Reyndar var það miðlægur þjónn Napster sem varð honum að falli

Það er rangt sem sagt er í fréttinni að Napster notaði ekki miðlægan þjón. Napster notaði miðlægan "index" þjón til að skrá allt sem var í boði í gegnum Napster netið. Þetta er eiginlega það sem varð Napster að falli. Síðari peer-to-peer (P2P) forrit sem komu, e.o. Kazaa og Gnutella, nota engan miðlægan þjón og er því ómögulegt að loka alveg á þá þar sem þá þyrfti að loka á allar tölvur einstaklinga sem nota hugbúnaðinn. Með Napster var nóg að slökkva á miðlæga þjóninum og þá gátu notendur ekki miðlað eða fengið upplýsingar um þau skjöl sem voru í boði.
mbl.is 50 merkilegustu tækniundrin valin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að breyta en samt eitt og annað ábótavant í þessari skýrslu

Það fer ekki milli mála að það þarf breytingar en mér finnst skýrlsuhöfundar ekki hafa skoðað alla möguleika nægilega vel (meira hér).
mbl.is Sighvati komið á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslan um þróunarsamstarf - af hverju voru ekki allir kostir skoðaðir?

Jæja, þá er ég loksins búinn að fara í gegnum þessa skýrslu. Eins og ég sagði hér er alls ekki ætlunin að leggja ÞSSÍ niður. Hugmyndin er frekar að ÞSSÍ sameinist utanríkisráðuneytið svo að hægt sé að straumlínulaga þróunarsamstarf íslendinga. Þetta er vel rökstutt í skýrslunni og meikar fullkomið sens svo lengi sem lesandinn fer ekki að róta í öðrum gögnum. Þá sér maður ansi fljótt að það er ýmislegt athugavert við vinnubrögð skýrsluhöfunda.

Skýrsluhöfundar rökstyðja mál sitt þannig að þróunarsamstarf fellur undir - og þarf því að vera í samræmi við - utanríkisstefnu. Ennfremur þarf þróunarsamstarf að vera í samræmi við hagsmunarekstur erlendis þar sem hann "er, og verður, grundvallarstoð íslenskrar utanríkisstefnu." Tvær leiðir virðast koma til greina; að ÞSSÍ renna algjörlega saman við utanríkisráðuneytið eða að ÞSSÍ verði sjálfstæð undirstofnun innan ráðuneytisins. Svo er fjallað um fyrirkomulag í nágrannaríkjum og nokkrum OECD löndum og þessar 2 leiðir metnar út frá því. Haldið er fram að "þróunarsamvinna er alls staðar talinn órjúfanlegur hluti af utanríkisstefnu" í þeim löndum sem voru skoðuð. Þannig að fyrri leiðin er fýsilegasti kostur. En hvað með fyrirkomulag í þeim löndum sem voru ekki skoðuð?

Í viðauka IV er talið upp stoðefni sem var notað við gerð skýrslunnar. M.a. eru fjölmargar OECD DAC Peer Review skýrslur sem hafa verið gefnar út á undanförnum árum. Þar á meðal skýrslan um Bretland sem kom út á síðasta ári. En ekki er fjallað um Bretland í þeirri umfjöllun sem nefnd var áðan. Bretar eru ekki heldur með í viðauka VI þar sem sagt er í stuttu máli frá fyrirkomulagi í "nágrannalöndunum" og "völdum OECD löndum". Írland er með. Nýja Sjáland er m.a.s. með. En ekki Bretland.

Bretland hefur nefnilega farið allt aðra leið en þau lönd sem skoðuð eru af skýrsluhöfundum. Það vekur furðu að skýrsluhöfundar skyldu ekki hafa Bretland með sérstaklega vegna þess að þeir fá svo mikið lof (og þetta er frá "jafningjum" muniði) fyrir sitt stjórnsýslufyrirkomulag. Hjá Bretum er nefnilega sjálfstæð stofnun, Department for International Development, og ráðherrasæti fyrir "Secretary of State for International Development". Og til að toppa allt var ákveðið að eitt megin stefnumarkmið þjóðarinnar skyldi vera að draga úr fátækt í heiminum. Þetta gengur þvert á útgangspunkt höfunda skýrslu utanríkisráðuneytisins, þ.e. að fella þurfi markmið þróunarsamstarfs að hagsmunarekstri íslendinga.

Þessi leið, að ÞSSÍ verði áfram sjálfstæð og verkefni ráðuneytisins færð til hennar, er reyndar nefnd en ekki fjallað um hana sérstaklega. Skýrsluhöfundum finnst hún bara ekki fýsilegur kostur. Augljóslega kallar slíkt á töluvert umfangsmeiri breytingar en verið er að leggja til. En eru höfundar með því að skoða þá ekki að segja að það sé ekki fýsilegt að eitt af megin markmiðum þjóðarinnar verði að draga úr fátækt? Eða að ekki sé fýsilegt að dregið verði úr hagsmunarekstri utanríkisráðuneytisins? Hver er útgangspunkturinn - eigum við (getum við) að hugsa fyrst um aðra eða okkur sjálf?

Af hverju ekki að skoða þessa leið betur, ef ekki til annars en að sýna að hugsað hafi verið fyrir öllu? Voru skýrsluhöfundar kannski með eitthvað í huga þegar lagt var út í þetta?


Held ég sé sammála ráðuneytinu núna - óhjákvæmilegar breytingar

Ég fékk skýrsluna í dag og hef bara náð að renna fljótt yfir hana. Ég veit s.s. ekki hvort fréttamenn sem sögðu frá þessu á mbl.is í morgun hafi verið búnir að lesa þetta en fréttin var svolítið ósanngjörn. Fljótt á litið sýnist mér skýrslan vera mjög skynsöm í alla staði og tillögur til bóta og í samræmi við breyttar skuldbindingar okkar og annarra þjóða í þróunarmálum.

Eins og segir í þessari frétt er ekki lagt til að ÞSSÍ verði lögð niður. Lagðar eru fram tvær hugsanlegar leiðir í málin - leið 1., að ÞSSÍ verði áfram sjálfstæð stofnun með skýrt verksvið þannig að ráðuneyti og ÞSSÍ geti samræmt betur samstarf og leið 2., að ÞSSÍ renni saman við ráðuneytið og verður partur af þróunarsamvinnusviði þess.

Þessar tillögur ættu ekki að koma neinum á óvart sem vissi að endurskoðun væri í gangi. Svona er bara þróunarsamstarf í dag. Eitt meginmarkmið í Þúsaldaryfirlýsingunni er að hnattvæðing virki sem jákvætt afl í lífi allra jarðarbúa (1.5). Þannig að það er ekki hægt að skilja á milli utanríkisstefnu sem miðar að því að mæta þeirri áskorun sem felst í hnattvæðingunni og þróunarsamstarfs.

Ég reyni kannski að lesa skýrsluna betur í kvöld og hef þá væntanlega meira að segja...
mbl.is Utanríkisráðuneytið hafnar fullyrðingum framkvæmdastjóra ÞSSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efasemdir um þessa stefnu en hissa að þetta komi á óvart

Utanríkisráðherra gerði grein fyrir því 17. janúar hvernig endurskoðun þróunarsamstarfs miðaði og bauð m.a.s. öllum landsmönnum að koma með athugasemdir. Það að breytingar verða gerðar ætti ekki að koma neinum á óvart. Hins vegar er spurning hvort akkúrat þessar breytingar voru fyrirsjáanlegar.

Í raun er ég sammála að það má breyta ýmsu í starfsemi ÞSSÍ. Það þarf heildaryfirsýn yfir þróunaraðstoð á Íslandi og mér þykir eðlilegt að það verði hlutverk opinberar stofnunnar eins og ÞSSÍ. ÞSSÍ hefur hins vegar ekki gegnt slíku hlutverki heldur hefur hún bara verið einn af mörgum sem vinna að þróunarmálum.

Það að nú skuli lagt til að ÞSSÍ verði fært inn í ráðuneytið finnst mér afar slæm hugmynd og ekki í samræmi við tillögur sem alþjóðlegar stofnanir eins og SÞ og OECD leggja til. Í jafningjamatsskýrslu OECD á þróunarstarfi Breta, sem var gefin út 2006, er sérstaklega bent á heppilegt stjórnsýsluskipulag þeirra í þróunarmálum. Þar er talið skipta sköpum að sjálfstæð stofnun, Department for International Development (DFID), skuli hafa yfirumsjón með stefnumótun, samræmingu og mati á þróunarstarfi breta í heild. Kannski væri ráðlegra fyrir okkur að halda í ÞSSÍ en að breyta starfseminni svo hún samræmist meira DFID?

Bíð núna eftir skýrslunni áður en ég segi meir...
mbl.is Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reglur Asimovs tryggja ekki völd mannsins heldur að vélmenni skaði ekki menn - eða mannkyn?

Það er nú ekki alveg rétt að reglur Asimovs hafi verið til þess að tryggja völd mannsins yfir vélmennum þó reglu 2 mætti skilja þannig eina og sér. En reglurnar eru þaulhugsaðar og Asimov gerði margar tilraunir með reglurnar og lagfærði í sögum hans um vélmenni. En það sem er mikilvægast að skilja er að reglurnar mynda allar eina heild og eru leiddar af hverri annarri. Reglurnar 3 eru þessar (nenni ekki að þýða):
  1. A robot may not injure a human being or, through inaction, allow a human being to come to harm.
  2. A robot must obey orders given it by human beings except where such orders would conflict with the First Law.
  3. A robot must protect its own existence as long as such protection does not conflict with the First or Second Law.

Augljóslega getur vélmenni breytt gegn skipun manns ef skipunin brýtur í bága við höfuðregluna.

Reyndar bætti Asimov einni reglu við sem hann kallaði Núlltu regluna - svonefnd því hún nær yfir 1. regluna (og þar með allar hinar):

A robot may not harm humanity, or, by inaction, allow humanity to come to harm.

Þessi regla er nokkuð mikilvæg því hún breytir algjörlega áherslum hinna með því að nefna "mannkyn" í stað manns. Túlka má regluna þannig að hugsanlega má vélmenni skaða mann ef það er mannkyninu til góða. Ef ég man rétt reyndist svolítið erfitt að láta þessa reglu ganga upp.

Ég held að það hafi alltaf verið ljóst að setja þyrfti svona reglur einhverntíma. Það að Asimov skyldi setja þær fram fyrir næstum því 65 árum (reyndar voru þær að mótast fyrir þann tíma en þetta er ártalið sem Asimov sjálfur gaf alltaf upp) og þær þykja enn svo skynsamlegar hlýtur að teljast nokkuð merkilegt.

(06.05.2007) Bæti við myndskeið um þetta sem var sett á mbl.is í dag: http://www.mbl.is/mm/frettir/myndskeid.html?file_id=17538
mbl.is Siðareglur um samskipti manna og vélmenna settar í Suður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref í réttu átt en hvað með alþjóðlegu skólana sem eru fyrir?

Það er gott að sjá að utanríkisráðuneytið er að huga að aðgerðum til að hlúa að þörfum útlendinga sem koma hingað til starfa en ætla sér ekki endilega að setjast hér að. Þetta hentar t.d. þeim sem koma til að sinna rannsóknarstörfum, hátæknistörf og þ.h. Mjög móbílt lið sem á það til að flakka svolítið um heiminn. En það þarf fleira að gerast líka og kannski eru að opnast augu manna fyrir því. Nefni þá sérstaklega landvistarleyfarmálin fyrir stúdenta og rannsóknafólk sem koma annarstaðar frá en Evrópu. Gæti orðið skynsamlegt "næsta skref" að fara að skoða það.

En það vekur heilmikla furðu að í þessari frétt skuli rætt um alþjóðlegan skóla á Íslandi eins og slíkt sé alls ekki til staðar fyrir. Hvað með Alþjóðlega skólann í Garðabæ og International Baccalaureate námið í MH? Væri ekki skynsamlegt að skoða hvort hægt sé að styrkja þá áður en við förum að byggja upp eitthvað nýtt frá grunni?
mbl.is Hugmyndir um alþjóðlegan skóla á Íslandi þar sem námsefni yrði á ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað með hitt? Tækin, auðir diskar, o.s.frv.

Þetta er góð spurning hjá honum Gísla. En af hverju talar hann ekki um öll hin gjöldin sem renna til réttindahafa (eða samtök "þeirra")? Innheimtumiðstöð gjalda fær margar miljónir af sölu diska og tækja hvort sem þau eru notuð til að fjölfalda tónlist eða ekki. Þar að auki eru STEF gjöld innheimt tvisvar ef heyrist í útvarpi á opinberum stað (útvarpsstöðin borgar og staðurinn sem dirfist að láta heyrast í útvarpi).

Þetta er eins og að láta fólk borga tvisvar fyrir bílastæði - einu sinni fyrir notkun á bílastæðinu og svo líka sekt ef maður skyldi fara yfir á tíma (svo þarftu auðvitað að borga sektina aftur ef þú ferð yfir). Þar að auki þarf að borga fyrir hvert dekk. Og sama gildir um reiðhjól, barnavagna, hjólaskauta og innkaupatöskur á hjólum.

Það er hreint ótrúlegt hvað STEF kemst upp með að rukka oft fyrir sama hlutinn.


mbl.is Segir neytendur greiða oft fyrir sama afnotaréttinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

700.000 fjölgun í rannsóknarstörf - ekki útskrifaða doktora

Rektor segir að Evrópusambandið vilji fjölga útskrifuðum doktorum í Evrópu um 700.000. Ekki segir hvaðan rektor hefur þessar tölur en mig grunar að verið sé að vitna í skýrslu Framkvæmdastjórnar ESB Investing in research: an action plan for Europe (2003). Ef svo er er þetta ekki alveg rétt hjá rektor því í skýrslunni segir, "700 000 additional researchers, are deemed necessary to attain the objective". Ekkert um að það þurfi að útskrifa svona marga doktora, bara að það þurfi svona marga í rannsóknarstörf. Partur af vandamálinu er að doktorar fara oft í önnur störf en rannsóknastörf. Að útskrifa fleiri breytir því ekki.

Þetta poppar upp af og til í skýrslum Framkvæmdastjórnarinnar og aldrei er þetta túlkað á þann hátt sem rektor virðist gera. Heldur er talað um að það þurfi að laða hæft fólk til rannsóknastarfa í Evrópu og það þarf að reyna að halda hæfu fólki í rannsóknastörfum. Auðvitað þarf líka að hvetja háskóla til að gera sitt til að mæta þessari þörf. En fyrst og fremst er þetta spurning um starfsumhverfi, kjör og hreyfanleika rannsóknafólks innan Evrópu og um allan heim.

Það er afar hæpið að við náum að útskrifa 550 doktora á næstu 3 árum og spurning hvort við þurfum að gera það. Ef við viljum vera raunsæ væri skynsamlegt að skoða líka hvort hömlur séu fyrir flutningi útlensks rannsóknafólks til landsins (og þá sérstaklega þeirra sem koma utan Evrópu) og skoða kjör og starfsumhverfi rannsóknafólks.
mbl.is 100 doktorar þurfa að útskrifast á ári til að ná markmiðum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það býr engin til vefsíðu í gegnum farsíma

Eitt að þessu að mínu mati - farsímar geta veitt fólki aðgang að upplýsingum sem eru að finna á netinu. En ég myndi ekki vilja blogga, vinna með wiki-færslur, eða búa til og uppfæra annað vefefni í gegnum síma. Þeir sem halda að símar greiði fyrir aðgengi að netinu eru að misskilja hvað er svona gagnlegt við netið. Að komast í það efni sem er til er eitt. En að framleiða efni og hafa áhrif á það efni sem til er fyrir hefur miklu meira að segja. Vissulega geta þróunarlönd haft gagn af því efni sem er þegar til á netinu, en þau græða mest á því að fá að miðla sinni þekkingu og reynslu.
mbl.is Vöxtur netsins liggur í fjölgun farsímanotenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband