Rangfærslur um kostnað skóla á RÚV

Frétt RÚV um kostnað menntunar á Íslandi sem var í fréttum í kvöld (23.8.12) byggist á misskilningi og rangfærslum. Þar er sagt að opinbert framlag til menntamála á Íslandi sé með því hæsta í heimi, eða "11ta hæsta í heiminum" (er að ég held rúmlega 8% af landsframleiðslu núna), og kvartað undan því að árangur sé ekki í samræmi við það. Þetta er ekki rétt. Opinber framlög til menntamála á Íslandi er 11ta hæsta meðal OECD ríkja, sem eru ca. 30, og er rétt við OECD meðaltalið. Á heimsvísu eru mörg lönd sem leggja fram umtalsvert meira opinbert fé til menntamála - má t.d. nefna Kúbu þar sem framlög til menntamála nálgast 15% af landsframleiðslu. Svo eru mörg þróunarlönd sem leggja fram vel yfir 8% af landsframleiðslu til menntamála. Og nei, við erum ekki nálægt því að vera hæst í Evrópu e.o. ýjað er að í fréttinni. Sviss, Noregur, Danmörk, Austurríki, Holland, Belgía og Svíþjóð eru öll með hærri heildarframlög en við.

Það er hins vegar mjög athyglisvert að skipting opinbera framlaga til menntamála á Íslandi eftir skólastigum er mjög á skjön við það sem gerist í öðrum OECD löndum. Íslendingar leggja hlutfallslega meira (töluvert meira) í for- og grunnskóla, minna til framhaldsskóla og fáránlega lítið til háskóla (þar sem kennararnir fyrir öll þessi skólastig eru menntaðir!).

Það hefur lítið að segja að kvarta undan háum opinberum framlögum til menntamála á Íslandi án þess að athuga í hvað þessi framlög fara. Ísland hefur töluverða sérstöðu í hópi OECD ríkja vegna smæðar. Það er t.d. miklu dýrara að framleiða vandað námsefni fyrir okkar litlu hópa námsmanna. Og svo eru það blessuðu samræmduprófin sem má gera ráð fyrir að kosti okkur töluvert meira en í fjölmennari löndum. Svona mætti vel halda áfram en ég læt þetta nægja að sinni.

Það er lágmark þegar á að búa til einhverjar tengingar milli kostnaðs menntunar og árangurs að hafa staðreyndirnar á hreinu.

Smá viðbót (24.8.12): Það er hárrétt hjá Ólafi Loftssyni að ekkert samhengi virðist vera milli aldurs kennara og getu til að tileinka sér tækni. Samkvæmt skýrslu Framkvæmdastjórnar ESB frá 2008 var meðalaldur kennara í Svíþjóð með því hæsta í Evrópu en Svíþjóð var líka eitt þeirra ríkja sem notaði mest tækni í skólum. Lægsti meðalaldur var í Austur-Evrópu en þar var notkun á tækni með minnsta móti.

(Ath. að tölur eru flestar skv. Education at a Glance 2011 sem byggir á gögnum frá 2008. Education at a Glance 2012 er væntanleg í september á þessu ári)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband