4.3.2008 | 21:26
Harvard styður opið aðgengi að vísindalegri þekkingu
Þetta er mjög áhugaverð þróun og sérstaklega áhugaverð umræða sem er að skapast í kringum hana. Þetta er nefnilega ekki eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn. Það sem skiptir mestu máli fyrir vísindaleg skrif, sem útgefendur tímarita hafa sinnt, er jafningjarýni þar sem jafningjar greinarhöfunda leggja mat á vísindalegt gildi og vægi greina. Sumir telja að hætt sé að útgefendur einfaldlega hafni greinum sem fylgja kvaðir um opið aðgengi og þar með missa höfundar af ritrýninni. Svo er líka deilt um það hvort veita eigi opið aðgengi að greinum sem hafa verið ritrýndar en ekki endanlega prófarkalesnar, s.k. pre-press greinar. En þá fylgja spurningar um hvernig eigi að vísa í slíkar greinar. En það er ljóst að margir vísindamenn og stofnanir hafa fengið nóg af útgefendunum og ætla sér að endurheimta eignarhald á sínum þekkingarafurðum. Það hlýtur að vera nokkuð veglegur liðsauki í því að fá jafn virtan og sterkan bakhjarl sem Harvard í þessa baráttu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2008 | 18:38
Rétthafar ættu að leita nýrra leiða
Hér er athyglisverð frétt um stöðu rétthafa tónlistar í Kína, en eins og flestir vita eru þessi mál í algjörum ólestri þar í landi. Í fréttinni kemur fram að rétthafar þar í landi hafa hreinlega gefist upp og leitað annarra leiða til að fjármagna sína iðju. Það virðist hafa gengið svo vel upp að þekkt söngkona af kínverskum ættum sem fluttist frá Bretlandi til Kína þénar nú meira en hún hefði nokkurn tíma þorað að láta sig dreyma um í Bretlandi. Þetta sýnir það bara að rétthafar hafa fleiri möguleika í stöðunni. Það er ólíklegt að nokkuð komi í veg fyrir að skipst verði á tónlist, kvikmyndum og öðru efni netleiðis og því kannski ástæða fyrir rétthafa að fara að hugsa þessi mál upp á nýtt.
Fagna niðurstöðu dóms í DC++ máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.3.2008 | 22:28
Finnska leiðin í menntamálum
Það var grein um skólakerfið í Finnlandi á vef Wall Street Journal um daginn. Greinarhöfundur leggur upp með mjög áhugaverðar spurningar um tilfærslumöguleika milli skólakerfa í Finnlandi og Bandaríkjunum. Ég held að þetta séu líka mjög viðeigandi spurningar fyrir okkur hér á Íslandi þegar verið er að boða mjög róttækar breytingar í skólamálum og menntun kennara. Ekki síst þar sem þegar er verið að líta til Finnlands í því sambandi.
Það sem heillar mig mest með skólakerfi Finna eins og því er lýst í þessari grein er hvað þeir leggja upp úr því að skilja þekkingarsamfélagið og þarfir þess og móta menntun í samræmi við það, t.d. með því að leggja áherslu á sveigjanleika bæði fyrir kennara og nemendur. Enda hefur farið mikið í það hjá Finnum að skilgreina þessar þarfir vel og móta skynsama stefnu. Við gætum lært margt af Finnum ef við gefum okkur góðan tíma til að skilja hvað það er sem þeir eru raunverulega að gera frekar en að arka af stað með illa mótaðar hugmyndir eins og við eigum til.
Menntun og skóli | Breytt 3.3.2008 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 23:23
Áhugaverð grein um umræðu um tölvur í skólastarfi
Það er margt í umræðu undanfarinna 30 ára sem er sérstaklega athyglisvert. T.d. að frá upphafi umræðunnar og alveg fram undir lok 20 aldar lögðu margir áherslu á nauðsyn þess að nemendum væri kennt undirstöðuatriði forritunar og vitnar Hrefna í Aðalnámsskrá framhaldsskóla frá 1999 þar sem segir,
Kunnátta í forritun er þannig undirstaða þess að notendur geti nýtt sér almennan hugbúnað til hins ýtrasta.
Þetta var líklega mun mikilvægara á upphafsárunum þar sem bæði var mögulegt og oft nauðsynlegt að breyta forritum og aðlaga þau aðstæðum hverju sinni.
Hrefna virðist hafa farið svolítið á mis við þátt hugsmíðahyggju (e. constructivism) í þróun hugmynda um notkun tölvu í skólastarfi. Hún fjallar um Logo forritunarmál Seymour Paperts sem ætlað var að kenna m.a. hugtök og reglur sem voru ekki endilega tengd tölvum og segir svo,
Þessar hugmyndir minna um margt á hugsmíðahyggju sem virðist eiga mikinn hljómgrunn um þessar mundir. Það er þó eftirtektarvert að hugmyndir um að nýta tölvur í anda hugsmíðahyggjunnar heyrast mjög lítið eða alls ekki í dag þrátt fyrir að ýmsir hafi séð slíka notkun fyrir sér á upphafsárunum.
Annað sem Hrefna hefði mátt koma inn á, en er kannski svolítið fyrir utan efnið, eru áhrif sem aukin upplýsingatækni hefur haft á skilningi á - og viðhorfi til þess - "að læra". Þótt tölvur hafi ekki haft þau áhrif á kennslu og skólastarf sem spáð hefur verið í gegnum tíðina er augljóst að skólar þurfa í vaxandi mæli að bregðast við nemendum sem hafa alist upp með öflugri upplýsingatækni en þekktist fyrir rétt rúmum áratug og stóraukið flæði upplýsinga. Þetta eru nemendur sem virðast hafa allt aðrar hugmyndir um hvað það er að læra og til hvers við lærum en nemendur höfðu áður fyrr. Ef þetta er ekki að hafa víðtæk áhrif á skólastarf þá þarf að fara að endurskoða skólastarfið.
Að lokum verð ég að minnast á myndræna framsetningu Hrefnu á gögnum hennar. Hún setur upp töflur þar sem umræðuefni er í röðum og ár í dálkum og notar síðan mislita og misstóra þríhyrninga til að sýna hversu mikið hvert umræðuefni er í umræðunni hverju sinni. Þetta er sérlega áhrifarík framsetning og gefur lesandanum góða yfirsýn yfir breytingar á umræðunni yfir tímabilið sem hún greinir. Ef fólk hefur ekki tíma til að lesa alla greinina fæst heilmikið úr því að skoða bara töflurnar.
Menntun og skóli | Breytt 19.2.2008 kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hannes Hólmsteinn segir í grein sem birtist í Fréttablaðinu 29. janúar
Þá vaknar auðvitað spurning, sem borin var upp við mannréttindanefndina: Hvað um þá, sem ekki höfðu stundað veiðar á upphaflega viðmiðunartímanum, en vilja nú hefja veiðar?
Í viðtali við Friðrik sem er að finna á vef LÍÚ segir
Forsaga þessa máls er sú að tveir sjómenn keyptu kvótalausan bát og ákváðu að halda til veiða kvótalausir. Þeir töldu það mannréttindabrot að fá ekki úthlutað kvóta og geta stundað sjómennsku á atvinnutæki sínu.
En þetta er alls ekki spurningin sem var lögð fyrir Mannréttindanefndina og þetta gæti ekki verið skýrara í úrskurðinum. Það sem var lagt fyrir nefndina og sem hún úrskurðaði um er hvort það sé réttlátt að Erlingur Sveinn og Örn Snævar (og þess vegna hver sem er) þurfi að greiða samborgurum sínum fyrir rétt til að stunda veiðar.
Hliðstætt væri ef einhver ætlaði að vinna sér inn pening með því að þrífa heimili fólks, en til þess að geta starfað við slíkt þyrfti að kaupa leyfi sem ekki þurfti að greiða upphaflega fyrir af óbreyttum samborga, þ.e.a.s. ekki aðili sem hefur lagalega heimild til að veita slíkar heimildir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.2.2008 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2008 | 01:09
Af hverju bloggar fólk og hverjum kemur það við?
Eftir þetta hef ég verið að hugsa um hvers vegna fólk bloggar. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að fólk hefur ýmsar ástæður og stundum hentar ekki að leyfa hverjum sem er að skrá inn athugasemdir. Verandi svolítill akademíker leitaði ég beint í literatúrinn til að sjá hvort þetta hefur verið rannsakað. Það er ekki mikið en þó eitthvað (sjá t.d. Leave a Reply: An Analysis of Weblog Comments og Why We Blog). Rannsóknir sem hafa verið gerðar koma ekki verulega á óvart - sumir blogga fyrir félagsskap eða skapa umræðu um samfélagsmál eða til að auðga sína þekkingu og taka athugasemdum fagnandi meðan aðrir blogga um persónuleg mál og finnst athugasemdir jafnvel vera eins og óþægileg afskiptasemi.
Miðað við þessar greiningar er ljóst að bloggið sem ég er núna bannaður á (mér skilst að ég er ekki sá eini sem nýtur þess vafasama heiðurs) er af fyrri gerðinni - færslur eru nær allar um samfélagsleg málefni líðandi stundar sem snerta alla og settar þannig fram að þær hvetja til umræðu. Umræður eru líka oft töluverðar og nokkuð líflegar. Hvernig eigum við þá að taka þessum bannfæringum?
Þetta er eigið blogg bloggarans og honum auðvitað frjálst að gera eins og honum sýnist. En, vegna efnisvalsins og að það er boðið upp á að almenningur sendi inn athugasemdir er bloggarinn í raun að gefa í skyn að þetta sé opinn umræðu vettvangur (ekki í neinum lagalegum skilningi samt). Þar af leiðandi, þegar hann eyðir athugasemdum bara út af því að þær samræmast ekki hans skoðunum er hann að gefa í skyn að það er engin teljanleg andstaða við hans málstað. Það má þó nefna að sumir hafa tekið eftir því að athugasemdir eiga það til að hverfa á þessu bloggi og má lesa umræðu um það á blogginu sjálfu. Þeir sem skanna svolítið bloggið eiga því að geta áttað sig á þessu. En, þeir hafa enga leið að vita hvað var í þessum athugasemdum sem búið er að eyða eða hvers vegna þeim var eytt. Þannig að mér finnst eiginlega ekki hægt að kalla þetta annað en ritskoðun (aftur - ekki í neinum lagalegum skilningi).
Það sem mér finnst svo merkilegt við blogg er að þegar vel tekst til og líflegar umræður skapast er hægt að fá í fljótu bragði yfirsýn yfir ýmsar hliðar á málum. En þegar bloggarar velja og hafna á óskrifuðum forsendum hvað fer inn á blogg sem er annars aðgengilegt almenningi skekkist þessi mynd verulega. Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti netnotenda á það til að leita eins skammt og mögulegt er af upplýsingum á netinu (sjá t.d. þessa rannsókn). Blogg eru ört vaxandi partur af upplýsingaflæðinu á netinu og eru oft meðal fremstu leitarniðurstaða. Eiga bloggarar að taka þetta til sín og setja sér siðferðilegar skyldur gagnvart sínum lesendum? Ég held að það væri ekki slæm hugmynd.
Bloggar | Breytt 14.3.2008 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.1.2008 | 14:11
Frekar að styrkja fólk til náms og rannsókna á Íslandi
Væri ekki sniðugra að setja á fót styrktarsjóð til að styrkja stúdenta frá Níkaragva í háskólanám í jarðvarmafræðum hér?
Stundum virðist ÞSSÍ vera einum of æst í að senda okkar fólk um allar trissur í upplýsingaöflun og miðlun. Mér finnst meiri líkur á að þekking komist betur til skila og lagi sig betur að aðstæðum í samstarfslöndum ef heimafólk fær tækifæri til að tileinka sér hana á eigin forsendum og miðla sjálft. Níkaragva er ekki eitt af vanþróuðustu löndum heims, með meðalþróun á mælikvarða SÞ og hefur nokkuð öflugt háskólakerfi. Það hlýtur að vera hægt að lokka eitthvað af þessu fólki hingað til lands í háskólanám með rausnarlegum styrkjum (hvað ætli kosti að senda okkar sérfræðinga þangað vs. að fá þeirra stúdenta hingað?).
Það eru alltaf að bætast við aðilar sem bjóða upp á nám í jarðvarmafræðum hér á landi og er flóran því orðin nokkuð fjölbreytt og mikið af þessu kennt á ensku. Fyrir utan Jarðvarmaskóla SÞ, sem er auðvitað sér dæmi, dettur manni helst í hug RES - School of Renewable Energy Science, sem er að bjóða upp á mastersnám í endurnýjanlegri orku, og eru jarðvarmafræði þ.á.m. auðvitað. Þeir eru að hefja kennslu um þessar mundir og hafa fengið til sín þvílíkt stórstjörnu kennaralið, bæði erlenda og íslenska. Allt er kennt á ensku og byggir að miklu leyti á sérreynslu og þekkingu íslendinga. Svo er líka HÍ með meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, HR er með sitt Orkurannsóknarsetur þar sem stúdentar gætu t.d. unnið að lokaverkefnum, og svo byrjar REYST væntanlega að bjóða upp á nám í nálægri framtíð.
Að styrkja námsfólk frá Níkaragva til að koma hingað í nám myndi ekki aðeins koma sérfræðiþekkingu betur til skila í heimalandinu heldur myndi það líka styrkja þetta nám sem er í boði hér á landi. Mér finnst það líka vera meira "samstarf" en þetta sem verið er að lýsa í fréttinni.
Skrifað undir jarðvarmasamstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 22.2.2011 kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2008 | 10:17
Ekki svo galið en er það nýtt - og hvað er maðurinn í raun að segja?
viðfangsefni alþjóðlegra afla í dag skuli vera að tryggja að
hnattvæðing verði jákvætt afl fyrir alla íbúa jarðar. Hnattvæðing er
auðvitað ekki það sama og kapítalismi en það er ekki hægt að neita því að það er kapítalísk hugsun sem stýrir hnattvæðingunni í dag. Þannig að miðað við núverandi aðstæður má segja að verkefnið sem við höfum fyrir höndum nú er að tryggja að kapítalísk hugsun taki tillit til og virði framlag, og jafnvel sækist eftir framlagi, allra þeirra sem útbreiðsla þess snertir. Þetta passar við það sem Gates kallar "skapandi kapítalisma", þó ég myndi kannski kjósa að kalla þetta eitthvað annað, t.d. "lýðræðislegan kapítalisma", eða jafnvel enn betra "undirróðurs kapítalisma" (sjá t.d. skrif Feenbergs). En þetta býður upp á alls kyns deilur um eðli kapítalismans þannig að kannski er best í bili að halda sig við hugtak Gates.
En er Gates að fara fram á einhverja nýja hugsun hér? Ég held að svo sé ekki. Þetta sem hann talar um birtist sérstaklega í orðræðum um mótun réttláts þekkingarsamfélags í samræmi við væntingar sem gerðar eru til hnattvæðingar í Þúsaldaryfirlýsingunni. Helstir í þeirri orðræðu hafa verið Bengt-Ake Lundvall og Björn Johnson, sem lýsa hnattvædda þekkingarhagkerfinu sem lærdómssamfélagi sem þrífst á frjálsu og opnu flæði upplýsinga og þekkingar og sífelldri nýsköpun (meira um þetta hér). Getur hugmynd Gates tekið á sig nokkra aðra mynd en þessa?
Til að svona lagað nái fram að ganga þurfa margir að breyta því hvernig þeir hátta sínum viðskiptum. Margir ráðandi aðilar á heimsmörkuðum virðast reyna að kæfa opið flæði þekkingar og nýsköpun til þess að viðhalda sinni stöðu. Því verður ekki neitað að Microsoft er eitt augljósasta og þekktasta dæmið um þetta. Það hefur barist hart gegn opnum stöðlum og frjálsu flæði upplýsinga í rúman áratug núna meðan önnur upplýsingatækni fyrirtæki hafa tekið slíku fagnandi, t.d. Sun (OpenOffice.org og Java), IBM (Linux o.fl.) og Apple (Darwin o.fl.). Afleiðingin fyrir Microsoft er sívaxandi tortryggni í þeirra garð og fjandsamlegt samband milli þeirra og annarra í upplýsingatækni geiranum og marga ráðamenn (t.d. Evrópusambandið).
Það er því gaman að heyra Gates setja þetta svona fram. Spurningin er svo hvort þessar yfirlýsingar hans séu vísbendingar um breytingar hjá Microsoft. Ef svo er væri það eflaust gott fordæmi fyrir ýmsa sem haga sér á svipaðan hátt. En því miður er fátt sem gefur ástæðu til að vera sérstaklega bjartsýnn (sbr. OOXML "staðal" Microsofts).
Skapandi kapítalismi til hjálpar fátækum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2008 | 21:17
Hvenær fékk REI nýtingarrétt í Djíbútí?
Samstarf við Djíbútí um samstarf í jarðhitamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2008 | 00:15
Valgerður enn að hugsa um þróunarmálin
Fyrrverandi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún bregst við nýlegum skrifum Sölmundar Karls Pálssonar um skipulag þróunarsamstarfs. Valgerður lýsir þar hamingju sinni yfir að hafa sannan skoðanbróður í Sölmundi. Það sem mér finnst hins vegar sérlega áhugavert við þessi skrif Valgerðar er að hún skuli sjá ástæðu til að bregðast við skrifum Sölmundar núna rúmlega hálfu ári eftir að skýrsla hennar fólks um skipulag þróunarsamstarfs kom út. Hún sá enga ástæðu til að bregðast við grein sem ég skrifaði örfáum vikum eftir að skýrslan kom út þar sem ég bendi á ýmsa vankanta á skýrslunni og stefnu utanríkisráðherra.
Valgerður segir í grein sinni að skýrsluhöfundar tilgreini tvær leiðir til umbóta í þróunarstarfi en eins og ég benti á í minni grein voru leiðirnar þrjár en ekki tvær. Þriðja leiðin - að þróunarstarf færist allt út úr utanríkisráðuneytinu - fékk hins vegar enga athygli skýrsluhöfunda þó svo að gögn sem þeir telja upp sem stuðningsgögn við gerð skýrslunnar lofi þeirri leið eins og hún hefur verið farin í Bretlandi.
Valgerður segist vona að núverandi utanríkisráðherra taki tillit til breytingatillagna hennar, þ.e. að allt þróunarstarf, þ.m.t. ÞSSÍ, verði fært nær utanríkisráðuneytinu og gerir það að hagsmunamáli þróunarsamstarfs "og þar með þróunarlanda". En í skýrlsunni margumræddu má benda á að eina umfjöllunin sem birtist þar um hagsmuni snýr að hagsmunum Íslendinga, ekki þróunarlanda. Þó er dæmið sett þannig upp að það hljóti að vera gott fyrir Íslendinga að það ríki stöðugleiki í þróunarlöndum sem við viljum auka viðskipti við. En það er ekki annað að sjá en að skýrsluhöfundar eru þeirrar skoðunar að það eru "okkar" hagsmunir sem skulu hafðir að leiðarljósi, ekki þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.3.2015 kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)