Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.11.2008 | 01:51
"Finnska leiðin"
Áður en við getum gagnast af fordæmi Finna þurfum við að átta okkur á því að það er sérstaklega tvennt sem einkennir finnsku leiðina:
1. kerfisbundin heildræn hugsun - vandamálin ná til allra þátta samfélagsins og til að takast á við þau þarf að huga að öllum þessum þáttum og hvernig þeir geta stutt hvern við annan.
2. langtímaáætlanir sem miða að því að breyta allri samfélagsgerðinni í samræmi við vel mótaða framtíðarsýn.
Eins og allir vita brugðust Finnar við ástandinu sem hafði skapast með því taka ákvörðun um að ganga í ESB og Evrópumyntbandalagið, en þetta var bara byrjunin. Það sem kom á eftir (eða samtímis) var mun róttækara. Finnar ákváðu markvisst að endurskilgreina sína samfélagsgerð í samræmi við þarfir þekkingarhagkerfisins. Í framhaldi af því mótuðu þeir stefnu sem miðaði að því að nýta þá þekkingu sem þegar var til og tengja saman ýmsa þætti atvinnulífs og menntakerfis til að stuðla að nýsköpun. Þeir vissu að þekking sem þegar hafði skapast í upplýsingatæknigeiranum var mikilvæg til að ná settum markmiðum og byggðu því að miklu leyti á henni. Það er ekki að segja að meginmarkmiðið varð að þróa upplýsingatækni og selja, þó vissulega gerðu þeir það, en hvernig mætti nýta upplýsingatæknina til að stuðla að breyttri samfélagsgerð. Niðurstaðan varð sú að samskipti og opið upplýsingaflæði væri kjarninn í því að efla þekkingarsamfélag.
Útkomurnar úr þessu sjáum við víða í finnsku samfélagi í dag og hefur verið bent á margt af þessu í umræðum á Íslandi síðustu daga. T.d. efling tengsla milli háskóla og atvinnulífs og samfélags með stofnun þekkingarsetra og nýsköpunarmiðstöðva. Ég held þó að ef við viljum draga einhvern gagnlegan lærdóm af þessum aðgerðum Finna verðum við að skoða þær í ljósi heildarstefnu Finna en ekki sem einstakar aðgerðir. Annars missum við af öðrum mikilvægum þáttum í þessum aðgerðum Finna sem gætu orðið okkur að gagni. T.d. eitt sem ég hef ekki séð nefnt í allri umræðunni, að með þessum aðgerðum hafa Finnar stuðlað að víðtæku þverfaglegu samstarfi milli þekkingargreina með því að skapa umhverfi sem hvetur til þverfaglegs samstarfs til að ýta undir nýsköpun. Það eru mörg dæmi um mjög áhrifaríkan árangur af þessu, t.d. að upplýsingatækni iðnaður hefur unnið mjög náið með heilbrigðisgeiranum í þróun s.k. "m-health", sem Finnar eru nú leiðandi í. Núna nýlega hafa Finnar svo stofnað nýjan háskóla, Alvar Aalto háskólinn, sem byggir alfarið á þeirri hugmynd að samskipti milli ólíkra greina stuðlar að nýsköpun og verður hann því vettvangur til að leiða saman verkfræðinga, viðskiptafræðinga og listafólk í nýstárlegu námsumhverfi.
Menntun hefur auðvitað verið mikilvægur þáttur í endurskilgreiningu finnsks samfélags. Finnar dældu miklum peningum í menntun og það hefur augljóslega skilað sér miðað við útkomur úr PISA og TIMSS. Það er eins með menntunina og annað í finnsku umbreytingunni, að þetta þarf að skoða í víðara samhengi til að átta sig almennilega á hvað er þarna að gerast. Auðvitað hefur eitt markmiðið verið að hækka menntunarstig almennings og hafa t.d. tækniháskólarnir (e. polytechnics, f. ammattikorkeakoulu) og endurmenntunarhlutverk þeirra skipt miklu þar. Skólar hafa líka fengið það hlutverk að búa ungt fólk undir það að verða virkir þátttakendur í nýja þekkingarsamfélaginu og það hefur ýmislegt í för með sér. Við sjáum þetta t.d. í hlutverki sem upplýsingatækni gegnir í finnsku menntastarfi. Þar er hlutverk upplýsingatækni að stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun milli einstaklinga. Þetta er allt annað en hefur verið gert á Íslandi (og víðar) þar sem mesta áherslan hefur verið á upplýsingatækni sem tæki til að afla upplýsinga. Þetta er munurinn á að vera þiggjandi á hliðarlínu eða virkur þátttakandi í netsamfélagi og ég held að það hljóti að vera augljóst að síðari kosturinn skilar meiri árangri.
Á Íslandi höfum við allt sem til þarf til að móta stefnu í samræmi við "finnsku leiðina". Upplýsingatæknin er frábær, við höfum öflugt háskólaumhverfi (þó er ýmislegt sem mætti bæta, sérstaklega á verkmenntasviðinu - spyrjið ef þið viljið meira um þetta - og í alþjóðavæðingu), við höfum sérþekkingu á ýmsum sviðum. Við þurfum hins vegar að setjast niður og fara gaumgæfilega yfir málin og ekki að koma með einstakar aðgerðir sem hugsanlega fylla í einhverjar eyður sem við teljum okkur nú skynja, heldur að ákveða hvers konar samfélag við viljum hafa á Íslandi, á hverju ætlum við að byggja það og móta svo stefnu sem miðar að því að ná því markmiði. Upplýsingatæknin og menntastofnanir eiga stórt hlutverk í þessu starfi en þá þurfum við að tryggja að einstaklingar á Íslandi hafi þá færni sem þarf til að vera fullgildir þátttakendur í alþjóðlegu nettengdu samfélagi. Þetta er "finnska leiðin".
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2008 | 17:57
Finnar gott fordæmi en engar skyndilausnir
Athyglisvert framtak og athyglisverður hópur sem er nefndur þarna. Mér þykir þetta sýna að þeir ætla að skoða þetta svolítið heildrænt en ekki bara hagfræðilegu hliðina, sem var það sem mér datt í hug fyrst þegar ég sá yfirskriftina. Það er nefnilega það áhugaverðasta við Finnana hvernig þeir hafa tekið mjög heildrænt á sínum málum eftir erfiðleikana á tíunda áratugnum (ég er einmitt að rannsaka þetta í dr. náminu mínu).
Í raun má segja að Finnarnir hafi notað tækifærið til að endurskilgreina og endurskipuleggja sitt samfélag og má segja að menntamálin hafi verið lykilatriði í þeim aðgerðum. Á þessum tíma ákváðu Finnar að leggja mikla áherslu á símenntun og nýsköpun í samfélaginu öllu og voru einstakar aðgerðir ákveðnar í samræmi við þessar áherslur - einfaldlega spurt, ef við ætlum að verða öflugt nýsköpunarsamfélag (eða þekkingarhagkerfi eða hvað svo sem á að kalla það), hvað þarf að gera? Þeir fóru beint í að stórefla menntun fyrir alla, jafnt starfandi fólk sem og nemendur á ýmsum skólastigum, efldu kennaramenntun, bæði fyrir nýja og starfandi kennara, lögðu mikla áherslu á upplýsingatækni og svo nýsköpun (rannsóknir, einkaleyfi, markaðssetning, o.s.frv.). Með þessu tókst þeim að snúa efnahagsþróuninni við á örfáum árum.
Þar sem ég er "menntamaður" beini ég helst athyglinni að því sem Finnar hafa gert í þeim málum. Þar er margt sem við getum lært af. Eitt helsta atriðið hjá þeim er að símenntun ("menntun frá vöggu til grafar") er meginmarkmið allrar menntastefnu. Nám (allt nám - skyldunám, háskólanám, endurmenntun o.s.frv.) miðar að því fyrst og fremst að kenna einstaklingum að læra og meta sinn lærdóm. Markmiðið er að Finnar geti notað allar þær upplýsingar sem þeir hafa aðgang að (með upplýsingatækni t.d.) til að byggja upp sína þekkingu og nota hana til að gera nýja hluti. En Finnar hafa líka sýnt að þetta er ekki einfalt. Það er ansi margt sem þarf að huga að. En með áræðni og að ganga skipulega til verks er ekki annað að sjá en að þeim er að takast ætlunarverk sitt.
Það sem Íslendingar þurfa að varast ef við ætlum að fara út í það að reyna að læra af þjóðum eins og Finnum, er að halda ekki að við getum einfaldlega líkt eftir einstökum aðgerðum Finna. Við þurfum að fara sömu leið og þeir - byrja á upphafinu. Við þurfum að skilgreina hvað það er sem við ætlum að stefna að, hvers konar samfélag við viljum sjá í framtíðinni, og fara skipulega yfir málin og ákveða okkar eigin leiðir. Við getum lært margt af "Finnsku leiðinnni" en við skulum ekki halda að hún bjóði upp á neinar skyndilausnir.
![]() |
Ræða finnsku leiðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.6.2008 | 08:41
IFC Alþjóðabankans tilbúinn að fjármagna REI í Djíbútí
"To fight poverty with passion and professionalism for lasting results. To help people help themselves and their environment by providing resources, sharing knowledge, building capacity, and forging partnerships in the public and private sectors."
S.s. að gera má ráð fyrir því að fjármagni frá IFC fylgi kröfur um að þróunarmarkmið séu höfð að leiðarljósi í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu. Djíbútí verkefnið er þá væntanlega aftur orðið þróunarverkefni e.o. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, lýsti því á fundi utanríkisráðuneytisins um vor 2007. En þá vakna spurningarnar sem ég hef svo oft bent á (og þetta skiptir heilmiklu máli þegar verið er að hvetja einkageirann til að taka þátt í þróunarsamstarfi, e.o. utanríkisráðuneytið er að gera núna með Viðskiptaþróunarsjóðnum (sjá neðst á síðunni)) - hvernig á að meta slík verkefni, hver ætlar að gera það og hvernig tryggjum við samræmi í þróunaraðstoð Íslendinga þegar það er komið á svo margra hendur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2008 | 07:40
Áhugaverð samsetning
![]() |
Þremur af kunnustu háskólum Finnlands steypt í einn skóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2008 | 10:40
Ekki gleyma þróunarmarkmiðum
Það er ánægjulegt að sjá að verið er að hvetja íslenskt atvinnulíf til aukinnar þátttöku í þróunarsamstarfi um leið og tekið er upp samstarf við fleiri lönd. En ég hef enn áhyggjur af því hvernig þetta er framkvæmt e.o. ég lýsti hér og hér. Það eru ýmsar spurningar sem vakna þegar farin er þessi leið í þróunarsamstarfi. T.d.:
- Hvernig skilgreina menn "sjálfbærni" í þessu samhengi?
- Hver eru markmiðin?
- Hvernig á að meta árangur og hver ætlar að gera það?
"Sjálfbær þróun" er orðið flókið hugtak sem nær til margra ólíkra félagslegra og umhverfislegra þátta. Hugtakinu er oft fleygt um mjög hátíðlega og af mikilli sannfæringu en oft má greina að verið er að nota það í afmörkuðum skilningi, sem nær ekki til allra þessara þátta. T.d. er mjög þægilegt fyrir okkur íslendinga að nota þekkingu okkar í orkumálum í þróunarsamstarfi vegna þess að þá er alltaf hægt að beita "sjálfbærnis-" hugtakinu þar sem þau svið sem við höfum sérhæft okkur í eru í eðli sínu umhverfislega sjálfbær. En það er ekki þar með sagt að verkefni á þessu sviði nái til allra þátta sjálfbærs þróunar. Fyrir mér merkir "sjálfbær þróun" fyrst og fremst að verkefni stuðlar að því að þiggjendur aðstoðs öðlist færni og hæfni til að stuðla að bættum högum fólks á sínu svæði til framtíðar. Þ.a.l. eru félagslegir þættir, og sérstaklega sem tengjast menntun, í raun ofar öðrum þáttum. Besta leiðin til að móta framtíðina er með menntun og fræðslu. Þar að auki er spurning hvort þetta geti ekki jafnvel verið betri nýting á fjármagni eftir því hvernig farið er að.
Þá komum við að markmiðunum. Hver eru markmið einkafyrirtækja í þróunarlöndum? Eru þau tilbúin að taka tillit til allra þátta sjálfbærar þróunar sem ég nefni fyrir ofan? Það er ekki að sjá að allir þessir þættir hafi verið efstir í huga OR (nú REI) þegar þeir tryggðu sér verkefni í Djíbútí, sem upphaflega var kynnt sem þróunarverkefni. Það er hætt við að útrásarmarkmið skyggi á þróunarmarkmið.
Að lokum er það matið. Ef við ætlum að fara að telja fram útrás íslenskra fyrirtækja til framlags til þróunar verður að meta árangur þessara verkefna. Þetta er ekki bara formsatriði en er nauðsynlegt til að stuðla að því að verkefni eru í samræmi við stefnu yfirvalda og að þekking sem skapast nýtist annarsstaðar. Er öruggt að hægt verði að framkvæma hlutlaust mat á þessum verkefnum? Hver á þá að meta þau? Og hvaða þætti á að meta og hvernig? T.d. segjum svo að íslenskt orkufyrirtæki fær það verkefni að virkja svæði og byggja orkuveitu í þróunarlandi. Markmið fyrirtækisins er þá einfaldlega að sjá til þess að orka verði aðgengileg heimafólki. En orka er ekki þróunarmarkmið út af fyrir sig. Þróunarmarkmiðið er að bæta hag heimafólks. Það er hægt að ímynda sér ýmsar aðstæður þar sem markmið orkufyrirtækisins nást en ekki þróunarmarkmið, t.d. ef orkan er of dýr eða dreifingarkerfi ábótavant þá gagnast hún aðeins tilteknum hluta þjóðar og þá má draga í efa að þróunarmarkmið hafi náðst.
Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga og ástæða til að fara ekki of geyst í þessum málum.
![]() |
Alþjóðleg samvinna á sviði sjálfbærrar þróunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.6.2008 kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hannes Hólmsteinn segir í grein sem birtist í Fréttablaðinu 29. janúar
Þá vaknar auðvitað spurning, sem borin var upp við mannréttindanefndina: Hvað um þá, sem ekki höfðu stundað veiðar á upphaflega viðmiðunartímanum, en vilja nú hefja veiðar?
Í viðtali við Friðrik sem er að finna á vef LÍÚ segir
Forsaga þessa máls er sú að tveir sjómenn keyptu kvótalausan bát og ákváðu að halda til veiða kvótalausir. Þeir töldu það mannréttindabrot að fá ekki úthlutað kvóta og geta stundað sjómennsku á atvinnutæki sínu.
En þetta er alls ekki spurningin sem var lögð fyrir Mannréttindanefndina og þetta gæti ekki verið skýrara í úrskurðinum. Það sem var lagt fyrir nefndina og sem hún úrskurðaði um er hvort það sé réttlátt að Erlingur Sveinn og Örn Snævar (og þess vegna hver sem er) þurfi að greiða samborgurum sínum fyrir rétt til að stunda veiðar.
Hliðstætt væri ef einhver ætlaði að vinna sér inn pening með því að þrífa heimili fólks, en til þess að geta starfað við slíkt þyrfti að kaupa leyfi sem ekki þurfti að greiða upphaflega fyrir af óbreyttum samborga, þ.e.a.s. ekki aðili sem hefur lagalega heimild til að veita slíkar heimildir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.2.2008 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2008 | 14:11
Frekar að styrkja fólk til náms og rannsókna á Íslandi
Væri ekki sniðugra að setja á fót styrktarsjóð til að styrkja stúdenta frá Níkaragva í háskólanám í jarðvarmafræðum hér?
Stundum virðist ÞSSÍ vera einum of æst í að senda okkar fólk um allar trissur í upplýsingaöflun og miðlun. Mér finnst meiri líkur á að þekking komist betur til skila og lagi sig betur að aðstæðum í samstarfslöndum ef heimafólk fær tækifæri til að tileinka sér hana á eigin forsendum og miðla sjálft. Níkaragva er ekki eitt af vanþróuðustu löndum heims, með meðalþróun á mælikvarða SÞ og hefur nokkuð öflugt háskólakerfi. Það hlýtur að vera hægt að lokka eitthvað af þessu fólki hingað til lands í háskólanám með rausnarlegum styrkjum (hvað ætli kosti að senda okkar sérfræðinga þangað vs. að fá þeirra stúdenta hingað?).
Það eru alltaf að bætast við aðilar sem bjóða upp á nám í jarðvarmafræðum hér á landi og er flóran því orðin nokkuð fjölbreytt og mikið af þessu kennt á ensku. Fyrir utan Jarðvarmaskóla SÞ, sem er auðvitað sér dæmi, dettur manni helst í hug RES - School of Renewable Energy Science, sem er að bjóða upp á mastersnám í endurnýjanlegri orku, og eru jarðvarmafræði þ.á.m. auðvitað. Þeir eru að hefja kennslu um þessar mundir og hafa fengið til sín þvílíkt stórstjörnu kennaralið, bæði erlenda og íslenska. Allt er kennt á ensku og byggir að miklu leyti á sérreynslu og þekkingu íslendinga. Svo er líka HÍ með meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, HR er með sitt Orkurannsóknarsetur þar sem stúdentar gætu t.d. unnið að lokaverkefnum, og svo byrjar REYST væntanlega að bjóða upp á nám í nálægri framtíð.
Að styrkja námsfólk frá Níkaragva til að koma hingað í nám myndi ekki aðeins koma sérfræðiþekkingu betur til skila í heimalandinu heldur myndi það líka styrkja þetta nám sem er í boði hér á landi. Mér finnst það líka vera meira "samstarf" en þetta sem verið er að lýsa í fréttinni.
![]() |
Skrifað undir jarðvarmasamstarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2011 kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2008 | 10:17
Ekki svo galið en er það nýtt - og hvað er maðurinn í raun að segja?
viðfangsefni alþjóðlegra afla í dag skuli vera að tryggja að
hnattvæðing verði jákvætt afl fyrir alla íbúa jarðar. Hnattvæðing er
auðvitað ekki það sama og kapítalismi en það er ekki hægt að neita því að það er kapítalísk hugsun sem stýrir hnattvæðingunni í dag. Þannig að miðað við núverandi aðstæður má segja að verkefnið sem við höfum fyrir höndum nú er að tryggja að kapítalísk hugsun taki tillit til og virði framlag, og jafnvel sækist eftir framlagi, allra þeirra sem útbreiðsla þess snertir. Þetta passar við það sem Gates kallar "skapandi kapítalisma", þó ég myndi kannski kjósa að kalla þetta eitthvað annað, t.d. "lýðræðislegan kapítalisma", eða jafnvel enn betra "undirróðurs kapítalisma" (sjá t.d. skrif Feenbergs). En þetta býður upp á alls kyns deilur um eðli kapítalismans þannig að kannski er best í bili að halda sig við hugtak Gates.
En er Gates að fara fram á einhverja nýja hugsun hér? Ég held að svo sé ekki. Þetta sem hann talar um birtist sérstaklega í orðræðum um mótun réttláts þekkingarsamfélags í samræmi við væntingar sem gerðar eru til hnattvæðingar í Þúsaldaryfirlýsingunni. Helstir í þeirri orðræðu hafa verið Bengt-Ake Lundvall og Björn Johnson, sem lýsa hnattvædda þekkingarhagkerfinu sem lærdómssamfélagi sem þrífst á frjálsu og opnu flæði upplýsinga og þekkingar og sífelldri nýsköpun (meira um þetta hér). Getur hugmynd Gates tekið á sig nokkra aðra mynd en þessa?
Til að svona lagað nái fram að ganga þurfa margir að breyta því hvernig þeir hátta sínum viðskiptum. Margir ráðandi aðilar á heimsmörkuðum virðast reyna að kæfa opið flæði þekkingar og nýsköpun til þess að viðhalda sinni stöðu. Því verður ekki neitað að Microsoft er eitt augljósasta og þekktasta dæmið um þetta. Það hefur barist hart gegn opnum stöðlum og frjálsu flæði upplýsinga í rúman áratug núna meðan önnur upplýsingatækni fyrirtæki hafa tekið slíku fagnandi, t.d. Sun (OpenOffice.org og Java), IBM (Linux o.fl.) og Apple (Darwin o.fl.). Afleiðingin fyrir Microsoft er sívaxandi tortryggni í þeirra garð og fjandsamlegt samband milli þeirra og annarra í upplýsingatækni geiranum og marga ráðamenn (t.d. Evrópusambandið).
Það er því gaman að heyra Gates setja þetta svona fram. Spurningin er svo hvort þessar yfirlýsingar hans séu vísbendingar um breytingar hjá Microsoft. Ef svo er væri það eflaust gott fordæmi fyrir ýmsa sem haga sér á svipaðan hátt. En því miður er fátt sem gefur ástæðu til að vera sérstaklega bjartsýnn (sbr. OOXML "staðal" Microsofts).
![]() |
Skapandi kapítalismi til hjálpar fátækum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2008 | 21:17
Hvenær fékk REI nýtingarrétt í Djíbútí?
![]() |
Samstarf við Djíbútí um samstarf í jarðhitamálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2008 | 00:15
Valgerður enn að hugsa um þróunarmálin
Fyrrverandi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún bregst við nýlegum skrifum Sölmundar Karls Pálssonar um skipulag þróunarsamstarfs. Valgerður lýsir þar hamingju sinni yfir að hafa sannan skoðanbróður í Sölmundi. Það sem mér finnst hins vegar sérlega áhugavert við þessi skrif Valgerðar er að hún skuli sjá ástæðu til að bregðast við skrifum Sölmundar núna rúmlega hálfu ári eftir að skýrsla hennar fólks um skipulag þróunarsamstarfs kom út. Hún sá enga ástæðu til að bregðast við grein sem ég skrifaði örfáum vikum eftir að skýrslan kom út þar sem ég bendi á ýmsa vankanta á skýrslunni og stefnu utanríkisráðherra.
Valgerður segir í grein sinni að skýrsluhöfundar tilgreini tvær leiðir til umbóta í þróunarstarfi en eins og ég benti á í minni grein voru leiðirnar þrjár en ekki tvær. Þriðja leiðin - að þróunarstarf færist allt út úr utanríkisráðuneytinu - fékk hins vegar enga athygli skýrsluhöfunda þó svo að gögn sem þeir telja upp sem stuðningsgögn við gerð skýrslunnar lofi þeirri leið eins og hún hefur verið farin í Bretlandi.
Valgerður segist vona að núverandi utanríkisráðherra taki tillit til breytingatillagna hennar, þ.e. að allt þróunarstarf, þ.m.t. ÞSSÍ, verði fært nær utanríkisráðuneytinu og gerir það að hagsmunamáli þróunarsamstarfs "og þar með þróunarlanda". En í skýrlsunni margumræddu má benda á að eina umfjöllunin sem birtist þar um hagsmuni snýr að hagsmunum Íslendinga, ekki þróunarlanda. Þó er dæmið sett þannig upp að það hljóti að vera gott fyrir Íslendinga að það ríki stöðugleiki í þróunarlöndum sem við viljum auka viðskipti við. En það er ekki annað að sjá en að skýrsluhöfundar eru þeirrar skoðunar að það eru "okkar" hagsmunir sem skulu hafðir að leiðarljósi, ekki þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.3.2015 kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)