Rök gegn því að háskólar taki upp skólagjöld

Skolagjold_throun_1978-2012b

Í fréttum Stöðvar 2 í gær (09.02.2014) var rætt við Frosta Ólafsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, um skólagjöld í HÍ. Þar lýsti hann því yfir fyrir hönd Viðskiptaráðs að háskólar á Íslandi ættu að innheimta skólagjöld. Helstu rökin hans eru að háskólanám er persónuleg fjárfesting sem skilar arði fyrir viðkomandi og þar af leiðandi ætti einstaklingurinn að bera kostnaðinn. Þetta er hins vegar alls ekki eins skýrt og Frosti vill láta. Ávinningur af menntun fólks er margþættur og hagur fyrir bæði viðkomandi og samfélagið í heild. 
 
Með ummælum sínum kemur Frosti inn á nokkuð flókna umræðu sem á sér töluverða sögu. Spurningin sem umræðan snýst um er þessi: Á að líta á menntun einstaklinga sem almannagæði eða einkagæði (þetta eru tæknileg hugtök úr hagfræðinni sem ég vona að ég sé að þýða rétt: almannagæði=public good, einkagæði=private good)? Hér á landi og víða í Evrópu hefur almennt verið litið svo á að menntun einstaklinga leiðir af sér þekkingu sem gagnast samfélaginu og telst því til almannagæða. Þannig er hægt að réttlæta það að ríkið kosti menntun einstaklinga að miklu eða jafnvel að mestu leyti. Hins vegar mátti greina í umfjöllun Frosta að hann lítur á menntun fyrst og fremst sem einkagæði þeirra einstaklinga sem hana hljóta og því réttlætanlegt að viðkomandi beri sjálfur kostnaðinn enda er menntunin fjárfesting í eigin framtíð. Þetta svipar mjög til hugsunarhátta sem hafa orðið ríkjandi í Bandaríkjunum og orðið til þess að skólagjöld þar í landi hafa rokið upp úr öllu valdi. Að mínu mati er þetta hættulegur hugsunarháttur sem getur haft mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið.
 
Umræðan um hvort menntun telst til almannagæða eða einkagæða er töluvert flóknari en svo að þetta sé einungis spurning um það hver hagnast af menntuninni. Munurinn á almannagæðum og einkagæðum felst í eðli tiltekinnar vöru eða þjónustu en ekki hver hagnast af henni. 
 
 
Hver er munurinn almannagæðum og einkagæðum?
 
Almannagæði: Almannagæði eru vörur eða þjónusta sem eru sagðar vera aðgengilegar (e. non-rival) og ekki útilokanlegar (e. non-excludable).
 
- Það að eitthvað sé aðgengilegt í þessum skilningi þýðir að varan eða þjónustan rýrnar ekki vegna neyslu á henni. Klassískt dæmi um almannagæði eru vitar. Vitar varpa ljósi út á haf til að stýrimenn skipa geti áttað sig á staðsetningu skipsins. Þegar stýrimaður eins skips hefur notað ljós vitans í þessum tilgangi þá er ekki minna ljós eftir fyrir önnur skip. Neysla á ljósi vitans takmarkar ekki aðgengi þeirra sem á eftir koma. Ljósið af vitanum er því jafn aðgengilegt öllum óháð því hversu margir hafa áður notað það.
 
- Það að vara eða þjónusta er ekki útilokanleg þýðir að það er ekki hægt að koma í veg fyrir að tilteknir aðilar neyti hennar. Það er að segja að það er ekki hægt að takmarka neyslu vörunnar eða þjónustunnar við þá sem hafa sérstaklega áunnið sér rétt til þess, t.d. með því að borga fyrir hana. Hér er aftur gagnlegt að taka vita sem dæmi. Það er ekki hægt að takamarka neyslu ljóssins af vitanum þannig að aðeins þeir sem hafa sérstaka heimild til þess geti notað það, eða að slíkt myndi ekki svara kostnaði. Þannig að ljósið af vitanum verður sjáanlegt hvort sem sjáandinn hafi sérstaka heimild til að nota það eða ekki.
 
Einkagæði: Einkagæði eru þær vörur eða þjónustur sem er hægt að stýra aðgengi að og hægt að útiloka eða takmarka neyslu.
 
- Klassískt dæmi um einkagæði er brauðhleifur. Brauðhleifur er ekki aðgengilegur (e. rival) vegna þess að þegar einn aðili hefur borðað brauðið er útilokað að nokkur annar geti borðað það. Ennfremur, þegar búið er að selja og borða alla brauðhleifa, þá fær enginn brauð. Brauðhleifur er útilokanlegur (e. excludable) vegna þess að neytandinn fær ekki að njóta brauðsins nema að hann borgi fyrir.
 
Telst menntun til almannagæða eða einkagæða? 
Þá komum við aftur að spurningunni sem við byrjuðum með: telst menntun til almannagæða, það er að segja er hún aðgengileg og óútilokanleg; eða telst hún til einkagæði, það er að segja að hægt er að takmarka aðgengi og útiloka tiltekna einstaklinga frá því að neyta hennar?
 
Þá kemur upp önnur spurning (munið, ég sagði að þetta er flókið): Hver er varan eða þjónustan sem við erum að tala um? Er það menntunarferlið eða er það þekkingin/reynslan sem verður til í mennuntarferlinu?
 
Vissulega er hægt að takmarka aðgengi að menntunarferlinu og menntunarferlið er útilokanlegt. Eins og menntun gengur fyrir sig í dag þá notum við ýmsar aðferðir til að stýra aðgengi að menntunarferlinu. T.d. við setjum lágmarkskröfur fyrir aðgengi að námi, námsfólk þarf að fórna ýmsu fyrir að stunda nám og skólarými/starfslið skóla setur vissar takmarkanir fyrir því að allir geti neytt vörunnar og þjónustunnar sem felst í menntunarferlinu. Þannig mætti segja að það er margt við það að stunda nám sem líkist einkagæðum.
 
Það gildir hins vegar allt annað um þekkinguna og reynsluna sem verður til vegna menntunar. Við gerum ráð fyrir að einstaklingur sem menntar sig öðlast þannig þekkingu og reynslu sem nýtist í þágu samfélagsins. Þekking þessara einstaklinga rýrnar ekki við notkun (eins og til dæmis brauðhleifurinn) og líkist þess vegna almannagæðum. Hins vegar er spurning að hve miklu leyti þekkjandinn getur takmarkað aðgengi að eigin þekkingu.
 
Hér verða málin svolítið loðin og óljós. Auðvitað getur einstaklingur sett upp gjaldskrá fyrir þjónustu eða vöru sem er afurð eigin þekkingar. Vel flestir menntaðir einstaklingar gera það. Við þurfum að borga til að fara til læknis, kennari kennir ekki nema að hann þiggi laun, o.s.frv. En hvort sem við borgum fyrir þjónustu þessara einstaklinga eða ekki, þá njótum við samt góðs af vörum eða þjónustu sem þeir selja. Það skiptir mig miklu máli að þeir sem ég vinn með eru við góða heilsu. Ég hef líka beinan hag af því að aðrir í samfélaginu, jafnvel þeir sem ég þekki ekki neitt, séu sæmilega vel menntaðir - ég vil t.d. að mínir samborgarar sem taka þátt í borgarlegum kosningum samhliða mér, séu færir um að taka upplýsta ákvörðun. Ennfremur, það sem skiptir kannski mestu máli, er að ég vil vera viss um að þeir sem á þurfa að halda (hvort sem það eru stjórnmálamenn, nágrannar eða aðrir) geti sótt í áreiðanlega þekkingu þegar hennar er þörf. Þannig nýti ég mér þekkingu menntaðs fólks í gegnum áhrif þeirra á samfélagið í heild og það er ekki hægt að takmarka aðgengi mína að slíkum afurðum hvort sem ég hef borgað fyrir hana eða ekki.
 
Niðurstaðan er þá þessi: þekking sem verður til vegna menntunar telst til almannagæða vegna þess að hún rýrnar ekki við neyslu og það er ekki hægt að takmarka aðgengi tiltekinna einstaklinga að afurðum þekkingar menntaðs fólks. Menntun sem slík telst einnig til almannagæða vegna þess að hún er nauðsynlegur þáttur í að tryggja að sú þekking sé til staðar.
 
Niðurstaðan 
Vörur og þjónusta sem teljast til almannagæða eru ekki sérlega markaðsvæn. Þar sem almannagæði eru aðgengileg og ekki hægt að takmarka þau þá er erfitt að græða á framleiðslu þeirra. Það er ekki hægt að takmarka neyslu þeirra við þá sem hafa greitt fyrir. En þar sem almannagæði eru samt sem áður nauðsynleg fyrir samfélagið þarf að tryggja að þau séu fyrir hendi. Þar af leiðandi eru almannagæði yfirleitt kostuð af hinu opinbera. Ef þekking menntaðs fólks telst til almannagæða og er nauðsynleg fyrir samfélagið þá er eðlilegt að hið opinbera komi að kostnaðinum af því að tryggja að hún sé til staðar.
 
Rök Frosta fela í sér breytt gildismat þar sem gæði menntunar eru metin út frá einstaklingnum frekar en samfélaginu sem heild. Það verður því einstaklingurinn sem ber allan kostnað og ber ábyrgð á því að endurheimta útlagðan kostnað á starfsævinni. Þar af leiðandi er kominn töluverður áhættuþáttur í því að afla sér menntunar. Þetta getur orðið til þess að fæla suma frá námi og haft áhrif á námsval þeirra sem kjósa að fara í nám. Þeir sem fara í nám verða þá líklegri til að kjósa annaðhvort nám sem þeir telja lofa skjóta endurheimt á útlögðum kostnaði eða tiltölulega einfalt, fljótlegt og áhættulítið nám. Útkoman verður einsleit þekkingarflóra sem getur ekki tryggt aðgengi að nauðsynlegri þekkingu hverju sinni í samfélaginu. Þetta má sjá nú þegar víða í Bandaríkjunum þar sem framsæknustu tæknifyrirtæki berjast fyrir því að fá aukaheimildir til að flytja inn hámenntað vinnuafl vegna þess að þau hafa ekki aðgang að þekkingunni sem þau telja sig þurfa meðal Ameríkana sjálfra. Eftir sitja fjölmargir ungir Ameríkanar, skuldugir upp fyrir haus og með þekkingu sem vinnumarkaðurinn metur lítils. Maður sér þá gjarnan bakvið afgreiðsluborðið á Starbucks Coffee að ræða um fordæmisgildi vinnustaðalöggjafarinnar sem þeir lærðu um í laganáminu meðan þeir þeyta mjólk í latté viðskiptavinarins (sem er sennilega stjarneðlisfræðingur starfandi hjá Google fyrst hann hefur efni á kaffi á Starbucks).
 
Mynd fengin af vef Nörd Norðursins:  http://nordnordursins.is/2013/02/leikur-ad-laera-a-tolvuold/

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband