Heimspeki í skólum

Ég fór á mjög áhugavert málþing Heimspekistofnunar um daginn um heimspeki í skólum. Það var mjög skemmtilegt að heyra um það sem heimspekingar eru að gera í grunn- og framhaldsskólum. Margir þeirra eru að beita framúrstefnu kennsluaðferðum með spennandi árangri.

Ég mætti seint þannig að ég missti af fyrsta erindinu og slatta af því næsta. Þegar ég mætti var Geir Sigurðsson að segja frá áhugaverðum tilraunum með "barnaheimspeki" Lipmans, stofnanda Institute for the Advancement of Philosophy for Children í Montclair Háskóla, í Kína.

Næst kom Ólafur Páll Jónsson sem rifjaði upp grein sem Páll Skúlason skrifaði fyrir 20 árum þar sem hann heldur því fram að engin menntastefna hafi verið mótuð á Íslandi. Ólafur Páll er sammála Páli og skýrði muninn á "fræðslustefnu", sem hefur verið mótuð, og "menntastefnu", sem hann vill meina að skorti enn. Munurinn á þessu tvennu er að fræðslustefna snýst um kennsluna sjálfa meðan menntastefna skýrir hvað það er að "vera menntaður". Ég er sammála að íslensk menntastefnu hefur ekki verið mótuð, en benti á að samt væri nokkuð skýr menntastefna sem liggur að baki íslenskri fræðslustefnu undanfarinna ára - hún er bara ekki íslensk. Svo virðist sem menntamál á Íslandi hafa að miklu leyti mótast sem viðbrögð yfirvalda við því sem hefur verið að gerast erlendis og má sérstaklega benda á áhrif alþjóðlegra stofnana e.o. Evrópusambandið, Norrænu Ráðherranefndina og UNESCO, sem birtist í notkun hugtaka e.o. símenntun, borgaravitund, o.s.frv. Að baki þessum hugtökum liggur nokkuð skýr menntastefna sem má m.a. finna í "Delors" skýrslunni frægu, sem dró saman margt af því sem hafði verið að gerjast innan fyrrnefndra alþjóðlegra stofnana.

Eftir hádegishlé sagði Brynhildur Sigurðardóttir frá reynslu sinni af heimspekikennslu í Garðaskóla í Garðabæ. Brynhildur er menntuð í barnaheimspeki í Montclair og gengur því útfrá hugmyndum Lipmans að miklu leyti. Athyglisvert var að heyra frá henni hvernig hún þurfti að laga aðferðafræði Lipmans að íslenskum aðstæðum. Hún sagðist hafa rekið sig á að nemendur í efri bekkjum íslenskra grunnskóla eru ekki vanir að tjá sig í skólanum á þann hátt sem aðferðafræði Lipmans gerir ráð fyrir (hafandi gengið í gegnum ameríska og íslenska skóla skil ég vel hvað hún er að tala um). Hún þurfti því að fá nemendurna fyrst til að opna sig í tímum áður en hún gat beitt sér fyrir því að skapa heimspekilegt samræðusamfélag. Brynhildur sagði líka frá því hvernig hún hefur verið að nota Wiki vef í heimspekikennslunni. Akkúrat það sem ég hef verið að bíða eftir að sjá.

Jóhann Björnsson talaði næst um heimspekikennslu í Réttarholtsskóla. Áhugaverðast þótti að Jóhann hefur ákveðið að meta ekki nemendur á hefðbundinn hátt í tímunum sínum, þ.e. engin próf, verkefni eða einkunnir. Honum hefur líka gengið vel að ná til "erfiðra" nemenda. Frásögn Jóhanns af því þegar móður eins nemanda sem hefur verið erfiður og jafnvel leiðst út í smáafbrot sagði frá því að hún hefði heyrt til sonar síns og félaga hans í áköfum samræðum um heimspeki í stofunni á heimilinu.

Róbert Jack talaði um "lífstilraunir" (sem mig minnir að hafi verið orðalagið sem hann notaði) sem hann fjallar um í bókinni Hversdagsheimspeki. Það er margt gagnlegt í þessu þegar verið er að huga að því hvers konar "heimspeki" er verið að tala um í tengslum við nám í grunn- og framhaldsskólum - ekki akademísk heimspeki heldur ákv. samræðuform.

Ármann Halldórsson sagði svo frá reynslu sinni af heimspekikennslu í Versló, sem hefur að einhverju leyti verið í samstarfi við Róbert Jack og hans nemendur úr MR. Ármann hefur mikið verið að pæla í framúrstefnu aðferðir við kennslu sem hann hyggst beita í kennslu sinni. (Aðallega "action research", sem byggist á því að kennari gerist í raun rannsakandi og kennslustofa er tilraunastofa. Kennari safnar gögnum og vinnur úr jafnóðum og notar niðurstöður til að aðlaga kennslu þörfum nemenda hverju sinni.)

Kristín Sætran steig síðast á svið og sagði frá bók sem hún er að vinna upp úr M.Paed. ritgerð sem hún kláraði fyrir skömmu. Þetta var mjög áhugaverður fyrirlestur og ég hlakka mikið til að lesa bókina. Í bókinni setur Kristín fram rök fyrir því að "tími heimspekinnar í framhaldsskólum" sé kominn. Hún fer nokkuð óhefðbundnar leiðir í rökfræðslunni þar sem hún reynir að sýna fram á að heimspeki geti spornað við því mikla brottfalli sem er í íslenskum framhaldsskólum. Framsetningin á gögnum um brottfall er líka nokkuð nýstárleg því hún hefur reiknað hvað brottfall kostar þjóðina í krónum og heldur því fram að "tæplega kr. 200.000.000 fari í tóm [náms]leiðindi". Miklar umræður komu í kjölfarið. M.a. gagnrýndi Atli Harðarson umræðu um brottfall í íslenskum framhaldsskólum. Hann sagði þetta vera skilgreiningaratriði og benti á að í Noregi flokkast þeir ekki sem brottfallsnemendur sem ljúka aðeins 2 árum af 3 í framhaldsskóla, heldur að þeir hafi einfaldlega klárað 2 ár í framhaldsskóla. (Ég er með athugasemd hvað þetta varðar sem ég náði ekki að koma á framfæri á málþinginu. Í Noregi geta einstaklingar fengið formlega viðurkenningu á námi - þó svo að þeir hafi ekki lokið prófi - og reynslu. Þetta er kjarni "real kompetens" áætlunnar þeirra. Á Íslandi er engin formleg viðurkenning á slíku (þó svo að vinnuveitendur kunna að meta hluta af námi að einhverju leyti). Ef einstaklingur hefur ekki lokið prófi hefur hann í raun ekkert í höndunum. Þess vegna eru 2 ár af 4ja ára námi ekki metin til neins og einstaklingurinn telst hafa fallið brott úr námi.) Margir voru með athugasemdir varðandi umtak þess sem Kristín fjallaði um, að hún virðist fara fram á gjörbreytingu á skipulagi framhaldsnáms í heild en ekki einfaldlega að bæta heimspeki við það sem fyrir er.

En flestir virtust sammála Kristínu að tími er kominn til að heimspeki verði kennd í framhaldsskólum, sem kemur ekki á óvart þegar haft er í huga hverjir sátu málþingið (flestir ef ekki allir heimspekingar). En til þess að sannfæra aðra held ég að þurfi fleiri rök. T.d. benti ég á að margir hafa rannsakað gögn um brottfall í framhaldsskólum og komist að allt annari niðurstöðu en að heimspekikennslu vanti. Ég held að það þurfi meira af empirískum rannsóknum í þessu sambandi (kannski að Jóhann geti hjálpað með þetta). En helstu rökin að mínu mati, sem Kristín kom ekki inn á en Páll Skúlason nefndi í lok málþingsins, er að með aukinni upplýsingatækni og upplýsingaflæði sem því fylgir þarf að kenna nemendum að vinna með allar þessar upplýsingar og þar kemur sú gagnrýna samræða sem felst í heimspekilegu aðferðinni að miklu gagni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband