Rannsóknir í HÍ - meðalmennska eða stefnuleysi?

Jón Steinsson er með grein um stefnu Háskóla Íslands 2006-11 og matskerfi fyrir rannsóknastarf vísindamanna. Þar segir hann að matskerfi HÍ hvetji fræðimenn til meðalmennsku í rannsóknastarfi þar sem punktakerfi er ekki í samræmi við alþjóðleg gæðaviðmið rannsókna. T.d. setur hann út á það að greinar í íslenskum tímaritum og íslensk bókaútgáfa veiti of marga punkta samanborið við virtustu alþjóðlegu fagtímarit. Það er margt til í því sem Jón segir, en varðandi mismunun á innlendri og erlendri útgáfu og birtingu held ég að Jón sé að horfa framhjá mikilvægum þætti í starfi HÍ, sem er að efla íslenskt vísindasamfélag. Þannig einkennist grein hans af fremur takmarkaðri sýn á hlutverki háskóla í litlu samfélagi eins og á Íslandi.

Jón setur dæmið upp á mjög einfaldan hátt sem miðast alfarið við alþjóðlegt vísindasamfélag og mat þess á gæðum rannsókna. Þetta er s.s. í samræmi við þætti í stefnu HÍ þar sem stefnt er að því að auka veg stofnunarinnar á alþjóðlegum vettvangi. HÍ er þó í mun flóknari stöðu en það því hann hefur líka hlutverki að gegna gagnvart íslensku samfélagi, sem er ekki síður mikilvægt en að koma íslenskum vísindum á framfæri á alþjóðlegum vettvangi. Öflugt íslenskt vísindasamfélag stuðlar bæði að útbreiðslu nýrrar þekkingar innanlands og endurnýjun innan vísindasamfélagsins. Það er í raun ekki hægt að skilja milli þessara tveggja þátta því öflugt íslenskt vísindasamfélag er mikilvæg forsenda þess að íslensk vísindi séu gjaldgeng á alþjóðlegum vettvangi. Stofnun eins og HÍ þarf því að finna hæfilegt jafnvægi milli þessara tveggja þátta.

Það sem mér finnst í raun vekja meiri furðu en núverandi matskerfi er að hlutverk HÍ gagnvart íslensku vísindasamfélagi virðist að miklu leyti horfið úr stefnuskrám og lögum um starfsemi stofnunarinnar. Þannig er hlutverk HÍ gagnvart íslensku vísindasamfélagi orðið að eins konar óskrifaðri reglu með óskýrum markmiðum. Þá skortir ramma fyrir mat á þessum mikilvæga þætti í starfsemi HÍ og þ.a.l. forsendur fyrir samræmingu við starfsemi gagnvart alþjóðlegu vísindasamfélagi.

Jón vekur athygli á mikilvægum málum en ég held að það sé frekar einhæft að einblína á matskerfið. Töluverðar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum sem hafa áhrif á HÍ, s.s. aukin alþjóðavæðing háskóla og gífurleg aukning á fjölda námsmanna á öllum stigum. Gagnrýni Jóns undirstrikar að í öllum uslanum við að laga starfsemi HÍ að þessum breyttu aðstæðum hefur sumt gleymst. En þá er ekki viturlegt að ana af stað með enn fleiri illa hugsaðar breytingar sem taka ekki tillit til heildar umgjarðarinnar. Matskerfi á rannsóknarstarfi HÍ þarf að miðast við margþætt hlutverk stofnunarinnar og breytt umhverfi háskólastofnana almennt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband