Eru tæknibönn bara til að takast ekki á við raunveruleikann?

cell-phone-ban
Í Fréttablaðinu í dag, 13. febrúar, er stutt frétt um notkun nemenda á farsímum í skólum. Þar segir Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands, m.a. að það þurfi að kenna börnum að nota þessi tæki, eins og önnur, í samræmi við almennar samskiptareglur. Eins og Svanhildur bendir á þá eru þetta auðvitað mjög öflug tæki sem nýtast á ýmsan hátt, s.s. upplýsingaleit, samskipti, samstarf, sköpun og margt fleira. En raunin er, að sárafáir skólar leyfa notkun þessara tækja. Líklega eru ýmsar ástæður gefnar fyrir farsímabönnum, en ég held að helsta ástæðan komi fram í því sem haft er eftir Óskari S. Einarssyni, skólastjóra Fossvogsskóla, að “verið [er] að reyna að finna leiðir til þess að geta nýtt farsíma”. Þá spyr ég, af hverju, þegar farsímar hafa verið áberandi í samfélaginu eins lengi og raunin er og þykja nú nauðsynlegir í flestum störfum og annarri iðju utan skóla, er verið að “reyna að finna leiðir” núna? Af hverju er ekki löngu búið að því? Það er fátt sem hefur gerst í tengslum við þróun farsíma og snjallsíma síðustu 10 árin sem hefur komið á óvart. Það hefði verið hægt að hugsa út í þetta fyrir löngu.

Vandinn með bann-hneigðina, sem einkennir oft afstöðu skólafólks gagnvart upplýsingatækni, er að hún leiðir til sýndaraðgerða. Þegar skóli bannar farsíma, Facebook, eða hvaða tækni sem er, þá gefur hann sig út fyrir að vera að taka afstöðu og fylgja henni eftir með aðgerðum. Raunin er, hins vegar, að það að banna tækni sem fellur vel að öllum helstu markmiðum menntunar og þykir þarfasta tól í daglegu lífi utan skóla er ekkert annað en frestun, og þar með aðgerðaleysi. Bann á slíkri tækni felur í sér viðurkenningu að tæknin er til staðar og hún hefur áhrif, en viðkomandi stofnun ætlar bara ekki að díla við hana á þessari stundu.

Fartæknin, þ.e. snjallsímar og spjaldtölvur, hefur breiðst út hraðar en nokkur upplýsingatækni sem á undan hefur komið. Nú eru tæplega 6 ár síðan snjallsímavæðingin hófst fyrir alvöru (miðað við fyrsta iPhone síma Apple) og fæstir skólar hafa enn mótað raunverulega stefnu um hvernig skuli nýta þessa tækni í þágu menntunar. Ef þetta er raunin í dag, hver verður staðan eftir næstu 6 ár? Hvað ætla skólar að gera þegar fartæknin verður orðin nánast ósýnileg á næstu árum? Verða skólar tilbúnir þegar nemendur mæta í kennslustofu og kennarinn hefur enga leið til að vita hvort þeir eru að hlusta á sig eða að kaupa nýtt geimskip af Eve Online spilara í Timbúktú? Ætla skólar þá ennþá að vera að “reyna að finna leiðir” til að nýta 6 ára gamla tækni?

Bloggfærslur 13. febrúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband