Okkur vantar framtíðarflokk í íslensk stjórnmál

keep-calm-and-let-s-make-our-future
Ég skipti mér ekki mikið af pólitík hér á Upplýsandi tæki en var að detta í hug: okkur vantar framtíðarflokk í íslensk stjórnmál. Hlutverk framtíðarflokksins er einfalt - hann sér til þess að pólitískar ákvarðanir miðast við væntanlega og æskilega tæknilega og samfélagslega þróun til lengri tíma. Framtíðarflokkurinn sér til þess að stjórnvöld vinni út frá raunhæfri og heillavænlegri framtíðarsýn sem byggir á stöðugu mati á breytingaröflum og áhrifavöldum. Þegar einn flokkur segir “Það kemur ekki til greina að ganga í ESB.”, segir Framtíðarflokkurinn “Hvernig lítur Ísland utan ESB út eftir 20-30 ár?” Þegar einn flokkur segir “Það þarf að stytta skólagönguna.”, segir Framtíðarflokkurinn “Hvernig lítur samþjappaðra skólakerfi út eftir 20-30 ár?”, og svo framvegis.

Framtíðarflokkurinn myndi sjá til þess að framtíðarsýn og viðmið mótast af hlutlausri og vísindalegri umræðu um breytingaröfl sem kunna að hafa áhrif á íslenskt samfélag. Flokkurinn sjálfur er ekkert sérstaklega til hægri, vinstri eða þar á milli, en er meðvitaður um að slíkar hugmyndafræðilegar tiktúrur hafa óneitanlega áhrif á þróun mála til lengri tíma. Þannig yrði tekið tillit til pólitískra strauma og stefna í mótun langtímasýnar eins og aðra þætti sem kunna að hafa áhrif.
 
Virðist vera til vísir af svona stjórnmálaflokki í Ástrálíu (kemur s.s. ekki á óvart - margir merkustu framtíðarfræðingar í dag eru frá Ástralíu).
 
Er ekki einhver sem er meira pólitískt þenkjandi en ég til í að taka við og gera eitthvað úr þessu?

Kunnum við nógu vel á framtíðina?

believablefuture
Í Kanada taka stefnumótendur framtíðina alvarlega. Þar hefur verið starfrækt síðan 2011 opinber stofnun, Policy Horizons Canada, sem hefur það hlutverk að afla og miðla upplýsingum um tækni- og samfélagslega þróun framtíðar fyrir opinbera aðila, stefnumótendur, og almenning. Þannig er unnið markvisst að því að yfirvöld, atvinnulíf, stefnumótendur og aðrir hafi þær upplýsingar sem þeir þurfa til að miða aðgerðir að langtímaþörfum samfélagsins. Stofnunin gefur út ótal rit á ári en ein helsta afurðin er MetaScan ritröðin, en MetaScan3 kom út nýverið þar sem er farið yfir helstu tækninýjungar sem munu líta dagsins ljós á næstu 10-15 árum.

Það er minn draumur að til verði framtíðarstofa af þessu tagi hér á Íslandi (alla vega fyrir menntasamfélagið) sem hefði það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um framtíðina, en líka að þjálfa þá sem koma að mótun skóla- og menntastarfs í því að vinna kerfisbundið með slíkar upplýsingar og miða ákvarðanatöku við langtímaþarfir samfélagsins.

Á síðustu rúmlega 5 árum hef ég unnið með ýmsum hópum skólafólks, bæði hér á Íslandi og erlendis, við að vinna úr upplýsingum um framtíðina og nýta til stefnumótunnar. Það er ýmislegt sem maður lærir af svonalöguðu, t.d.:

Okkur (mannkynið) er tamt að hugsa um framtíðina - við ímyndum okkur framtíð, gerum fyrirætlanir og miðum oft okkar athafnir við tiltekna framtíðarsýn. Maðurinn er framtíðarmiðuð skepna!

Þrátt fyrir að vera framtíðarmiðuð að eðlisfari er ekki sjálfgefið að við séum sérstaklega klár þegar kemur að því að hugsa um framtíðina.
  • Flestum reynist erfitt að hugsa lengra en 5 ár fram í tímann nema þá í rótgrónum staðalmyndum.
  • Framtíðarsýn byggir oftar en ekki á ímynduðum stöðugleika, það er að segja að jafnvel þegar við hugsum 5 ár fram í tímann eða lengra endurspeglar sýnin nútímann án nægilegs tillits til fyrirsjáanlegra breytinga.
  • Tiltölulega fáir meðal sérfræðinga, stefnumótenda eða almennings fylgjast nægilega með því sem er að gerast í tækni- og samfélagsþróun hverju sinni til að geta sett fram raunhæfar áætlanir um hvers er að vænta 10-15 ár fram í tímann.

Allt þetta verður til þess að jafnvel þegar við tökum okkur til og ætlum okkur að móta framtíðarsýn til langs tíma fyrir íslenskt samfélag misheppnast það og framtíðarsýnin verður úrelt á örfáum árum - ef hún var þá einhverntíma gild.

Ef við hér á Íslandi ætlum okkur að taka framtíðinni alvarlega, eins og Kanadamenn eru að gera, þurfum við fyrst og fremst að gera tvennt:
  • Huga að því hvernig við ætlum að afla upplýsinga, vinna úr þeim og miðla til þeirra sem þurfa,
  • og byggja markvisst upp hæfni þeirra sem koma að, eða hafa áhrif á, ákvarðanatöku til að móta raunhæfa framtíðarsýn sem hægt er að fylgja til lengri tíma.
Þetta er verðugt verkefni sem enginn, sem ég veit um, er að vinna að um þessar mundir. 
 
Og hérna er svo vandinn við þetta allt saman: við höfum ekki svigrúm til að eyða miklum tíma í þetta! Tækniþróun verður sífellt örari og er jafnvel orðin slík nú þegar að meðal manneskjan getur ekki lengur fylgst með öllum þeim breytingum sem eru að eiga sér stað hverju sinni, jafnvel á sviðum sem hver og einn þykist hafa sérþekkingu.

Hver ætlar að vera memm’ í þessu?
 
Að lokum - Með skýrslunni MetaScan3 hefur Policy Horizons Canada látið gera þessa mjög fínu "infographic" til að lýsa tækniþróun komandi ára. Hér er flott uppsettning sem gott er að skoða á tölvuskjá.

Vandinn við að greina vandamál - í samtíð og framtíð

square_peg_in_round_hole_2

Einn mikilvægasti og jafnframt flóknasti þáttur í hvers kyns stefnumótun er að greina þann vanda sem stefnan á að leysa. Stefna sem tekur ekki á raunverulega vandamálinu er dæmd til að mistakast og vinna og kostnaður við stefnumótun og innleiðingu til einskis. Það sem flækir málið enn frekar er að orðræða á fyrri stigum stefnumótunarumræðu á það til að vera lituð af pólítík, þ.e.a.s. að pólitísk öfl leggja sig fram við að skilgreina vandamálið þannig að það flútti vel við þeirra skoðanir. Við sjáum dæmi um þetta nær daglega í fjölmiðlum þar sem tekist er á um að beina orðræðu í tiltekinn farveg. Í menntamálum gerist þetta all oft, kannski helst vegna þess að menntun er svo margþætt en jafnframt eitthvað sem allir í samfélaginu upplifa og telja sig þar með hafa innsýn í. Ég ætla hér aðeins að renna yfir nokkur dæmi um vafasamar vandamálagreiningar, tengdar menntun og öðru, og svo aðeins að fjalli um greiningu vandamála sem kunna að koma upp í framtíðinni.
 
Hver er vandinn?
Nokkur dæmi um varhugaverða vandamálagreiningu:
 
Dæmi um dúbíus vandamálagreiningu birtist í frásögn á mbl.is í dag þar sem sagt er frá umfjöllun í blaðinu um Reykjavíkurflugvöll. Því er haldið fram þar að lokun flugvallarins í Reykjavík leiði til mikillar hækkunnar á flugfargjöldum innanlands, sem allir vita eru ískyggilega há nú þegar. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að málið snýst ekki sérstaklega um Reykjavíkurflugvöll heldur almennt um varaflugvöll á suðvesturhorni landsins. Eins og er er Reykjavíkurflugvöllur eini varaflugvöllurinn á þessu svæði. Gengið er svo að því vísu að verði Reykjavíkurflugvöllur lokaður verði þar með enginn varaflugvöllur á svæðinu. Það er engan veginn sjálfgefið.
 
Umræða um styttingu náms hefur verið mjög áberandi undanfarið. Menntamálaráðherra hefur meðal annars talað fyrir því að stytta þurfi framhaldsskólann til að sporna við brotthvarfi úr námi. Brotthvarf úr námi hefur verið mikið rannsakað á Íslandi, bæði með langtímarannsóknum og afmarkaðri rannsóknum fræðimanna og framhaldsnema. Mér vitandi hefur aldrei komið neitt fram í þeim rannsóknum sem styður þá fullyrðingu að brotthvarf stafi helst af lengd náms. Ef ætti að fara eftir þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar held ég að það sé nokkuð skýrt hvað þyrfti að gera til að taka á brotthvarfi: það er að auka stuðning við nemendur og gera námið áhugaverðara og skemmtilegra.
 
Nýverið var sagt frá rannsókn sem gerð var fyrir menntamálaráðuneytið um ástæður brotthvarfs. Niðurstaðan eins og hún var tilkynnt í fjölmiðlum var eitthvað á þá leið að þeir nemendur sem falla frá námi mæta illa. Svona umfjöllun vekur bara fleiri spurningar heldur en hún svarar. Raunverulegi vandinn er augljóslega ekki að nemendur mæta ekki heldur þarf að spyrja sig hvers vegna nemendur mæta ekki. Miðað við fyrri rannsóknir er ástæðan líklega að nemendur hafa ekki aðgang að þeim stuðningi sem þeir þurfa og að þeim finnst námið leiðinlegt. Við erum komin aftur á sama stað.
 
Því hefur oft verið varpað fram í umræðu um menntamál að vandi skóla í dag er að nemendur læra ekki eins og þeir eiga að gera. Margar ástæður hafa verið gefnar, m.a. að nemendur eru of uppteknir af öðru, þá skortir einbeitingu, og svo framvegis, en alltaf þannig að það er eitthvað að nemendunum. Ég hef jafnvel lesið greinar þar sem skólafólk sjálft, sem manni finnst að eigi að vita betur, hefur fullyrt þetta. Þarna er verið að varpa vandamáli á einn tiltekinn hóp án ítarlegrar greiningar á raunverulegu stöðunni. Niðurstaðan verður þá á þá leið að til þess að taka á þessum vanda þurfi að breyta nemendum en ekki skólanum.
 
Upplýsingatækni nemenda hefur oft verið sögð trufla skólastarf og þar af leiðandi nauðsynlegt að takmarka notkun hennar. Þetta er sérlega áhugaverð umræða vegna þess að þar er ein tækni af þeim fjölmörgu sem notuð eru í skólastarfi tekin fyrir og metin út frá allt öðrum forsendum en allt hitt (ég nota hér tækni í mjög víðum skilningi - pappír er tækni, blýantur er tækni, skrifborð er tækni, skólastofa er tækni, o.s.frv.). Í höndum nemenda getur blað og blýantur orðið jafn mikil truflun og snjallsími ef þeim leiðist og hafa ekkert uppbyggilegt til að gera við tæknina. Ein leiðin sem komið er í veg fyrir að sum tækni hafi truflandi áhrif er einfaldlega að gefa nemendum eitthvað uppbyggilegt til að gera við hana. Við kennum og hvetjum nemendur til að nota blað og blýant til þess að læra - er verið að gera það sama með upplýsingatæknina? Ef nemendur fengju að nota sína upplýsingatækni til að vinna markvisst úr verkefnum, væru þau þá að nota þau í “truflandi” tilgangi? Hvað er raunverulega vandamálið hér?
 
Það var einu sinni starfandi aðstoðarskólastjóri í námskeiði sem ég var að kenna þegar ég var við nám í Bandaríkjunum sem sagði mér að “cyberbullying” (einelti á netinu) væri ekki vandamál í hennar skóla vegna þess að farsímanotkun nemenda er með öllu bönnuð. Þarf ég að segja eitthvað fleira um þetta?
 
Það er margt flókið í stefnumótunarfræðum, en þrátt fyrir það er viðfangsefni stefnumótunar nokkuð einfalt: það er að leysa vandamál. Lausn vandamáls er andhverfa vandamálsins. Þess vegna skiptir öllu máli að vandamálið sé rétt greint hverju sinni. Ef gengið væri út frá þeim vandamálum sem skilgreind eru í dæmunum hér fyrir ofan sjáum við, að ég held nokkuð augljóslega, að stefnur sem leiða af þeim væru í öllum tilvikum dæmdar til að mistakast vegna þess að þær myndu ekki taka á raunverulega vandanum.
 
Vandi framtíðar 
En hvað gerist ef við hugsum fram í tímann og veltum fyrir okkur hvaða vandamál kunna að koma upp í nálægri eða fjarlægri framtíð? Þó svo að við vitum heilmargt um framtíðina, sérstaklega um stefnur í tækniþróun og þess háttar, þá vitum við minna um hvernig fólk mun bregðast við tækninýjungum og hvaða samfélagslegar aðstæður skapast. Án þeirrar vetneskju er nær ómögulegt að vita með vissu hvaða vandamál munu gera vart við sig. En þá getum við reynt að hugsa um fyrirbyggjandi aðgerðir - það er að segja, hvernig komum við framtíðarþróun í þann farveg að líklegast verður að ákjósanlegar aðstæður skapast. Framtíðarfræðin (í núverandi mynd) hafa þróað aðferðir í um 7-8 áratugi og margar þær aðferðir orðnar nokkuð öflugar. Upphaf nútíma framtíðarfræða má rekja til kaldastríðsára í kringum 1940-50 þegar heröfl í Bandaríkjunum vildu geta verið við öllu búnir. Markmið framtíðarfræðanna á þessum tíma var þá fyrst og fremst að lýsa aðstæðum sem kynnu að skapast svo Bandaríkjaher gæti gert viðbragðsáætlanir.
 
Í dag eru framtíðarfræðin notuð í stefnumótun á ótal sviðum, allt frá efnhagsmálum til náttúruverndar. Það er svo bara á síðustu ca. 10-20 árum sem notkun framtíðarfræða fyrir stefnumótun í menntamálum hefur verið að aukast. Nokkrir helstu drifkraftar í þeirri þróun eru Richard Slaughter í Ástralíu, Chris Dede við Harvard háskóla, Arthur Harkins við háskólann í Minnesóta og Jim Dator við háskólann í Hawaii. Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á framtíð menntunar til að kynna sér fræði þessara aðila.
 
Vandinn við að greina vandamál framtíðar er helst að fjarlægð í tíma gerir fólki, hvort sem það er almenningur, skólafólk eða stefnumótendur, erfitt að meta alvöru viðfangsefnisins. Fyrir flestum þykja vandamál framtíðar ekkert sérlega brýn þar sem strangt tiltekið er ekki um vandræðaástand að ræða - alla vega ekki enn sem komið er. Þá telja margir mikilvægara að leysa þau vandamál sem við er að etja í núinu áður en farið er að huga að fjarlægu óvissuástandi sem kann að skapast í framtíðinni.
 
Hvaða gagn er þá í framtíðarfræðunum, og þá sérstaklega með tilliti til menntunar? Framtíðarfræðin geta vissulega varpað ljósi á tiltekin vandamál sem kunna að koma upp í framtíðinni þannig að við getum gert áætlanir og verið viðbúin. En það sem er sennilega gagnlegra er að framtíðarfræðin geta hjálpað að átta okkur á möguleikum og tækifærum framtíðarinnar. Þá þurfum við ekki sérstaklega að greina tiltekinn vanda heldur frekar að tilgreina framtíðina, sem slíka, sem verðugt verkefni til að takast á við.
 
Burtséð frá vandanum við að greina vandamál framtíðarinnar þá má færa rök fyrir því að það sé vandamál í sjálfu sér að við erum afar illa undirbúin fyrir framtíðina. Þessi vandi er sérlega brýnn í ljósi þess að tækniþróun er að verða sífellt örari. Ef við byrjum ekki að huga að framtíðinni núna þá eykst vandinn til muna næstu árin.

Íslenskir skólar sem "lærdómssamfélög" eða "lærdómssamfélög"?

priorities

Um helgina sótti ég vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar á Akureyri - Það verður hverjum að list sem hann leikur: Lifandi starfsþróun – árangursríkt skólastarf. Á ráðstefnunni var lögð áhersla á símenntun og starfsþróun skólafólks og fannst mér hugtakið “lærdómssamfélag” nokkuð áberandi. Allt gott með það - þetta er vissulega áhugaverð nálgun sem hefur vakið mikla athygli undanfarin ár. Það sem truflar mig hins vegar er að mér finnst ekki skýrt hvað er átt við nákvæmlega þegar hugtakið er notað í íslensku samhengi. Ég held að íslenska hugtakið “lærdómssamfélag” hefur verið notað til að þýða mörg skyld en ólík hugtök, e.o. learning society, learning organisation, organisational learning, professional learning community og margt fleira. En hvað af þessu á skólafólk á Íslandi við þegar það notar hugtakið “lærdómssamfélag”? Kannski er jafnvel verið að tala um eitthvað allt annað…
 
Mér finnst nokkuð augljóst að ef það á að gagnast okkur að vísa í “lærdómssamfélag” sem mögulega lausn á áskorunum sem íslenskir skólar standa fyrir, þá þarf meiri umræðu um hugtakið og sérstaklega hvað við viljum að það merki í íslensku samhengi.
 
Hér á eftir ætla ég að renna aðeins yfir nokkrar ólíkar útfærslur á því sem ég held að átt er við þegar íslenskt skólafólk talar um lærdómssamfélag. Með því vil ég undirstrika hversu fjölbreyttar leiðir er hægt að fara í þessum málum. Tilgangur minn með þessu er ekki að neyða okkur til að velja en frekar að reyna að leggja grunn að umræðu um hvað af þessu við skólafólk á Íslandi viljum nýta til að skilgreina hugtak þannig að það gagnist okkur.
 
1. Learning society: D. Schön, R. M. Hutchins, T. Husén. Rætur hugtaksins “learning society” eru af mörgum taldar liggja í umræðu sem náði hámarki um lok 7da og byrjun 8da áratugs síðustu aldar sem snerist fyrst og fremst um glímuna við íhaldssöm öfl innan stofnana, fyrirtækja, samfélaga og svo framvegis. Donald Schön var líklega með þeim áhrifamestu sem tóku þátt í þessari umræðu en hann lýsti vandanum þannig að stofnanir eru ekki bara íhaldssamar heldur “[they] fight like mad to remain the same.” Lausnin að mati Schön og hugsanabræðra hans, og það sem þeir meina með “learning society” í hnotskurn, fólst í því að auka vægi símenntunar. S.s. lærdómssamfélag er samfélag sem styður og hvetur til símenntunar (n.b. hér er ekki átt við símenntun sem endurmenntun heldur sem nám frá vöggu til grafar).
 
2. Organisational learning(a): Argyris & Schön. Schön þróaði hugmyndir sínar um lærdómssamfélagið frekar, sérstaklega í samstarfi við Chris Argyris, og varð þá til það sem þeir félagar kalla “organisational learning”. Hér er áherslan sérstaklega á það hvernig stofnanir, fyrirtæki, félög, o.s.frv. nýta sér reynslu af mistökum og sigrum. Argyris & Schön sýndu að þó svo að margar stofnanir og félög leggja sig fram við að draga lærdóm af mistökum sem eiga sér stað eru gerðar litlar sem engar raunverulegar breytingar í kjölfarið - sem þeir kalla “single-loop learning”. Þau eru því dæmd til að gera sömu mistökin aftur. Lausnin sem þeir tefla fram felst í því sem þeir kalla “double-loop learning” - þ.e. að mistök eru greind til að komast að því hvað fór úrskeiðis og svo breytingar gerðar á starfsemi eða skipulagi til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Í þessum skilningi er þá “lærdómssamfélag” það samfélag sem lærir af sínum mistökum og breytir háttum sínum í samræmi við það.
 
3. Organisational learning(b): Cook & Yanow. Í mjög áhugaverðri grein Cook & Yanow frá 1993, Culture and organizational learning, lýsa höfundar tveimur ólíkum nálgunum við hugmyndina um “organisational learning”. Fyrst er sú sem þau kalla vitsmunalegu nálgunina sem felur í sér að vissum mannlegum eiginleikum er varpað á stofnanir og félög. Sérstaklega er að stofnanir og félög eru sögð “læra” á svipaðan hátt og einstaklingar gera. Þessi nálgun felur í sér kerfislæga hugsun þar sem litið er á einingar innan stofnunar eða félags sem sambærilegar skynfærum, taugum og öðrum líffærum sem koma við sögu þegar einstaklingar læra. Hver eining hefur sitt hlutverk en mynda saman heild og þekking er sögð tilheyra heildinni en ekki einstökum einingum. Cook & Yanow samþykkja það að hægt sé að segja að stofnanir og félög “læri” en hafna vitsmunalegu skýringunni. Þess í stað færa þau rök fyrir því að lærdómur stofnana og félaga birtist í menningu innan þeirra, t.d. í merkingu, smíðisgripum (e. artifacts), gildum og sameiginlegum athöfnum sem þjóna þeim tilgangi að viðhalda eða breyta ríkjandi menningu. Í þessum skilningi eru einkenni lærdómssamfélags að finna í menningarlegum gildum og viðhorfum sem er viðhaldið innan þess.
 
4. Learning organisation: P. Senge. Bók Senge’s, The Fifth Discipline, vakti mikla athygli þegar hún kom út 1990. Hann náði svo athygli skólafólks þegar hann og fleiri sendu frá sér bókina Schools That Learn árið 2000. Þar eru hugmyndirnar sem settar voru fram í Fifth Discipline sniðnar að stjórnun og rekstri skóla. Af þessum sökum er líklega oftast í dag átt við hugmyndir Senge’s um lærdómssamfélag þegar það er notað í tengslum við skóla.
Lærdómssamfélag Senge’s er nokkurs konar útópísk sýn á stofnunum og félögum sem byggist á því að nálgast þau sem flókin kerfi. Senge notar kerfiskenningu (e. systems theory) til að greina hvernig samfélög almennt virka með tilliti til lærdóms og dregur ákveðnar ályktanir af því um hvernig samfélög ættu að vera. Helstu lykilatriði í hugmynd Senge’s eru, í fyrsta lagi, að lærdómssamfélög laga sig ekki bara að aðstæðum heldur eru skapandi þannig að þau ganga enn lengra og reyna meðvitað að búa til heppilegar aðstæður. Í öðru horfa lærdómssamfélög til áhrifa breytinga yfir lengri tíma. Í þessum skilningi eru einkenni lærdómssamfélags að litið er á lærdóm sem skapandi athöfn einstaklinga sem tekur tillit til kerfisbundinna breytinga yfir lengri tíma.
 
5. Learning economy: B. Å. Lundvall & B. Johnson. Um miðjan 10da áratug síðustu aldar settu Lundvall & Johnson fram hugmynd sína um “lærdómshagkerfið” sem útfærslu á fyrri hugmyndum um lærdómssamfélög. Í hugtaki þeirra felast ekki sérstaklega flóknar vangaveltur um hvort eða hvernig lærdómur fer fram innan samfélaga heldur frekar hvernig lærdómur er metinn innan þeirra. Í lærdómshagkerfinu er lögð mikil áhersla á lærdóm almennt, hvar og hvenær sem hann kann að eiga sér stað, vegna þess að lærdómur, sem ferli, hefur mikið gildi út af fyrir sig. Í þessum skilningi er lærdómssamfélag það samfélag þar sem nám og lærdómur eru mikils metin og ákvarðanataka miðar að því að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður fyrir nám og lærdóm hverju sinni.
 
Það eru til fleiri útgáfur af lærdómssamfélögum en þær sem ég hef listað hér, en þetta sýnishorn gefur vísbendingu um hversu mikil hugmyndafræðileg fjölbreytnin er í þessum geira. Allar þessar hugmyndir hafa sína kosti og galla og hefur verið bent á þær í ýmsum ritum gegnum árin. T.d. skrifaði Robert Flood heila bók um Fifth Discipline Senge’s þar sem hann endurskoðar hugmyndina frá grunni með því að nota mun markvissara kerfiskenningarlegu nálgunina sem Senge byrjaði með.
 
Eins og ég sagði í upphafi er ekki ætlunin hjá mér að leggja til að við veljum sérstaklega úr þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram. Frekar að ef við ætlum að nota þetta hugtak í íslensku samhengi þá þurfum við að ákveða hvernig við viljum skilgreina það þannig að það gagnist okkur, í íslensku skólasamfélagi, sem best. Nú er tími fyrir orðræðu…

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband