17.2.2011 | 15:36
Forsetinn ætti að hafna þessum undirskriftalista
Undirskriftalisti kjosum.is er ómarktækur og það er alfarið forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar að kenna. Undirskriftasöfnun er opinber yfirlýsing sem fólk kýs að leggja nafn sitt við. Hún er ekki kosning og ekki skoðanakönnun. Þeir sem kjósa að taka undir opinbera yfirlýsingu af þessu tagi eiga ekki rétt á nafnleynd frekar en sá sem stendur á Austurvelli með mótmælaskilti. Andstætt því sem Hallur Hallsson hélt fram í frétt á mbl.is í gær er ekkert í persónuverndarlögum sem bannar að birta nöfn eða kennitölur þeirra sem af fúsum og frjálsum vilja leggja nafn sitt við svona yfirlýsingu.
Svona tilbúningur gerir lítið úr raunverulegum möguleikum upplýsingatækni til efla virka lýðræðislega þátttöku í ákvörðunum sem skipta samfélaginu máli.
Undirskriftir afhentar á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2011 | 19:57
Merkilegur viðburður í sögu tölvutækni að hefjast í kvöld
Jeopardy er ekki auðveldur leikur. Spurningarnar geta verið mjög snúnar og fela gjarnan í sér orðaleiki og tvískinnung. Þær reyna því verulega á getu keppenda til að skilja óljósar spurningar og að geta kallað fljótt fram svör úr mjög breiðum þekkingargrunni. Watson hefur auðvitað mjög breiðan þekkingargrunn. Það er búið að mata hann af alls kyns upplýsingum um allan fjandann og hann getur farið mjög fljótt í gegnum þekkingargrunninn sinn til að finna upplýsingarnar sem hann þarf. Vandi tölvusmiðana er, hins vegar, að tölvur eru einstaklega lélegar þegar kemur að því að skilja mennskt mál. Tölvur eiga erfitt með að skilja samhengi í daglegu máli. Þetta háði Watson í byrjun og tölvusmiðir voru að því komnir að gefast upp á verkefninu á köflum út af því. En þeir virðast hafa náð að finna út úr því því Watson hefur gengið ótrúlega vel í æfingaleikjum undanfarna mánuði.
Þættirnir með Watson verða sjónvarpaðir á NBC sjónvarpsstöðum í Bandaríkjunum, þegar kl. er 17.30 á austurströndinni 14-16 febrúar (þ.e.a.s. í dag, á morgun og á miðvikudaginn). Ég veit s.s. ekki hvort íslendingar munu geta fylgst með keppninni. Ef ekki verður hægt að fylgjast með beint á netinu þá efast ég ekki um að leikirnir verða komnir á netið fljótlega þar á eftir.
Hér er vefur IBM um Watson. Þar er að finna áhugaverðar upplýsingar og myndskeið þar sem er m.a. sýnt frá æfingaleikjum Watsons.
Hér er vefur Jeopardy spurningaleiksins.
29.1.2011 | 17:37
Tjáningafrelsi, upplýsingaflæði og ný stjórnarskrá
Egypsk yfirvöld beittu mjög óvanalegri aðferð til að loka á netsambandi Egyptalands við umheiminn. Í stað þess að loka á ákveðin vefsvæði eða netþjónustur, eins og er t.d. gert í Kína og víðar, voru upplýsingar sem stýra umferð um egypsk netsvæði fjarlægðar af netinu (svokallaðar "Internet routing tables" sem eru notaðar fyrir BGP samskipti milli beina). Þetta gerir það að verkum að ef reynt er að komast í samband við egypska netið, hvort sem er með netnafni (domain name) eða IP tölu, eru engar upplýsingar um hvaða leið beiðni um upplýsingar á að fara. Eins og sumir hafa orðað það, þá hreinlega hvarf egypska netsvæðið af netinu.
Spurningin sem vakir fyrir mér er þessi: Myndu ákvæði í núgildandi stjórnarskrá um tjáningafrelsi ná til aðgerðar e.o. þeirrar sem egypsk stjórnvöld beittu? Og, ef ekki ættu þau að gera það?
Ég held að þetta sé ekki einföld spurning. Þetta er ekki bara spurning um tjáningafrelsi, heldur mætti líka spyrja t.d. hver á og/eða ræður yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að tryggja upplýsingaflæði um netið?
Er þetta eitthvað sem ætti heima í nútíma stjórnarskrá?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2011 | 23:03
1. Rýnt í Sóknaráætlun 2020
Sóknaráætlun 2020 sem ríkisstjórnin kynnti nú fyrir helgi er merkilegt og þarft verkefni. Sífellt örari breytingar í samfélaginu og umheiminum krefjast þess að gerðar séu langtímaáætlanir um stefnumótun. Það eru að minnsta kosti þrjár ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi, að örar breytingar skapa meiri óvissu og því þarf að hugsa mögulegar breytingar til að vera tilbúin að bregðast við þeim. Í öðru lagi, að örar breytingar gera það að verkum að það sem við teljum í dag að gerist eftir áratug eða meir getur orðið að veruleika mun fyrr. Í þriðja lagi, að aukin samskipti á hnattræna vísu krefjast þess að við skerum okkur úr fjöldanum og til þess þurfum við að skapa okkar eigin framtíð á okkar forsendum - við viljum leiða, ekki fylgja. Þótt ég fagni þessu framtaki ríkisstjórnarinnar eru nokkrir vankantar á framkvæmd og niðurstöðum fyrsta verkþátts þess sem birtist á vef forsætisráðuneytisins fyrir helgi. Það eru sérstaklega tvö atriði sem ég ætla að fjalla um hér. Fyrst er að áhrif upplýsingatækni er stórlega vanmetinn. Hitt varðar markmiðin sem snúa að menntamálum og að einhverju leyti öðrum markmiðum.
Það er ekki annað að sjá en að þátttakendur í sviðsmyndagerðinni telji að það verði litlar sem engar breytingar á upplýsingatækni á næstu 15 árum. Reyndar er gert ráð fyrir að notkun þeirra verði nokkuð útbreiddari en ekki virðist gert ráð fyrir miklum breytingum á eðli tækninnar né hvernig hún er notuð. Þessi yfirsjón varðandi upplýsingatæknina er mikill galli á sviðsmyndagerðinni allri. Upplýsingatæknin hefur þróast ótrúlega ört síðustu ár og það er engin vísbending um að sú þróun eigi eftir að hægjast á komandi árum. Hér er t.d. pistill sem ég skrifaði fyrir sviðsmyndagerð sem ég framkvæmdi um væntanlega þróun upplýsingatækni á komandi árum.
Upplýsingatækni á sérstaklega eftir að hafa áhrif á hvernig við skilgreinum og högum menntun, alþjóðleg samskipti og fl. sem tengist beint sviðsmyndagerðinni fyrir sóknaráætlunina. T.d. lýsir ein sviðsmyndin, "Eyland", mikilli einangrun landsins og afleiðingar þess - s.s. að ferðaiðnaður breytist töluvert þar sem færri erlendir gestir koma til landsins. Hins vegar eru allar líkur á að í nálægri framtíð munum við getað "ferðast" í mjög "raunverulegum" sýndarveruleika þannig að ferðalög feli ekki endilega í sér að við flytjum okkar milli heimssvæða. Þetta hefur auðvitað gríðarleg mikið að segja fyrir þróun ferðamannaiðnaðar á Íslandi.
Tvö markmið af þeim fimmtán sem sett eru fram snúa beint að menntamálum. Þau eru bæði gölluð. Gagnrýni mín á þeim, sem hér fer á eftir, eiga líka að hluta til um önnur markmið sem snúa ekki að menntamálunum.
Fyrst, markmiðin sem sett hafa verið fram í tengslum við sóknaráætlunina miðast allt of mikið við fjölþjóða samanburðarrannsóknir. Að setja fram markmið með þessum hætti er ómarkvisst og skyggir á raunverulegu vandamálin sem ný stefnumótun á að leysa. Eitt markmiðið varðandi menntamálin segir að (markmið nr. 15.),
Árið 2020 verði færni íslenskra grunnskólanemenda sambærileg við 10 efstu þjóðir samkvæmt OECD PISA rannsókninni á lesskilningi og læsi á stærðfræði og raungreinar.
Hitt markmiðið sem snýr beint að menntamálum er nr. 6. og segir,
Að hlutfall Íslendinga á aldrinum 20‐66 ára sem ekki hafa hlotið formlega framhaldsmenntun fari úr 30% niður í 10% árið 2020.
Menntun og skóli | Breytt 14.2.2011 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2010 | 21:41
PISA mælir ekki gæði skóla - um skýrslu Námsmatsstofnunar um PISA
Ég er rétt byrjaður að skima skýrslu Námsmatsstofnunar um PISA 2006 niðurstöður íslenskra nemenda og hef svo sem lítið um hana að segja á þessu stigi. Þó er eitt sem sló mig þegar ég renndi í gegnum hana. Í nokkrum köflum skýrslunnar er notað undarlegt orðalag þar sem talað er um "verri" og jafnvel "verstu" skólana í tengslum við ýmis PISA gögn. Fyrir það fyrsta hljómar þetta ruddalega og er ófagmannlegt. Ennfremur er þetta merkingasnautt þar sem aldrei er útskýrt hvað "verri" eða "verstur" merkir í þessu samhengi, né hvað "betri" eða "bestur" myndi merkja. Í öðru lagi má deila um það hvort PISA mæli gæði skóla yfirleitt. PISA, eins og nafnið bendir til (Programme for International Student Assessment) og eins og skýrt er frá í skýrslunni, er ætlað að mæla frammistöðu nemenda á ákveðnum námssviðum. Þannig eru útkomur á PISA ætlað að auðvelda samanburð á frammistöðu nemendenda frá mismunandi svæðum og löndum. Að meta út frá PISA gögnum hvort einn skóli er betri en annar er mjög hæpið því frammistaða ræðst af mörgu öðru en gæðum skóla, hvernig svo sem við mælum það. Réttast væri þá að segja að nemendur frá vissum svæðum sýni slakari frammistöðu en nemendur frá öðrum svæðum. Að meta áhrif skóla á þessa frammistöðu krefst allt annarar rannsóknar.
Þar að auki er ekki víst að PISA gögn séu marktæk þegar greint er niður á einstaka skóla. PISA könnunin hefur verið þróuð til þess að meta menntakerfi en ekki einstaka skóla og aðferðafræðin er mótuð út frá því. Ef nota ætti PISA til að meta einstaka skóla þyrfti líklega að breyta könnuninni og framkvæmd hennar.
Menntun og skóli | Breytt 29.9.2019 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2010 | 14:46
Hannes Hólmsteinn og Laffer kúrvan
Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur hamrað á því í mörg ár núna að tekjur ríkissjóðs hækka þegar skattar eru lækkaðir. Þetta byggist á hugmyndum hagfræðingsins Arthur Laffer sem er sagður hafa rissað upp hugmyndina á servíettu fyrir Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjana. Laffer teiknaði þetta upp sem kúrvu sem átti að sýna að þegar skattar eru 0% eru tekjur ríkissjóðs $0 og þegar skattar eru 100% eru tekjur ríkissjóðs líka $0 því fólk finnur sér leið til að forðast að borga skatta þegar þeir eru svo háir. Svo átti kúrvan á milli þessara púnkta að lýsa því að á ákveðnu sviði er hægt að hámarka tekjur ríkissjóðs með því að lækka skatta - síðan kallað "Laffer áhrif". Ástæðan í einfaldasta máli er að þegar skattar eru lægri er fólk líklegra til að borga sína skatta og að tekjuaukning launafólks skilar sér einnig til ríkissjóðs með ýmsu móti. Það hefur verið sýnt að hugmynd Laffers gengur upp í ýktum dæmum þegar skattar eru mjög háir til að byrja með (fyrir ofan jafnvægispunktinn - sem ég útskýri á eftir) og lækkunin mjög mikil - t.d. ef skattar eru 90% og svo lækkaðir niður í 50%. Hins vegar virðist það ekki ganga upp ef skattar eru hóflegir til að byrja með og lækkunin ekki mikil. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu og ég nefni helstu hér á eftir.
Hannes hefur oft notað tvö íslensk dæmi til að sýna fram á "Laffer áhrif". Fyrst er skattlausa árið 1987 áður en skipt var yfir í staðgreiðslukerfið og hitt eru skattar af leigutekjum sem voru lækkaðir úr 40-50% í 10%. Bæði eru dæmin um frekar ýktar lækkanir, en einnig var ýmislegt sem fylgdu skattalækkununum sem hefur vafalaust haft áhrif á greiðslu skatta. Varðandi skattlausaárið, í kjölfarið var tekið upp staðgreiðslukerfi á sköttum, sem var ætlað að auka skil á tekjusköttum. Það þyrfti því að taka tillit til þess ef meta á áhrif skattalækkunarinnar einnar. Varðandi leigutekjuskatta, þá fylgdi því leigubótakerfið sem hvatti leigjendur til að sjá til þess að leigutekjur væru uppgefnar, sem var líka sérstaklega ætlað að auka skil á leigutekjusköttum. Það þyrfti þá líka að taka tillit til þess þegar metin eru áhrif skattalækkunarinnar.
Hér er einfalt reikningsdæmi sem sýnir hvað verður um skattatekjur ríkisins þegar skattar eru lækkaðir. Ath. þetta er "raunhæf" lækkun en ekki ýkt lækkun:
Ég gef mér að fyrir skattalækkun eru meðal tekjur Íslendinga kr. 4,2 miljónir á ári. Ég gef mér líka að vinnandi einstaklingar á Íslandi eru 20.000
Ef tekjuskattur í upphafi er 30% þá skilar það kr. 25,2 miljörðum í ríkiskassan á ári ef allir borga það sem þeir eiga. En Laffer gengur auðvitað út frá því að það eru ekki allir að borga. Segjum þá að aðeins um 75% af skattinum náist. Þá er innheimta ríkissjóðs 17,6 miljarðar á ári.
Ef við lækkum skatta í 20% verða ríkistekjur af tekjusköttum kr. 16,8 miljarðar á ári ef allir borga. En segjum að fólk sé enn að svindla þó dregið hafi verulega úr því. Ef við segjum að það náist að innheimta 85% af sköttum þá eru ríkistekjur 14,3 miljarðar á ári.
Það vantar því ennþá 3,3 miljarða í að ríkistekjur verði sömu og fyrir skattalækkun.
Segjum þá svo að allir launþegar landsins eyða allri tekjuaukningunni sem hlaust af skattalækkuninni og að ríkið innheimti vask af því. Tekjuaukningin var kr. 35.000 á mann. Segjum að allir eyða þessu í lúxusvörur og við reiknum hámarks vask (sem myndi þó aldrei vera í raun) þá fást 171,5 miljónir. Þá vantar ennþá 3,13 miljarða í ríkiskassann til að ná því sem áður var!
Ég hef vísvitandi sett dæmið upp á einfaldan hátt miðað við kjöraðstæður fyrir ríkissjóðin. Hagfræðingar myndu reikna þetta allt öðruvísi með breytu sem tekur tillit til teygni (e. elasticity), sem tekur tillit til áhrifa skattalækkana á ýmsar breytur. Í þessu einfalda dæmi gengur hugmyndin greinilega ekki upp. Eflaust hefði skattalækkunin frekari áhrif sem skila einhverjum peningum í ríkiskassan en það er nokkuð greinilegt að það þarf eitthvað mikið að gerast ef skattalækkun sem þessi, ein og sér, á að gefa af sér verulega tekjuaukningu fyrir ríkið.
Laffer kúrvan er þó ekki gagnslaus með öllu. Það sem hún sýnir er að það er einhver jafnvægispunktur (skattaprósenta) þar sem hægt er að hámarka skattatekjur ríkissjóðs. Ef skattaprósentan er til hægri við þennan jafnvægispunkt (þ.e.a.s. hærri prósenta) hefur það neikvæð áhrif á innheimtu skatta. Þá er hægt að hakka skattatekjur með því að lækka skatta. Lækkun skatta hefur hins vegar lítið að segja ef skattaprósentan er til vinstri við jafnvægispunktinn. Innheimta skatta eykst ekki frekar en hún verður ef skattaprósentan er við jafnvægispunktinn og tekjur ríkisins lækka í samræmi við skattalækkunina. Hannes hlýtur því að gera ráð fyrir ákveðnum jafnvægispunkt og að hann sé einhversstaðar í nánd við núverandi skattaprósentu ef hann heldur að skattalækkun nú upp á t.d. 5-10% hafi einhver áhrif á skattainnheimtu. Flestir hagfræðingar í Bandaríkjunum telja að jafnvægispunkturinn þar sé nú um eða yfir 60%, jafnvel alveg upp í 70% (frjálslyndir stjórnmálamenn halda því gjarnan fram að jafnvægispunkturinn sé mun lægri, jafnvel niður í 20%, en forðast að sýna hvers vegna hann ætti að vera svo lágur). Jafnvægispunkturinn er breytilegur eftir aðstæðum því það er ekki aðeins skattaprósentan sem hefur áhrif á ákvörðun hans, heldur fer þetta eftir teygni uppgefinna tekna, sem tekur tillit til margra þátta, þ.e.a.s. að hlutir e.o. möguleikar yfirvalda til að tryggja innheimtu skatta hafa líka áhrif. Þá er allavega ein spurning sem Hannes þarf að svara, er jafnvægispunkturinn fyrir Ísland á Laffer kúrvunni virkilega svo mikið lægri en í Bandaríkjunum að breytingar á skattaprósentu um 5-10% munu hafa áhrif á skattatekjur ríkisins? Með öðrum orðum, er Ísland nú öfugum megin á Laffer kúrvunni með tekjuskatt rétt innan við 40%?
Að lokum (út af því að einhver á eftir að benda á að þetta er í raun það sem Hannes er að fara) - Það er önnur hlið á Laffer kenningunni sem tengist s.k. framboðshliðar kenningum (e. supply-side) í hagfræði. Þessar kenningar nota Laffer kúrvuna á annan hátt - til að sýna að lækkun tekjaskatts hefur jákvæð áhrif á hagvöxt. Þetta er óumdeilt. Skattalækkanir hafa jákvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega til skamms tíma. Það segir sig sjálft, ef almenningur hefur meiri pening milli handa er meira fjárstreymi í samfélaginu. En þetta hangir allt saman. Spurningin er hvort við séum til í að auka hagvöxt á kostnað ríkissjóðs, því það fer ekki milli mála að, miðað við núverandi aðstæður, hafa skattalækkanir neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs. Besta dæmið um það hvernig skattalækkun hefur jákvæð áhrif á hagvöxt um leið og hún hefur neikvæð áhrif á ríkissjóð eru skattalækkanir Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum 2003. Við vitum hvernig það endaði (eða á eftir að enda...).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.11.2010 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2010 | 13:54
Lélegar kannanir í íslenskum fjölmiðlum
Ef næstum fjórðungur svarenda skoðanakönnunar gefa svar sem er ekki hægt að túlka þá er eitthvað að skoðanakönnuninni.
Vísir.is segir í dag frá könnun sinni á afstöðu íslendinga til byggingar mosku í Reykjavík. Sagt er að töluverður meirihluti sé andvígur byggingu mosku. Hins vegar, kemur í ljós að næstum 22% sögðust vera "hlutlausir" - hvað svo sem það þýðir. Það virðist tilhneiging hjá íslenskum fjölmiðlum, eða þeim sem framkvæma skoðanakannanir fyrir þá, að þurfa alltaf að gefa svarmöguleika sem er ekki hægt að túlka, e.o. "hlutlaus/tek ekki afstöðu", "neita að svara" og "mjög/frekar hlynntur eða andvígur". Þetta rýrir gildi skoðanakannana og gerir niðurstöðurnar ómarkverðar. Ég myndi giska að meirihluti skoðanakannana sem sagt er frá í íslenskum fjölmiðlum hafa lítið sem ekkert upplýsingagildi af þessum sökum og eru frekar til þess gerðar að búa til sláandi fyrirsagnir.
Í frétt vísis.is segir að 41,8% eru andvígir (þ.e. þeir sem eru "mjög" eða "frekar" andvígir - hvað svo sem þær aðgreiningar þýða) og 36,6% hlynntir (þ.e. eins hér þeir sem eru "mjög" eða "frekar" hlynntir - hvað svo sem þær aðgreiningar þýða). Ef við gefum okkur að þessi stóri hluti svarenda sem segjast vera "hlutlausir" er sama hvort byggð verði moska eða ekki (þ.e.a.s. "hlutlaus" jafngildir "tek ekki afstöðu") þá má líka segja að 58,2% eru ekki andvígir. Þá erum við að gefa okkur að "hlutlausir" hafa myndað sér skoðun og að "hlutlaus" sé gild og endanleg afstaða. Það getur líka vel verið að "hlutlaus" þýði að viðkomandi hefur ekki myndað sér skoðun og er því óréttlátt að skipa honum í hóp með hlynntum eða andvígum. Gallinn er að við höfum enga leið til að vita hvort er. Sem slíkur eru "hlutlausir" svarendur blandaður hópur sem er ekki hægt að mæla án frekari upplýsinga. Það er samt ekki ólíklegt að allavega einhverjir þeirra sem skipa sér í þennan hóp hafa tekið afstöðu og ættu því réttilega að vera taldir með andvígum eða hlynntum.
14.9.2010 | 12:29
Röng þýðing afskræmir frétt
Sjá frekar um þetta í athugasemdum
Ég rak upp stór augu í morgun þegar ég sá frétt á vef Vísis um nýja skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um "nýsköpun" á Norðurlöndum, sem er kölluð "Norræna nýsköpunarvogin". Í fréttinni er sagt að nýjum aðferðum hafi verið beitt til að meta "nýsköpun" á Norðurlöndum og að þau komi ekkert sérlega vel út. Ég hugsaði með mér að þetta er stórfrétt! Norðurlöndin hafa iðulega komið mjög vel út í könnunum á nýsköpun og hér er komin skýrsla sem segir allt annað.
Mér var farið að finnast þetta svolítið dúbíus. Hvernig getur verið að breyttar matsaðferðir geti gefið svo sláandi ólíkar niðurstöður en allar fyrri skýrslur sem bera saman nýsköpun í mismunandi löndum? Þegar ég fór svo að leita staðfestingar á þessu kom fljótt í ljós að fréttin byggir á kolrangri þýðingu og afskræmir gjörsamlega skilaboðum skýrsluhöfunda. Skýrslan sem rætt er um fjallar ekki um nýsköpun, heldur um frumkvöðlastarfsemi. Orðið "entrepreneurship" hefur verið þýtt sem "nýsköpun" þegar það á auðvitað að vera "frumkvöðlastarfsemi".
Mikið hefur verið rætt um hvaða efni á vefnum er treystandi að nota t.d. í menntun. Er oft sagt að vefir e.o. Wikipedia séu mjög varhugaverðir. Ég held að það þurfi frekar að vara sig á fréttamiðlum sem virðast hafa lítinn áhuga á að ganga úr skugga um réttmæti frétta.
Fjölmiðlar | Breytt 17.2.2011 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2010 | 17:46
Skólar eru ekki fyrirtæki
Ég er að einhverju leyti sammála fulltrúum atvinnulífsins um möguleika tölva í menntun. Það er hægt að gera ótrúlegustu hluti við þær. Hins vegar er spurning um hagræðinguna. Er virkilega hægt að ná fram sparnaði í menntamálum á skömmum tíma með því að nota tölvur eins og haldið er fram? Í skýrslu SA er lagt til að kennsla milli skóla verði sameinuð "með aðstoð fjarskiptatækni". Þetta væri liður í að auka "stærðarhagkvæmni" í skólum og ná þannig fram töluverðum sparnaði. Þetta segir sig nánast sjálft - með þessari notkun fjarskiptatækni ertu með einn kennara sem kennir hópum í 2-3 skólum eða jafnvel fleirum. Einn kennari í stað þriggja - reikningurinn gæti ekki verið einfaldari.
Reynsla og rannsóknir sýna hins vegar að málið er alls ekki svo einfalt. Menntun á lítið sameiginlegt með fyrirtækjarekstri og það er óraunhæft að ætla að ráðstafanir sem virka til hagræðingar í fyrirtækjarekstri virka á sama hátt í menntun. Jamie Robert Vollmer, sem var einu sinni verðlaunaður fyrir að framleiða besta ís í Bandaríkjunum, var einn þeirra sem hélt að skólar þyrftu bara að gera eins hann gerði í ísfyrirtækinu sínu til að umbylta menntun. Hann gjörbreytti afstöðu sinni þegar kennari einn útskýrði fyrir honum muninn á skólahaldi og fyrirtækjarekstri. Fyrirtæki eru tilbúin umhverfi þar sem stjórnendur geta ráðið hvaða hráefni þeir vinna með og hvernig og þ.a.l. stýrt útkomunni að verulega leyti. Skólar hafa ekki þetta val - þeir geta ekki vísað "gölluðu hráefni" frá. Þeirra hráefni er fólk og fólk er misjafnt, breytilegt og óútreiknanlegt. Hlutverk skóla er að tryggja að allt þetta fólk hafi tækifæri til að ná viðunandi námsárangri.
Hugmynd aðila atvinnulífsins um að auka "stærðarhagkvæmni" með notkun upplýsingatækni byggir á hugmyndum um staðlaða verkferla innan fyrirtækja. Staðlaðir verkferlar þjóna þrennum tilgangi. Fyrst er að hægt verði að skipta út starfsfólki án þess að það hafi áhrif á starfsemina, í öðru lagi að koma í veg fyrir tvíverknað innan fyrirtækisins og í þriðja lagi að hafa mælikvarða til að meta árangur. "Stærðarhagkvæmni" á fyrst og fremst við um tvíverknað - við viljum takmarka tvíverknað eins og hægt er og þannig náum við að hagræða. Ef tveir kennarar eru að kenna sama fag í tveimur eða fleiri skólum telst það vera tvíverknaður svo lengi sem við getum hugsanlega látið einn kennara sjá um allt saman. Rökin eru þá þessi: ef allir kennarar eru að nota sömu námsgögn og fara eftir sömu námskrá til að ná sömu markmiðum þá hljótum við að geta sameinað þetta með því að nota upplýsingatækni og náð fram hagræðingu. Það hefur margsinnis verið sýnt að notkun upplýsingatækni í námi krefst verulegs stofnkostnaðar (undirbúningur kennsluefnis, rafræns kennsluvettvangs, o.s.frv.) og viðhaldskostnaðar (símenntun kennara, viðhald búnaðar, tækni- og kennsluaðstoð). Hér er fróðlegur bókarkafli Jewetts þar sem hann sýnir með útpældum reiknikúnstum að til þess að ná fram sparnaði í skólahaldi með notkun fjartækni og tryggja viðunandi námsárangur þurfa skráðir nemendur í námskeiðum að vera um eða yfir 1.000.
Á Íslandi eru ca. 20.000 nemendur í almennu bóknámi eða almennu grunnnámi á framhaldsskólastigi í tæplega 30 skólum. Til að ná fram þeirri stærðarhagkvæmni sem SA leggur til og með hliðsjón af niðurstöðum Jewetts er ljóst að það þyrfti þá líklega að sameina kennslu í einstökum fögum yfir alla þessa skóla. Þar með eru séreinkenni þessara skóla orðin að engu. Skólar eins og Menntaskólinn Hraðbraut, MR, Versló, MA hefðu enga möguleika til að skera sig úr fjöldanum og val nemenda á bekkjarkerfi eða fjölbrautakerfi væri orðið að engu.
Tölvutækni er ekki sú galdralausn í skólahaldi sem hún hefur verið og getur orðið í atvinnulífinu. Skólahald snýst um mannleg samskipti og það er einfaldlega ekki hægt að ætla að tölvur geti komið í staðinn fyrir hæfa kennara og stoðfólk skólakerfisins án verulegrar röskunar. Atvinnulífið á alveg erindi í umræðu um skólamál en innlegg eins og þau sem hér er fjallað um, og verða sífellt algengari, byggjast á grundvallar misskilningi á hlutverki og starfsumhverfi skóla. Atvinnulífið gegnir mikilvægu hlutverki þegar það lætur vita hvaða hæfni og þekkingu nemendur þurfa til að vera gjaldgengir á atvinnumarkaði að loknu námi. Hins vegar, ef atvinnulífið vill koma með gagnlegt innlegg um rekstur skóla þarf það að gera sér grein fyrir sérstöðu skóla og hætta að líta á þá eins og tilbúnar og vélrænar rekstrareiningar atvinnulífsins.
Menntun og skóli | Breytt 7.7.2010 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2010 | 20:23
Frelsisflækja Hannesar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti nýlega grein á Pressublogginu sínu þar sem hann færir rök fyrir því að styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins séu einir "eðlilegir" þar sem hann er einn flokka sem styður frjálst atvinnulíf. Hann lýkur greininni svo á að óska eftir mótrökum frá þeim sem sjá eitthvað athugavert við þetta. Yfirleitt þegar rökfærslur eru notaðar til að réttlæta ójöfnuð er eitthvað að. Ég sé helst tvennt í rökum Hannesar sem er gagnrýnivert. Í fyrsta lagi misbeitir hann lykil hugtaki til að fá fram ákveðna niðurstöðu og í öðru lagi persónugerir hann dauðann hlut til að gera ábyrgð óljósa.
Hannes ýjar að því að "vinstri" flokkar (það má auðvitað deila um það hvað og hverjir eru vinstri sinnaðir eða ekki) séu "fjandsamlegir hinu frjálsa atvinnulífi". Spurningin er, hvað meinum við með "frelsi" í þessu samhengi. Almennt er talað um tvær túlkanir á frelsi; neikvætt frelsi og jákvætt frelsi (I. Berlin) (sumir bæta við þriðju túlkun sem er nokkurs konar sambland af þessu tvennu - t.d. J. Christman). Neikvætt frelsi er frelsi gagnvart afskiptum annarra hvort sem er hið opinbera eða önnur samfélagsleg öfl. Jákvætt frelsi er frelsi í þeim skilningi að hver og einn hafi jafna möguleika að þróa sína hæfileika til fullnustu. Neikvætt frelsi er sú túlkun sem frjálshyggjufólk aðhyllist almennt - boð og bönn vinna gegn frelsi og skulu beitt í hófi. Jákvætt frelsi er oftast tengt við jafnaðarstefnu - hið opinbera notar vald sitt til að tryggja að allir hafa jafnt tækifæri til að ná frama í lífinu þó svo að það takmarki að einhverju leyti frelsi sumra.
Hannes gerir greinilega ráð fyrir að neikvætt frelsi sé hið eina frelsi. Ef við samþykkjum aðra túlkun á frelsi getum við þá spurt hvort jákvætt frelsi sé andstætt frjálsu atvinnulífi? Fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnu er svarið einfaldlega nei. Jafnaðarfólk leitast við að tryggja jákvætt frelsi til þess að atvinnulífið hafi örugglega aðgang að hæfasta fólki hverju sinni án tillits til félagslegra aðstæðna og til að tryggja að allir aðilar atvinnulífsins hafi jafna möguleika. Þetta er líka frjálst atvinnulíf þó það sé nokkuð frábrugðið neikvæða frelsinu sem Hannes gerir ráð fyrir.
Samkvæmt rökfærslu Hannesar er þá ekkert "óeðlilegt" við það að atvinnulífið styrki aðra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokkinn eftir því hvernig þeir kjósa að skilgreina "frelsi". Þetta er í raun bara spurning um gildismat styrkveitanda, þ.e. að það hlýtur að teljast eðlilegt að styrkveitandi styrkir þann stjórnmálamann/flokk sem starfar í samræmi við skoðanir hans og gildi.
Það er þó enn eitthvað bogið við þá hugmynd að fyrirtæki geti haft þau áhrif á stjórnmál í lýðræðisríki sem ætlað er að setja valdið í hendur fólksins. Hannes segir "að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið." Hér held ég að "fyrirtæki" sé að fá of mikla yfirnáttúrulega hæfileika í meðferð Hannesar. Félög (e. organisation, þ.e.a.s. fyrirtæki, verkalýðsfélög, stjórnmálaflokka, o.s.frv.) eru yfirleitt skilgreind þannig að tilvist þeirra sé óháð þeim einstaklingum sem starfa innan þess. Með þessu er verið að vísa til þess að innan félags má skipta út einstaklingum eða færa til í starfi án þess að það komi niður á starfsemi félagsins. Það er þó tilhneiging að mistúlka þetta þannig að félagið, sem slíkt, sé framkvæmdaraðili, en ekki einstaklingarnir innan þess. Þ.e.a.s. að félagið er persónugert, að það fær eiginleika einstaklings - félagið getur "gert" hluti. En það er ekki félagið sem "gerir" hlutina. Það eru stjórnendur og aðrir einstaklingar sem taka ákvarðanir um það sem er gert í nafni fyrirtækisins. Fyrirtækið sem slíkt hefur engan vilja heldur lýtur að vilja stjórnenda þess.
Hannes flækir svolítið mál sitt með því að persónugera fyrirtæki (fyrirtækið "vinnur" að einhverju) og í næstu orðum að gera stjórnendur ábyrga fyrir ákvörðunum ("Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila "). Það er mikilvægt að það sé skýrt hver nákvæmlega það er sem er að styrkja stjórnmálaflokka og í þágu hvers. Ef fyrirtækið, sem slíkt, er að veita styrki og vinna þannig að eigin hagsmunum (þ.e.a.s. ef slíkt væri yfir höfuð hægt) hlýtur fyrirtækið að vera einhvers konar virkur "aðili" í samfélagi sem hefði þá jafnvel réttindi í líkingu við einstakling. Þá er fullkomlega eðlilegt að fyrirtækið fái að vinna í eigin þágu á sama hátt og einstaklingur, t.d. með því að styrkja stjórmálamenn og flokka. Hins vegar, ef fyrirtækið er aðeins samnefnari fyrir stjórnendur þess og hluthafa, þá horfir öðruvísi á málið. Þá eru styrkveitingar fyrirtækja í raun bara hagsmunagæsla ákveðinna einstaklinga. Slík hagsmunagæsla er óeðlileg því hún notfærir fjárhagslegan og félagslegan styrk fyrirtækja sem fáir, ef þá nokkrir, einstaklingar hafa yfir að ráða. Ef ákveðnir einstaklingar geta nýtt sér á þennan hátt styrk fyrirtækja til að hafa áhrif á stjórnmál takmarkar slíkt frelsi óbreyttra einstaklinga til að hafa áhrif á stjórnmál sem hafa ekki yfir slíkum styrk að ráða.
Niðurstaðan er þá þessi: Ef styrkir fyrirtækja til stjórnmálamanna/flokka eru yfir höfuð réttlætanlegir þá hlýtur það að ákvarðast af gildismati og skoðunum styrkveitanda og stjórnmálamanns/flokks hvort styrkveiting þykir eðlileg. Það eru engin ákveðin gildi sem ganga yfir alla og ekkert óeðlilegt að sum fyrirtæki styrki "vinstri" flokka. Hins vegar, er spurning hvort það sé yfirleitt eðlilegt að fyrirtæki styrki stjórnmálamenn/flokka þar sem slíkt getur takmarkað frelsi einstaklinga til að hafa áhrif á stjórnmál í sínu samfélagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.6.2010 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)