðið skuli leyfa sér að birta svona blaður nafnlaust. Launakröfur íslenskra kennara eru ekki fáranlegar miðað við kröfurnar sem eru gerðar til þeirra. Þær eru heldur ekki óviðráðanlegar ef okkur er alvara um að vilja tryggja að okkar unga fólk fái þá menntun sem þarf til að verða virkir, glaðir og konstrúktívir þátttakendur í okkar samfélagi.
Það kostar okkur líklega meira á endanum að reyna að nískast með menntakerfið eins og hefur verið gert. Þetta er eins og að kaupa farsíma í dag - Þú getur keypt einn fyrir kr. 40.000 sem endist í eitt ár eða fyrir kr. 70.000 sem endist í þrjú ár. Hvor er betri díllinn?"
18.8.2015 | 07:55
Pínlegt að sjá fjölmiðla falla fyrir augljósu plati
Uppfært aftur: Það er loksins búið að breyta fréttinni og allt um grínistana á @Riverblufdental fjarlægt. En það má sjá brot af því sem stóð upphaflega (og í rúmar 12 klst. þar á eftir) á skjáskotinu fyrir neðan. E.o. víti til varnaðar - vinna rannsóknarvinnuna fyrst og svo birta. Ekki öfugt.
Uppfært: Þessi frétt er núna sú mest lesna á vef mbl.is og enn ekki leiðrétt eftir 12 klst. á netinu. Þetta er áhugavert dæmi um s.k. síubólu held ég.
@Riverblufdental, Twitter notandinn sem vísað er í í fréttinni, byrjaði að tísta nokkrum dögum eftir að tannlæknirinn sem rekur stofuna, Walter Palmer, komst í fréttir fyrir að hafa drepið ljónið Cecil. Alla tíð síðan hefur @Riverblufdental verið að ögra fólki með myndum af köttum, ljónum og ýmsum öðrum dýrum ásamt tístum um tannheilsu og það sem umsjónarmönnum finnst vera óþarfa æsingur vegna frétta um veiði Palmers. Stundum fyndið, stundum ekki, en allt í plati. Þeir trúgjörnustu hefðu allavega mátt taka eftir því að gríntístarinn skrifar "River Bluff Dental" rangt (@Riverblufdental: bara eitt 'f'), sem er algeng taktík til að plata fólk í netheimum.
Ég geri ráð fyrir að blaðamenn mbl.is leiðrétti þetta fyrr eða síðar þannig að ég tók skjáskot til að varðveita mómentið:
Ljónadráparinn snýr úr felum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2013 | 13:17
Hvers vegna stunda blaðamenn lélega blaðamennsku?
Tvær "fréttir" sem ég hef lesið nýlega hafa verið að angra mig. Sú fyrsta hefur farið ört um frétta- og félagsmiðla á vefnum síðustu daga - um að vonda Evrópusambandið ætli að banna kanil og drepa þar með ástsæla kanilsnúð Dana. Hin sagði frá því að "haldið er utan um" rafræna gjaldmiðilinn Bitcoin í gagnaveri í Reykjanesbæ. Báðar eru svo illa upplýstar og misvísandi að þær fá mig til hugsa hvað það sé eiginlega sem nútíma blaðamenn gera, eða telja vera sitt hlutverk í samfélaginu? Svo fussum við og sveium yfir því að tæplega þriðjungur íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns, en ég verð að spyrja - hvert er gagnið þegar lesefnið er svona?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 30.12.2013 kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef s.s. fátt um þetta að segja annað en að konan býr greinilega í einhverjum undarlegum ímynduðum heimi.
og endurbirt hér á Daily Kos (sem fréttamiðlar hér í USA vísa oft í):
Daily Kos: Icelands On-Going Revolution
22.2.2011 | 14:18
Meingölluð skoðanakönnun MMR um Icesave
Nýlega var sagt frá skoðanakönnun MMR sem sýnir að 57% Íslendinga ætla að samþykkja Icesave lögin í kosningu. Einn bloggari hér á blog.is benti á þann alvarlega galla á skoðanakönnuninni, sem ég tók undir, að úrtakið náði aðeins til þeirra sem eru 18-67 ára. Af einhverjum ástæðum hefur bloggarinn fjarlægt færsluna af bloggi sínu. Ég held að þetta sé samt eitthvað sem er þess virði að vekja athygli á.
MMR gefur enga ástæðu fyrir að Íslendingar eldri en 67 ára eru ekki í úrtakinu. Það er alvarlegt að úrtak nái ekki til allra sem málið varðar, sérstaklega þegar um er að tiltekinn hóp sem hægt er að skilgreina út frá ákveðnum forsendum. Íslendingar eldri en 67 ára eru í dag um 31.500 manns. Fjöldi íslendinga á kosningaaldri, þ.e.a.s. 18 ára og eldri, eru samtals um 238.000. Þarna eru því 13% af kosningabærum Íslendingum ekki hafðir með í úrtakinu. Þetta getur skekkt niðurstöður könnunarinnar all verulega.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er búinn að leiðrétta færsluna eftir ábendingu frá Svavari Kjarrval (sjá umræður neðst). Þökk sé ábendingu hans áttaði ég mig á því að í útreikningi villumarka hafði ég reiknað með 0,68 þar sem átti að vera 0,068. Villumörkin breytast töluvert við endurreikninginn (±24% verða ±8%) en tölfræðileg ályktun breytist lítið þar sem ±8% telst líka vera óæsættanleg villumörk.
Áreiðanleikakönnun fulltrúa kjosum.is á undirskriftalista sem afhendur var forseta í vikunni er út í hött. Miðað við þau 74 svör sem fengust frá 100 manna slembiúrtaki eru villumörkin ±8%!
Þegar fulltrúar kjosum.is afhentu forseta undirskriftalistann sinn upplýstu þeir um að þeir hefðu kannað áreiðanleika undirskriftanna. Þetta gerðu þeir með því að hafa samband við 100 manna slembiúrtak af listanum og spyrja hvort viðkomandi hefði í raun skráð nafn sitt á vefnum þeirra. Það var tekið fram að ætlunin var að hafa samband við 800 manna úrtak (reikningar mínir hér fyrir neðan sýna að það hefði verið mjög viðeigandi fjöldi) en á endanum var haft samband við 100 "vegna tímaskorts". 100 manna slembiúrtak miðað við fjölda undirskrifta hefur nákvæmlega ekkert að segja. Forsvarsmennirnir hefðu alveg eins getað sleppt þessu.
Í tölfræði eru til nákvæmar aðferðir til að reikna úr hversu stórt slembiúrtak þarf til að tryggja áreiðanleika kannana. Forsvarsmenn kjosum.is hafa ekki séð ástæðu til að fylgja þeim leikreglum. Hérna ætla ég að sýna með mjög algengri reiknaðferð hversu stórt slembiúrtak hefði í raun þurft í þessu tilfelli. Ath. að það er ansi langt síðan ég hef stundað tölfræði á íslensku og er kannski ekki með íslensku hugtökin alveg á hreinu þannig að ég læt ensk hugtök fylgja með.
Formúlan sem við notum til að reikna lágmarksstærð slembiúrtaks er:
Við viljum tryggja sem hæstan áreiðanleika og þar sem þessi könnun er mjög einföld (aðeins ein spurning) ætti það að ganga. Þannig að við notum mjög hátt öryggisstig (e. confidence level) (þetta er ekki skoðanakönnun - okkur ber að heimta að gögnin eru mjög áreiðanleg), eða 99% og lága villutíðni (e. margin of error), eða ±3. Við skulum líka gera ráð fyrir að langflestir sem við höfum samband við hafi í raun skráð nafn sitt á undirskritalistann, segjum 90%. Setjum tölurnar í formúluna og þá er hún svona:
Við reiknum þetta og fáum út 663. Þetta er lágmarksstærð slembiúrtaks miðað við forsendur okkar og ótakmarkað þýði (e. population), þ.e.a.s. að fjöldinn sem slembiúrtakið er tekið úr er ekki tilgreindur. Sumum finnst þetta kannski heldur lág tala miðað við ótakmarkað þýði, en það er vegna þess að við gerum ráð fyrir að mjög fáir (aðeins 10%) hafi villt á sér heimildir við skráningu á undirskriftalistann. Þannig að óvissan er mjög lítil og þar af leiðandi þarf ekki stórt slembiúrtak. Við getum líka reiknað út slembiúrtaksstærð miðað við tiltekið þýði (þ.e.a.s. fjölda undirskrifta sem söfnuðust) en þar sem óvissan er svo lítil í þessu tilfelli hefur það lítið að segja (reyndar reiknaði ég þetta og þá var slembiúrtakið 652. Munurinn er vel innan villumarkana ±3 þannig að hann skiptir ekki máli).
Svo er rétt að snúa þessu öllu við og reikna hver raunveruleg villutíðnin er miðað við slembiúrtak forsvarsmanna kjosum.is. Þá reiknum við þetta svona til að fá staðalvilluna (e. standard error):
og fáum 0,03
Margföldum svo við z-gildið sem samræmist 99% öryggistigi:
2,576 x 0,03 = 0,08
Villutíðnin miðað við slembiúrtakið er ±8%!
S.s. þessi 93,2% sem sögðu "já" í áreiðanleikakönnuninni benda til þess að ef við framkvæmdum könnunina aftur mættum við gera ráð fyrir að milli 85,2% og 100% myndu svara "já" í hvert skipti sem hún er framkvæmd. Þetta telst ekki áreiðanlegt í tölfræðinni. Það er of mikil óvissa til að geta ályktað nokkurn skapaðan hlut.
Látið endilega vita ef þið sjáið eitthvað athugavert við útreikninga mína.
Ánægður með að Icesave-lög voru samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 21.2.2011 kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
25.9.2010 | 13:54
Lélegar kannanir í íslenskum fjölmiðlum
Ef næstum fjórðungur svarenda skoðanakönnunar gefa svar sem er ekki hægt að túlka þá er eitthvað að skoðanakönnuninni.
Vísir.is segir í dag frá könnun sinni á afstöðu íslendinga til byggingar mosku í Reykjavík. Sagt er að töluverður meirihluti sé andvígur byggingu mosku. Hins vegar, kemur í ljós að næstum 22% sögðust vera "hlutlausir" - hvað svo sem það þýðir. Það virðist tilhneiging hjá íslenskum fjölmiðlum, eða þeim sem framkvæma skoðanakannanir fyrir þá, að þurfa alltaf að gefa svarmöguleika sem er ekki hægt að túlka, e.o. "hlutlaus/tek ekki afstöðu", "neita að svara" og "mjög/frekar hlynntur eða andvígur". Þetta rýrir gildi skoðanakannana og gerir niðurstöðurnar ómarkverðar. Ég myndi giska að meirihluti skoðanakannana sem sagt er frá í íslenskum fjölmiðlum hafa lítið sem ekkert upplýsingagildi af þessum sökum og eru frekar til þess gerðar að búa til sláandi fyrirsagnir.
Í frétt vísis.is segir að 41,8% eru andvígir (þ.e. þeir sem eru "mjög" eða "frekar" andvígir - hvað svo sem þær aðgreiningar þýða) og 36,6% hlynntir (þ.e. eins hér þeir sem eru "mjög" eða "frekar" hlynntir - hvað svo sem þær aðgreiningar þýða). Ef við gefum okkur að þessi stóri hluti svarenda sem segjast vera "hlutlausir" er sama hvort byggð verði moska eða ekki (þ.e.a.s. "hlutlaus" jafngildir "tek ekki afstöðu") þá má líka segja að 58,2% eru ekki andvígir. Þá erum við að gefa okkur að "hlutlausir" hafa myndað sér skoðun og að "hlutlaus" sé gild og endanleg afstaða. Það getur líka vel verið að "hlutlaus" þýði að viðkomandi hefur ekki myndað sér skoðun og er því óréttlátt að skipa honum í hóp með hlynntum eða andvígum. Gallinn er að við höfum enga leið til að vita hvort er. Sem slíkur eru "hlutlausir" svarendur blandaður hópur sem er ekki hægt að mæla án frekari upplýsinga. Það er samt ekki ólíklegt að allavega einhverjir þeirra sem skipa sér í þennan hóp hafa tekið afstöðu og ættu því réttilega að vera taldir með andvígum eða hlynntum.
14.9.2010 | 12:29
Röng þýðing afskræmir frétt
Sjá frekar um þetta í athugasemdum
Ég rak upp stór augu í morgun þegar ég sá frétt á vef Vísis um nýja skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um "nýsköpun" á Norðurlöndum, sem er kölluð "Norræna nýsköpunarvogin". Í fréttinni er sagt að nýjum aðferðum hafi verið beitt til að meta "nýsköpun" á Norðurlöndum og að þau komi ekkert sérlega vel út. Ég hugsaði með mér að þetta er stórfrétt! Norðurlöndin hafa iðulega komið mjög vel út í könnunum á nýsköpun og hér er komin skýrsla sem segir allt annað.
Mér var farið að finnast þetta svolítið dúbíus. Hvernig getur verið að breyttar matsaðferðir geti gefið svo sláandi ólíkar niðurstöður en allar fyrri skýrslur sem bera saman nýsköpun í mismunandi löndum? Þegar ég fór svo að leita staðfestingar á þessu kom fljótt í ljós að fréttin byggir á kolrangri þýðingu og afskræmir gjörsamlega skilaboðum skýrsluhöfunda. Skýrslan sem rætt er um fjallar ekki um nýsköpun, heldur um frumkvöðlastarfsemi. Orðið "entrepreneurship" hefur verið þýtt sem "nýsköpun" þegar það á auðvitað að vera "frumkvöðlastarfsemi".
Mikið hefur verið rætt um hvaða efni á vefnum er treystandi að nota t.d. í menntun. Er oft sagt að vefir e.o. Wikipedia séu mjög varhugaverðir. Ég held að það þurfi frekar að vara sig á fréttamiðlum sem virðast hafa lítinn áhuga á að ganga úr skugga um réttmæti frétta.
Fjölmiðlar | Breytt 17.2.2011 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)