Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Árleg ráðstefna 3f - framtíðin sem var í gær?

Nú styttist í árlegu ráðstefnu 3f, félags um upplýsingatækni og menntun, sem verður haldinn 11. mars. Ég kemst ekki á ráðstefnuna frekar en fyrri daginn þar sem mér þykir erfitt að réttlæta ferð yfir hálft haf til að komast á eins dags ráðstefnu. Það er leitt að missa af þessu þar sem mér þykir þetta mjög mikilvægur vettvangur fyrir skoðanaskipti milli kennara, tæknifólks og annarra. Ráðstefnur 3f fylla það stóra skarð sem skapaðist þegar UT ráðstefnunar sálugu lögðust af. Ég hef þó eitt og annað að athuga við ráðstefnuhaldið að þessu sinni.

Fyrst er það yfirskriftin, "Framtíðin er núna". Þarna er auðvitað verið að leika sér með orðin en segjum alveg eins og er, ef maður tekur þessu bókstaflega er þetta villandi og, að ég held, ekki rétt skilaboð. Það er afskaplega fátt meðal dagskrárliðana sem hefur eitthvað með framtíðina að gera. Ég hefði frekar kosið eitthvað eins og, "Framtíðin er handan við hornið", "Nú styttist í framtíðina", "Framtíðin mótast núna", eða eitthvað á þá leið - og hafa þá dagsrárliði þar sem fjallað er um framtíðina. Fá sérfræðinga til ræða um t.d. hvaða þróun má gera ráð fyrir í upplýsingatækni á næstu fimmtán árum, og hvernig skólahald breytist með tilkomu slíkrar tækni. Það er engin fjarstæða að hugsa svona langt fram í tímann og má reyndar líta á þetta sem fremur stutt tímabil í samhengi skólahalds. Stefnumótun tekur minnst nokkur ár. Það þarf að undirbúa kennaramenntun sem tekur nú fimm ár. Þau börn sem byrja í 1sta bekk í haust verða nýstiginn út á vinnumarkað eftir 15 ár. 15 ár er ekki langur tími í skólastarfi en 15 ár er framtíð og er ekki núna. Þeim mun örar sem tækni þróast er þeim mun brýnna að beina sjónum okkar að framtíðinni og vinna skipulega að langtíma áætlunum. Ráðstefna e.o. þessi er kjörið tækifæri til að móta sýn okkar á framtíðinni en þá þarf það að gerast á markvissan hátt.

Í öðru lagi sýnist mér tæplega helmingur dagskrárliða vera vörukynningar frá fyrirtækjum. Ég skil það vel að það kostar sitt að skipuleggja svona ráðstefnu og að tekjur félags e.o. 3f nægja varla til að mæta slíkum kostnaði. Það er því óhjákvæmilegt að hleypa styrktaraðilum að, en það er fátt sem fer jafnmikið í taugarnar á mér og að mæta á ráðstefnu sem reynist síðan vera að miklu leyti dulin auglýsing fyrir tiltekna aðila. Þarna hefði mátt gera skýrari greinarmun á vörukynningum og þeim kynningum sem snúa raunverulega að vísindalegri þróun og miðlun þekkingar um upplýsingatækni í skólastarfi.

Óáreiðanleikakönnun forsvarsmanna kjosum.is undirskriftasöfnunarinnar - LEIÐRÉTT

Ég er búinn að leiðrétta færsluna eftir ábendingu frá Svavari Kjarrval (sjá umræður neðst). Þökk sé ábendingu hans áttaði ég mig á því að í útreikningi villumarka hafði ég reiknað með 0,68 þar sem átti að vera 0,068. Villumörkin breytast töluvert við endurreikninginn (±24% verða ±8%) en tölfræðileg ályktun breytist lítið þar sem ±8% telst líka vera óæsættanleg villumörk.

Áreiðanleikakönnun fulltrúa kjosum.is á undirskriftalista sem afhendur var forseta í vikunni er út í hött. Miðað við þau 74 svör sem fengust frá 100 manna slembiúrtaki eru villumörkin ±8%!

Þegar fulltrúar kjosum.is afhentu forseta undirskriftalistann sinn upplýstu þeir um að þeir hefðu kannað áreiðanleika undirskriftanna. Þetta gerðu þeir með því að hafa samband við 100 manna slembiúrtak af listanum og spyrja hvort viðkomandi hefði í raun skráð nafn sitt á vefnum þeirra. Það var tekið fram að ætlunin var að hafa samband við 800 manna úrtak (reikningar mínir hér fyrir neðan sýna að það hefði verið mjög viðeigandi fjöldi) en á endanum var haft samband við 100 "vegna tímaskorts". 100 manna slembiúrtak miðað við fjölda undirskrifta hefur nákvæmlega ekkert að segja. Forsvarsmennirnir hefðu alveg eins getað sleppt þessu.

Í tölfræði eru til nákvæmar aðferðir til að reikna úr hversu stórt slembiúrtak þarf til að tryggja áreiðanleika kannana. Forsvarsmenn kjosum.is hafa ekki séð ástæðu til að fylgja þeim leikreglum. Hérna ætla ég að sýna með mjög algengri reiknaðferð hversu stórt slembiúrtak hefði í raun þurft í þessu tilfelli. Ath. að það er ansi langt síðan ég hef stundað tölfræði á íslensku og er kannski ekki með íslensku hugtökin alveg á hreinu þannig að ég læt ensk hugtök fylgja með.

Formúlan sem við notum til að reikna lágmarksstærð slembiúrtaks er:

Við viljum tryggja sem hæstan áreiðanleika og þar sem þessi könnun er mjög einföld (aðeins ein spurning) ætti það að ganga. Þannig að við notum mjög hátt öryggisstig (e. confidence level) (þetta er ekki skoðanakönnun - okkur ber að heimta að gögnin eru mjög áreiðanleg), eða 99% og lága villutíðni (e. margin of error), eða ±3. Við skulum líka gera ráð fyrir að langflestir sem við höfum samband við hafi í raun skráð nafn sitt á undirskritalistann, segjum 90%. Setjum tölurnar í formúluna og þá er hún svona:

Við reiknum þetta og fáum út 663. Þetta er lágmarksstærð slembiúrtaks miðað við forsendur okkar og ótakmarkað þýði (e. population), þ.e.a.s. að fjöldinn sem slembiúrtakið er tekið úr er ekki tilgreindur. Sumum finnst þetta kannski heldur lág tala miðað við ótakmarkað þýði, en það er vegna þess að við gerum ráð fyrir að mjög fáir (aðeins 10%) hafi villt á sér heimildir við skráningu á undirskriftalistann. Þannig að óvissan er mjög lítil og þar af leiðandi þarf ekki stórt slembiúrtak. Við getum líka reiknað út slembiúrtaksstærð miðað við tiltekið þýði (þ.e.a.s. fjölda undirskrifta sem söfnuðust) en þar sem óvissan er svo lítil í þessu tilfelli hefur það lítið að segja (reyndar reiknaði ég þetta og þá var slembiúrtakið 652. Munurinn er vel innan villumarkana ±3 þannig að hann skiptir ekki máli).

Svo er rétt að snúa þessu öllu við og reikna hver raunveruleg villutíðnin er miðað við slembiúrtak forsvarsmanna kjosum.is. Þá reiknum við þetta svona til að fá staðalvilluna (e. standard error):

og fáum 0,03

Margföldum svo við z-gildið sem samræmist 99% öryggistigi:

2,576 x 0,03 = 0,08

Villutíðnin miðað við slembiúrtakið er ±8%!

S.s. þessi 93,2% sem sögðu "já" í áreiðanleikakönnuninni benda til þess að ef við framkvæmdum könnunina aftur mættum við gera ráð fyrir að milli 85,2% og 100% myndu svara "já" í hvert skipti sem hún er framkvæmd. Þetta telst ekki áreiðanlegt í tölfræðinni. Það er of mikil óvissa til að geta ályktað nokkurn skapaðan hlut.

Látið endilega vita ef þið sjáið eitthvað athugavert við útreikninga mína.


mbl.is Ánægður með að Icesave-lög voru samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegur viðburður í sögu tölvutækni að hefjast í kvöld

Í dag (og reyndar næstu tvo daga) verður einn merkasti viðburður í sögu tölvutækninnar og gervigreindar. Ný ofurtölva IBM, sem hefur fengið heitið "Watson", mun keppa í Bandaríska sjónvarpsspurningaleiknum Jeopardy. Tölvan keppir á móti tveimur sterkustu leikmönnum sem hafa tekið þátt í Jeopardy fyrr eða síðar.

Jeopardy er ekki auðveldur leikur. Spurningarnar geta verið mjög snúnar og fela gjarnan í sér orðaleiki og tvískinnung. Þær reyna því verulega á getu keppenda til að skilja óljósar spurningar og að geta kallað fljótt fram svör úr mjög breiðum þekkingargrunni. Watson hefur auðvitað mjög breiðan þekkingargrunn. Það er búið að mata hann af alls kyns upplýsingum um allan fjandann og hann getur farið mjög fljótt í gegnum þekkingargrunninn sinn til að finna upplýsingarnar sem hann þarf. Vandi tölvusmiðana er, hins vegar, að tölvur eru einstaklega lélegar þegar kemur að því að skilja mennskt mál. Tölvur eiga erfitt með að skilja samhengi í daglegu máli. Þetta háði Watson í byrjun og tölvusmiðir voru að því komnir að gefast upp á verkefninu á köflum út af því. En þeir virðast hafa náð að finna út úr því því Watson hefur gengið ótrúlega vel í æfingaleikjum undanfarna mánuði.

Þættirnir með Watson verða sjónvarpaðir á NBC sjónvarpsstöðum í Bandaríkjunum, þegar kl. er 17.30 á austurströndinni 14-16 febrúar (þ.e.a.s. í dag, á morgun og á miðvikudaginn). Ég veit s.s. ekki hvort íslendingar munu geta fylgst með keppninni. Ef ekki verður hægt að fylgjast með beint á netinu þá efast ég ekki um að leikirnir verða komnir á netið fljótlega þar á eftir.

Hér er vefur IBM um Watson. Þar er að finna áhugaverðar upplýsingar og myndskeið þar sem er m.a. sýnt frá æfingaleikjum Watsons.

Hér er vefur Jeopardy spurningaleiksins.

"Finnska leiðin"

Ég var að lesa frétt á vísi.is um hugmyndir menntamálaráðherra um að efla menntakerfið til að takast á við öll vandamálin sem eru að koma upp, ekki síst atvinnuleysið. Í fréttinni eru taldar upp ýmsar aðgerðir sem koma til greina, s.s. að styðja við menntastofnanir o.s.frv. Þetta eru skynsamlegar aðgerðir og nokkuð eðlileg viðbrögð myndi ég halda en mér finnst samt að það þurfi að hugsa þetta meira heildrænt. "Finnska leiðin" hefur vakið mikla athygli og ef við skoðum hana nánar kemur ýmislegt í ljós sem við getum lært af (ég er búinn að sjá það undanfarið að það hafa mjög margir komið inn á bloggið mitt í leit að upplýsingum um þessa finnsku leið þannig að forvitni landsmanna leynir sér ekki). Það sem við getum helst lært af Finnunum er að einstakar aðgerðir skila mestum árangri þegar þær eru partur af víðtækari samræmdum aðgerðum og heildrænni stefnu. Þannig að þessar aðgerðir sem menntamálaráðherra mælir með vekja ýmsar spurningar um t.d. í hvaða samhengi þær eru settar fram (þá er ég að tala um vítt samhengi - sjá neðar), um hverja er hún að tala (t.d. hverjir eru það sem eru atvinnulausir?), og hvert er markmiðið með þessu (bara að fólk hafi eitthvað að gera í atvinnuleysinu?)?

Áður en við getum gagnast af fordæmi Finna þurfum við að átta okkur á því að það er sérstaklega tvennt sem einkennir finnsku leiðina:
1. kerfisbundin heildræn hugsun - vandamálin ná til allra þátta samfélagsins og til að takast á við þau þarf að huga að öllum þessum þáttum og hvernig þeir geta stutt hvern við annan.
2. langtímaáætlanir sem miða að því að breyta allri samfélagsgerðinni í samræmi við vel mótaða framtíðarsýn.

Eins og allir vita brugðust Finnar við ástandinu sem hafði skapast með því taka ákvörðun um að ganga í ESB og Evrópumyntbandalagið, en þetta var bara byrjunin. Það sem kom á eftir (eða samtímis) var mun róttækara. Finnar ákváðu markvisst að endurskilgreina sína samfélagsgerð í samræmi við þarfir þekkingarhagkerfisins. Í framhaldi af því mótuðu þeir stefnu sem miðaði að því að nýta þá þekkingu sem þegar var til og tengja saman ýmsa þætti atvinnulífs og menntakerfis til að stuðla að nýsköpun. Þeir vissu að þekking sem þegar hafði skapast í upplýsingatæknigeiranum var mikilvæg til að ná settum markmiðum og byggðu því að miklu leyti á henni. Það er ekki að segja að meginmarkmiðið varð að þróa upplýsingatækni og selja, þó vissulega gerðu þeir það, en hvernig mætti nýta upplýsingatæknina til að stuðla að breyttri samfélagsgerð. Niðurstaðan varð sú að samskipti og opið upplýsingaflæði væri kjarninn í því að efla þekkingarsamfélag.

Útkomurnar úr þessu sjáum við víða í finnsku samfélagi í dag og hefur verið bent á margt af þessu í umræðum á Íslandi síðustu daga. T.d. efling tengsla milli háskóla og atvinnulífs og samfélags með stofnun þekkingarsetra og nýsköpunarmiðstöðva. Ég held þó að ef við viljum draga einhvern gagnlegan lærdóm af þessum aðgerðum Finna verðum við að skoða þær í ljósi heildarstefnu Finna en ekki sem einstakar aðgerðir. Annars missum við af öðrum mikilvægum þáttum í þessum aðgerðum Finna sem gætu orðið okkur að gagni. T.d. eitt sem ég hef ekki séð nefnt í allri umræðunni, að með þessum aðgerðum hafa Finnar stuðlað að víðtæku þverfaglegu samstarfi milli þekkingargreina með því að skapa umhverfi sem hvetur til þverfaglegs samstarfs til að ýta undir nýsköpun. Það eru mörg dæmi um mjög áhrifaríkan árangur af þessu, t.d. að upplýsingatækni iðnaður hefur unnið mjög náið með heilbrigðisgeiranum í þróun s.k. "m-health", sem Finnar eru nú leiðandi í. Núna nýlega hafa Finnar svo stofnað nýjan háskóla, Alvar Aalto háskólinn, sem byggir alfarið á þeirri hugmynd að samskipti milli ólíkra greina stuðlar að nýsköpun og verður hann því vettvangur til að leiða saman verkfræðinga, viðskiptafræðinga og listafólk í nýstárlegu námsumhverfi.

Menntun hefur auðvitað verið mikilvægur þáttur í endurskilgreiningu finnsks samfélags. Finnar dældu miklum peningum í menntun og það hefur augljóslega skilað sér miðað við útkomur úr PISA og TIMSS. Það er eins með menntunina og annað í finnsku umbreytingunni, að þetta þarf að skoða í víðara samhengi til að átta sig almennilega á hvað er þarna að gerast. Auðvitað hefur eitt markmiðið verið að hækka menntunarstig almennings og hafa t.d. tækniháskólarnir (e. polytechnics, f. ammattikorkeakoulu) og endurmenntunarhlutverk þeirra skipt miklu þar. Skólar hafa líka fengið það hlutverk að búa ungt fólk undir það að verða virkir þátttakendur í nýja þekkingarsamfélaginu og það hefur ýmislegt í för með sér. Við sjáum þetta t.d. í hlutverki sem upplýsingatækni gegnir í finnsku menntastarfi. Þar er hlutverk upplýsingatækni að stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun milli einstaklinga. Þetta er allt annað en hefur verið gert á Íslandi (og víðar) þar sem mesta áherslan hefur verið á upplýsingatækni sem tæki til að afla upplýsinga. Þetta er munurinn á að vera þiggjandi á hliðarlínu eða virkur þátttakandi í netsamfélagi og ég held að það hljóti að vera augljóst að síðari kosturinn skilar meiri árangri.

Á Íslandi höfum við allt sem til þarf til að móta stefnu í samræmi við "finnsku leiðina". Upplýsingatæknin er frábær, við höfum öflugt háskólaumhverfi (þó er ýmislegt sem mætti bæta, sérstaklega á verkmenntasviðinu - spyrjið ef þið viljið meira um þetta - og í alþjóðavæðingu), við höfum sérþekkingu á ýmsum sviðum. Við þurfum hins vegar að setjast niður og fara gaumgæfilega yfir málin og ekki að koma með einstakar aðgerðir sem hugsanlega fylla í einhverjar eyður sem við teljum okkur nú skynja, heldur að ákveða hvers konar samfélag við viljum hafa á Íslandi, á hverju ætlum við að byggja það og móta svo stefnu sem miðar að því að ná því markmiði. Upplýsingatæknin og menntastofnanir eiga stórt hlutverk í þessu starfi en þá þurfum við að tryggja að einstaklingar á Íslandi hafi þá færni sem þarf til að vera fullgildir þátttakendur í alþjóðlegu nettengdu samfélagi. Þetta er "finnska leiðin".

Harvard styður opið aðgengi að vísindalegri þekkingu

Það virðist vera eiga sér stað nokkuð áhugaverð þróun í vísindalegum útgáfumálum í þá átt að auðvelda aðgengi og dreifingu niðurstaðna vísinda. Útgáfa vísindalegra greina er mjög stór iðnaður og nokkuð arðbær fyrir útgefendur. Mörgum finnst svo komið að hátt verð og stífar reglur um höfundarétt hefti aðgengi að vísindalegum upplýsingum og útbreiðslu vísindalegrar þekkingar. Örfáir aðilar sem kosta vísindalegar rannsóknir hafa sett reglur um að niðurstöður styrktra verkefna skuli vera aðgengilegar öllum þeim að kostnaðarlausu. Má t.d. nefna PubMed gagnagrunn Heilbrigðisvísindastofnunnar Bandaríkjanna og aðgerðir Vísindanefndar Evrópu. Nú er Harvard háskólinn í Bandaríkjunum að bætast í þennan vaxandi hóp vísindastofnanna sem styðja opið aðgengi að vísindalegum upplýsingum.

Þetta er mjög áhugaverð þróun og sérstaklega áhugaverð umræða sem er að skapast í kringum hana. Þetta er nefnilega ekki eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn. Það sem skiptir mestu máli fyrir vísindaleg skrif, sem útgefendur tímarita hafa sinnt, er jafningjarýni þar sem jafningjar greinarhöfunda leggja mat á vísindalegt gildi og vægi greina. Sumir telja að hætt sé að útgefendur einfaldlega hafni greinum sem fylgja kvaðir um opið aðgengi og þar með missa höfundar af ritrýninni. Svo er líka deilt um það hvort veita eigi opið aðgengi að greinum sem hafa verið ritrýndar en ekki endanlega prófarkalesnar, s.k. pre-press greinar. En þá fylgja spurningar um hvernig eigi að vísa í slíkar greinar. En það er ljóst að margir vísindamenn og stofnanir hafa fengið nóg af útgefendunum og ætla sér að endurheimta eignarhald á sínum þekkingarafurðum. Það hlýtur að vera nokkuð veglegur liðsauki í því að fá jafn virtan og sterkan bakhjarl sem Harvard í þessa baráttu.

Frekar að styrkja fólk til náms og rannsókna á Íslandi

Væri ekki sniðugra að setja á fót styrktarsjóð til að styrkja stúdenta frá Níkaragva í háskólanám í jarðvarmafræðum hér?

Stundum virðist ÞSSÍ vera einum of æst í að senda okkar fólk um allar trissur í upplýsingaöflun og miðlun. Mér finnst meiri líkur á að þekking komist betur til skila og lagi sig betur að aðstæðum í samstarfslöndum ef heimafólk fær tækifæri til að tileinka sér hana á eigin forsendum og miðla sjálft. Níkaragva er ekki eitt af vanþróuðustu löndum heims, með meðalþróun á mælikvarða SÞ og hefur nokkuð öflugt háskólakerfi. Það hlýtur að vera hægt að lokka eitthvað af þessu fólki hingað til lands í háskólanám með rausnarlegum styrkjum (hvað ætli kosti að senda okkar sérfræðinga þangað vs. að fá þeirra stúdenta hingað?).

Það eru alltaf að bætast við aðilar sem bjóða upp á nám í jarðvarmafræðum hér á landi og er flóran því orðin nokkuð fjölbreytt og mikið af þessu kennt á ensku. Fyrir utan Jarðvarmaskóla SÞ, sem er auðvitað sér dæmi, dettur manni helst í hug RES - School of Renewable Energy Science, sem er að bjóða upp á mastersnám í endurnýjanlegri orku, og eru jarðvarmafræði þ.á.m. auðvitað. Þeir eru að hefja kennslu um þessar mundir og hafa fengið til sín þvílíkt stórstjörnu kennaralið, bæði erlenda og íslenska. Allt er kennt á ensku og byggir að miklu leyti á sérreynslu og þekkingu íslendinga. Svo er líka HÍ með meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, HR er með sitt Orkurannsóknarsetur þar sem stúdentar gætu t.d. unnið að lokaverkefnum, og svo byrjar REYST væntanlega að bjóða upp á nám í nálægri framtíð.

Að styrkja námsfólk frá Níkaragva til að koma hingað í nám myndi ekki aðeins koma sérfræðiþekkingu betur til skila í heimalandinu heldur myndi það líka styrkja þetta nám sem er í boði hér á landi. Mér finnst það líka vera meira "samstarf" en þetta sem verið er að lýsa í fréttinni.


mbl.is Skrifað undir jarðvarmasamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsbreytingar í brennidepli á alþjóðavettvangi

Í tengslum við færslu sem ég skrifaði í gær bendi ég á kynningarfund á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í Hátíðarsal HÍ kl. 11-12.20 á morgun (27.11.2007).

Kynnt verður Þróunarskýrsla SÞ 2007/2008. Að þessu sinni er skýrslan tileinkuð baráttu við loftslagsbreytingar.

Svo má líka nefna að í næstu viku stendur UNFCCC fyrir ráðstefnu í Bali um loftslagsbreytingar.

"Megatrends in E-Learning Provision" verkefnið gefur út 3 ókeypis rit

"Megatrends in E-Learning Provision" er samevrópskt Leónardó da Vinci (ísl. landskrifstofan er hér) verkefni sem miðar að því að kortleggja stöðu tölvustudds náms í Evrópu. Verkefnið sendi í síðasta mánuði frá sér 3 rit, öll aðgengileg á netinu, sem eru afar áhugaverð fyrir þá sem láta sig þessi mál varða. Ritin eru:

The Provision of e-learning in the European Union - Gefur heildarsýn yfir stöðu tölvustudds náms í Noregi og Evrópusambandslöndunum.

Megaproviders of E-Learning in Europe - Segir frá 26 stórum stofnunum í Evrópu sem bjóða upp á tölvustutt nám.

E-learning initiatives that did not reach targeted goals - Segir frá 9 evrópskum verkefnum sem gengu ekki upp.

700.000 fjölgun í rannsóknarstörf - ekki útskrifaða doktora

Rektor segir að Evrópusambandið vilji fjölga útskrifuðum doktorum í Evrópu um 700.000. Ekki segir hvaðan rektor hefur þessar tölur en mig grunar að verið sé að vitna í skýrslu Framkvæmdastjórnar ESB Investing in research: an action plan for Europe (2003). Ef svo er er þetta ekki alveg rétt hjá rektor því í skýrslunni segir, "700 000 additional researchers, are deemed necessary to attain the objective". Ekkert um að það þurfi að útskrifa svona marga doktora, bara að það þurfi svona marga í rannsóknarstörf. Partur af vandamálinu er að doktorar fara oft í önnur störf en rannsóknastörf. Að útskrifa fleiri breytir því ekki.

Þetta poppar upp af og til í skýrslum Framkvæmdastjórnarinnar og aldrei er þetta túlkað á þann hátt sem rektor virðist gera. Heldur er talað um að það þurfi að laða hæft fólk til rannsóknastarfa í Evrópu og það þarf að reyna að halda hæfu fólki í rannsóknastörfum. Auðvitað þarf líka að hvetja háskóla til að gera sitt til að mæta þessari þörf. En fyrst og fremst er þetta spurning um starfsumhverfi, kjör og hreyfanleika rannsóknafólks innan Evrópu og um allan heim.

Það er afar hæpið að við náum að útskrifa 550 doktora á næstu 3 árum og spurning hvort við þurfum að gera það. Ef við viljum vera raunsæ væri skynsamlegt að skoða líka hvort hömlur séu fyrir flutningi útlensks rannsóknafólks til landsins (og þá sérstaklega þeirra sem koma utan Evrópu) og skoða kjör og starfsumhverfi rannsóknafólks.
mbl.is 100 doktorar þurfa að útskrifast á ári til að ná markmiðum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðavæðing háskólastigsins á Íslandi

Ég var á Málþingi Menntamálaráðuneytisins "Háskólastig á tímamótum" á föstudaginn, 8. sept. Þar voru helstu umræðuefni nýútkomin skýrsla OECD um háskólastigið á Íslandi og nýju háskólalögin. Skýrsla OECD er í megindráttum jákvæð. Auðvitað má alltaf eitthvað laga og bæta og voru það helst gæðamálin og samræming og formfesting ýmissa þátta í samskiptum yfirvalda og háskóla sem höfundar vöktu athygli á.

Í opnunarræðu Þorgerðar Katrínar, Menntamálaráðherra, talaði hún um eflingu háskólastigsins á Íslandi á undanförnum árum sem viðbrögð við aukna hnattvæðingu í heiminum. Því fannst mér undarlegt að hlaupið skyldi yfir alþjóðavæðingu háskólastigsins í kynningu á OECD skýrslunni þó svo að einn kafli fjalli sérstaklega um þetta efni. Í raun var nánast ekkert minnst á alþjóðavæðingu háskólastigsins fyrr en Kristín Ingólfsdóttir tók til máls í upphafi pallborðsumræðu að lokinni kynningu á OECD skýrslunni og nýju háskólalögunum.

Í skýrslunni fara höfundar mjög lofsamlegum orðum um alþjóðavæðingu háskólastigsins á Íslandi. Þeir nefna sérstaklega hátt hlutfall stúdenta sem fara erlendis í nám, og að margir þeirra skuli skila sér aftur til landsins. Þeir hrífast líka mikið af Lánasjóði Íslenskra Námsmanna og hlutverki hans í að auðvelda nemendur að sækja nám erlendis. Af einhverjum ástæðum virðast skýrsluhöfundar ekki sjá ástæðu til að gera mikið úr þeirri staðreynd að þetta á frekar við um stúdenta í framhaldsnámi en í grunnnámi þar sem möguleikar til láns vegna náms erlendis eru mjög takmarkaðir.

Það sem mig langar sérstaklega til að tala um er þetta hvernig við metum hversu alþjóðavætt háskólastigið á Íslandi er orðið. Í flestum greinargerðum um alþjóðavæðingu háskólastigsins, og á þetta við um OECD skýrsluna líka, er gert mikið úr ferðum stúdenta og háskólakennara erlendis og birtingu kennara í erlendum tímaritum. En er þetta marktækur mælikvarði á alþjóðavæðingu?

Árið 1999 birti Bengt Nilsson grein þar sem hann fjallaði um "alþjóðavæðingu heima fyrir" (e. internationalisation at home). Í greininni sagði hann frá verkefni sem hann stóð fyrir í Háskólanum í Malmö sem hafði það að markmiði að auka þátttöku innflytjenda í Malmö í háskólanum, sem þá voru um 60% íbúa í borginni, og um leið að skapa alþjóðlegt umhverfi fyrir alla stúdenta í háskólanum. Rökin voru þau að þótt 10% af stúdentum í skólanum fóru einhvern tíma í nám erlendis þýddi það að enn voru um 90% sem ekki gerðu það. Hugmynd Bengts var þá að það væri hægt að nýta bæði fjölþjóðlegt umhverfið í borginni og reynslu þeirra stúdenta og kennara sem tóku þátt í stúdenta- og kennaraskiptum til að skapa alþjóðlegt háskólasamfélag. Greinin vakti gífurlega athygli og er "alþjóðavæðing heima fyrir" líklega eitt umræddasta hugtak á ráðstefnum og í fræðiritum um alþjóðavæðingu menntunar víða um heim um þessar mundir.

Í dag er almennt litið svo á að alþjóðavæðing feli í sér tvennt. Annars vegar er "menntun yfir landamæri" (e. education across borders/cross-border education), t.d. nemenda- og kennaraskipti, flutningur þekkingar fram og tilbaka milli landa, o.s.frv., og hins vegar er "alþjóðavæðing heimafyrir". Í fréttabréfi OECD verkefnisins "Institutional Management in Higher Education" frá Mars 2004 er þetta sett nákvæmlega svona fram. Þessi tvíþætta skilgreining á alþjóðavæðingu menntunar er líka nokkuð útbreidd, innan OECD sem og annarsstaðar, ef miðað er við fjölda þeirra titla sem hafa verið gefnir út á undanförnum árum sem nefna sérstaklega annan hvorn eða báða þessa þætti. En í skýrslu OECD um háskólastigið á Íslandi er hugtakið "alþjóðavæðing háskólastigsins" ekki sérstaklega skilgreint og snýst umfjöllunin um alþjóðavæðingu nær eingöngu um "menntun yfir landamæri", sem er í algjörri andstöðu við umræðuna um alþjóðavæðingu í dag. Sem slík, er umfjöllunin mjög jákvæð og vissulega getum við íslendingar verið hreykin af okkar háskólasamfélagi fyrir það hversu vel meðvituð við erum um það sem er að gerast á alþjóðlegum vettvangi. Einnig hefur það mikið að segja að frá Íslandi fara hlutfallslega margir stúdentar í nám erlendis og að háskólakennarar eru langflestir menntaðir erlendis. Þetta skilar sér í margvíslegum tengslum við alþjóðlegt samfélag og tilfærslu þekkingar til og frá Íslandi. Hins vegar er það staðreyndin að langflestir íslenskir stúdentar, sérstaklega ef taldir eru með þeir sem eru í grunnnámi og þeir sem eru í framhaldsnámi, fara ekki í nám erlendis. Ennfremur, er hæpið að líta svo á að það að íslenskir stúdentar skuli læra af kennurum sem hafa hlotið sína menntun erlendis komi í staðinn fyrir samneiti við erlenda kennara og skólafélaga í akademísku umhverfi. Því þó svo að kennarar hljóti sína menntun erlendis og komi heim til að kenna eru þeir samt sem áður íslendingar að miðla þekkingu til íslenskra stúdenta í íslensku samfélagi. Stúdentarnir þurfa að mjög takmörkuðu leiti að vinna sjálfir úr menningarlegum hindrunum.

Meginmarkmiðið með "alþjóðavæðingu heima fyrir" er að auka fjölmenningarlega hæfni stúdenta. Er þá átt við hæfni til að geta tekið þátt í uppbyggilegum samskiptum við fólk af ólíkum menningarlegum toga. í þessu felst ekki bara tungumálakunnátta heldur líka að einstaklingar beri virðingu fyrir ólíkri menningu og hafi hæfni til að taka á móti, miðla og skapa þekkingu í fjölmenningarlegu umhverfi. Þetta er mikilvægur þáttur í alþjóðavæðingu því þótt við leyfum okkur að tala um "tilfærslu þekkingar", einfaldar hugtakið mjög það ferli sem felst í slíkri tilfærslu. Þekking er ekki eitthvað sem við tökum upp úr vasanum og sýnum öðrum. Hún er bundinn við flókið menningarlegt samhengi sem mótast af þjóðarmenningu, svæðismenningu og jafnvel einstaklingsmenningu. Tilfærsla þekkingar er í raun ekkert annað en miðlun upplýsinga og það fellur í hlut þeirra sem taka á móti upplýsingunum að skapa úr þeim þekkingu. Þegar þessi miðlun á sér stað á milli ólíkra menningarheima verður fjölmenningarleg hæfni mjög mikilvæg. Gregory Bateson skilgreind upplýsingar sem "a difference that makes a difference" og það er fjölmenningarleg hæfni okkar sem gerir okkur kleift að greina það sem skiptir máli í fjölmenningarlegum samskiptum.

Ferðir tiltekins hóps stúdenta og kennara erlendis er mjög takmarkaður mælikvarði á alþjóðavæðingu. Slíkar tölur sýna einfaldlega ekki hversu vel undirbúnir stúdentar okkar eru til að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra í hnattvæddu þekkingarsamfélagi. Nær væri að skoða hversu oft stúdentar hafa bein samskipti við erlenda stúdenta og kennara. T.d. hve stór hluti íslenskra stúdenta tekur að minnsta kosti eitt námskeið sem kennt er af erlendum kennara, hversu marga erlenda stúdenta íslenskur stúdent situr námskeið með, hversu oft íslenskir stúdentar þurfa að leysa verkefni með erlendum stúdentum, o.s.frv..

Ég held að íslenskir háskólar séu svolítið á eftir háskólum í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við í þessum efnum. T.d. í stefnu margra háskóla á norðurlöndum í dag eru að finna sérstök ákvæði um "alþjóðavæðingu heima fyrir". Ennfremur eru háskólar þar byrjaðir að skilgreina fjölmenningarlega hæfni sem ein af grundvallar hæfniskröfum sem gerðar verða til stúdenta sem hyggjast útskrifast úr skólunum. Það getur vel verið að hægt sé að benda á ýmis dæmi hér á landi um að háskólar séu að þróast í þessa átt. En við bara hreinlega vitum það ekki því gögnum um þessa hlið alþjóðavæðingar er ekki safnað. Það sem vantar nú er að báðar hliðar alþjóðavæðingar verði formfest í stefnu yfirvalda og háskóla og að nýstúdentar geri sér fyllilega grein fyrir kröfum um fjölmenningarlega hæfni og átti sig á hvers vegna þetta er mikilvægt (þetta er spurning um "glocalization" - leyfi mér bara að vísa í almenna skilgreiningu á því hér - kannski meira um það seinna). Þetta er auðvitað draumastaða og eflaust einhverjir sem myndu halda því fram að þetta sé óraunhæf krafa. En það er spurning hvort smæð okkar sé ekki styrkur í þessu sambandi?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband