Tölfræðilegur misskilningur eða blekkingar?

Í gær (10.06.2015) birtist frétt á vef Viðskiptaráðs Íslands sem hefst á þessum orðum:

„Áætluð fjarvera starfsfólks vegna veikinda er tvöfalt meiri á opinberum vinnustöðum en á almennum vinnustöðum. Þetta er ein af niðurstöðum þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sem kynntar voru í síðasta mánuði.”

Nei, þetta er ekki ein af niðurstöðum verkefnisins sem vísað er til. Ein af niðurstöðunum er að hlutfall fjarveru var hærra á þeim opinberu vinnustöðum sem tóku þátt í verkefninu í samanburði við einkarekna vinnustaði sem tóku þátt. Tekið er fram í grein um verkefnið (bls. 43) að:

„Mikilvægt er að hafa í huga, þegar skoðaðar eru niðurstöður frá söfnun lykiltalna hjá þátttökufyrirtækjum, að fjöldi og gerð fyrirtækja og stofnanna sem tóku þátt í verkefninu Virkur vinnustaður var takmarkaður og því er ekki hægt að yfirfæra tölurnar almennt yfir á opinberan og almennan vinnumarkað.”

Samt gerir greinarhöfundur VÍ nákvæmlega þetta - yfirfærir niðurstöður um takmarkað úrtak á þýðið og ályktar út frá því að niðurstöður lýsi almennu ástandi.

Það sem verra er er að greinarhöfundur veit af takmörkunum tölfræðilegu greiningarinnar sem hann er að vísa í en reynir samt að réttlæta alhæfingar sínar. Í lok greinarinnar bendir höfundur á að:

„Þar sem fjöldi vinnustaða í þróunarverkefninu var takmarkaður gefur þróunarverkefnið ekki endanlega niðurstöðu um tíðni veikinda á opinberum og almennum vinnumörkuðum.”

Þá vaknar spurningin, af hverju er hann þá að nota niðurstöðurnar til að alhæfa um opinbera og almenna vinnumarkaði? Greinarhöfundur er með tilbúið svar:

„Þá þarf að athuga að í upphafi verkefnisins, árið 2011, fóru þeir vinnustaðir sem tóku þátt í greiningu á fjarveru og útbjuggu fjarverustefnu með þátttöku starfsmanna sem samþykkt var af stjórnendum og innleidd í kjölfarið. Það gefur vísbendingu um að veikindafjarvera gæti verið meiri á opinberum og almennum vinnumarkaði í heild.”

Þetta er óskiljanlegt. Af hverju ætti það að viðkomandi vinnustaðir fóru í stefnumótun árið 2011 að breyta tölfræðilegum takmörkunum greiningarinnar sem er verið að fjalla um? Það er kannski vísbending um að þetta þyrfti að kanna betur en réttlætir ekki alhæfingar.

Hér er annaðhvort verið að misskilja tölfræðina sem byggt er á eða verið að beita blekkingum.


mbl.is Veikindi tvöföld hjá hinu opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband