Skýrslan um þróunarsamstarf - af hverju voru ekki allir kostir skoðaðir?

Jæja, þá er ég loksins búinn að fara í gegnum þessa skýrslu. Eins og ég sagði hér er alls ekki ætlunin að leggja ÞSSÍ niður. Hugmyndin er frekar að ÞSSÍ sameinist utanríkisráðuneytið svo að hægt sé að straumlínulaga þróunarsamstarf íslendinga. Þetta er vel rökstutt í skýrslunni og meikar fullkomið sens svo lengi sem lesandinn fer ekki að róta í öðrum gögnum. Þá sér maður ansi fljótt að það er ýmislegt athugavert við vinnubrögð skýrsluhöfunda.

Skýrsluhöfundar rökstyðja mál sitt þannig að þróunarsamstarf fellur undir - og þarf því að vera í samræmi við - utanríkisstefnu. Ennfremur þarf þróunarsamstarf að vera í samræmi við hagsmunarekstur erlendis þar sem hann "er, og verður, grundvallarstoð íslenskrar utanríkisstefnu." Tvær leiðir virðast koma til greina; að ÞSSÍ renna algjörlega saman við utanríkisráðuneytið eða að ÞSSÍ verði sjálfstæð undirstofnun innan ráðuneytisins. Svo er fjallað um fyrirkomulag í nágrannaríkjum og nokkrum OECD löndum og þessar 2 leiðir metnar út frá því. Haldið er fram að "þróunarsamvinna er alls staðar talinn órjúfanlegur hluti af utanríkisstefnu" í þeim löndum sem voru skoðuð. Þannig að fyrri leiðin er fýsilegasti kostur. En hvað með fyrirkomulag í þeim löndum sem voru ekki skoðuð?

Í viðauka IV er talið upp stoðefni sem var notað við gerð skýrslunnar. M.a. eru fjölmargar OECD DAC Peer Review skýrslur sem hafa verið gefnar út á undanförnum árum. Þar á meðal skýrslan um Bretland sem kom út á síðasta ári. En ekki er fjallað um Bretland í þeirri umfjöllun sem nefnd var áðan. Bretar eru ekki heldur með í viðauka VI þar sem sagt er í stuttu máli frá fyrirkomulagi í "nágrannalöndunum" og "völdum OECD löndum". Írland er með. Nýja Sjáland er m.a.s. með. En ekki Bretland.

Bretland hefur nefnilega farið allt aðra leið en þau lönd sem skoðuð eru af skýrsluhöfundum. Það vekur furðu að skýrsluhöfundar skyldu ekki hafa Bretland með sérstaklega vegna þess að þeir fá svo mikið lof (og þetta er frá "jafningjum" muniði) fyrir sitt stjórnsýslufyrirkomulag. Hjá Bretum er nefnilega sjálfstæð stofnun, Department for International Development, og ráðherrasæti fyrir "Secretary of State for International Development". Og til að toppa allt var ákveðið að eitt megin stefnumarkmið þjóðarinnar skyldi vera að draga úr fátækt í heiminum. Þetta gengur þvert á útgangspunkt höfunda skýrslu utanríkisráðuneytisins, þ.e. að fella þurfi markmið þróunarsamstarfs að hagsmunarekstri íslendinga.

Þessi leið, að ÞSSÍ verði áfram sjálfstæð og verkefni ráðuneytisins færð til hennar, er reyndar nefnd en ekki fjallað um hana sérstaklega. Skýrsluhöfundum finnst hún bara ekki fýsilegur kostur. Augljóslega kallar slíkt á töluvert umfangsmeiri breytingar en verið er að leggja til. En eru höfundar með því að skoða þá ekki að segja að það sé ekki fýsilegt að eitt af megin markmiðum þjóðarinnar verði að draga úr fátækt? Eða að ekki sé fýsilegt að dregið verði úr hagsmunarekstri utanríkisráðuneytisins? Hver er útgangspunkturinn - eigum við (getum við) að hugsa fyrst um aðra eða okkur sjálf?

Af hverju ekki að skoða þessa leið betur, ef ekki til annars en að sýna að hugsað hafi verið fyrir öllu? Voru skýrsluhöfundar kannski með eitthvað í huga þegar lagt var út í þetta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband