Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ánægjulegt að sjá nýjar áherslur í þróunarsamstarfsmálum

Það er ánægjulegt að sjá áherslubreytingar í þróunaraðstoðarmálum Íslendinga sem birtast í tillögum utanríkisráðherra til þingsályktunar sem lögð hefur verið fyrir Alþingi. Með tillögunni fylgir Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014 þar sem áherslur í stefnumörkun og stefnumótun eru útlistaðar. Áberandi er að þar er gert mikið úr því að hagsmunir þróunarlanda og jafnréttissjónarmið eru höfð að leiðarsljósi í þróunarstarfi Íslendinga. Ég benti á það fyrir nokkrum árum í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur að Skýrsla utanríkisráðherra um fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands, sem þá var gefin út, gerði of mikið úr hagsmunum Íslands í tengslum við þróunarstarf. Í þeirri skýrslu var ekki sagt eitt einasta orð um hagsmuni þróunarlanda. H.v. var mikið fjallað um "tækifæri" fyrir íslensk fyrirtæki og aðra í tengslum við þróunarstarf. Í raun hljómaði sú skýrsla svolítið meira eins og viðskiptaáætlun heldur en þróunaráætlun.

Þegar skýrsla Valgerðar kom út var "nýfrjálshyggjustjórnin" við völd og skýrslan endurspeglaði áherslur hennar og þannig séð var í samræmi við nýfrjálshyggjustefnur í öðrum löndum. Það má segja að þetta var "zeitgeist" þess tíma. Það kom því ekki á óvart stuttu síðar þegar orkuútrásavíkingar urðu áberandi í þróunarstarfi Íslendinga, sérstaklega í tengslum við starfssemi ÞSSÍ í Níkaragva. Samsstarfi ÞSSÍ við Níkaragva var slitið eftir hrun fyrir utan eitt jarðvarmaverkefni sem er að mestu í höndum ÍSOR og er áætlað að ljúki á næsta ári.

Ég skrifaði grein í einhvern fjölmiðilinn (man ekki hvort það var Morgunblaðið eða Fréttablaðið) nokkrum dögum eftir að skýrsla Valgerðar kom út þar sem ég gagnrýndi m.a. það að svo mikil áhersla skyldi lögð á hagsmuni Íslendinga en ekki þróunarlanda í þróunarstarfi. Ég fékk engin viðbrögð, sem kom mér s.s. ekki mikið á óvart. En þá kom mér sérstaklega á óvart þegar rúmu hálfu ár síðar, Valgerður (sem þá var ekki einu sinni lengur ráðherra) var fljót að bregðast við skrifum Sölmundar Karls Pálssonar þar sem hann fór fögrum orðum um þessa sömu skýrslu sem ég hafði gagnrýnt. Þegar ég var við heimspekinám í HÍ sagði einn prófessorinn við mig að ef þú ert sammála öllu því sem einhver segir þá er til lítils að skrifa um það þar sem þú hefur í raun ekkert til málanna að leggja. Sölmundur Karl og Valgerður fengu greinilega aldrei þau skilaboð.

Mér þykir það því sérlega ánægjulegt að í þessari nýju skýrslu er talað sérstaklega um að þróunarstarf taki mið af hagsmunum þeirra þjóða sem þurfa á þróunaraðstoð að halda, jafnrétti kynja og mikilvægi menntunar í öllu þróunarsamstarfi.

Meingölluð skoðanakönnun MMR um Icesave

Nýlega var sagt frá skoðanakönnun MMR sem sýnir að 57% Íslendinga ætla að samþykkja Icesave lögin í kosningu. Einn bloggari hér á blog.is benti á þann alvarlega galla á skoðanakönnuninni, sem ég tók undir, að úrtakið náði aðeins til þeirra sem eru 18-67 ára. Af einhverjum ástæðum hefur bloggarinn fjarlægt færsluna af bloggi sínu. Ég held að þetta sé samt eitthvað sem er þess virði að vekja athygli á.

MMR gefur enga ástæðu fyrir að Íslendingar eldri en 67 ára eru ekki í úrtakinu. Það er alvarlegt að úrtak nái ekki til allra sem málið varðar, sérstaklega þegar um er að tiltekinn hóp sem hægt er að skilgreina út frá ákveðnum forsendum. Íslendingar eldri en 67 ára eru í dag um 31.500 manns. Fjöldi íslendinga á kosningaaldri, þ.e.a.s. 18 ára og eldri, eru samtals um 238.000. Þarna eru því 13% af kosningabærum Íslendingum ekki hafðir með í úrtakinu. Þetta getur skekkt niðurstöður könnunarinnar all verulega.

(allar tölur skv. Hagstofu)


Óáreiðanleikakönnun forsvarsmanna kjosum.is undirskriftasöfnunarinnar - LEIÐRÉTT

Ég er búinn að leiðrétta færsluna eftir ábendingu frá Svavari Kjarrval (sjá umræður neðst). Þökk sé ábendingu hans áttaði ég mig á því að í útreikningi villumarka hafði ég reiknað með 0,68 þar sem átti að vera 0,068. Villumörkin breytast töluvert við endurreikninginn (±24% verða ±8%) en tölfræðileg ályktun breytist lítið þar sem ±8% telst líka vera óæsættanleg villumörk.

Áreiðanleikakönnun fulltrúa kjosum.is á undirskriftalista sem afhendur var forseta í vikunni er út í hött. Miðað við þau 74 svör sem fengust frá 100 manna slembiúrtaki eru villumörkin ±8%!

Þegar fulltrúar kjosum.is afhentu forseta undirskriftalistann sinn upplýstu þeir um að þeir hefðu kannað áreiðanleika undirskriftanna. Þetta gerðu þeir með því að hafa samband við 100 manna slembiúrtak af listanum og spyrja hvort viðkomandi hefði í raun skráð nafn sitt á vefnum þeirra. Það var tekið fram að ætlunin var að hafa samband við 800 manna úrtak (reikningar mínir hér fyrir neðan sýna að það hefði verið mjög viðeigandi fjöldi) en á endanum var haft samband við 100 "vegna tímaskorts". 100 manna slembiúrtak miðað við fjölda undirskrifta hefur nákvæmlega ekkert að segja. Forsvarsmennirnir hefðu alveg eins getað sleppt þessu.

Í tölfræði eru til nákvæmar aðferðir til að reikna úr hversu stórt slembiúrtak þarf til að tryggja áreiðanleika kannana. Forsvarsmenn kjosum.is hafa ekki séð ástæðu til að fylgja þeim leikreglum. Hérna ætla ég að sýna með mjög algengri reiknaðferð hversu stórt slembiúrtak hefði í raun þurft í þessu tilfelli. Ath. að það er ansi langt síðan ég hef stundað tölfræði á íslensku og er kannski ekki með íslensku hugtökin alveg á hreinu þannig að ég læt ensk hugtök fylgja með.

Formúlan sem við notum til að reikna lágmarksstærð slembiúrtaks er:

Við viljum tryggja sem hæstan áreiðanleika og þar sem þessi könnun er mjög einföld (aðeins ein spurning) ætti það að ganga. Þannig að við notum mjög hátt öryggisstig (e. confidence level) (þetta er ekki skoðanakönnun - okkur ber að heimta að gögnin eru mjög áreiðanleg), eða 99% og lága villutíðni (e. margin of error), eða ±3. Við skulum líka gera ráð fyrir að langflestir sem við höfum samband við hafi í raun skráð nafn sitt á undirskritalistann, segjum 90%. Setjum tölurnar í formúluna og þá er hún svona:

Við reiknum þetta og fáum út 663. Þetta er lágmarksstærð slembiúrtaks miðað við forsendur okkar og ótakmarkað þýði (e. population), þ.e.a.s. að fjöldinn sem slembiúrtakið er tekið úr er ekki tilgreindur. Sumum finnst þetta kannski heldur lág tala miðað við ótakmarkað þýði, en það er vegna þess að við gerum ráð fyrir að mjög fáir (aðeins 10%) hafi villt á sér heimildir við skráningu á undirskriftalistann. Þannig að óvissan er mjög lítil og þar af leiðandi þarf ekki stórt slembiúrtak. Við getum líka reiknað út slembiúrtaksstærð miðað við tiltekið þýði (þ.e.a.s. fjölda undirskrifta sem söfnuðust) en þar sem óvissan er svo lítil í þessu tilfelli hefur það lítið að segja (reyndar reiknaði ég þetta og þá var slembiúrtakið 652. Munurinn er vel innan villumarkana ±3 þannig að hann skiptir ekki máli).

Svo er rétt að snúa þessu öllu við og reikna hver raunveruleg villutíðnin er miðað við slembiúrtak forsvarsmanna kjosum.is. Þá reiknum við þetta svona til að fá staðalvilluna (e. standard error):

og fáum 0,03

Margföldum svo við z-gildið sem samræmist 99% öryggistigi:

2,576 x 0,03 = 0,08

Villutíðnin miðað við slembiúrtakið er ±8%!

S.s. þessi 93,2% sem sögðu "já" í áreiðanleikakönnuninni benda til þess að ef við framkvæmdum könnunina aftur mættum við gera ráð fyrir að milli 85,2% og 100% myndu svara "já" í hvert skipti sem hún er framkvæmd. Þetta telst ekki áreiðanlegt í tölfræðinni. Það er of mikil óvissa til að geta ályktað nokkurn skapaðan hlut.

Látið endilega vita ef þið sjáið eitthvað athugavert við útreikninga mína.


mbl.is Ánægður með að Icesave-lög voru samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn ætti að hafna þessum undirskriftalista

Undirskriftalisti kjosum.is er ómarktækur og það er alfarið forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar að kenna. Undirskriftasöfnun er opinber yfirlýsing sem fólk kýs að leggja nafn sitt við. Hún er ekki kosning og ekki skoðanakönnun. Þeir sem kjósa að taka undir opinbera yfirlýsingu af þessu tagi eiga ekki rétt á nafnleynd frekar en sá sem stendur á Austurvelli með mótmælaskilti. Andstætt því sem Hallur Hallsson hélt fram í frétt á mbl.is í gær er ekkert í persónuverndarlögum sem bannar að birta nöfn eða kennitölur þeirra sem af fúsum og frjálsum vilja leggja nafn sitt við svona yfirlýsingu.

Svona tilbúningur gerir lítið úr raunverulegum möguleikum upplýsingatækni til efla virka lýðræðislega þátttöku í ákvörðunum sem skipta samfélaginu máli.


mbl.is Undirskriftir afhentar á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningafrelsi, upplýsingaflæði og ný stjórnarskrá

Aðgerðir stjórnvalda í Egyptalandi til að takmarka Internet notkun í landinu meðan óeirðir geysuðu í helstu borgum landsins vekja ýmsar spurningar varðandi fyrirhugað stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár Íslands.

Egypsk yfirvöld beittu mjög óvanalegri aðferð til að loka á netsambandi Egyptalands við umheiminn
. Í stað þess að loka á ákveðin vefsvæði eða netþjónustur, eins og er t.d. gert í Kína og víðar, voru upplýsingar sem stýra umferð um egypsk netsvæði fjarlægðar af netinu (svokallaðar "Internet routing tables" sem eru notaðar fyrir BGP samskipti milli beina). Þetta gerir það að verkum að ef reynt er að komast í samband við egypska netið, hvort sem er með netnafni (domain name) eða IP tölu, eru engar upplýsingar um hvaða leið beiðni um upplýsingar á að fara. Eins og sumir hafa orðað það, þá hreinlega hvarf egypska netsvæðið af netinu.

Spurningin sem vakir fyrir mér er þessi: Myndu ákvæði í núgildandi stjórnarskrá um tjáningafrelsi ná til aðgerðar e.o. þeirrar sem egypsk stjórnvöld beittu? Og, ef ekki ættu þau að gera það?

Ég held að þetta sé ekki einföld spurning. Þetta er ekki bara spurning um tjáningafrelsi, heldur mætti líka spyrja t.d. hver á og/eða ræður yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að tryggja upplýsingaflæði um netið?

Er þetta eitthvað sem ætti heima í nútíma stjórnarskrá?

Hannes Hólmsteinn og Laffer kúrvan

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur hamrað á því í mörg ár núna að tekjur ríkissjóðs hækka þegar skattar eru lækkaðir. Þetta byggist á hugmyndum hagfræðingsins Arthur Laffer sem er sagður hafa rissað upp hugmyndina á servíettu fyrir Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjana. Laffer teiknaði þetta upp sem kúrvu sem átti að sýna að þegar skattar eru 0% eru tekjur ríkissjóðs $0 og þegar skattar eru 100% eru tekjur ríkissjóðs líka $0 því fólk finnur sér leið til að forðast að borga skatta þegar þeir eru svo háir. Svo átti kúrvan á milli þessara púnkta að lýsa því að á ákveðnu sviði er hægt að hámarka tekjur ríkissjóðs með því að lækka skatta - síðan kallað "Laffer áhrif". Ástæðan í einfaldasta máli er að þegar skattar eru lægri er fólk líklegra til að borga sína skatta og að tekjuaukning launafólks skilar sér einnig til ríkissjóðs með ýmsu móti. Það hefur verið sýnt að hugmynd Laffers gengur upp í ýktum dæmum þegar skattar eru mjög háir til að byrja með (fyrir ofan jafnvægispunktinn - sem ég útskýri á eftir) og lækkunin mjög mikil - t.d. ef skattar eru 90% og svo lækkaðir niður í 50%. Hins vegar virðist það ekki ganga upp ef skattar eru hóflegir til að byrja með og lækkunin ekki mikil. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu og ég nefni helstu hér á eftir.

 

Hannes hefur oft notað tvö íslensk dæmi til að sýna fram á "Laffer áhrif". Fyrst er skattlausa árið 1987 áður en skipt var yfir í staðgreiðslukerfið og hitt eru skattar af leigutekjum sem voru lækkaðir úr 40-50% í 10%. Bæði eru dæmin um frekar ýktar lækkanir, en einnig var ýmislegt sem fylgdu skattalækkununum sem hefur vafalaust haft áhrif á greiðslu skatta. Varðandi skattlausaárið, í kjölfarið var tekið upp staðgreiðslukerfi á sköttum, sem var ætlað að auka skil á tekjusköttum. Það þyrfti því að taka tillit til þess ef meta á áhrif skattalækkunarinnar einnar. Varðandi leigutekjuskatta, þá fylgdi því leigubótakerfið sem hvatti leigjendur til að sjá til þess að leigutekjur væru uppgefnar, sem var líka sérstaklega ætlað að auka skil á leigutekjusköttum. Það þyrfti þá líka að taka tillit til þess þegar metin eru áhrif skattalækkunarinnar.

 

Hér er einfalt reikningsdæmi sem sýnir hvað verður um skattatekjur ríkisins þegar skattar eru lækkaðir. Ath. þetta er "raunhæf" lækkun en ekki ýkt lækkun:

 

Ég gef mér að fyrir skattalækkun eru meðal tekjur Íslendinga kr. 4,2 miljónir á ári. Ég gef mér líka að vinnandi einstaklingar á Íslandi eru 20.000

 

Ef tekjuskattur í upphafi er 30% þá skilar það kr. 25,2 miljörðum í ríkiskassan á ári ef allir borga það sem þeir eiga. En Laffer gengur auðvitað út frá því að það eru ekki allir að borga. Segjum þá að aðeins um 75% af skattinum náist. Þá er innheimta ríkissjóðs 17,6 miljarðar á ári.

 

Ef við lækkum skatta í 20% verða ríkistekjur af tekjusköttum kr. 16,8 miljarðar á ári ef allir borga. En segjum að fólk sé enn að svindla þó dregið hafi verulega úr því. Ef við segjum að það náist að innheimta 85% af sköttum þá eru ríkistekjur 14,3 miljarðar á ári.

 

Það vantar því ennþá 3,3 miljarða í að ríkistekjur verði sömu og fyrir skattalækkun.

 

Segjum þá svo að allir launþegar landsins eyða allri tekjuaukningunni sem hlaust af skattalækkuninni og að ríkið innheimti vask af því. Tekjuaukningin var kr. 35.000 á mann. Segjum að allir eyða þessu í lúxusvörur og við reiknum hámarks vask (sem myndi þó aldrei vera í raun) þá fást 171,5 miljónir. Þá vantar ennþá 3,13 miljarða í ríkiskassann til að ná því sem áður var!

 

Ég hef vísvitandi sett dæmið upp á einfaldan hátt miðað við kjöraðstæður fyrir ríkissjóðin. Hagfræðingar myndu reikna þetta allt öðruvísi með breytu sem tekur tillit til teygni (e. elasticity), sem tekur tillit til áhrifa skattalækkana á ýmsar breytur. Í þessu einfalda dæmi gengur hugmyndin greinilega ekki upp. Eflaust hefði skattalækkunin frekari áhrif sem skila einhverjum peningum í ríkiskassan en það er nokkuð greinilegt að það þarf eitthvað mikið að gerast ef skattalækkun sem þessi, ein og sér, á að gefa af sér verulega tekjuaukningu fyrir ríkið.

 

Laffer kúrvan er þó ekki gagnslaus með öllu. Það sem hún sýnir er að það er einhver jafnvægispunktur (skattaprósenta) þar sem hægt er að hámarka skattatekjur ríkissjóðs. Ef skattaprósentan er til hægri við þennan jafnvægispunkt (þ.e.a.s. hærri prósenta) hefur það neikvæð áhrif á innheimtu skatta. Þá er hægt að hakka skattatekjur með því að lækka skatta. Lækkun skatta hefur hins vegar lítið að segja ef skattaprósentan er til vinstri við jafnvægispunktinn. Innheimta skatta eykst ekki frekar en hún verður ef skattaprósentan er við jafnvægispunktinn og tekjur ríkisins lækka í samræmi við skattalækkunina. Hannes hlýtur því að gera ráð fyrir ákveðnum jafnvægispunkt og að hann sé einhversstaðar í nánd við núverandi skattaprósentu ef hann heldur að skattalækkun nú upp á t.d. 5-10% hafi einhver áhrif á skattainnheimtu. Flestir hagfræðingar í Bandaríkjunum telja að jafnvægispunkturinn þar sé nú um eða yfir 60%, jafnvel alveg upp í 70% (frjálslyndir stjórnmálamenn halda því gjarnan fram að jafnvægispunkturinn sé mun lægri, jafnvel niður í 20%, en forðast að sýna hvers vegna hann ætti að vera svo lágur). Jafnvægispunkturinn er breytilegur eftir aðstæðum því það er ekki aðeins skattaprósentan sem hefur áhrif á ákvörðun hans, heldur fer þetta eftir teygni uppgefinna tekna, sem tekur tillit til margra þátta, þ.e.a.s. að hlutir e.o. möguleikar yfirvalda til að tryggja innheimtu skatta hafa líka áhrif. Þá er allavega ein spurning sem Hannes þarf að svara, er jafnvægispunkturinn fyrir Ísland á Laffer kúrvunni virkilega svo mikið lægri en í Bandaríkjunum að breytingar á skattaprósentu um 5-10% munu hafa áhrif á skattatekjur ríkisins? Með öðrum orðum, er Ísland nú öfugum megin á Laffer kúrvunni með tekjuskatt rétt innan við 40%?

 

Að lokum (út af því að einhver á eftir að benda á að þetta er í raun það sem Hannes er að fara) - Það er önnur hlið á Laffer kenningunni sem tengist s.k. framboðshliðar kenningum (e. supply-side) í hagfræði. Þessar kenningar nota Laffer kúrvuna á annan hátt - til að sýna að lækkun tekjaskatts hefur jákvæð áhrif á hagvöxt. Þetta er óumdeilt. Skattalækkanir hafa jákvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega til skamms tíma. Það segir sig sjálft, ef almenningur hefur meiri pening milli handa er meira fjárstreymi í samfélaginu. En þetta hangir allt saman. Spurningin er hvort við séum til í að auka hagvöxt á kostnað ríkissjóðs, því það fer ekki milli mála að, miðað við núverandi aðstæður, hafa skattalækkanir neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs. Besta dæmið um það hvernig skattalækkun hefur jákvæð áhrif á hagvöxt um leið og hún hefur neikvæð áhrif á ríkissjóð eru skattalækkanir Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum 2003. Við vitum hvernig það endaði (eða á eftir að enda...).


Frelsisflækja Hannesar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti nýlega grein á Pressublogginu sínu þar sem hann færir rök fyrir því að styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins séu einir "eðlilegir" þar sem hann er einn flokka sem styður frjálst atvinnulíf. Hann lýkur greininni svo á að óska eftir mótrökum frá þeim sem sjá eitthvað athugavert við þetta. Yfirleitt þegar rökfærslur eru notaðar til að réttlæta ójöfnuð er eitthvað að. Ég sé helst tvennt í rökum Hannesar sem er gagnrýnivert. Í fyrsta lagi misbeitir hann lykil hugtaki til að fá fram ákveðna niðurstöðu og í öðru lagi persónugerir hann dauðann hlut til að gera ábyrgð óljósa.

Hannes ýjar að því að "vinstri" flokkar (það má auðvitað deila um það hvað og hverjir eru vinstri sinnaðir eða ekki) séu "fjandsamlegir … hinu frjálsa atvinnulífi". Spurningin er, hvað meinum við með "frelsi" í þessu samhengi. Almennt er talað um tvær túlkanir á frelsi; neikvætt frelsi og jákvætt frelsi (I. Berlin) (sumir bæta við þriðju túlkun sem er nokkurs konar sambland af þessu tvennu - t.d. J. Christman). Neikvætt frelsi er frelsi gagnvart afskiptum annarra hvort sem er hið opinbera eða önnur samfélagsleg öfl. Jákvætt frelsi er frelsi í þeim skilningi að hver og einn hafi jafna möguleika að þróa sína hæfileika til fullnustu. Neikvætt frelsi er sú túlkun sem frjálshyggjufólk aðhyllist almennt - boð og bönn vinna gegn frelsi og skulu beitt í hófi. Jákvætt frelsi er oftast tengt við jafnaðarstefnu - hið opinbera notar vald sitt til að tryggja að allir hafa jafnt tækifæri til að ná frama í lífinu þó svo að það takmarki að einhverju leyti frelsi sumra.

Hannes gerir greinilega ráð fyrir að neikvætt frelsi sé hið eina frelsi. Ef við samþykkjum aðra túlkun á frelsi getum við þá spurt hvort jákvætt frelsi sé andstætt frjálsu atvinnulífi? Fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnu er svarið einfaldlega nei. Jafnaðarfólk leitast við að tryggja jákvætt frelsi til þess að atvinnulífið hafi örugglega aðgang að hæfasta fólki hverju sinni án tillits til félagslegra aðstæðna og til að tryggja að allir aðilar atvinnulífsins hafi jafna möguleika. Þetta er líka frjálst atvinnulíf þó það sé nokkuð frábrugðið neikvæða frelsinu sem Hannes gerir ráð fyrir.

Samkvæmt rökfærslu Hannesar er þá ekkert "óeðlilegt" við það að atvinnulífið styrki aðra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokkinn eftir því hvernig þeir kjósa að skilgreina "frelsi". Þetta er í raun bara spurning um gildismat styrkveitanda, þ.e. að það hlýtur að teljast eðlilegt að styrkveitandi styrkir þann stjórnmálamann/flokk sem starfar í samræmi við skoðanir hans og gildi.

Það er þó enn eitthvað bogið við þá hugmynd að fyrirtæki geti haft þau áhrif á stjórnmál í lýðræðisríki sem ætlað er að setja valdið í hendur fólksins. Hannes segir "að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið." Hér held ég að "fyrirtæki" sé að fá of mikla yfirnáttúrulega hæfileika í meðferð Hannesar. Félög (e. organisation, þ.e.a.s. fyrirtæki, verkalýðsfélög, stjórnmálaflokka, o.s.frv.) eru yfirleitt skilgreind þannig að tilvist þeirra sé óháð þeim einstaklingum sem starfa innan þess. Með þessu er verið að vísa til þess að innan félags má skipta út einstaklingum eða færa til í starfi án þess að það komi niður á starfsemi félagsins. Það er þó tilhneiging að mistúlka þetta þannig að félagið, sem slíkt, sé framkvæmdaraðili, en ekki einstaklingarnir innan þess. Þ.e.a.s. að félagið er persónugert, að það fær eiginleika einstaklings - félagið getur "gert" hluti. En það er ekki félagið sem "gerir" hlutina. Það eru stjórnendur og aðrir einstaklingar sem taka ákvarðanir um það sem er gert í nafni fyrirtækisins. Fyrirtækið sem slíkt hefur engan vilja heldur lýtur að vilja stjórnenda þess.

Hannes flækir svolítið mál sitt með því að persónugera fyrirtæki (fyrirtækið "vinnur" að einhverju) og í næstu orðum að gera stjórnendur ábyrga fyrir ákvörðunum ("Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila…"). Það er mikilvægt að það sé skýrt hver nákvæmlega það er sem er að styrkja stjórnmálaflokka og í þágu hvers. Ef fyrirtækið, sem slíkt, er að veita styrki og vinna þannig að eigin hagsmunum (þ.e.a.s. ef slíkt væri yfir höfuð hægt) hlýtur fyrirtækið að vera einhvers konar virkur "aðili" í samfélagi sem hefði þá jafnvel réttindi í líkingu við einstakling. Þá er fullkomlega eðlilegt að fyrirtækið fái að vinna í eigin þágu á sama hátt og einstaklingur, t.d. með því að styrkja stjórmálamenn og flokka. Hins vegar, ef fyrirtækið er aðeins samnefnari fyrir stjórnendur þess og hluthafa, þá horfir öðruvísi á málið. Þá eru styrkveitingar fyrirtækja í raun bara hagsmunagæsla ákveðinna einstaklinga. Slík hagsmunagæsla er óeðlileg því hún notfærir fjárhagslegan og félagslegan styrk fyrirtækja sem fáir, ef þá nokkrir, einstaklingar hafa yfir að ráða. Ef ákveðnir einstaklingar geta nýtt sér á þennan hátt styrk fyrirtækja til að hafa áhrif á stjórnmál takmarkar slíkt frelsi óbreyttra einstaklinga til að hafa áhrif á stjórnmál sem hafa ekki yfir slíkum styrk að ráða.

Niðurstaðan er þá þessi: Ef styrkir fyrirtækja til stjórnmálamanna/flokka eru yfir höfuð réttlætanlegir þá hlýtur það að ákvarðast af gildismati og skoðunum styrkveitanda og stjórnmálamanns/flokks hvort styrkveiting þykir eðlileg. Það eru engin ákveðin gildi sem ganga yfir alla og ekkert óeðlilegt að sum fyrirtæki styrki "vinstri" flokka. Hins vegar, er spurning hvort það sé yfirleitt eðlilegt að fyrirtæki styrki stjórnmálamenn/flokka þar sem slíkt getur takmarkað frelsi einstaklinga til að hafa áhrif á stjórnmál í sínu samfélagi.


Ísland enn á niðurleið - staðnandi upplýsingasamfélag

Árin 2004 og 2005 var Ísland í 2. sæti á Network Readiness listanum og hefur verið á nokkuð stöðugri niðurleið síðan (sjá lista fyrri ára hér). Þetta skýrist að einhverju leyti af því að lönd eins og Hong Kong og Taívan hafa verið að færast upp en er líka vegna breytinga á því hvernig vísitalan er reiknuð. Það þarf samt að hafa í huga að á árunum 2004 og 2005 var meðvituð uppbygging upplýsingasamfélags á Íslandi enn í hámarki. Minni áhersla hefur verið lögð á markvissa uppbyggingu á Íslandi síðan. Þetta sést í upplýsingastefnu yfirvalda síðan 2004 sem hefur verið ómarkvissari og skilað minni árangri en á fyrstu árum 21. aldar (sjá t.d. úttekt á framkvæmd stefnu um upplýsingasamfélagið 2004-07 hér). Því miður virðast íslensk stjórnvöld ekki átta sig fyllilega á því hvernig upplýsingasamfélaginu er háttað og hafa þ.a.l. leyft sér að líta svo á að uppbygging þess hafi verið afmarkað tímabundið verkefni. Eftirfylgnin hefur að mestu gleymst og það er farið að sjást glögglega á Network Readiness listanum.
mbl.is Svíar tæknivæddasta hagkerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgangur að háhraðaneti lögbundin réttindi í Finnlandi

Samkvæmt nýjum lögum í Finnlandi hafa allir Finnar rétt á aðgangi að breiðbandi. Það hefur verið markmið alþjóðlegra stofnana á borð við Sameinuðu Þjóðanna að aðgangur að samskiptatækni verði skilgreind sem mannréttindi allt frá því að MacBride skýrslan s.k. (titill: Many Voices One World) kom út 1980. Nokkur lönd hafa skilgreind aðgang að samskiptatækni sem mannréttindi, e.o. Frakkland, Eistland o.fl. en Finnar eru þeir fyrstu sem lögbinda þau réttindi. Svo þykir það einnig mjög framsækið að Finnar ganga svo langt að gera aðgang að breiðbandi. 3 húrra fyrir Finna!

Eins og þessi sjóður?



Það er ekki nóg með að þessi sjóður er þegar til en reynslan af honum er hörmuleg. Sjá fyrri skrif mín um Special Climate Change Fund SÞ hér.



mbl.is Vill sérstakan loftslagssjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband